föstudagur, mars 31, 2006

Lymskufullur og lævís

Í gær (sem endranær) vildi ég ómögulega fara að sofa í mínu rúmi. Mamma gerði þann samning við mig (af því hún var að skrifa ritgerð og hafði engan tíma til að rífast við mig) að ég mætti sofna á dýnunni sem var ennþá inni í herbergi síðan að Inga frænka var í heimsókn. Gott og vel. Ég skreið á dýnuna, fékk lesna fyrir mig bók og fór svo að sofa. Mamma hélt áfram að læra en þegar leið á nóttina langaði hana að knúsa strákinn sinn og fór til þess inn í herbergi. Þegar hún kom að dýnunni sá hún að ég lá (aldrei slíku vant) undir sænginni, að því er virtist á maganum með rassinn upp í loftið. Um það bil sem mamma mín hugsaði hvað hún ætti sætan sofandi strák lagðist hún hjá mér á dýnuna og ætlaði að knúsa mig smá. EN þá greip hún í tómt því þegar hún fletti burt sænginni var undir henni fótaskemillinn hennar með samanvöðluðu teppi og einum púða "fyrir haus". Mig fann mamma svo steinsofandi í hennar rúmi, hrjótandi, eldrjóðan í kinnum.
------
Maður er nú enginn asni!

miðvikudagur, mars 29, 2006

Sænskuslettur

Ég er að verða búin að ná því endanlega að takast að blanda saman sænsku og íslensku í hverri einustu setningu sem út úr mér kemur.
"Mamma, það má ekki skríka á litla stráka"
"Ég vil ekki hafa þessar fúlu bildir hérna uppi á vegg lengur"
"Mamma! Ég undra hvar Batman bíllinn minn er, ég hitti hann hvergi"
"Men ég vil inte aka á leikskólann í dag!

mánudagur, mars 27, 2006

Spilamennska

Í gær vorum við mamma að spila minni (e. memory). Í fyrsta sinn hafði ég sjálfur raðað öllum spjöldunum og var afar stoltur af sjálfum mér sem von var. Þegar spilið hófst fékk ég strax 5 samstæður í röð og fannst móður minni þetta nokkuð dularfullt.
Mamma: Voðalega ertu komin með margar samstæður Egill Orri - varstu nokkuð að svindla?
Egill Orri: Já!
**** Kjáni! Hvernig á maður annars að vinna? *****

þriðjudagur, mars 21, 2006

Farinn - Floginn og Flúinn!



Mér fannst mamma mín eitthvað orðin aðeins of geðvond í gær og brá á það ráð að ætla að stinga af til Íslands. Fór fram á gang og "klæddi" mig.

"Mamma! Ég er farinn, floginn og flúinn. Frá Lundi og heim til Íslands".

Þar hafiði það.

Að læra af reynslunni

Það er nú heldur betur sprækur strákur sem stökk á fætur i morgun kl. 07.30 og fór fram til að horfa á Bolibompa (hin sænska Stundin okkar). Ég átti erfitt með að skilja af hverju við mamma gátum ekki farið út í sólina (JÁ SÓLINA) að gera eitthvað skemmtilegt þar sem ég var ekki lengur með hita. Mamma reyndi að útskýra fyrir mér að maður verði að vera einn dag hitalaus heima svo manni slái ekki niður. "Það er ljótt að slá" sagði ég alvörugefinn við þessari skýringu. "Hver slær mann?" - æi stundum skortir mömmu mína getu til að útskýra fyrir mér allt sem rennur í gegnum þennan litla haus minn.
***
Nú þar sem ég er fullur orku þarf ég náttúrulega að færa aðeins til sófasettið í stofunni og brölta upp á því og láta mig detta í sófann. Þetta gekk á nokkra stund þar til mamma mín heyrði heljarinnar dynk og kom hlaupandi fram. Þar lá ég hálfvankaður á stofugólfinu og hafði hentst á hausinn ofan af sófabakinu og lent á hörðu gólfinu. Æ Æ Æ æææ þetta fannst mér nú ekki gott og var fljótur að kenna bæði sófanum og gólfinu um ófarir mínar. Það leið nú engu að síður ekki á löngu þar til ég var aftur tekinn upp á prílinu. Þá sagði mamma ströng á svip "Nú skaltu læra af reynslunni og hætta þessu brölti áður en þú meiðir þig aftur".
[hugs] ... [hallað undir flatt]
"Mamma, ég skal læra það á morgun. Ég lofa!"

