laugardagur, september 29, 2007

Stelpuafmæli

Í dag var mér boðið í afmæli til Hafrúnar Rakelar frænku minnar. Hún var sko 5 ára. Ég var nú ekki á því að fara í svona stelpuafmæli - eitthvað prinsessudæmi.
Afmælið var samt ekki fyrr en síðdegis og við mamma slökuðum okkur fram að því. Í hádeginu kom ég út úr herberginu mínu, haldandi um magann og barmandi mér að mér væri "mjög illt í maganum".
Mamma sagði mér að fara á klósettið og sagði að það hjálpaði stundum svona magapínu. Nei ekki hélt ég það nú.
"Mamma, ég held sko að mér sé svona illt í maganum af því að þú vilt fara í þetta afmæli"

þriðjudagur, september 25, 2007

Hamar & Sög ?

Á laugardaginn fórum ég, mamma og Matti til Sólveigar (frænku mömmu) & Kjartans að skoða litla prinsinn þeirra sem fæddis á þeim flotta degi 20.07. 2007! Anyway þau búa á Birkimelnum og mamma mín (sem er með alzheimer á síhækkandi stigi) gat ómögulega munað hvað Birkimelur var. Við keyrðum vesturbæinn þveran og endilangan og fundum alla aðra -meli en Birki. Á þessum rúnti segir Matti allt í einu "Sjáðu, þarna er Hótel Hamar"
Mamma Sigrún: "Neeeei þetta er ekki Hótel Hamar, þetta er Melaskóli"
Matti: "NEI ekki þetta hús, ÞETTA hús, þarna með bláa"
Mamma Sigrún: "Nei er þetta ekki Hótel Saga þar sem veislan var þegar mamma þín og Hilmar giftu sig?"
Matti: "Æji já, það er svo langt síðan ég gifti mig að ég var alveg búinn að gleyma að þetta er Hótel Sög"
:) :)

laugardagur, september 22, 2007

Ártúnsskóli20 ára

Í dag á skólinn minn afmæli. Í tilefni dagsins var að sjálfsögðu blásið til veislu og við vorum öll boðin. Ég, pabbi, mamma og Matti fórum niðrí skóla og þar var verið að segja frá skólanum og svo var verið að kveðja hann Ellert Borgar sem var búinn að vera skólastjóri í skólanum í 20 ár en er núna að hætta. Þar var lesið upp ljóð um hann sem amma Unnur hafði búið til, mamma mín heyrði nú reyndar minnst af því af að ég var svo óþekkur!! Hmm mér gefst ekki mjög vel að vera þar sem þess er krafist af mér að ég sitji lengi kyrr í einu. Mamma er stundum alveg hissa hvernig mér gengur að vera í skólanum en hún Kristín kennari segir að ég sé alltaf eins og engill.

Næst liggur leiðin í vesturbæinn þar sem við ætlum að kíkja á hann frænda okkar hann Kára Kjartansson. Hann er pínulítill, bara nokkra vikna. Algjör rúsína!! Svo förum við í Borgó í kvöld og gistum á hótel Hamri. Já geri aðrir betur á einum laugardegi! :)

miðvikudagur, september 19, 2007

Engar fréttir?

Mamma mín er ekkert búin að sjá mig í bráðum heila viku! Voðalega hlakkar kellinguna nú til að sjá & heyra hvað ég er búin að vera að bralla.

mánudagur, september 10, 2007

Umræðan um það sem er skemmtilegt

Á leiðinni heim úr fimleikum í dag var mamma að hlusta á fréttirnar í bílnum. Þar var verið að segja frá "aðgerðum" flugmanna Icelandair og fjöldauppsagna í flugfreyjustéttinni. Þar kom m.a. fram að flugfreyjur ætluðu að funda um málið í kvöld.

Egill Orri: Mamma, ætlar þú á þennan flugfreyjufund í kvöld?
Mamma: Nei ástin mín
Egill Orri: Af hverju ekki?
Mamma: Af því að ég er ekki flugfreyja
Egill Orri: Af hverju vildirðu ekki verða flugfreyja?
Mamma: Af því að ég held að mér myndi ekki finnast það skemmtilegt
Egill Orri: Okei ekki flugfreyja, en að setja svona miða á töskur, finnst þér það skemmtilegt?
Mamma: Nei ég held ekki
Egill Orri: En hvað finnst þér þá skemmtilegt?
Mamma: Mér finnst skemmtilegt það sem ég er að gera í bankanum til dæmis
Egill Orri: En mamma! Glitnir á enga peninga til að lána, ég var að læra um Glitni í dag í skólanum

Mamma mín hefur, ef svo er, nettar áhyggjur af aðalnámskrá grunnskóla landsins :)

laugardagur, september 08, 2007

Laugardagur til lukku...

