mánudagur, desember 19, 2005

Dekurrass

Ég hef heldur betur notið athyglinnar sem ég hef fengið frá því að ég kom heim til Íslands seint á laugardagskvöldið. Ég var nú í fyrsta lagi voðalega glaður að sjá pabba minn, stökk í fangið á honum þegar ég sá hann úti í Keflavík og mátti ekki af honum líta. Sofnaði nú reyndar í miðri setningu á leiðinni í bæinn og fór svo beint heim til hans að lúlla. Svo fór pabbi með mig á jólaball í sunnudagaskólanum og þar komu jólasveinar (þrátt fyrir yfirlýsingar fyrrv. safnarprests um að þeir séu ekki til). Þetta var voðalega gaman og Marteinn bróðir minn var með. Svo fékk ég að fara í sund með mömmu minni í dag, ætlaði nú ekki að vilja fást til að fara ofan í, heimtaði að fá að fara í sund í Borgarnesi en mamma gaf sig ekki og ég skemmti mér auðvitað á endanum konunglega. Nú er ég kominn í Borgarnes til afa og ömmu og er búinn að fara með afa mínum að velja jólatré og hafði það fram á frekjunni að fá að fara og gista á hótelinu með ömmu.
Ég vil bara hafa það almennilegt. Mamma mín heldur að ég hafi þennna flottræfilshátt frá Ingu móðursystur minni!!! :) :)

laugardagur, desember 17, 2005

Hann pabbi minn

Hérna eru nokkur gullkorn sem ég hef látið falla um hann pabba minn síðustu daga.

"Pabbi minn kaupir voða voða marga bíla. Hann kaupir bíl á hverjum degi og svo skilar hann honum á kvöldin og fær nýjan. Jeppa, Ford og alls konar bíla"

"Mamma! Af hverju vaknar þú alltaf á undan mér. Já ég veit, af því að ég er svo mikil svefnpurrka. Ég vil vera svefnpurrka eins og pabbi minn."

Egill Orri: "Mamma! Af hverju var bara til Spiderman videospóla á videóleigunni?"
Mamma: "Ég veit það ekki ástin mín"
Egill Orri: "Það gerir ekkert til mamma, ég sé hana bara hjá pabba mínum. Hann á fullt af svona Disney Ví Ví Ví diskum (hugsið DVD á ensku ef þið fattið þennan ekki)

föstudagur, desember 16, 2005

Bara einn dagur

Í gær var Leó vinur minn í heimsókn hjá mér. Hann var eiginlega í smá pössun því mamma hans og pabbi fóru í bíó. Okkur fannst það rosagaman. Sátum í náttfötunum okkar og átum vínber og horfðum á Stålmannen (e. superman) og svo fengum við að fara á náttfötunum niður í þvottahús með mömmu og við hlupum svoleiðis og hömuðumst að við vorum sveittir þegar við skrifum í mömmu minnar rúm og vorum steinsofnaðir á augabragði. En nú sé ég nú ekki Leó vin minn í nokkrar vikur því ég er að fara heim til Íslands á morgun. Talaði við ömmu Unni og afa Hjört í gær og ég held þau hlakki nú soldið til að sjá okkur mömmu. Við hlökkum líka voðalega til að sjá þau.
Annars var hann Pottaskefill nú eitthvað skrítin í gjafavali í morgun. Ég fékk svona sparibauk sem við nánari eftirgrennslan er óopnanlegur. Það er að segja eina leiðin til að ná væntanlegum sparnaði úr er með því að opna hann með dósaupptakara. Mamma mín var nú alveg hissa á þessu val sveinka og sagðist ætla að hringja í hann Askasleiki sem kemur í kvöld og biðja hann að gefa mér eitthvað aðeins nytsamlegra í skóinn í nótt.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Heimferð

