þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sól og sumar

Sumarið er komið á Bifröst. Það er allavegna hægt að segja það með sæmilega góðri samvisku. Ég er búinn að vera ofboðslega duglegur að leika mér úti, bæði einn og með Jóhönnu Katrínu vinkonu minni. Í dag ætlar svo Fannar Óli vinur minn að koma með mér heim eftir leikskóla að leika meira.

Annars eru bara nokkrir dagar eftir þar til ég og mamma flytjum af Bifröst. Það verður nú soldið skrítið, ég er búinn að búa hérna síðan ég man eftir mér og hef aldrei búið í 'stórborginni' Reykjavík. En það verður samt örugglega gaman. Þá verð ég nær pabba og Matta bróður og get hitt þá mun oftar sem er mjög gott. Ég er nú einu sinni að flytja af landi brott eftir nokkra mánuði.

Í gær fór ég með mömmu í leikfimi (ég hef tekið upp á því að vera samviska hennar í þessum málum og hvet hana óspart til að mæta - sem er gott) ég fékk að fara í Manchester United búningnum mínum og nýju Adidas three stripe skónum mínum. Í búningsklefanum byrjuðum við mamma að tala um hverjir væru bestir og vorum að sjálfsögðu sammála um að það væri Man. Utd. Þá sagði ég "Mamma! það eru bara kjánar sem halda með Liverpool, þeir eru bara bjakk" Mamma mín samþykkti það og ég hélt áfram "hverja þekkjum við eiginlega fleiri kjána en pabba sem heldur með Liverpool? Ég verð bara að hringja í hann og segja SKAMM pabbi, Liverpool er ullabjakk" Segið svo að uppeldið sé ekki að skila sér hjá henni móður minni.
Þegar ég kom svo niður í lyftingasalinn þá var Siggi Ragg sem vinnur með mömmu minni þar og hann fór að spyrja mig hverjir væru bestir "Nætids" sagði ég stoltur og benti á bolinn minn. Þá spurði hann mig hver væri bestur í liðinu, þetta þarfnaðist töluverðrar umhugsunar af minni hálfu en svo kom svarið "Pabbi minn"
Samtal sem átti sér stað síðdegis
Egill Orri: Mamma má ég fara með Gísla Má í sund?
Mamma: Nei ekki núna, ég skal fara með þig í sund á eftir.
Egill Orri: En mamma ég vil fara með Gísla Má.
Mamma: Af hverju þarftu að fara með honum?
Egill Orri: Hann er aðalmaðurinn!

laugardagur, apríl 23, 2005

Long time no see

Voðalega hefur hún mamma mín verið eitthvað löt að skrifa upp á síðkastið. Svo mikið að gera hjá henni greinilega. Það hefur nú ýmislegt á daga mína drifið síðan síðast skal ég segja ykkur. Helgina 15-17 apríl var ég hjá pabba mínum sem var rosalega gaman eins og venjulega. Matti bróðir var samt með hlaupabóluna svo að það setti smá strik í reikninginn en við létum það ekki á okkur fá. Ég lofaði líka mömmu minni að ég yrði mjög góður við hann sem ég var.

Á mánudaginn (18. apríl) fékk ég að bjóða Guðrúnu Elfu vinkonu minni með mér í sund í Borgarnesi með mér og mömmu. Það var yndislegt veður og við fórum í útilaugina og í rennibrautirnar. Þegar kominn var tími til að fara upp úr þá vildi ég nú ekki fara svo mamma mín 'hótaði' að fara upp úr á undan mér þá kom þessi setning 'ertu snarbrjáluð kona'?