Vá þvílíkur dagur! Byrjaði nú á því að ég og pabbi labbi fengum heldur betur að sofa út (sem er frekar óvenjulegt fyrir mig um helgar). Við vorum amk ennþá steinsofandi þegar mamma fór í ræktina kl. 9. Eftir það fékk ég morgunmat hjá pabba og fór svo að horfa á barnatímann. Þegar mamma kom heim um 11 leytið fékk ég svo að hjálpa henni að búa til "boozt" og svo fékk ég að fara til Leós að leika mér í allann dag eða þangað til að mamma sótti okkur rétt fyrir 6 til að bjóða okkur í bíó!! Við fórum sko í Smárabíó og fengum að horfa á Brettin Upp sem er ótrúlega skemmtileg. Eftir það fengum við óhollustu á Burger King áður en við skutluðum Leó heim.

Þetta var ekkert smá skemmtilegur dagur og núna er ég steinsofnaður inni í mömmu minnar rúmi (af því ég er nefnilega svo hræddur við drauga í mínu rúmi og mamma hefur ekki orku í að fást við mig með það).

Á morgun er svo afmæli hjá Leó besta vini. Þá verður hann sex ára alveg eins og ég. En í dag á hún Margrét Íris vinkona mín og litla systir hans Bjarka vinar afmæli. Hún er fjögurra ára og ég sendi henni stórt knús í tilefni dagsins.

fimmtudagur, september 06, 2007

Jón Oddur & Jón Bjarni

Við mamma fórum á bókasafnið á þriðjudaginn .... sem ég ellllska. Þar tókum við næstu tvær bækur um bræðurna Jón Odd & Jón Bjarna ... sem ég ellllska líka. Við kláruðum nú bara eina bók á leiðinni til ömmu í Borgó þann dag. Þeir eru nú meiri prakkararnir þessir bræður :)
Annars má vart á milli sjá hvoru okkar finnst bækurnar fyndnari því mamma hlær alveg jafnmikið og ég (ef ekki meira). Hún las nefnilega þessar bækur þegar hún var lítil (svo þær hljóta að vera MJÖG gamlar) .
Mamma hefur að vísu smá áhyggjur af því að við Matti tökum upp á því að apa e-ð af prakkarastrikunum eftir þeim bræðrum! Pabbi segir reyndar að þá geti hún sjálfri sér um kennt, honum finnst þetta beinlínis háskalegur lestur fyrir litla uppátækjarsama drengi.

þriðjudagur, september 04, 2007

Heimalærdómur

Í gær átti ég að læra heima í fyrsta sinn. Ekki tókst þó nú betur til en svo að foreldrar mínir klikkuðu alveg á að kíkja í töskuna mína fyrr en ég var sofnaður í gærkvöldi... abbababb! Þetta þýddi að pabbi þurfti að drösla mér eldsnemma á fætur í morgun til að klára verkið en mér fannst það nú samt gaman. Heimalærdómurinn samanstóð af smá 'stærðfræði' þar sem við vorum að vinna með hugtökin "minna en" og "stærra en".
Ég teiknaði mig og Matta sem minni en mömmu og pabba. Pabbi var teiknaður stór & feitur og mamma lítil & feit - af vörum barnanna heyrir maður sannleikann!!

sunnudagur, september 02, 2007

Sumarfríið

Kátir bræður fyrstu nóttina í fellihýsinu
Ég er nú barasta lítið sem ekkert búinn að segja ykkur frá sumarfríinu í ár. Það var nú aldeilis skemmtilegt. Við fórum sko í langt ferðalag. Við byrjuðum á því að fara nokkra daga í útilegu á Vesturlandið. Þar gistum við fyrstu nóttina á Laugum í Sælingsdal. Þar var fínt að vera og góð sundlaug en lítið annað við að vera svo við pökkuðum saman og skelltum okkur í Hólminn þar sem var mikið líf & fjör.