Jæja nú eru bara tveir stuttir dagar þar til við mamma förum í stóru flugvélina og förum heim til Íslands að hitta alla sem okkur þykir vænt um. Ég er orðinn voða spenntur og hef verið mjög hjálpsamur við pökkun. Þetta felst aðallega í því að taka allt sem mamma mín hefur sett ofan í STÓRU STÓRU töskuna okkar upp úr henni aftur og setja svo dótið mitt í hana. Mest legokubbar og bílar sem Matti bróðir minn þarf nauðsynlega að sjá.
Annars er ég bara voðalega góður að mestu leyti. Tók reyndar upp á því í gær að krota slatta á stofugólfið með svörtum vaxlit - móður minni EKKI til mikillar gleði - hún skammaði mig nú líka soldið og sagðist þurfa að íhuga að skrifa Þvörusleiki bréf um að Egill Orri ætti bara skilið að fá kartöflu í skóinn. Þetta leist mér nú ekkert á og sat eins og ljós það sem eftir lifði kvölds. Fannst samt vissara að spyrja reglulega 'Mamma! ætlarðu ennþá að skrifa bréf til Þvörusleikis?' Mamma var lengi vel að velta því fyrir sér en hætti við þegar hún sá hvað ég var leiður og þægur og fór þegjandi og hljóðalaust í háttinn kl. 20:00.

miðvikudagur, desember 14, 2005

Lúsíuhátíð

Í gær var Lúsíuhátíðin í leikskólanum mínum. Ég vaknaði mjög öfugsnúinn og ætlaði ekki að fást til að fara í jólasveinabúninginn sem Giljagaur gaf mér í skóinn. Mamma mín beitti miklum fortölum og ég fékkst loks til að taka þetta í sátt. Þegar ég kom á leikskólann hitti ég Mathias besta vin minn sem var piparkökustrákur. Við vorum ofsalega sætir og mamma tók flotta mynd af okkur. Foreldrunum var öllum boðið að koma á sýninguna okkar og svo var 'fika' (kaffi) á eftir. Við vorum alveg ofsalega sæt og fín þegar við gengum syngjandi í salinn.
Ute är mörkt och kalt
Inne i husen
Lyser det över alt
tender dom ljusen
Då kommer någon der
Jag vet nu vem det är
Santa Lusia, Santa Lusia
Svo röðuðum við okkur öll í beina röð og sungum fullt af fleiri lögum. Mér leist nú ekkert á allt þetta fólk sem í þokkabót kæfði okkur í myndavélaflössum og myndbandsupptökuvélum. Mamma mín tók eftir því að ég gleymdi stundum að ég átti að vera að syngja en svo hrökk ég í gírinn og söng smá og svo gleymdi ég mér og svo söng ég aftur. En ég var samt mjög sætur lítill jólasveinn þar sem ég hélt í höndina á Aylee vinkonu minni. Því miður þurfti mamma svo að drífa sig í skólann svo hún missti af Lussebullunum sem við höfðum bakað handa öllum mömmunum og pöbbunum. En Jennie er svo góð að þegar mamma kom að sækja mig þá hafði hún sett nokkra Lussebulla í hólfið mitt handa mömmu minni.

mánudagur, desember 12, 2005

Beðið eftir sveinka

Ég fór vægast sagt á kostum í nótt. Fór sko extra snemma að sofa í gærkvöldi þar sem jólasveinninn var að koma og ekki vildi ég eiga á hættu að fá ekkert í skóinn. Mamma mín var að læra til klukkan 02:30 og lagðist örþreytt á koddann hjá mér. En Adam var ekki lengi í Paradís og kl. 04:00 vaknaði ég og tilkynnti mömmu minni að ég væri tilbúinn að vakna, fara fram úr og athuga hvað sveinki hefði gefið í skóinn.
Mamma mín, sem var freeeeeeekar sybbinn, reyndi að segja mér að það væri ennþá nótt og að ég ætti að fara aftur að sofa - ég var nú ekki á því

Egill Orri: Mamma! er kominn dagur?
Mamma: Nei ástin mín, það er ennþá nótt
Egill Orri [3 mín. seinna] Mamma! er kominn dagur?
Mamma: Nei Egill Orri, það er hánótt, farðu nú aftur að sofa
Egill Orri: [öðrum 3 mín. seinna] En núna?
Mamma: NEI Egill, það er ekki kominn dagur, sjáðu bara úti, það er dimmamyrkur
Egill Orri: En ég vil sjá hvað jólasveinninn gaf mér í skóinn
Mamma: Hann er örugglega ekki kominn og hann gefur ekkert í skóinnn þeim sem ekki fara að sofa
Egill Orri: En af hverju kemur hann á nóttunni?
Mamma: Af því að hann vill ekki að neinn sjái sig
Egill Orri: En mamma, er núna kominn dagur?
Mamma: [frekar grumpy] NEI EGILL ORRI OG FARÐU AÐ SOFA!
Egill Orri: Ussss mamma, ég heyri eitthvað, ég held það sé kominn dagur
Mamma: Æi Egill minn, farðu nú að sofa, mamma er svo þreytt
Egill Orri: [eftir smá umhugsun] Mamma! hvernig land er eiginlega þessi Svíþjóð? Kemur aldrei dagur hérna eða hvað?

