þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Mælskudagur

Mamma: Egill Orri! Ertu pilturinn minn?
Egill Orri: Já mamma og þú ert piltan mín.
--- --- --- --- ---
Egill Orri: Mamma! ég verð að fá popp, mér er svo kalt á kinninni að ég er að drepast úr hungri.
--- --- --- --- ---
Egill Orri: mamma þú bara verður að setja Scooby Doo á sænsku, ég skil ekkert í þessari pólsku! (já já eða ensku bara)
---- ---- ---- ---- ----
Já ég er búinn að fara á kostum í mælskunni í dag.

mánudagur, febrúar 27, 2006

Pabbastrákur


Ég sakna pabba míns. Þegar mamma mín kom heim í dag frá því að skila bílaleigubílnum var ég að jafna mig á kasti sem ég hafði tekið yfir því að hafa ekki séð hann svona lengi.
Þegar ég verð 'stór' ætla ég nefnilega í skóla á Íslandi og búa hjá pabba mínum meðan mamma mín fer aðeins til Asíu. Öllu þessu deildi ég með ömmu Gróu í dag. Ég er nú ekkert vitlaus, ég tek eftir því sem sagt er og rætt.
Mamma mín vonar nú samt að ég eigi eftir að sakna hennar líka smá þegar hún verður langt í burtu í Kína. Erum við ekki sæt?

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Reglur eru reglur

Í morgun kom ég inn til mömmu minnar þar sem hún svaf á dýnu á gólfinu í mínu herbergi og vakti hana til að láta hana kveikja á Scooby-Doo fyrir mig. Hún var frekar þreytt en kom samt á fætur. Ég er vanur að gefa henni morgunkoss á hverjum morgni en þegar hún spurði í morgun um morgunknúsið sitt þá sagði ég:
"Mamma! Það er ekkert knús á laugardögum" (þó það væri nú sunnudagur)
Mamma: Nú?! Af hverju ekki?
Egill Orri: Svona eru bara knúsreglurnar!

laugardagur, febrúar 25, 2006

Veggirnir hafa eyru

Ég er nú heldur betur búinn að leggja land undir fót í dag. Með mömmu og ömmu er ég búin að fara alla leið til Höganäs, Helsingborg og Helsingör (hvað eru mörg há í því?). Mér fannst bara alveg soldið gaman í "diskabúðinni" og fékk að mála á glas þar sem ég fékk svo að eiga og er voðalega stoltur af.
---- ---- ---- ---- --- ---- ---- ----
Á leiðinni tilbaka var mamma mín soldið niðursokkin í að tala við ömmu Gróu og tók "smá" útúrdúr á vitlausum vegi. Nema hvað við tókum svona gamlan sveitaveg tilbaka sem var tæplega einbreiður og við lentum að sjálfsögðu á eftir einhverjum gaur sem var á laugardagsrúntinum á 20 km hraða. Eitthvað fór þetta í taugarnar á mömmu minni sem missti þolinmæðina eftir ca. 3 km og hrópaði að gaurnum "þú ert nú meiri sauðurinn". Við komumst loksins út á hraðbraut og héldum áfram leiðinni til Helsingborg. Eftir smástund heyrist svo allt í einu úr aftursætinu "Mamma! Hvar er sauðurinn?"

föstudagur, febrúar 24, 2006

Amma kemur

Hún amma Gróa mín yndislega kemur í heimsókn í dag. Við mamma ætlum að fara með lestinni til Kastrup að sækja hana og ég fæ svo að sýna henni nýja McDonald's á leiðinni heim. Er hægt að láta lífið leika meira við sig, ég bara spyr?
Í gær var ég í náttfataafmælinu hjá Auði vinkonu minni. Það var voðalega skemmtilegt og ég talaði um það alla leiðina frá leikskólanum í afmælið að ég vildi líka hafa svoleiðis þema í mínu afmæli í sumar. Mamma sagði að það væri ekki hægt því við ætluðum að hafa það í bíóinu og fólk gæti ekki komið í náttfötum í bíó.
Ég sá nú enga sérstaka vankanta á því!