Egill Orri á harðaspretti







Marteinn á fljúgandi ferð





Sætir bræður við Narfeyrarstofu



Eftir þessa þriggja daga ferð fórum við aftur til Reykjavíkur og ég fékk að fara með Matta & Helgu í flugvél norður á Akureyri og gista þar í 3 nætur!! Það var ekkert smá skemmtilegt (þó fregnir hermi að samkomulagið milli okkar bræðranna hafi ekki alltaf verið með besta móti) og ég fékk að fara í sveitina þar og allt mögulegt skemmtilegt. Svo komu mamma og pabbi að sækja okkur og við fórum beint í Mývatnssveitina til Elvars Goða og Önnu Marý sem er alltaf gaman og svo er líka svo fallegt á Mývatni.
Bröltarinn ég lenti reyndar í smá slysi sem kallaði á pínulítinn útúrdúr til Húsavíkur en ég stóð mig eins og hetja hjá lækninum og lét þetta ekkert á mig fá.

Næst lá leiðin á Egilsstaði (nema hvað?!) og þar heimsóttum við m.a. hið mjög svo fallega Skriðuklaustur.














Æi við erum nú soldið luralegir á þessum gammósíum :)
Við fórum líka upp að Kárahnjúkum sem var nú frekar mikil tímasóun því þegar hér var komið var brostið á ekta íslenskt sumarveður, það er að segja rigning & súld svo hvorki sást í virkjun né lón. Næsta stopp var því gert í fjörunni við Lagarfljótið þar sem við rákumst á Orminn sjálfan (sem við sórum þó að væri bara plat).
Ormurinn "ógurlegi"


Eftir viðkomu hjá Óla Sveinmari & Andreu lá leiðin næst á Djúpavog. Það fannst mömmu fallegur bær og þar er flott tjaldsvæði sem við mælum með. Umlukið klettum sem er gaman að príla í. Svo er það líka stutt frá höfninni og okkur bræðrum finnst nú ekkert leiðinlegt að skoða bátana.











Við Djúpavogshöfn


Eftir þetta lá leiðin meðfram suðurströndinni og við stoppuðum víða, m.a. fengum við aðeins að fara á fjórhjólið okkar. Það var hægt að rífast svolítið um það og fara aðeins í fýlu en þegar hér var komið voru mamma&pabbi orðin frekar vön svoleiðis veseni og létu það nú ekkert á sig fá. Næst fengum við okkur svo ís í Freysnesi og svo stoppuðum við nú aldeilis á skemmtilegum stað - Jökulsárlóni - þetta fannst okkur stórmerkilegur staður og langaði mest til að vaða út í og príla á þessum stóru ísjökum sem eru mörg þúsund ára gamlir.












Það má meira að segja sigla á lóninu og einhvern tíma ætlum við að gera það. Kannski næsta sumar?

Því næst sagði pabbi okkur frá því að einu sinni hefði mjög mikið eldgos orðið undir Vatnajökli (jökullinn sem lónið rennur úr) og það hefði brætt svo mikinn ís að ein risastór brú sem var yfir Skeiðará hún bara brotnaði öll í klessu og mokaðist með vatninu, ísnum og sandinum lengst út í sjó. Þetta fannst okkur merkilegt og enn merkilegra að fá að stoppa til að príla á þessum búti úr henni sem enn stendur á sandinum.







Pabbi að lesa sér til um eldgosið
Prílukettir á brúarsporði
Áfram hélt för og við gistum loks á Kirkjubæjarklaustri á öðru frábæru tjaldsvæði. Rétt áður en við komum á Klaustur stoppuðum við á þessum stað sem mömmu finnst svo fallegur, hann heitir - Dverghamrar á Síðu - og þar gátum við líka prílað svolítið.






Svalir bræður með sólgleraugu



Egill Orri djúpt hugsi á Dverghömrum

Eftir Klaustur lá svo leiðin í Kotið til ömmu & afa þar sem okkur var rækilega spillt og lentum í ýmsum ævintýrum, svosem að missa "skessjers" skóinn hans Matta í lækinn og láta ömmu og pabba vaða út og suður að leita að honum. Það voru samt þreyttir litlir bræður sem komu heim til sín sunnudaginn 5. ágúst eftir mjög svo viðburðarríka og skemmtilega ferð.