mánudagur, mars 20, 2006

Litli veiki strákurinn

Ég er nú merkilega geðgóður miðað við hvað ég er búinn að vera ofboðslega slappur. Yfir 39 stiga hitinn er nú samt að falla hratt og í kvöld var ég ekki með nema nokkrar kommur en mamma ætlar að halda mér heima á morgun líka. Svona til öryggis. Mér finnst nú samt soldið erfitt að fá ekki að hitta vini mína. Útskýrði það fyrir ömmu Gróu í gær á þá leið að ég mætti ekki fara til Auðar og Vigdísar því að "minn sjúkdómur getur flogið í þær". Nokkuð góð lýsing fannst mömmu minni.

sunnudagur, mars 19, 2006

Fyrsta flensan


og vonandi sú eina og síðasta. Það er voðalega vansæll lítill drengur sem situr hérna við hlið mömmu sinnar og segir fátt nema "ég vil fá afa og ömmu" eða "ég er veikur!" eða "má ég ekki bara fara heim til Íslands í dag?".
Búinn að tala við pabba minn tvisvar í dag og Matta bróður líka. Það bætir nú samt ekki ástandið mikið. Pabbi og Matti eru nefnilega að mála nýja húsið sem pabbi var að kaupa og við ætlum að búa saman í næsta vetur meðan mamma mín er í Kína og klára skólann. Ég tala soldið um það núna. Mamma heldur að mér finnist þetta allt svolítið spennandi.
Amma Gróa hringdi líka að spyrja um strákinn sinn, ég spilaði veikindaspilið meistaralega við alla og umlaði ofslega veiklulega "Ég er svooooo veikur". Ekki það að ég sé það ekki, er með 39,1 stigs hita við síðustu mælingu en mamma mín getur nú samt ekki annað en brosað út í annað yfir eymdarhlutverkinu sem ég er að spila. Þegar "litlir" strákar eru veikir eru þeir svooooo veikir.

laugardagur, mars 18, 2006

Snilligáfa

Í dag eftir kirkjuskóla fórum við mamma niðrí bæ. Vigdís vinkona mín fékk að koma með og við fórum á McDonald's. Ég hafði vælt út að taka kerruna mína með í bæinn þar sem ég er afspyrnu latur að labba (HEY! til hvers að labba ef maður getur látið keyra sig, þetta er nú bara heilbrigð skynsemi finnst mér) Nema hvað þegar við komum út úr strætó niðri á Botulfsplatsen og mamma ætlaði að taka í sundur kerruna þá vildi ekki betur til en að einhver ró eða skrúfa gaf sig og kerran fór öll í spað, varð óökufær. Ég var nú ekki ánægður með þetta og skammaði mömmu heil ósköp fyrir að skemma kerruna. Mamma sagðist bara vilja henda henni, hún kynni ekkert að gera við svona kerrur auk þess sem hún var orðin hálfleiðinleg til aksturs hvort sem var.
"Nei nei nei" hrópaði ég örvæntingarfullur. "Hann afi minn er alveg rosalegur snillingur og hann kann alveg að gera við svona kerrur"
Mamma mín sem er ekki rosalegur snillingur skildi hins vegar kerruna eftir niðrí bæ.

Vísir að tilvistarkreppu

Í gær höfðum við mamma bíókvöld. Þá slökkvum við öll ljós, kveikjum bara á kertum, horfum á video saman og borðum popp. Þetta finnst mér alveg óskaplega gaman. Í gær varð Fríða&Dýrið fyrir valinu en ég er nú öllu jöfnu frekar hræddur við þá mynd. Þegar myndin var aðeins byrjuð trúði ég mömmu minni fyrir eftirtöldu:
****
Egill Orri: Mamma, ég vil ekki verða stór
Mamma: Nú! Af hverju ekki?
Egill Orri: Ég vil ekki fá svona vinnu og svoleiðis, þá getur maður aldrei leikið sér
Mamma: En getur maður ekki leikið sér bara eftir vinnu?
Egill Orri: Júúúúu, en ég vil ekki missa þig [þetta var sko rétt eftir að Dýrið hafði hent pabba hennar Fríðu út úr kastalanum og Fríða hélt hún sæi hann aldrei aftur]
****
Mamma mín fullvissaði mig um að hún væri ekki að fara neitt og að ég yrði alltaf strákurinn hennar, líka þegar ég væri orðinn stór og kominn með vinnu.
Annars á hann Hjörtur Snær frændi minn afmæli í dag, verður 2 ára. Við mamma vonum að hann hafi fengið pakkann og eigi skemmtilegan dag. Til hamingju með afmælið Hjörtur Snær!