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

The birds and the bees

Vinkonur mínar, þær Auður og Vigdís, voru færðar í (næstum því hér um bil) allan sannleikann um það hvernig börnin verða til í leikskólanum um daginn. Kennarinn hafði fyrir mistök tekið þessa bók og lesið hana fyrir krakkana í lestrarstundinni og nú eru þær sumsé eins og veraldarvanar konur ansi fróðar um þessi mál. Þegar þær svo áttuðu sig á því að foreldrar þeirra hefðu væntanlega gert 'þetta' þegar þær urðu til leist þeim nú eiginlega ekkert á það. Fannst þó öruggara að spyrja mömmu sína hvort hún væri til í að 'gera þetta einu sinni enn' til að þær gætu eignast lítið systkini.
Ég veit alveg að Guð setur börnin í magann á mömmunum og er pollsáttur við þá útgáfu hlutanna. Sem er nú aldeilis ágætt í bili finnst mömmu minni.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Innkaupaleiðangur

Í dag fórum við mamma í smá strætóferð niður í bæ að kaupa afmælisgjöf handa henni Auði vinkonu minni. Í strætónum var ég svolítið svona að benda á fólk og segja mömmu hvað ég var að sjá og svona og mamma var að reyna að útskýra fyrir mér að það væri dónaskapur að benda á fólk. Þetta skyldi ég ekki alveg en lofaði samt að hætta. Við Allhelgonakyrkan kom inn maður í nokkur og þurfti hann að standa fremst í vagninum sem var orðinn þéttskipaður. Ég rak út hnefann (sumsé ekki með vísifingur útréttan) og sagði:

"Þessi maður finnst mér nú ekki sérstaklega flottur"
Mamma: Egill Orri! ég var búin að segja þér að það er ljótt að benda
Egill Orri: En ég er ekki að benda
Mamma: Jú það er að benda þó þú notir ekki puttann
Egill Orri: En mér finnst hann ekki flottur þessi maður
Mamma: Af hverju ekki?
Egill Orri: Hann er í grænni peysu, mér finnst ekki græn peysa flott
Mamma: Nú?!
Egill Orri: En mér finnst rauð húfa flott (það þarf vart að taka það fram að ég var sjálfur með rauða húfu)

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

Peysuvesen

Ég er ofsalega lítið fyrir peysur og fæst helst aldrei til að vera í þeim í lengri tíma - EF mamma mín þá yfirhöfuð kemur mér í svoleiðis flík. Í morgun var ég hreint ekki á því að hylja flotta Batman bolinn minn með einhverri "peysudruslu" eins og ég kallaði hana og var engu tauti við mig komið.
Mamma: Egill Orri minn, þú verður að fara í peysu
Egill Orri: En ég vil ekki fara í peysu
Mamma: jú ástin mín, það er svo kalt. Brrrr finnurðu ekki hvað það er kalt?
Egill Orri: Ef þér er svona kalt af hverju ferð þú þá ekki bara í peysu?
Sannast hér hið fornkveðna - peysur eru flíkur sem mæður klæða syni sína í þegar þeim sjálfum er kalt!!

mánudagur, febrúar 20, 2006

Morgunhjal

Ég hugsa voðalega mikið á morgnana og hef mikla þörf fyrir að deila þeim hugsunum með móður minni. Einkum og sér í lagi ef hún er að reyna að sofa - líkt og hún var í morgun. Í dag snérust þessar hugsanir mínar um afmælisboð til hennar Auðar vinkonu minnar, sem mér hafði borist á laugardaginn. Afmælið er á fimmtudaginn kemur og þemað er náttfatapartý. Það eiga semsagt allir að mæta í uppáhaldsnáttfötunum sínum. Þetta fannst mér stórsniðugt og tilkynnti mömmu að hún YRÐI að vera búin að þvo Batman náttfötin mín fyrir fimmtudaginn svo ég gæti örugglega verið ofurhetja. Ég spáði því að Leó yrði í Spiderman náttfötunum sínum - EF hann væri búinn að þvo þau. Þetta er þó, eins og ég orðaði það sjálfur - alls ekki ljóst.

