mánudagur, janúar 29, 2007

Þá stórt er spurt?

Í morgun var mamma mín að reyna að vekja mig í leikskólann. Ég hafði sko fengið að sofa í mömmu rúmi því hún og pabbi voru búin að vera svo lengi í útlöndum. Nema hvað þegar mamma er að reyna að ræsa mig þá muldra ég í svefnrofanum "en ég má jú vera í fríi í dag í leikskólanum". Ekki hélt mamma nú að það gengi upp því hún og pabbi þyrftu bæði að fara í vinnuna. Ég var nú ekki sáttur við þann ráðahag, settist upp og sagði ofurskýrt "ertu frá þér kona! ég hef ekki séð foreldra mína í marga daga!"

mánudagur, janúar 22, 2007

Það má alltaf reyna það

Það er ennþá smá barátta í mér að fá að skríða upp í til mömmu á nóttunni. Í gærkvöldi til dæmis var ég alls ekki á því að sofna í mínu rúmi og fannst í raun algjör óþarfi að fara að sofa yfirleitt. Varð mér, máli mínu til stuðnings, úti um armbandsúr og spurði svo "mamma! hvenær er nóttin búin?". "Kl. 8 í fyrramálið" var svarið enda er mér yfirleitt dröslað á lappir þá. "En klukkan er alveg að verða 8 í fyrramálið" sagði ég og benti á úrið góða. Já það má alltaf reyna það.
Mamma var samt hörð á því að taka þessi rök ekki gild og leiddi mig inn í rúm þar sem ég lagðist með semingi. "En mamma, ég er svo hræddur" - "ástin mín, það er ekkert að vera hræddur við, það er ljós frammi á gangi og bróðir þinn er hérna í neðri kojunni". "En ég er svo hræddur við sjálfan mig" -
er þá ekki fokið í flest?

föstudagur, janúar 19, 2007

Erfið orð

"Mamma! réttu mér skíðina mína" (skíðið mitt)

Æi svo erfið svona ný orð sem maður hefur aldrei einu sinni heyrt.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Sveitaferð

Um helgina fórum við fjölskyldan norður til Akureyrar að hitta Matta bróður minn. Það urðu nú aldeilis fagnaðarfundir þegar við hittumst og mikill æsingur yfir því að vera að fara í sveitina til Jóa. Við fengum auðvitað að fara í fjósið og sjá hvernig allt gengi fyrir sig þar. Ómissandi hjálparsveinar þar á ferð.
Á laugardeginum var svo ferðinni heitið í Hlíðarfjall og ég fékk að fara á skíði í fyrsta sinn. Vældi nú mikið yfir veðri (og aðallega vindum) og gafst fljótlega upp. Fannst þetta nú bara ekkert skemmtilegt og kunni ekkert að athafna mig með þessar "spýtur" á fótunum. Við mamma og Matti fórum því inn í skála og fengum okkur að borða meðan pabbi skíðaði með Halla og Mumma frændum mínum. En svo birti til og þá vildum við ólmir fara út aftur. Í þetta sinn gekk þetta nú frekar vel og við vorum orðnir býsna þornir að renna okkur einir. Sérstaklega Matti sem "var miklu betri en ég" að eigin sögn. Ég var nú ekki par hrifinn af því að litli bróðir væri betri í einhverju en ég en tók þeim rökum að maður þyrfti að æfa sig og að Matti væri búinn að fara í kennslu sem gæfi honum auðvitað forskot.
En á leiðinni heim náði ég mér niðrá honum þegar fjósamennskan barst í tal.
*****************
Egill Orri: Matti? Kannt þú að mjólka kýr?
Matti: Jahá!
Egill Orri: Nei þú kannt það ekkert, þú ert alltof lítill. Bara ég veit hvernig maður mjólkar. Maður togar bara í "spennurnar" sem eru undir kúnum. Men Jói getur ekki mjólkað 'áns' mín því það er svo erfitt. Nema bolann, því hann er bara með eina "spennu"!
*****************
Já ég læt nú Matta ekkert eiga neitt inni hjá mér!

laugardagur, janúar 06, 2007

Tiltekt

Í dag átti ég að taka til í herberginu mínu sem var vægast sagt í rúst. Bækur og bílar út um allt, föt og kubbar. Óumbúið rúm. Ég reyndi nú að malda í móinn yfir þessu en fékk þá að heyra að það yrði lítið um þrettándaflugelda á heimilinu ef ég ekki tæki til. Það var því lítið annað að gera en að hefjast handa. Ég var skotfljótur að þessu þegar upp var staðið en gæðin kannski eftir því. Þegar mamma fór að fara í skúffurnar mínar að leita að fötum fann hún nú ýmislegt lauslegt svosem parta úr bílabraut, skítuga boli og sápukúlubox. Svo þegar pabbi kom að athuga með tiltektina þá heyrðist í mér "er þetta ekki fínt hjá mér?" - "jú þetta er bara voða fínt ástin mín" svaraði pabbi. "Fæ ég þá einhver verðlaun fyrir þetta?" - "já nú færðu flugelda í kvöld" - "já ég var voða duglegur, allt sem ég fann ekki pláss fyrir henti ég bara undir rúm, HA pabbi!"
*************
Annars fór ég líka með mömmu minni í Húsgagnahöllina, þar fórum við Intersport þar sem ég var duglegur að opna inn í búningsklefa til mömmu meðan hún mátaði sundboli. Þar sem hún stóð á nærbuxunum og ég lá á gólfinu segi ég skyndilega "Mamma! Víst á Kertasníkir jólasveinn að snauta heim til sín í kvöld?" Þeir eru greinilega ekki eins vinsælir eftir að skógjöfinni lýkur blessaðir karlarnir

mánudagur, janúar 01, 2007

Rakettuóður

Það var erfitt að sjá hvort ég var æstari í gær eða á aðfangadagskvöld. Við bræðurnir áttum nú frekar erfitt með að hemja okkur og bíða eftir því að fara að skjóta rakettunum. Marteinn hafði farið með pabba á flugeldasöluna og þeir keyptu tertu sem hét Egill. Okkur fannst þetta nú frekar fyndið (aðallega Matta) - að ætla að fara að sprengja Egil í tætlur. Ég var alveg sérstaklega hjálpsamur, eiginlega svo mikið að mömmu var hætt að standa á sama.
Annars byrja ég á nýja leikskólanum á morgun og mamma mín heldur að það muni nú aðeins hjálpa til við að ná mér niðra jörðina eftir langa fjarveru frá skipulögðum leik og starfi. Ef ekki þá veit hún svei mér þá ekki hvað hún á af sér að gera, ég er nefnilega farin að reyna frekar mikið á þolrifin í henni og pabba. Það verða örugglega sagðar einhverjar skemmtilegar sögur af mér hérna á síðunni af nýja leikskólanum svo fylgist bara spennt með :)
Annars sendi ég mínar bestu nýárskveðjur til allra sem þetta lesa, vonandi eigið þið yndislegt ár 2007