fimmtudagur, mars 16, 2006

Kjútt



Egill Orri: Mamma! Du är faktiskt min lilla guldklump

*******

(og fyrir þá sem skilja ekki sænskuna, "Mamma, þú ert satt best að segja gullmolinn minn")

miðvikudagur, mars 15, 2006

Kveðjustund

Þá er hún Birta mín að fara burt frá mér. Ég lenti meira að segja í slagsmálum út af henni í dag þegar Mathias vildi ekki leyfa mér að sitja við hliðina á henni. Ég er eins og stríðshetja með stórt klórufar niður alla hægri kinnina. Ég bjó til fallegt armband handa henni Birtu minni í leikskólanum í dag og gaf henni í kveðjugjöf. Því fylgdi að vísu sú kvöð að hún yrði alltaf að hugsa um mig í hvert sinn sem hún liti á armbandið. Það var fremur tregafull stund hjá okkur báðum þegar við svo kvöddumst í kvöld. Annars sagði mamma hennar Birtu mömmu minni að við Birta værum búin að bindast hvort öðru, amk svona hálfpartinn. Sko nefnilega ef við verðum hvorugt búin að finna einhvern annan til að giftast við ákveðinn aldur þá ætlum við að giftast hvort öðru. En það mun gerast heldur Birta því við erum "so jättekära".

þriðjudagur, mars 14, 2006

Sjarmör

Ég get verið alveg ótrúlega duglegur að dunda mér. Eins og núna þegar ég sit í rúminu hennar mömmu minnar og er að leika mér með nokkra Legokubba, talandi við sjálfan mig á sænsku, grunlaus um að móðir mín er ekki í alvörunni að læra heldur hlusta á mig og fylgjast með mér. Nú kem ég með gula plaststöng og segi "Mamma! stendur eitthvað vitlaust í þessari bók?" "Nei nei" segir mamma mín. "En ég skal alveg galdra hana, abrakabrabra og PÚ F F!, núna stendur -ég elska þig litla mamma- ". Mamma mín stenst mig ekki þegar ég er svona sætur og knúsar mig mikið. Þá geng ég aðeins á lagið og segi "Mamma! má ég kannski fá eina litla peru ef ég gef þér en puss och ett kram?"

mánudagur, mars 13, 2006

Mánudagur til mæðu

Æiii ég var svo voðalega þreyttur í morgun. Svaf bara til að verða hálfníu þegar mamma mín dröslaði mér loksins á lappir. Merkilegt hvað mér finnst bara gott að sofa út virka daga þegar mamma mín þarf nauðsynlega að fara á fætur hvort sem er.
Það var íþróttaskóli eins og venjulega á mánudögum - og eftir hann fékk Birta að koma heim með mér að leika. Nú styttist heldur betur í að hún flytji en það gerist á fimmtudaginn. Hún var komin á undan mér heim á Kjemman og beið eftir mér úti á stétt. Þegar hún sá mig - og ég hana - hlupum við hvort á móti öðru og féllumst í faðma. Þetta var eins og úr Fýkur yfir hæðir "Heathcliff - Katherine". Mamma mín gat nú ekki annað en brosað út í annað. Mikið verður nú skrítið þegar hún Birta mín verður farin.

sunnudagur, mars 12, 2006

Fugl eða fiskur?