sunnudagur, febrúar 19, 2006

Helgin

Uss uss uss þetta er nú engin frammistaða hjá móður minni, ekkert búin að segja af mér síðan á föstudaginn. Helgin er nú búin að vera með rólegra en skemmtilegu móti. Leó vinur minn var mikið með mér og það þykir mér nú ekki leiðinlegt. Við fórum í kirkjuskólann í gær og fengum svo að fara með mömmu á videoleiguna og velja okkur hvorn sinn diskinn að horfa á og að sjálfsögðu kaupa lördagsgodis.
Annars er ég mjög upptekinn af Latabæ og Íþróttaálfinum og öllu sem honum tengist þessa dagana. Held mömmu við efnið og passa að hún fari inn á orkuátakssíðuna á hverjum degi og hjálpi mér að fylla út orkubókina mína. Ég er þess vegna afar duglegur að drekka vatn og fara snemma að sofa. Vil ekki fyrir nokkra muni missa af 'límmiða'. Lét mömmu lesa upphátt fyrir mig allann textann á síðunni. Almennan fróðleik um kosti holls mataræðis og hreyfingar. Sem var í sjálfu sér auðvitað mjög nytsamlegt fyrir okkur bæði. En einhverra hluta vegna greip ég á lofti textann þar sem fjallað var um teygjur og hef síðan verið duglegur að biðja mömmu mína að kenna mér að gera þær. Annars er búin að vera mjög mikil fyrirferð á mér síðustu viku eða svo. Hamast í sófanum okkar, príla upp á bakið á honum og læt mig detta niður í hann, hleyp eins og vitleysingur um alla stofu og klifra mjög gjarna upp á eldhúsborðið (inni í eldhúsi sumsé) og laumast í skápana í leit að einhverju æti. Ef ég er beðinn að hætta er ég fljótur að benda mömmu á að ég sé að gera æfingarnar mínar!

föstudagur, febrúar 17, 2006

Næturgestur

Leó vinur minn fékk aftur að koma með mér heim eftir leikskóla í dag. Þvílík heppni! Í dag fékk hann meira að segja að gista hjá mér því pabbi hans þarf að fara svo snemma að keppa í fyrramálið. Við vorum ofsalega duglegir að leika okkur, borðuðum pizzu sem mamma bjó til handa okkur, fórum í bað og lékum okkur svo meira. Eitthvað fannst mömmu við vera latir til að komast í ró og fara að sofa og brá á það ráð að lofa verðlaunum þeim sem myndi sofna á undan.
5 mínútum seinna heyrðist innan úr herbergi:
Egill Orri: Mamma, ég sofnaði á undan Leó
Mamma: Nei, þú ert ekki sofnaður
[ smá þögn ]
Egill Orri:

fimmtudagur, febrúar 16, 2006

Áfram 'Unitids'

Í nótt kom ég uppí til mömmu minnar, sem oft áður og í sjálfu sér ekki tíðindi, nema hvað í nótt þegar ég er búinn að koma mér fyrir segi ég
Egill Orri: Mamma! Uniteds eru bestir
Mamma: Já ástin mín, okkur finnst þeir bestir
Egill Orri: Eða sko þegar ég er hjá þér þá finnst mér Uniteds bestir en þegar ég er hjá pabba þá finnst mér Liverpool. Ég elska bæði - Uniteds OG ógeðið!
[smá þögn]
Egill Orri: Góða nótt mamma!

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

að segja fréttir

Áðan fékk ég skemmtilegt símtal frá Íslandi. Þá hringdi amma Gróa mín sem er rétt-bráðum- eftir- bara- örfáa- daga að koma að heimsækja mig. Hjá henni voru staddir Halli og Mummi frændur mínir OG pabbi minn OG Matti bróðir minn að ógleymdum Villa afa mínum. Afi Villi var síðastur til að tala við mig ....
Egill Orri: Afi Villi! Á morgun ætla ég að sækja Leó á leikskólann af því að mamma hans ætlar að vera á London með gömlum kellingum, það er ekkert fyrir litla stráka!
Núna er ég í baði og langar að komast upp úr. Þá kalla ég alltaf -ég er búúúúuuuin- og vil þá láta koma og þurrka mér. Nema hvað í dag heyrist
i mér - ég er búúúúuin kúkalabbi - og við það varð mamma mín nú ekki ánægð og skammaði mig og sagðist ekki vilja heyra svona tal.
Eftir smá umhugsun kom þá - ég er búúúúúúin sæta - þegar mamma, sem var niðursokkinn í bloggið mitt, svaraði ekki strax þá sagði ég 'Nej män snälla sæta'

