miðvikudagur, október 31, 2007

Foreldarviðtal

Í morgun fóru pabbi og mamma með mig í mitt fyrsta foreldarviðtal í skólanum. Hún Kristín kennarinn minn talaði mjög fallega um mig, ekki að foreldrar mínir hafi beinlínis átt von á öðru, en það gladdi þau óumræðanlega að heyra að ég er ekki þessi "besserwisser" í skólanum sem ég er heima hjá mér. Hún Kristín kannaðist sko hreint ekki við þessa hlið á mér og fannst ég mjög prúður og góður. Stundum er ég samt svolítið fljótfær (hvaðan sem hann fær það nú !?!) og liggur mikið á að komast yfir verkefnin (svo ég geti fengið ný) mér finnst nefnilega flest þess virði að keppa um það. En á heildina voru mamma og pabbi voðalega stolt af mér og Kristín sagði að það væri engin ástæða til annars en að trúa því að ég myndi standa mig mjög vel í skólanum hér eftir sem hingað til. :)

þriðjudagur, október 30, 2007

Að sofa í sínu rúmi

Ég var ógurlega hissa í morgun þegar ég vaknaði í mínu eigin rúmi. "Hey mamma! Ég svaf aleinn" sagði ég þegar ég vaknaði. Ofsalega hissa á þessu greinilega. Svo varð ég voða ánægður og stoltur.
"Sko mamma! ég hugsaði einmitt bara um allt sem er skemmtilegt og gaman, og nýja draugaljósð mitt (sem er næturljós í draugsformi sem var keyptur í IKEA um helgina) og hvað verður gaman að fara heim með Leó í dag og og og og....... þá var ekkert mál að sofa einn og ég var EKKERT hræddur" Mamma mín stenst mig ekki þegar ég er svona glaður og jákvæður og ég uppskar mikla kossa & knús fyrir þessa byrjun á deginum.
Í ofanálag fór ég þegjandi og hljóðalaust í úlpu, skíðabuxur OG kuldaskó! VÁ og mamma mín á ekki einu sinni afmæli!

fimmtudagur, október 25, 2007

Mömmu hlýnaði um hjartaræturnar


"Mamma! ætlar þú ekki þarna á konufundinn?" "Má amma passa mig?"
"hvaða konufund"
"æi bara þennan þarna konufund sem var verið að tala um í útvarpinu,ég veit ekkert um hann. Ekki er ég kona!"

Mamma mín var búin að vera nákvæmlega 2 1/2 klukkustund á landinu þegar ég var farin að spyrja hvort hún ætlaði ekki út í kvöld.......... hlýlegt!

miðvikudagur, október 24, 2007

Laumulegur

Í gær var pabbi minn að koma mér af stað í skólann og nú vissi ég að það þýddi ekkert að mótmæla regnfötunum + stígvélunum. En mér datt í hug að það væri kannski hægt að villa um fyrir pabba því hann er nú soldið svona sybbinn og utanvið sig á morgnana. Ég fór þegjandi og hljóðalaust í stígvélin og pabbi rétti mér regnkápuna. Svo sagði ég "Pabbi! Mig vantar vettlinga og húfu" (það að ég hafi verið að biðja um þessa hluti hefði auðvitað átt að kveikja á perunni hjá pabba). Meðan pabbi var að teygja sig í körfurnar með þessu dóti í uppi á efri hillu læddist ég að fatahenginu og hengdi varlega af mér regnkápuna og var að laumast í fáránlega þunna og skjóllitla vindjakkann minn þegar pabbi greip mig.
......oh næstum því!