Á miðvikudaginn var svo listasýning á leikskólanum mínum og mér þótti nú heldur en ekki gaman að pabba minn lagði leið sína á Bifröst þennan dag til að koma og sjá hvað ég hafði verið að föndra og lita á leikskólanum. Hann vakti nú eiginlega frekar mikla athygli meðal vina minna sem sögðu hver á fætur öðrum 'Egill, ég hef ALDREI séð pabba þinn'. (mamma mín er nú ekki alveg viss um að honum hafi liðið vel með alla þessa athygli). Ég sýndi pabba allar myndirnar mínar og svo fékk ég að fara með honum til Reykjavíkur því mamma mín þurfti að vinna á sumardaginn fyrsta. Á leiðinni í bæinn komum við að vegaframkvæmdum sem eru í gangi frá Munaðarnesi og niður að Baulu. Pabbi ætlaði að útskýra á einfaldan hátt hvað væri í gangi og sagði mér að þarna væri búið að taka veginn í sundur. Mér fannst hann nú ekki alveg vera með á nótunum og útskýrði fyrir honum hið rétta í málinu 'Pabbi! það er ekkert búið að taka hann í sundur, þetta er bara bráðabirgðavegur'. Það varð að vísu ekki mikið úr dvölinni hjá pabba mínum þar sem hann fékk flensuna en ég fékk að lúlla hjá ömmu Gróu og fannst það nú örugglega ekki mjög leiðinlegt. Fékk að fara út að labba með afa Villa og svo fór ég að sjá kókbílinn og hoppukastala og sitthvað fleira í Hraunbænum. Að kvöldi dagsins skutlaði pabbi mér svo upp á Kjalarnes þar sem afi Hjörtur og amma Unnur voru og tóku við mér. Á leiðinni í Borgarnes með þeim fékk ég svo að tala við mömmuna mína sem var hálfslöpp heima (meira heilsuleysið á þessum foreldrum mínum). Ég fór aðeins yfir stöðuna fyrir mömmu mína og endaði svo á að segja 'mundu svo að fara ekki út mamma mín' mamma var ekki alveg viss af hverju hún átti að muna það og spurði mig því af hverju ekki 'ertu ekki lasinn?' var svarið.
Nú er komin helgi og ég er með þá svæsnustu streptókokkasýkingu sem mamma mín hefur séð, það er beinlínis eins og eitthvað sé að vaxa út úr hálsinum á mér, svo bólgnir eru eitlarnir mínir. Ég fór í Læknalindina með mömmu þar sem mjög svo fúll læknir tók á móti mér og skrifaði upp á sýklalyf fyrir mig. Nú ligg ég rotaður inni í rúmi eftir að hafa tekið fyrsta skammtinn, ekki þó án þess að segja fyrst við mömmu mína 'mamma, ég elska þig svo mikið að mig verkjar í hjartanu mínu'.

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Sund

Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara í sund. Gæti gert það daglega ef mamma mín myndi leyfa mér það. Í dag var því sérlega gaman að fá þær fréttir þegar mamma kom að sækja mig að við værum að fara alla leið í Borgarnes í sund. Þvílík gleði. Fyrst fóru mamma og Maj-Britt samt í ræktina smástund svo ég fór með ömmu á Shell og svo í Bónus þar sem ég stal (venju fremur) einum pakka af Púkum. Kom með þá til ömmu sem tók heldur betur eftir því að ég var með eitthvað í vasanum, þrátt fyrir að ég þverneitaði fyrir það. Þegar ég var svo spurður að því af hverju ég væri að stela og að það mætti ekki þá sagði ég bláeygður "en amma! ég hélt þú myndir segja nei" fullkomlega eðlileg skýring ekki satt :) Annars má auðvitað ekki vera að brosa að þessu, það er háalvarlegt mál að ég sé að stela þegar ég fer í búðir. Mamma mín er svosem búin að reyna að útskýra fyrir mér alvarleika þess að gera svona en ég þykist ekkert skilja í þessu. Enda þegar mamma fékk að heyra af þessu uppátæki mínu í dag þá sagði ég með fallegasta brosinu mínu "en mamma ég bara vissi þetta ekki" og lofaði að svo búnu að ég myndi aldrei gera þetta aftur. Hmmm mamma mín leggur því miður ekki mikinn trúnað í þau orð mín.

En hvað um það, ég var alveg hreint óskaplega úrillur á leiðinni heim, vældi og volaði þar til ég sofnaði loksins um það bil við Bauluna en varð svo brjálaður þegar mamma vakti mig heima á Bifröst. Ég fékk grillaðar pulsur í kvöldmatinn (sem ég vældi mig í gegnum líka) fylgdist hálfpartinn með Strákunum á Stöð2. "þessir strákar eru bara strákar sem eru að vinna með pabba mínum á Stöð2" lýsti ég yfir og bætti svo við "en þeir eru nú hálfgerðir óþekktarpjakkar". Ég veit nú ýmislegt.