sunnudagur, desember 11, 2005

Jólasveinninn minn, jólasveinninn minn ætlar að koma í kvöld


Í gær var jólaball í kirkjuskólanum. Það var helgileikur og ég átti að leika engil en var nú aldeilis ekki á þeim buxunum. Eins og sést á myndinni kannski. Fékkst ekki til að fá mér geislabaug og sat sem fastast þegar við áttum að fylgja Billu fram til að ganga svo öll saman inn kirkjugólfið. En mamma mín ákvað að vera ekkert að ergja mig með þessu. Veit alveg hvernig ég get verið þegar ég er búinn að bíta eitthvað í mig.
Eftir helgistundina í kirkjunni var svo jólaball inni í safnaðarheimilinu og þar komu jólasveinarnir. Ég er (eins og ég hef alltaf verið) hálffeiminn við þessa skrítnu kalla og vildi ekkert dansa í kringum jólatréð með þeim. Var nú samt nógu góður til að þiggja af þeim nammið sem þeir deildu rausnarlega úr pokunum sínum. Þegar þeir komu inn hljóp ég strax fram í glugga og rýndi út eins og ég væri að leita að einhverju, mamma mín spurði hvað ég væri að gera og ég var fljótur að svara 'mig langar svo að sjá hreindýrin' - hmmm mamma mín sagði mér að þau væru örugglega út á bílastæði (sem sést nota bene ekki frá kirkjunni) að hvíla sig og ég sættist á það. Í kvöld kemur annars fyrsti jólasveinninn hann Stekkjastaur og ef ég er þægur þá fæ ég nú kannski eitthvað fallegt í skóinn.

Læt ykkur vita á morgun!

föstudagur, desember 09, 2005

Dularfullt fyrirbrigði

Stundum heldur mamma mín að ég hljóti að hafa séð 'Raw' með Eddie Murphy. Ég hef amk masterað 'It wasn´t me' vörnina sem sést t.d. af eftirfarandi frásögn: (ein af mörgum í sama dúr)
Í gærkvöldi var ég í baði með allt dótið mitt eins og venjulega. Mamma mín hafði sko margoft bannað mér að vera að sulla sjampóunum hennar í baðvatnið. Eftir smástund kemur mamma inn á bað til að þvo mér um hárið og þá var vatnið fullt af sápu. Áður en mamma mín náði að segja orð var ég fljótur til 'þetta var ekki ég'. 'Nú?' sagði mamma mín soldið hissa. 'Hver þá?' 'Þetta var Leó, hann birtist skyndilega og hellti öllum sjampóunum í baðið' 'Hvað segirðu?' sagði mamma mín þá. 'Já, þetta var mjög dularfullt' samþykkti ég sposkur.

fimmtudagur, desember 08, 2005

Söknuður

Í dag þegar mamma kom að sækja mig þá var ég kominn yfir á Spöket Laban sem er önnur deild á leikskólanum. Það er sko deildin sem hann Tómas Helgi vinur minn var á áður en hann flutti heim til Íslands fyrir skömmu.
Allavegna þá þegar við komum fram á gang og ég sá tómt hólfið hans Tómasar þá skrúfaði ég á mig sorgmædda svipinn, hengdi haus og sagði. 'Aumingja Tómas Helgi, nú er hann ekki lengur á Spöket Laban'. 'Nú er hann bara á Íslandi og veit bara ekkert hvar Hraunborg er' (nafnið á íslenska leikskólanum mínum) Mamma reyndi þá að segja mér að Tómas væri á nýjum leikskóla sem væri í Reykjavík þar sem hann ætti heima núna. Mér leið nú ekkert betur við það, 'aumingja Tómas Helgi (og nafnið var sko alltaf sagt með sænskum framburði og varð þar með Túmas Hellgje), hann ratar ekkert í Reykjavík og kann ekkert að tala eins og börnin þar'.
Það tók nú sko alveg steininn úr þegar við mamma löbbuðum svo framhjá gömlu íbúðinni hans á leiðinni til Leós. Þá sagði ég nú bara með grátstafinn í kverkunum 'aumingja Tómas Helgi, nú á hann bara hvergi heima'.
Það eru greinilega mikil grimmdarörlög að flytja til Íslands.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Ómöguleg mamma