þriðjudagur, október 23, 2007

Regnkápuraunir

Mjér finnst alveg einstaklega leiðinlegt að vera neyddur til að fara vel klæddur í skólann. Ég á í þessu samhengi, eins og ég hef oft tjáð mig um - VERSTU MÖMMU Í HEIMI - hún vill sífellt vera að klæða mig í regnföt og stígvél. HVAÐ ER ÞAÐ! Á hverjum morgni verður pabbi minn (sem yfirleitt er þá að reyna að halda áfram að sofa inni í rúmi) vitni að sama samtalinu/rifrildinu. "Nei ég vil fara í PUMA skónum í skólann". "Nei Egill minn, það er grenjandi rigning úti" "Nei það er EKKI rigning, (máli mínu til stuðnings opna ég oftast hurðina og hleyp út og fullyrði hvort heldur sem er) - SKO, það er ENGIN rigning, ég FER í PUMA skónum, PUNKTUR. Mamma! þetta er útrætt mál"

p.s. (innskot frá mömmu) leyfði barninu að fara á flíspeysu og strigaskóm í skólann í gær. Í ljósi veðurs á ég von á að "mother of the year" medalían detti inn um lúguna bara any day now!

laugardagur, október 20, 2007

þétt dagskrá


Það er nú heldur en ekki búið að dekra við okkur bræður í dag. Ekki einungis fengum við að fara í leikhús heldur á kaffihús, í sund og svo bíó líka!! Geri aðrir betur!
Leikritið sem við fórum á heitir "Gott kvöld" og er eftir Áslaugu Jónsdóttur. Það er um strák sem er einn heima meðan pabbi hans skreppur að sækja mömmu hans og meðan hann er einn verður bangsinn hans ofsalega hræddur við alls kyns kynjaverur sem fara að koma í heimsókn. Þetta eru verur eins og Hungurvofan, Tímaþjófurinn, Hræðslupúkinn, Hávaðaseggurinn, Ólátabelgurinn, Öskurapinn, Hrekkjusvínið og (uppáhaldið hennar mömmu) Fýlupokinn (sem hélt á Leiðindaskjóðunni) og Letihaugurinn. Okkur fannst þetta voðalega gaman og vorum ekkert feimnir að kalla aðeins til leikaranna ef okkur fannst þeir eitthvað ekki vera með á nótunum. Mamma mín mælir með þessu leikriti fyrir svona krakka sem stundum þora ekki að sofa í eigin rúmi t.d. af því að þeir eru svo hræddir við sjálfan sig!! :)

þriðjudagur, október 09, 2007

Besserwisser í 2 veldi

Egill Orri: Mamma megum við fá hund?

Mamma/Pabbi: Þegar þið verðið eldri kannski

Egill Orri: Þegar ég er 7 og Matti 6?

Mamma/Pabbi: Nei meira svona kannski þegar þú ert 10 og Matti 9

Egill Orri: En þá er hann eldri en ég

Mamma/Pabbi: (Uuuuhhh) Nei nei

Egill Orri: Jú, níu er meira en tíu

Mamma/Pabbi: Nei tíu er meira en níu

Egill Orri: NEI! það er ekki satt

Mamma/Pabbi: Jú prófaðu að telja

Egill Orri: 1,2,3,4,...... (hægt) 9, 10. Nei þetta er ekki rétt, 9 ER á undan 10!

Það er rétt, aldrei að gefast upp fyrr en í fulla hnefana :) Það hlýtur einhvern tíma að koma að því að það borgi sig.

miðvikudagur, október 03, 2007

dramadrottning

Ég er nú meiri dramadrottningin. Í kvöld fékk ég þá flugu í höfuðið að ég ætti að fá að gista hjá afa mínum. Ég fékk að hringja í hann og þegar mér var synjað um þessa bón (af móður minni NOTA BENE, afi minn stenst engin áköll frá mér) ákvað ég að skrúfa hressilega frá táraflóðinu og henti mér á baðherbergisgólfið í "ó-mig-auman" stíl par excellance.
Afi kom að sjálfsögðu hlaupandi ofan úr Hraunbæ þegar hann heyrði grátinn. Hann sagði mér langa músasögu og við það sofnaði ég.
Ég kann þetta alveg!