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Ég ræð

Ég var settur í bað áðan, en ég hafði fengið að sleppa því í gær vegna mikillar og bráðrar magapínu. Mamma var nú á því að þvo á mér hárið en það finnst mér afar afar leiðinlegt og beinlínis stórhættulegt.
'Sko mamma, af því að ég fór ekki í bað í gær þá ætla ég að ráða núna. ÉG ræð mínu eigins hári og ég segi NEI. Það á ekki að þvo hárið núna og framar segi ÉG hvenær það verður þvegið!'
Þar hafiði það ....
Rétt þegar þessi orð eru skrifuð er ég að horfa á Vélmennin inni í mömmu minnar herbergi. Svo kom ég fram og sagði 'Mamma, á ég að segja þér hvernig reglan er? Þú ert að læra og ég er að horfa og ég fæ að klára. Svo fer ég að sofa og ef ég vakna þá kem ég í þitt rúm. Svona er planið ha mamma'
Annars vorum við mamma með morgunkaffiboð á sunnudaginn og fengum fullt af góðum gestum. Auði og Vigdísi og foreldra þeirra, Birtu og Helga og foreldra þeirra og auðvitað góðvin minn hann Leó og foreldra hans. Þegar hún Vigdís var að fara þá fannst henni nú rétt að láta mömmu mína vita að ég hefði verið eitthvað leiðinlegur að deila dótinu mínu með henni. Mamma tók undir að það væri ekki fallegt að leyfa ekki gestunum að leika sér með dótið sitt. Þá sagði Vigdís 'Þú verður bara að ala hann betur upp!'
Já hún Vigdís Skarphéðinsdóttir lætur sko ekki eiga neitt inni hjá sér.

mánudagur, febrúar 13, 2006

hvolpavit?

Áðan vorum við mamma að horfa saman á Vélmennin og mamma sem hafði aldrei séð hana áður ætlaði að fara að spóla yfir það sem hún hélt að væri byrjunin. Þá kallaði ég örvæntingarfullur upp yfir mig 'Nei, ekki spóla, þetta er flottasta atriðið. Þau eru að fara að búa til barn!' Mömmu minni fannst þetta soldið svona ógnvekjandi þangað til hún áttaði sig á því að vélmenni "búa til börn" með því að skrúfa saman haug af stykkjum og skrúfum. Þá var henni nú aðeins létt kellingunni.
:) :) :) :)

laugardagur, febrúar 11, 2006

Skallapopparar


Í dag eyddum við mamma öllum deginum með Leó vini mínum og Katrínu mömmu hans. Fyrst fórum við í Center Syd og fengum að 'krúsa' um mollið í flottum bílum en svo rákumst við á þennan kall [mynd 1] og þessi gaf okkur að borða [mynd 2] síðan var brunað í IKEA þar sem við fengum að fara í boltalandið meðan mömmurnar okkar versluðu.
Þegar við vorum komnir í bílinn þeirra og búnir að spenna beltin þá tók ég af mér húfuna og Leó, sem hafði ekki ennþá séð mig nýklipptan, leit á mig hissa og spurði 'Egill! ertu sköllóttur?'
Við borðuðum svo á 9-unni hjá þeim og eftir matinn fórum við Leó að leika okkur inni í herbergi eins og venjulega. Eftir smástund kem ég fram til mömmu sem var að tala við Reyni frammi í sófa og segi - 'Mamma! er ég ekki fínn?' Jú jú mömmu fannst það og svo fórum við aftur inn. 2 mín seinna kemur Leó fram og spyr pabba sinn 'Pabbi! er ég ekki fínn?' og þá tóku mamma og Reynir eftir því hvað við höfðum gert. Klippt okkur! Ég frekar lítið, enda með lítið til að klippa en Leó sýnu meira af toppnum sínum. Sjálfbjarga menn. [mynd 3]

föstudagur, febrúar 10, 2006

Tjill

Það var svolítið langur dagur hjá mér í dag þar sem mamm þurfti í skólann strax kl. 08. Mér var dröslað á leikskólann á þeim ókristilega tíma 07:45 og var ekkert sérstaklega sáttur en sættist við Jenny þegar hún bauð mér morgunmat. Mér finnst nú yfirleitt alveg ágætt að borða. (I wonder where he get's that from [innsk. mamma]) Mamma kom svo að sækja mig kl. korter í fimm og við fórum heim og ég fékk að horfa á Vélmennin sem er myndin sem pabbi minn sendi mér í vikunni. Það var nú bara svona almennt tjill á mér og ég fékk að velja hvað við fengum í kvöldmatinn. Ég valdi pizzu frá Delphi pizzastaðnum svo við röltum þangað. Eftir matinn fór ég svo í bað og þá hringdi akkúrat Hjörtur afi til að segja mömmu minni að honum fyndist myndin af mér síðan í gær EKKI flott. Hvernig getur hann sagt þetta, nýklipptur og í Manchester búningnum, hvað er hægt að fara fram á meira?