Nú er ég steinsofnaður inni í rúmi, rumska samt reglulega og tala upp úr svefni. Obboðslegt vesen á mér núna :)

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Læknisheimsókn

Jæja snemma beygist krókurinn. Í dag þurfti ég að fara til læknis vegna þess að ég var með svo ofsalega ljótan hósta í alla nótt. Mamma pantaði tíma fyrir mig og ég stóð á því fastar en fótunum að þetta ætti að vera stelpulæknir. Enga miðaldra kalla fyrir mig takk fyrir.
Við fengum tíma hjá henni Lindu í Borgarnesi og hún var rosalega góð við mig. Ég fékk að hlusta á hjartsláttinn minn með hlustunartækinu hennar og fannst það nú svolítið sniðugt. Ég linnti heldur ekki látunum fyrr en ég fékk að mæla í mér blóðþrýstingin sem hún sagði að væri rosalega fínn hjá mér. Ég var nú nokkuð stoltu af því. En niðurstaða skoðunarinnar var ekki alveg jafn ánægjuleg þar sem ég var greindur með astma og mamma mín þarf að gefa mér púst tvisvar á dag hér eftir. Vonandi samt að þetta lagist með aldrinum. Ég virtist að vísu ekki taka þetta neitt sérstaklega nærri mér enda hef ég ekki ennþá séð apparatið sem mamma mín fékk í apótekinu til að gefa mér meðalið. Það verður spennandi að sjá hvaða viðbrögð það vekur.
Núna er ég í Hamravík 2 hjá ömmu og afa sem eru komin heim frá London og gáfu mér að sjálfsögðu pakka (ég hélt því að vísu fram að það hefði verið eina erindi þeirra til London yfirhöfuð, að kaupa handa mér pakka). Í honum var legobíll og skemmtileg bók um eigingjarnan krókódíl. Í kvöld ætlar afi Hjörtur svo að passa mig á meðan að mamma mín skreppur í saumaklúbb.
'Ég elska mömmu af öllu hjarta' er án efa setning dagsins. Er ég ekki yndislegur?

sunnudagur, apríl 10, 2005

Reykjavíkurhelgi

Jæja nú er sunnudagskvöld kl 8 og ég er steinsofnaður inni í rúmi heima hjá Unni ömmu minni í Hamravík. Ég er nú búinn að gera heilmargt um helgina. Fór til Reykjavíkur og allt.

Dauðinn er mér mjög hugleikinn þessa dagana og tengist það án efa þeirri staðreynd að hann langafi minn dó nýlega. Í dag fórum við mamma mín á kaffihús með henni Ásdísi og þar sagði ég hátt og snjallt "hvað þýðir Guð?" við þessu átti móðir mín ekki mikil svör en sagði engu að síður að það væri erfitt að segja því það þýddi svo mismunandi í huga mismunandi fólks. "En hvenær deyjum við?" kom þá. ÚFF hvernig átti mamma nú að svara þessu án þess að ljúga of miklu. "Ekki í langan tíma ástin mín" var svarið. Sem betur fer gerði ég mig ánægðan með það þar sem fólkið á kaffihúsinu var farið að fylgjast með af athygli eflaust spennt að heyra hvernig móðir mín myndi svara drengnum sínum.

Við fórum í Mjóddina í dag til að fara í bíóið sem pabbi minn er að fara að vinna í. Ég fékk að velja myndina og valdi að fara aftur á Bangsímon og Fríllinn. Ég var mjög þægur í bíóinu og fékk popp og trópí. Þegar við vorum að labba út í bíl þurfti ég að kúka og þá kom mjög athyglisverð spurning "Mamma! af hverju kúkaði ég bara upp á bak þegar ég var lítill?" Já þetta er sannarlega góð spurning sem móðir mín svaraði á þá leið að ég hefði ekki kunnað annað því ég hefði verið of lítill til að kunna að nota klósett, ég hefði bara getað dottið ofan í það. "Og sturtast út í sjó?" spurði ég þá. "" svaraði mamma og bætti við að þá hefði hún nú orðið leið. Mér fannst þessi umræða augljóslega ekki tæmd og spurði af hverju ég hefði orðið leið. Mamma svaraði því að hún hefði orðið svo leið vegna þess að hún elskaði mig meira en nokkuð annað og að þá hefði hún ekki átt neinn lítinn strák. "" sagði ég hugsi, "þá hefðirðu bara átt eina Ásdísi og eina Maj-Britt!" svo lét ég lokið þessari annars áhugaverðu umræðu.