Í gær þar sem ég var brölta inn í eldhúsi, sem oft áður, sá ég á borðinu tvær pakkningar af kjöti sem mamma mín hafði tekið úr frysti. "Mamma! Hvað er þetta?" spurði ég og fékk svarið að þetta væri lambakjöt sem ætti að vera í matinn á morgun [sunnudag]. Jaaá það var nefnilega það. "Er þetta þá lamb?" kom næsta spurning eftir smá vangaveltur. "Já" svaraði mamma. "Lítið lamb? Agalega lítið og sætt lamb?" "Já" sagði mamma mín aftur og var farið að finnast hún agalega vond manneskja að ætla að leggja sér þetta litla sæta lamb til munns.
Í matinn þetta kvöld var svo kjúklingur. Þegar ég kom úr baði beið eftir mér niðurbrytjað kjöt og kartöflumús á diski. "Ónei!" hrópaði ég upp yfir mig. "Lambið er allt komið í bita?" sagði ég órólegur. "Þetta er ekki lamb" sagði mamma "þetta er kjúlli" og sá strax eftir orðum sínum.
"ELDAÐIRÐU KJÚLLA LITLA" öskraði ég í mikilli örvæntingu. Mamma reyndi að sverja það af sér og sagði að þetta væri alls ekki kjúlli litli heldur sjálfdauður ættingi hans í sjöunda lið.
Ég hrærði aðeins í matnum og sagði svo "En ég vil ekki fisk!". "Þetta er ekki fiskur, þetta er kjúklingur" endurtók mamma. "Já en fiskur er búinn til úr lambi" sagði ég alvörugefinn og skóflaði svo í mig matnum.

laugardagur, mars 11, 2006

Góð byrjun á góðum degi

Laugardagar eru dagarnir okkar mömmu. Þá gerum við oft eitthvað skemmtilegt. Í morgun byrjuðum við til dæmis daginn á því að fara út í Willy's með allar tómu kók-light dósirnar hennar mömmu og ég fékk að dæla þeim öllum ofan í kremjuvélina. Mér finnst fátt skemmtilegra. Eftir það settum við afmælispakkann hans Hjartar Snæs í póst og drifum okkur svo niðrí bæ í sólskininu (en kuldanum samt). Þar fórum við á Statsbiblioteket (Bæjarbókasafnið) og fundum okkur kósí sófa og lásum fullt fullt af bókum og spiluðum spil. Eftir það mátti ég velja hvort ég vildi fara á videóleiguna að velja mér spólu eða í dótabúðina að velja mér eitthvað spil. Ég valdi dótabúðina svo við settum stefnuna á Jättekul og þar valdi ég mér rosaflott lúdó. Næst var stefnan sett á MacDonald's (þennan nýja við Svenshögsvägen) og þar fékk ég minn venjulega skammt af kjúklinganöggum og frönskum með tómatsósu. Þegar þessu öllu var lokið var klukkan orðin nálægt því tvö og við mamma röltum heim því Leó Ernir ætlaði að koma í heimsókn að leika.
********
Á leiðinni:
Mamma: Áái
Egill Orri: Hvað er að?
Mamma: Þessi stígvél eru aðeins að meiða mig
Egill Orri: Já, ætli þau séu ekki bara full af pöddum og lirfum og svoleiðis?
********
Stundum skilur mamma mín ekki alveg hvað ég er að spá.

föstudagur, mars 10, 2006

Einn tveir ...... enginn latur í Latabæ


Enn og aftur vorum við mamma boðin í mat til hennar Katrínar listakokks, Reynis og Leós vinar míns. Ég fór með íþróttaálfsbúninginn frá ömmum mínum með mér og Leó fór í sinn og við vorum heldur flottir. Reyndar er ég "aðeins" svona þreknari og breiðari en Leó svo búningurinn er pííííínulítið þrengri á mig en hann. Þetta fannst foreldrum okkar soldið skondið á að horfa en okkur var alveg sama og lékum okkur (að mestu) voðalega góðir inni í herbergi. Fengum snakk í poka með okkur og rústuðum herberginu hans Leós bara smá!
****************
Annars er Birta kærastan mín á heimleið í næstu viku. Mamma mín er nú ekkert mikið að ræða það við mig til að vekja ekki upp sárindin sem verða óhjákvæmileg í kjölfarið. Ég ætla nefnilega að giftast Birtu. Um daginn þegar við Leó vorum að ræða þetta vildi hann þá fá að giftast Katrínu (sem er líka með mér á deild) en ég sá nú alla vankanta á því þar sem ég tjáði honum að Mathias vinur minn væri búin að "panta" hana. Hann gat því ekki gifst henni. Í kvöld þegar þetta barst aftur í tal þá var ég aðeins búin að skipta um skoðun og sagðist sjálfur ætla að eiga þær báðar.
Það er nú gott að eiga eina til vara !! tíhí hí hí

fimmtudagur, mars 09, 2006

Mamma má ég?