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Nýklipptur


Er ég ekki orðinn hræðilega stór?

Ég var svo þægur í klippingunni áðan að mamma mín var heldur betur fegin að hafa ekki lofað einhverjur meiru og stærra í verðlaun en einni Ninja Turtles spólu. VÁ! og núna er ég svooooo sætur (að mjög svo hlutlausu mati móður minnar).
Annars kom pakki til mín í gær frá henni Unni ömmu. Ég var ofsalega spenntur að sjá hvað var í honum, mér finnst nefnilega frekar gaman að fá pakka. Ég fékk nú margt fallegt. Fyrst ber að sjálfsögðu að telja nýjan Manchester United búning - ofboðslega flottur - og svo fékk ég Nammipúka sem ég er að geyma fram á laugardag og síðast en ekki síst fékk ég bjúgu! Bjúgu er sko uppáhaldsmaturinn minn. Mamma lét sig hafa það að elda þetta handa mér í kvöldmatinn og henni fer nú aðeins fram í að gera hvíta sósu (þurfti ekki að gera uppkast í þetta sinn). Ég hámaði í mig heilt bjúga og vildi meira en mömmu fannst vissara að setja stopp við. Takk fyrir mig Unnur amma og afi Hjörtur!

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Besserwisser

Egill Orri: mamma má ég fara til Leós að leika?
Mamma: sjáum til, fyrst þurfum við að fara í þvottahúsið

Egill Orri: En má ég SVO fara til Leós?
Mamma: ég skal hringja í mömmu hans

Egill Orri [meðan mamma er í símanum að tala við Leó] Má ég fara til hans, ha?! má ég það? ha HA?!
Mamma: Hann er að spyrja mömmu sína

Egill Orri: Af hverju þarf hann að spyrja hana?
Mamma: Af því að mömmur ráða alltaf hvort einhver má koma í heimsókn

Egill Orri: JÁ já, ég veit nú allt um það!

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Ekkert að frétta

Ósköp grár hversdagsleiki hjá mér í dag. Ég var að vísu ofsalega sáttur við að mamma mín hafi í gær þvegið allan óhreinan þvott á heimilinu. Þar á meðal að sjálfsögðu öll ofurhetjufötin mín svo ég var glaður lítill Batman í morgun þegar ég skundaði á leikskólann. Eftir skóla fékk ég svo að fara heim með Birtu vinkonu minni og lék mér þar í kvennafansi en Auður og Vigdís voru líka í pössun þar.
Annars eru þau tíðindi að amma Gróa ætlar að koma að heimsækja okkur í lok mánaðarins. Þá verður nú gaman og saman ætlum við að gera margt skemmtilegt. Svo kemur hún örugglega með pakka handa mér ef ég þekki hana rétt :)
Annars fékk ég nú líka pakka frá pabba mínum í gær. DVD disk og límmiða og bílablað. Ég er ofsalega heppinn lítill strákur finnst ykkur það ekki?

mánudagur, febrúar 06, 2006

Jaaa það er nú það

Egill Orri: 'Mamma, maður kyssir bara stelpur er það ekki?'
Mamma: ???



Þá stórt er spurt.....

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Hvenær drepur maður hund og hvenær drepur maður ekki hund?

