fimmtudagur, mars 31, 2005

Ammmæli

Í dag var góður dagur. Eftir leikskóla fékk ég að fara í afmæli hjá Gísla Má vini mínum sem er með mér á Álfakoti og það var rosalega gaman. Ég fékk sleikjó og nammiköku og sagði stoltur frá því heima hjá mömmu.
Annars er ég aftur farinn að ljá máls á því að vilja fara til Svíþjóðar, aðallega kemur það til af því að mamma mín prentaði út mynd af "nýja" leikskólanum mínum sem heitir Sagostunden og mér finnst voðalega spennandi að skoða hana. Svo sagði mamma mér líka að þegar ég flyt til Svíþjóðar þá verði nú ekkert mál að fara að heimsækja litla frænda í Danmörku, við förum bara beint upp í lest og beint til litla frænda. Mjög merkilegt.
Um helgina fer ég til pabba labba míns sem verður svakalega gaman og þá hitti ég líka hann Martein bróður minn. Ég ber honum að vísu ekki mjög vel söguna þessa dagana. Hann er eitthvað voðalega óþekkur að mér finnst, bítur og slær og rífur allt dótið mitt. Mamma mín leggur ekki endilega eins mikinn trúnað á þessar sögur og ég myndi vilja en ég held fast við mitt. Til dæmis er ég ófáanlegur til að vilja taka myndina af leikskólanum með til pabba því þá á Matti eftir að rífa hana og ég vil heldur ekki taka með nýju bókina mína því Matti á eftir að rífa hana. Alveg sama hvað mamma segir mér að pabbi muni ekki leyfa honum það þá trúi ég því nú ekki neitt. Smá systkinarígur er nú fullkomlega eðlilegur.
En í dag gerðist líka soldið sorglegt þegar hann Guðmundur langafi minn dó. Ég hafði ekki hitt hann mjög oft en hann var mjög góður kall. Núna er hann samt hjá Guði og þar líður honum vel. Blessuð sé minning Guðmundar afa míns.

þriðjudagur, mars 29, 2005

Leikdagur

Aumingja ég að eiga svona veika og pirraða mömmu. Það verður nú að segjast ég hef aðeins fengið að kenna á pirringi móður minnar í dag. Ég var nú samt bara ósköp góður. Fór nokkurn veginn þegjandi og hljóðalaust í leikskólann með loforði um að Jóhanna Katrín vinkona mín fengi að koma í heimsókn að honum loknum. Við það var staðið og við skötuhjúin fengum að leika okkur saman heima hjá mér frá því kl. 5. Við erum ótrúlega góð saman og mamma bara vissi ekki af okkur inni í herbergi mestallann tímann. Herbergið var að vísu í rúst eftir á en við hjálpuðum til við að taka til. Ég tók smá dramakast þegar ég áttaði mig á því að ég fengi EKKI að fylgja Jóhönnu Katrínu heim (hver segir svo að riddaramennskan sé dauð?) en út úr því fékk ég loforð um enn einn leikdaginn á morgun, ekki slæmt það.
Núna er ég að hjúfra mig upp að mömmu minni, kyssa hana og knúsa og farinn að biðja um að fá að fara inn að lúlla. Æii ég er nú alveg einstakur drengur.
Gullmoli dagsins "mamma ég ætla að banka aleinn hjá Jóhönnu Katrínu, viltu standa þarna bakvið þæg og góð á meðan? Viltu gera það fyrir mig mamma mín... ha?"

mánudagur, mars 28, 2005

Daglegt amstur

Í dag er ég nú búinn að gera ýmislegt. Ég vaknaði í Hamravíkinni hjá afa og ömmu fyrir allar aldir. Mamma mín var afskaplega syfjuð og leyfði mér þess vegna að fara fram og horfa aðeins á Tomma og Jenna en kom svo fljótlega á fætur. Við drifum okkur út að þrífa bílinn okkar og ég fékk að hjálpa, ótrúlega duglegur. Við náðum rúmlega að þrífa bílinn og bóna hann áður en fór að rigna svo við flúðum inn og lásum nokkrar bækur.
Seinni partinn fórum við svo heim á Bifröst og þar fór ég með mömmu minni í ræktina og var mikill íþróttagarpur. Hermdi eftir henni allar æfingar sem hún gerði og tók hrikalega á. Mömmu minni fannst ég nú soldið fyndinn.

Svo fékk ég að fara til hennar Jóhönnu Katrínar vinkonu minnar að leika mér heillengi. Við vorum alveg eins og englar svo ég fékk að vera lengur jafnvel þó að mamma kæmi að sækja mig. Neitaði að fara fyrr en loforð fékkst fyrir því að Jóhanna Katrín fengi að koma heim til mín á morgun.

Þegar þetta er skrifað er ég hundfúll inni í rúmi og er búin að reyna öll brögðin í bókinni til að sleppa við að fara að sofa. Stundum er svo erfitt að vera lítill

sunnudagur, mars 27, 2005

Fyrsta bloggið mitt

Í dag er páskadagur og ég er sofnaður inni í rúmi hjá ömmu og afa í Hamravík. Þetta eru nú ekki búnir að vera neitt sérstaklega viðburðarríkir páskar en ég er búinn að hafa það ósköp gott. Ég fór til pabba míns á Skírdag og Föstudaginn langa og skemmti mér konunglega. Ég fór með pabba í sund og í Húsdýragarðinn þar sem ég söng fyrir viðstadda af öllum lífs og sálarkröftum á sviðinu í veitingatjaldinu. Pabbi var nú að hugsa um að láta mig bara vinna fyrir máltíðinni :)

Annars er ég síðan bara búin að vera í Borgarnesi hjá afa og ömmu með henni mömmu minni, fara í sund, í gönguferðir og í bústað til Kidda og Svanfríðar upp í Þverárhlíð. Mér hefur nú ekki leiðst mikið. Pabbi minn gaf mér páskaegg af stærstu gerð og ég var nú ósköp góður að gefa með mér af egginu en nammið inni í því át ég sjálfur. Málshátturinn sem ég fékk hljóðaði svo "Allir hafa eitt sinn verið börn"