föstudagur, ágúst 31, 2007

Góðgerðarstarfsemi

Um daginn var mamma oftar sem áður að reyna að troða mér í þá illræmdu flík "skyrtubol". Ég tók þetta venju fremur ekki í mál og harðneitaði.
Mamma: Egill Orri veistu það að það eru til fullt af börnum sem EIGA ENGIN FÖT til að fara í
Egill Orri: (sallarólegur) Jæja já viltu þá ekki bara senda þennan skyrtubol til Afríku!
********************
Eins og öll börn góðra Glitnisstarfsmanna tók ég að sjálfsögðu þátt í Latabæjarmaraþoninu. Þrátt fyrir ráðleggingar um annað tók ég að sjálfsögðu þvílíkan sprett í byrjun og var hálfsprungin þegar ég var komin hálfa leið. Pabbi hvatti mig samt til dáða og hljóp með mér restina. Hlaupið var til góðs og í þetta sinn runnu öll þátttökugjöldin til UNICEF á Íslandi og gagnast þannig bágstöddum börnum. Fyrir þátttökuna fékk ég svo flottan verðlaunapening
Þegar hlaupið var búið átti eftirfarandi samtal sér stað:
Egill Orri: Mamma! hvað þýðir eiginlega börn hlaupa fyrir börn? (sem var slagorð hlaupsins)
Mamma: Það þýðir að peningarnir sem söfnuðust í hlaupinu verða notaðir til að hjálpa börnum sem eiga bágt og eru fátæk og eiga kannski enga mömmu né pabba til að hugsa um þau.
Egill Orri: Já þess vegna þurfa þau að fá svona verðlaunapening til að geta keypt sér mömmu eða pabba.

fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Litli geðvonskupúkinn

Stundum er ég alveg hreint með ólíkindum skapvondur. Eins og t.d. í morgun, ætlaði aldrei að komast á fætur enda hafði amma Gróa verið að passa mig í gær til að mamma kæmist í ræktina og þegar hún kom heim aftur kl. 21:30 þá var ég ENNÞÁ vakandi og var ekkert á því að sofna. Jafnvel ekki einu sinni þó ég fengi að lúlla í mömmu & pabba rúmi (pabbi var í Borgó hjá ömmu og afa út af stóra leyndarmálinu).
En það er reyndar þannig að ég er mjög fyndinn þegar ég er svona úrillur, þá getur mamma eiginlega ekki nema hlegið að vitleysunni og röksemdarleysunni í mér.
"Mamma, ég er svo þreyttur af því þú lést mig svo snemma að sofa"

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Skólastrákur


Mamma mín á bágt með að trúa þessu en ég er barasta byrjaður í skóla. Skólinn minn heitir Ártúnsskóli og er alveg rosalega flottur. Bekkurinn minn heitir 1. KG vegna þess að kennarinn minn heitir Kristín Gunnarsdóttir og okkur mömmu & pabba líst ofsalega vel á hana. Leó Ernir besti vinur er með mér í bekk og við fengum að sitja á sömu "eyju".

Í skólanum mínum eru skólapeysur og ég fékk auðvitað svoleiðis. Fékk reyndar skóla"skyrtubol" líka og ótrúlegt en satt þá hef ég bara alveg verið til í að fara í hann. Magnað!

Nú svo fékk ég að sjálfsögðu nýja skólatösku og allt svoleiðis. Hérna er mynd af mér á leiðinni í skólann fyrsta skóladaginn. Spenningurinn festist víst ekki á filmu!




miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Slysó á Húsó

Jæja þá erum við komin úr hringferðinni sem gekk mjög vel. Auðvitað ekki stórslysalaust þar sem ég ákvað að spreyta mig á kassabílferð sem endaði undir kyrrstæðum bíl með þeim afleiðingum að járnplata sem neðan úr honum stóð skar heljarinnar skurð á lærið á mér. Mamma mín fríkaði svolítið út við þetta enda sárið afspyrnuljótt (we're talking tissue and veins people) en sjálfur tók ég þessu nú bara ósköp rólega. Það var brunað í snarhasti úr Mývatnsveitinni á Húsavík þar sem saumuð voru 6 spor við lítinn fögnuð minn. Eða það er ekki sanngjarnt að segja það, ég stóð mig mjög vel nema rétt á meðan verið var að deyfa mig og mamma mín skyldi það bara vel, hún hefði sjálf haft eitthvað um það að segja að vera stungin í galopið hold með stórri sprautu.
En þar sem við keyrðum í gegnum Húsavíkurbæ tók ég eftir Glitnismerki í einum glugga í bænum (sumsé í Glitnisútibúinu) og þá varð mér að orði "VÁ! mamma, sjáðu! Minnsti Glitnir í heimi"