Á föstudagskvöldið höfðum við mamma kósíkvöld. Þá slökktum við öll stóru ljósin og kveiktum á kertum og ljósaseríum og svo höfðum við bíó. Mamma mín bjó til poppkorn og við borðuðum það og kúrðum í sófanum og horfðum á 102 Dalmatíuhundar. Fyrst var ég voðalega mikið að spyrja mömmu út í allt mögulegt í myndinni (sem mamma mín hafði aldrei séð áður) sem varð svolítið svona þreytandi til lengdar. Mikið spurði ég t.d. um Grimmhildi Grámann og af hverju hún var fyrst vond og svo aftur góð og svo aftur vond? Af hverju sá hún allt í doppum? og af hverju vildi hún ræna öllum hundunum? Af hverju vildi hún búa til kápu úr þeim? og svo framvegis. Þegar ég var búinn að spyrja að þessu öllu oftar en góðu hófi gegnir sagði mamma mér að ég yrði bara að horfa á myndina, þá myndi ég komast að þessu. Þá kom að atriðinu þar sem hún byrjar að ræna hundunum og þá fannst mér öruggast að spyrja enn einu sinni af hverju hún vildi ræna þeim. Þegar mamma svaraði í 5 sinn að hún vildi búa til úr þeim kápu þá spurði ég 'og eru þeir þá hræddir?' 'Hvað áttu við ástin mín?' sagði mamma með meiri þolinmæði en hún átti raunverulega til á þeim tímapunkti. 'Þegar þeir eru orðnir kápa!' útskýrði ég.
......... mamma mín ákvað að ég væri ekki orðinn nógu gamall til að fá sönnu útgáfuna af svarinu við þessari spurningu.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Ofurhetjuæði

Ég er með æði fyrir ofurhetjum. Nánar tiltekið þeim Batman, Superman og Spiderman og hef verið mjög duglegur að hvetja til kaupa á fatnaði merktum þessum mektarmönnum. Það vildi líka svo heppilega til að ég fékk íþróttagalla (bol og buxur) merktan Spiderman frá ömmu Unni þegar ég kom heim um jólin og hefur þetta 'átfitt' verið frekar vel nýtt hlutfallslega á við aðrar flíkur í fataskápnum. Í gær var að vísu svo komið að buxurnar voru skítugar en bolurinn var (nokkurn veginn) frambærilegur. En þegar mamma ætlaði að setja mig í bolinn við venjulegar buxur stoppaði ég hana nú af og benti henni á að 'Mamma! ég get ekki farið í ofurhetjubol án þess að fara í ofurhetjubuxur'. Mamma mín nuddaði því blettina úr buxunum og ég fékk að fara í hvoru tveggja í leikskólann. Í morgun var mér gróflega misboðið þegar ég var settur í ótrúlega leiðinleg föt (smekkbuxur og bol) og tilkynnti með grátstafinn í kverkunum að 'nú gæti ég ekkert farið í ofurhetjuleik í aaaaaaaaallan dag'

fimmtudagur, febrúar 02, 2006

Ég á kærustu

Hún heitir Birta Hlíðkvist Óskarsdóttir og er fyrir utan að vera 'fín og flott og sæt og dásamleg' líka 'jättegullig' sagði ég mömmu minni í dag. Í dag fékk ég loksins að fara heim til hennar að leika og við lékum okkur með playmo-ið hennar. Hún fékk sko alveg eins playmo og ég í jólagjöf. Við erum greinilega ætluð hvort öðru.
----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- -----
Í nótt skreið ég upp í til mömmu minnar eins og vanalega. Ég tek aldrei með mér sængina mína en ræni mömmu minnar við fyrsta tækifæri sem ég fæ.... og koddanum líka! Í nótt lét mamma hana ekki svo glatt af hendi, enda er henni alltaf svo kalt, og ég lá þarna sængurlaus og líkaði illa. Á endanum pikkaði ég í mömmu mína og sagði 'Nú er nóg komið, ég bara verð að fá sæng'

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

(ástar)Sorg

Mikið óskaplega var ég sorgmæddur í dag. Málið var það að ég hafði fengið leyfi frá móður minni til að bjóða Birtu vinkonu minni í heimsókn eftir leikskóla. Þegar ég var svo sóttur fór ég niðrí þrjú-u að spyrja eftir Birtu sem þá vildi ekki koma í heimsókn. Ég kom heim grátandi - HÁGRÁTANDI - svo ekki sé meira sagt. Mamma mín reyndi að útskýra að hún gæti ekki stjórnað því hvort Birta kæmi í heimsókn, hún réði því sjálf en ég var ekki sáttur við þá skýringu. Stóð á stól úti í glugga og horfði niður í þrjú-u með heitri þrá 'En mamma, ég VIL fá Birtu í heimsókn, hún er svo fín og flott og svo er hún líka svo sæt og dásamleg'. Mamma mín fann nú soldið til með mér. Á endanum jafnaði ég mig þó og sit núna berassaður í sófanum og syng af mikilli innlifun James Blunt 'jor bjútefúl, jor bútefúl' og bíð eftir því að komast í bað.