Aðrir gullmolar sem féllu um helgina
Egill Orri: Mamma af hverju er þessi kona svona leið?
Mamma: Hvaða kona?
Egill Orri: Sem er að syngja þetta lag [innskot; sem var í útvarpinu]
Mamma: Ég veit það ekki ástin mín
Egill Orri: Á hún engan kall?
Mamma: Ég veit það ekki ástin mín, það er nú kannski ekki heldur ástæða til að vera leið
Egill Orri: Datt hann kannski ofan í kjallarann?

Mamma: Egill Orri! Ertu svangur?
Egill Orri: Nei nei, ég er Spider-Man

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Gullmolar

Mamma mín reynir að öllu jöfnu að skrifa hjá sér þegar mér ratast eitthvað á munn sem tæplega 4 ára börn segja kannski ekki endilega. Það er samt af frekar miklu að taka og ekki allt sem kemst fyrir í slæmu minni minnar elskulegu móður. Eftirfarandi átti sér þó stað á leiðinni í leikskólann í morgun.

Egill Orri: Mamma! hvaða lykt er þetta?
Mamma: Þetta er svona þrifalykt, það er verið að þrífa hérna
Egill Orri: Hver er að þrífa?
Mamma: Kannski Margrét eða Ebba
Egill Orri: Já það er aldrei að vita!

Annars er ég ótrúlega flinkur að fá móður mína til að gera hluti sem hún eiginlega nennir ekki. Til dæmis í morgun þegar ég vildi að hún myndi lesa fyrir mig. Hún sagðist nú ekki hafa tíma til þess því við værum að verða sein í leikskólann. Þá hallaði ég undir flatt, horfði á hana bænaraugum og sagði 'Mamma, geeeeeerðu það, bara ennnnnnu sinni'. Hún mamma mín stenst eiginlega aldrei þennan svip eða þessa setningu.....

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Snjór snjór snjór

Það er allt hvítt hérna á Bifröst í dag. Eiginlega meira en það, það er bara allt á kafi í snjó móður minni til mikillar gremju.
Annars er allt gott að frétta. Ég fór til pabba míns um helgina og skemmti mér konunglega eins og venjulega. Hitti Martein bróður minn og við fórum í sund og gerðum ýmislegt annað skemmtilegt. Í gær var ég svo bara á leikskólanum og lék mér við vini mína. Aumingja Fannar Óli vinur minn sem lofað hafði verið að mætti koma heim að leika við mig var orðin veikur svo ekkert varð af því. Ég fékk að fara með mömmu í ræktina í staðinn, stóð mig gríðarlega vel í lyftingunum og greinilegt að ég verð kraftakarl. Svo fórum við mamma í sund á eftir. Rosalega næs og kósí eins og ég segi svo oft.
Annars átti ég frekar fyndið komment við matarborðið í gær. Mamma mín var að ganga frá eftir matinn og var meðal annars að reyna að koma plastloki á litla skál með salati í. Eitthvað gekk það illa og á endanum gafst hún upp og setti skálina bara í plastpoka. Mér var nú nokkuð misboðið við þetta vesen og hvessti mig við skálina og sagði "þetta gengur ekki skál, þetta bara gengur alls ekki" mamma og Maj-Britt hlógu ferlega mikið að mér.
Í morgun örkuðum við svo í gegnum snjó og byl hérna á Bifröst úti í skóla áður en við fórum í leikskólann. Ég suðaði út djús og kex uppi á kaffistofu áður en lengra var haldið. Eftir eitt djúsglas vildi ég annað og mamma mín sagði að það væri útrætt mál að ég fengi ekki nema þetta eina þá andvarpaði ég "skrýtin þessi kona". Það er skemmst frá því að segja að ég fékk annað djúsglas.