Það eru örlög verri en dauðinn að þurfa að fara heim til mín með mömmu eftir leikskóla. Á leiðinni heim í dag byrjaði rullan:
Egill Orri: Má ég fara til Birtu?
Mamma: ekki núna, hún er hálflasin
Egill Orri: En má ég leika við Leó?
Mamma: Hann er hjá Freyju að leika
Egill Orri: Má ég fara til Auður og Vigdísar?
Mamma: Nei ekki núna, ég held þú ættir bara að koma heim með mér.
Egill Orri: En það er svo leiðinlegt.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Morð

Áðan, eftir að ég kom heim frá Leó, var ég að hjálpa mömmu minni að búa til plokkfisk. Ég var eitthvað úrillur vegna þess að ég fékk ekki að horfa á Scooby Doo. Ég fékk svo að setja fiskinn í pottinn og þar sem ég horfði á hann sjóðast og mömmu mína síðan veiða hann upp og skera hann í bita sagði ég skelfingu lostinn "Mamma! Það má ekki skera fisk, þá dauðast hann" þegar ég hafði melt þessa setningu smá stund rann upp fyrir .... "MAMMA! Þú hefur dauðað fiskinn"
Nú er ég að hoppa í sófanum fyrir aftan mömmu mína og þegar hún lítur á mig skrúfa ég núna á mig aumingjasvipinn og reyni að taka upp mína fyrri iðju að suða um Turtles-kex. Mamma mín stakk upp á því að hringja í afa Hjört og þá reyndi ég að nota það sem kúgunartæki "Nei! ég hringi ekki í neinn heima á Íslandi nema að ég fái Turtles-kex"
Samt gefur hún sig ekki!

þriðjudagur, mars 07, 2006

Ísmaðurinn

Það er alveg sama hvað ég er búinn að borða mikið, það er alltaf tími og pláss fyrir ís. Ég á líka svo góða mömmu að hún á alltaf svona litla íspinna í frystinum. Akkúrat mátulega fyrir mig. Í dag fékk ég sko samt stærri ís en venjulega. Stóran Magnum með súkkulaði. Enda hafði ég verið einstaklega duglegur að borða bjúgað sem mamma eldaði fyrir mig og það sem meira er, allar kartöflurnar líka. Mér finnast ekki góðar kartöflur öllu jafna en hvað leggur maður ekki á sig fyrir ís.
Rétt í þessu kom ég til mömmu minnar, kyssti hana blautum ís/slef kossi og sagði:
"Hey litla! Ég elska þig"
Mömmu finnst ég stundum soldið sniðugur.

mánudagur, mars 06, 2006

Starfsdagur á leikskólanum

Í dag var ég í fríi í leikskólanum og fékk þess í stað að fara að leika við -Babbaraaa- Leó Erni!! Það var nú jafngaman og alltaf. Þegar mamma kom heim úr skólanum vorum við úti í snjókasti tilbúnir að skella okkur í íþróttaskólann þar sem ég lagði mig allan fram við að sitja og taka ekki þátt. Núna sit ég í sófanum og er að borða eitthvað það stærsta epli sem mamma mín hefur séð og er að horfa á Scooby Doo. Annars hafa Vælinn og Rellinn verið soldið í heimsókn um helgina móður minni til mikillar hrellingar. Henni leiðast alveg hreint óskaplega vælandi börn - sérstaklega ef hún á þau. En þegar ég er svona sætur eins og núna stenst hún mig ekki og ætlar að fara að knúsa mig smá.
Sjáumst!

laugardagur, mars 04, 2006

Öskudagsfjör

Í dag var nú aldeilis skemmtilegur dagur í kirkjuskólanum. Það var nefnilega verið að halda upp á Öskudaginn. Allir mættu í búningum og voru rosaflottir. Ég og Leó vorum að sjálfsögðu í íþróttaálfsbúningunum okkar og vöktum mikla lukku. Það var farið í ýmsa leiki og kötturinn að sjálfsögðu sleginn úr tunnunni. Það fannst mér að vísu dáldið skrítið að heyra....