Stundum þegar mamma mín er að klæða mig úr fyrir baðið þá kemur það fyrir að mér finnist hún taka mig hálfharkalega úr fötunum, sérstaklega á hún það til að draga bolinn/peysuna/nærbolinn of harkalega yfir höfuðið á mér. Svoleiðis var það í kvöld. Mamma var voða leið og sagði fyrirgefðu og tók mig í fangið og spurði hvar ég hefði meitt mig
Egill Orri: Áiiii, mér er voða illt
Mamma: Æi ástin mín, fyrirgefðu. Mamma ætlaði ekki að meiða strákinn sinn. Fyrirgefðu
Egill Orri: Ég heyri þig alveg vera að segja fyrirgefðu og fyrirgefðu, þú ert alltaf að segja fyrirgefðu en svo heldurðu samt alltaf áfram að meiða mig.
Mömmu fannst þetta nú vera farið að líkjast ansi mikið samtali sem við mæðginin áttum fyrr í kvöld þegar Egill var næstum búinn að eyðileggja sjónvarpið. Þá sagði mamma við strákinn fremur ströng "Ég heyri þig alltaf vera að segja fyrirgefðu, það þýðir ekkert að segja bara fyrirgefðu þegar maður er svo alltaf áfram óþekkur "

þriðjudagur, desember 06, 2005

Yndislegur

Í morgun var mamma mín löt á fætur en ég vildi ólmur komast fram úr að opna dagatölin mín. Ég kunni nú ráð við letinni í mömmu.

Ég skreið upp í til hennar, lagði hendurnar um hálsinn á henni, lagði svo höfuðið mitt í hálsakotið hennar og sagði 'Mamma! Jag kan inte leva utan dig!' (mamma, ég get ekki lifað án þín)

mánudagur, desember 05, 2005

Síðasti íþróttaskólinn

Í dag var síðasti íþróttaskólinn fyrir jól. Það var ofsalega gaman eins og venjulega og ég fékk meira að segja nammipoka í skilnaðargjöf sem mömmu minni fannst að vísu pínu skrítið en var ákaflega stolt þegar ég sagði algjörlega af sjálfsdáðum að ég ætlaði að geyma hann fram á laugardag. Svo var ég líka rosa duglegur og hjólaði alla leiðina í Victoriastadion og tilbaka.
Nú styttist líka í það að ég og mamma komum heim til Íslands. Mamma mín heldur að vísu að ég sé ekki alveg að fatta að við séum bara að fara heim til Íslands í heimsókn, en ekki að flytja þangað. Ég er samt orðinn voða spenntur, talaði við Hjört afa minn í gær og við fórum (í milljónasta sinn) yfir það hvaða herbergi ég ætla að sofa í á hótelinu þegar ég kem til afa. 'Afi!' sagði ég við hann í gær 'Ég má velja hvaða herbergi sem er, af því að þú elskar mig svo mikið'.
Sem er alveg rétt! Það er aldeilis gott að vita að maður er elskaður, það gera það nú ekki allir.

sunnudagur, desember 04, 2005

Bara að grínast

ég er farinn að 'grínast' voðalega mikið. Ef ég segi eitthvað en skipti svo um skoðun þá 'var ég bara grínast'. Þægilegt eki satt?
Annars er þetta búin að vera góð helgi. Í gær fékk ég að fara í pössun, sem er ofsalega mikið sport. Ég fékk að fara til Auðar og Vigdísar og þangað kom Matthildur að passa okkur. Við fengum smá nammi og fengum að horfa á dvd og svo lékum við okkur og svo kom mamma að sækja mig í morgun. Núna er ég kominn heim og segist einmitt bara hafa verið að 'grínast' þegar ég sagðist vilja fara frá Auði og Vigdísi og nú vil ég fara þangað aftur. Stundum er erfitt að gera mér til geðs. Meðan mamma mín er að skrifa þetta er ég eitthvað að bardúsa frammi í eldhúsi, eitthvað að bjástra, og þarna kem ég fram með harðfiskpoka sem ég er búinn að opna og ætla að bjóða mömmu minni.
'Gullig' er orðið sem Svíarnir myndu nota um mig heldur mamma mín.

