Ég var settur í bað áðan, en ég hafði fengið að sleppa því í gær vegna mikillar og bráðrar magapínu. Mamma var nú á því að þvo á mér hárið en það finnst mér afar afar leiðinlegt og beinlínis stórhættulegt.
'Sko mamma, af því að ég fór ekki í bað í gær þá ætla ég að ráða núna. ÉG ræð mínu eigins hári og ég segi NEI. Það á ekki að þvo hárið núna og framar segi ÉG hvenær það verður þvegið!'
Þar hafiði það ....
Rétt þegar þessi orð eru skrifuð er ég að horfa á Vélmennin inni í mömmu minnar herbergi. Svo kom ég fram og sagði 'Mamma, á ég að segja þér hvernig reglan er? Þú ert að læra og ég er að horfa og ég fæ að klára. Svo fer ég að sofa og ef ég vakna þá kem ég í þitt rúm. Svona er planið ha mamma'
Annars vorum við mamma með morgunkaffiboð á sunnudaginn og fengum fullt af góðum gestum. Auði og Vigdísi og foreldra þeirra, Birtu og Helga og foreldra þeirra og auðvitað góðvin minn hann Leó og foreldra hans. Þegar hún Vigdís var að fara þá fannst henni nú rétt að láta mömmu mína vita að ég hefði verið eitthvað leiðinlegur að deila dótinu mínu með henni. Mamma tók undir að það væri ekki fallegt að leyfa ekki gestunum að leika sér með dótið sitt. Þá sagði Vigdís 'Þú verður bara að ala hann betur upp!'
Já hún Vigdís Skarphéðinsdóttir lætur sko ekki eiga neitt inni hjá sér.