Mamma: ... svo sláið þið köttinn úr tunnunni
Egill Orri: HA!?
Mamma: já það er svona tunna og svo fara allir í röð og slá í hana með stóru priki þangað til hún dettur í sundur
Egill Orri: Það er ekki fallegt að slá kött
Mamma: Nei það er ekki köttur í tunnunni í alvörunni
Egill Orri: Hvert fór hann?
Mamma: Það var aldrei neinn köttur þetta er bara kallað að slá köttinn úr tunnunni. Ég veit ekki af hverju. Það er bara nammi eða dót í henni, enginn köttur - skilurðu?
Egill Orri: Já já
----
[eftir smástund]
----
Egill Orri: En hvernig komst kötturinn úr tunnunni?

föstudagur, mars 03, 2006

Átvagl

Í morgunmat er ég búinn að borða hvorki meira né minna en 4 steikt egg, eina litla jógúrt, stórt glas af eplasafa og fullt fullt af vínberjum. Að auki tók ég svo auðvitað lýsið mitt og latabæjarvítamínin sem Matti og Helga sendu mér. Svona get ég verið duglegur að borða en nú finnst mömmu minni komið gott og segir stopp þegar ég er að suða um epli.
---- ---- ---- ---- ----
Í gær þegar við fórum á flugvöllinn með ömmu fórum við mamma á Burger King. Með máltíðinni fékk ég eitthvað agalega flott dót sem skýtur svona skífum og fékk að leika mér með það í lestinni á leiðinni heim. Nema hvað þrátt fyrir aðvaranir og tilskipanir móður minnar um að það megi aldrei og alls ekki skjóta á fólk þá gerði ég það nú, skaut móður mína beint á milli augnanna. Henni var ekki skemmt kellingunni og gerði dótið upptækt hið snarasta. Sama hvernig ég vældi og suðaði, baðst fyrirgefningar og iðraðist var hún óhagganleg og ég fékk ekki dótið mitt. Eftir smástund ákvað ég að reyna að skrúfa frá tárunum, skreið upp í fangið á mömmu minni og sagði "Það má ekki vera svona vondur við litla stráka" Mömmu fannst ekki mikið til þessa leikrits koma og svaraði "Nú?! Af hverju ekki" Það stóð ekki á svarinu "Af því þeir geta bara dáið úr sorg".
Þess má geta að um daginn mátti ekki kyssa svona litla stráka - því þá gætu þeir dáið.
----
Já þau eru margvísleg banameinin á þessum viðkvæma aldri.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Heimsóknin á enda

Mamma: Þú ert nú meiri lukkunnar pamfíllinn Egill Orri
Egill Orri: Ég er ekki fíll! ég er strákur
Ég fékk aftur frí í leikskólanum í dag og á eftir ætlum við mamma að fara með ömmu Gróu út á flugvöll því nú er heimsóknin á enda. Ég reyndar skil nú ekkert til hvers amma þarf nokkuð að vera að fara aftur heim til Íslands. Hún getur bara alveg búið hérna hjá okkur.
Pabbi minn hringdi í mig í gær og ég vildi þá bara allt í einu ekkert tala við hann. Var búinn að svara þrisvar í símann um kvöldið og hélt alltaf að þetta væri hann og var orðinn pínu kvekktur þegar til kom. Svo þegar mamma var að bursta í mér tennurnar spurði hún mig af hverju ég hefði ekki viljað tala við pabba og þá stóð ekki á svarinu "Æi ég var bara búinn að gleyma því að hann er besti pabbinn minn"

miðvikudagur, mars 01, 2006

Dagur með ömmu

Í dag fékk ég að eiga frí í leikskólanum til að eyða deginum með henni ömmu minni. Það fannst mér nú aldeilis ekki leiðinlegt. Passaði nú að vera ekkert að vekja hana mömmu mína nema til að láta hana kveikja á Scooby Doo en skipaði henni svo aftur inn í mitt herbergi þar sem hún svaf á dýnu. "Mamma! Viltu ekki bara sofa soldið meira... HA?"
Nú svo fékk ég að fara með ömmu minni í mollið meðan mamma fór í skólann og þar fékk ég að fara á McDonald's (nema hvað?) og var hreint ótrúlega duglegur að túlka fyrir hana ömmu mína sem er takmörkuð í sænskunni.
Engin ferð í Nova Lund er fullkomnuð nema með smá skreppi í BR leikföng og þar fékk ég að velja mér fínan Lego-sjúkrabíl og eitthvað meira. Keypti líka gjöf handa bróður mínum sem amma ætlar að fara með heim til Íslands.
Núna er ég að bíða eftir að pabbi minn hringi í mig frá Bandaríkjunum og til að drepa tímann er ég að gæða mér á nýbökuðu kanilsnúðunum hennar mömmu minnar. Ekki slæmur díll það!