laugardagur, desember 03, 2005

gott minni og hreinskilni

Það er eitt sem mæður lítilla drengja þurfa að átta sig á 'allt sem þú segir getur og mun verða notað gegn þér'. Í morgun var ég - eins og venjulega - kominn framúr á undan mömmu minni sem var frekar sybbinn og þreytt. Nema hvað ég kom svo uppí til hennar aftur og var þá með ííííískaldar tær svo mamma sagði mér að fara í sokka. Ég nennti nú ekki að sækja þá sjálfur og bað mömmu að gera það. 'nei' sagði hún, 'þú sækir þá sjálfur'. 'En ég er alltaf að gera eitthvað fyrir þig' sagði ég þá. Mamma mín náði sumsé í sokka handa mér.
Annars drifum við mamma okkur svo út í Willy's og þar fékk ég að velja mér nammi í poka af því það var laugardagur. Svo fórum við í strætó niðrí bæ og löbbuðum svo í Gerdahallen þar sem mamma ætlaði í eróbikk.
Egill Orri: Mamma! af hverju þurfum við að fara í þína leikfimi?
Mamma: Af því að mamma þarf að fara í leikfimi, ég er búin að borða svo mikið nammi
Egill Orri: Af hverju verður maður þá að fara í leikfimi?
Mamma: Af því að annars verður maður bara feitur
Egill Orri: Já, þá verðurðu bara einhver feit mamma [eftir smá umhugsun] Þá verðurðu bara eins og pabbi!

föstudagur, desember 02, 2005

Föstudagsfjör

Mamma mín hefur nú lúmskt gaman af mér þegar ég byrja að babbla sænskuna mína, sem ég geri óspart þessa dagana. Henni brá nú reyndar soldið þegar ég byrjaði allt í einu á því í gær að tala íslenskuna mína með þessum líka syngjandi sænska hreim. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu né herma þetta eftir mér en þetta er frekar svona fyndið. Annars er ég svo 'himla' glaður á leikskólanum, vildi ekkert fara heim með mömmu minni í dag þegar hún kom að sækja mig. 'Nej nej nej mamma - jag vil inte gå hem' sagði ég og hljóp undir borð. En svo komu Auður og Vigdís og Hildur mamma þeirra í mat til okkar og við fengum pizzu og 'glass' og lékum okkur. Svo hringdu pabbi og Matti í mig og ég talaði við þá og pabbi þurfti að tala við báðar vinkonur mínar líka. Mér finnst nefnilega svo augljóst að þeir sem hringja í mig vilji tala við vini mína og er yfirleitt mjög duglegur að 'gefa þeim samband' þá og þegar svo ber undir.
Núna er klukkan að nálgast ellefu á föstudagskvöldi og ég er grútsybbinn inni í rúmi að berjast við að sofna ekki yfir Incredibles.
Ses i morgon!

fimmtudagur, desember 01, 2005

Utvecklingssamtal

mamma mín fór í foreldraviðtal í leikskólanum í gær. Jenni var ofsalega ánægð með mig og hafði fátt nema gott um mig að segja. Mömmu mína grunar að hún sé nú svolítið veik fyrir mér enda er ég náttúrulega ofsalegur sjarmör þegar ég vil vera það! En ég tala orðið rosa fína sænsku og Jenni sagði mömmu að allt gengi núna miklu betur þó ég ætti að vissulega til að vera soldið svona OF áhugasamur og tala helst til mikið (djííí hvaðan hef ég það) í hvíldinni. En svona heilt yfir var hún voðalega ánægð með mig og mamma mín var mjög stolt að eiga svona duglegan strák.
Í dag fékk ég loksins að opna fyrsta gluggann í hinu langþráða súkkulaðidagatali og þegar ég kom heim fékk ég óvæntan glaðning frá mömmu minni sem var annað dagatal, frá Lego í þetta sinn. Maður sumsé opnar einn glugga á dag og í honum er lítil legofígúra sem hægt er að hengja á jólatréð þegar maður er búinn að setja hana saman. Þetta fannst mér ofsalega fyndið og skemmtilegt. Nú svo töluðum við lengi við afa Hjört og ömmu Unni í símann í kvöld. Allt gott að frétta af þeim og ég hlakka voðalega mikið til að hitta þau eftir bara 16 daga. Þá ætla ég sko að gista á hótelinu hans afa og er búinn að velja mér herbergi nr. 107 en afi á eftir að velja sér herbergi, eins og ég sagði við hann í kvöld 'þá er aldrei að vita' hvaða herbergi hann velur sér.
Endilega kíkjið svo á myndabankann okkar mömmu og sjáið fínu myndirnar af mér og Leó sem voru teknar á sunnudaginn.