þriðjudagur, janúar 29, 2008

Bloggleti

Voðalega er mamma mín búin að vera döpur að halda úti þessari síðu upp á síðkastið. Ekki er það vegna þess að ég hafi ekki haft nóg fyrir stafni - meira bara það að mamma er löt. Eins og fyrirsögnin segir til um.

En við bræðurnir erum búnir að finna okkur upp vafasaman leik sem heitir því skemmtilega nafni 'að sparka í pung'. Mamma var nú ekki sérlega upprifin yfir þessum leik og þótti öruggast að reyna að fá okkur ofan af þessu.

Mamma: "Strákar þessi leikur er ekki sniðugur, maður getur meitt sig mikið'
Egill Orri: "Hvað getur gerst?"
Mamma: "Pungurinn getur bara sprungið og það er mjög vont" (aðeins einfaldað orðalag fyrir okkur bræður)
Egill Orri: "Og hvað gerist þá?"
Mamma: "Þá þarf að fara til læknis og jafnvel leggjast inn á spítala"
Egill Orri: .... löng umhugsunarþögn "En rassinn? Getur hann sprungið?"
Mamma: "Nei nei"
Egill Orri: "MATTI!! förum í 'sparka í rass' "

mánudagur, janúar 07, 2008

"Simmep"

Á laugardaginn var ég með mömmu minni í Hagkaup (-kaupum?) í Skeifunni. Þetta var akkúrat um hádegisbilið og því fékkst samþykki mömmu fyrir pylsu eftir innkaupin. Pabbi fór svo með mig á Bæjarins Bestu þarna inni í búðinni og verslaði pylsurnar.
Pabbi: Egill, viltu sinnep á pylsuna þína?
Egill Orri: Já
Pabbi rétti mér pylsuna ....
Egill Orri: "ERTU KLIKKAÐUR, ég vil ekkert svona" sagði ég og benti á sinnepið
Pabbi: Þú VARST að segja að þú vildir sinnep
Egill Orri: (alveg jafn hneykslaður) "Ég er bara sex ára!! - ég VEIT EKKERT hvað þetta heitir. Ég meinti HINA sósuna (remúlaði)"
- já mér var svo sannarlega gróflega misboðið við þessa tilraun til að pína í mig sinnepi -

föstudagur, janúar 04, 2008

Gleðilegt ár

Á þessu ári verð ég 7 ára! Þetta finnst mömmu minni í senn mjög skrítið og pínkulítið ógnvekjandi. Henni finnst ég nefnilega bara alltaf vera litli strákurinn hennar, þetta þrátt fyrir að hún geti með herkjum loftað mér og hafi litla sem enga stjórn á mér. (að henni finnst).
En ég óska öllum sem þetta lesa gæfu og hamingju á nýja árinu. Ég held þetta verði mjög skemmtilegt ár. :)