mánudagur, nóvember 28, 2005

Sjálfsöryggi

Mamma mín er nú almennt séð frekar dugleg að segja mér að ég sé (þegar ég er það) duglegur og ég fæ yfirleitt að heyra frekar oft hvað ég sé sætur og góður og svoleiðis. Það eru nú samt farnar að renna tvær grímur á mömmu mína þessa dagana þegar ég er augljóslega farinn að taka þessu hrósi sem heilögum sannleik. Eftir klippinguna á föstudaginn hafa greinilega margir hrósað mér fyrir að vera orðinn sætur og því kom þessi setning á laugardaginn í kirkjuskólanum
Katrín: Nei, vaaaá Egill Orri, varstu í klippingu?
Egill Orri; JÁ ég VEIT ég VEIT, ég er rosaflottur!
Svo í íþróttaskólanum áðan þá var mamma mín að segja mér (ekki svosem í fyrsta sinn) að ég væri sætur og gerði það eins og oft áður með spurningunni...
Mamma: hver er sæti strákurinn minn?
Egill Orri: Ég, ég er rosalega sætur, ég veit það!
Hógværð? Er það ekki örugglega dyggð?
Áðan var svo auglýsing frá Finnair í sjónvarpinu, í henni er lítill hreindýrakálfur viðskila frá mömmu sinnni (teiknimynd sumsé) og auglýsingin gengur út að hann sjái 'stjörnu' á himni sem hann fylgir og ratar þannig til mömmu sinnar. 'stjarnan' reynist svo vera flugvél frá Finnair. Altjént, þetta finnst mér vera skemmtilegasta 'myndin' mín og ég hleyp til þegar ég heyri hana koma á skjáinn. Meira að segja í kvöld þegar ég var í baði dröslaðist ég upp úr því til að koma og sjá hana. Svo snéri ég mér að mömmu og sagði 'Mamma! svona flugvél förum við í heim til Íslands um jólin' 'Já' sagði mamma svo hljóp ég aftur inn á bað en snéri mér við í dyrunum og sagði 'Mamma, TAKK fyrir að muna að við ætlum heim til Íslands um jólin'
Annars fékk ég að fara heim til Birtu að leika mér eftir íþróttaskólann í dag og þegar ég var kominn heim var ég ósköp niðurlútur og sagðist ekkert eiga eins skemmtilegt dót og Birta, mitt dót væri svo leiðinlegt. Mamma mín benti mér á að jólin væru nú á næsta leiti og kannski fengi ég eitthvað skemmtilegt dót í jólagjöf ef ég væri þægur. Þá glaðnaði nú heldur betur yfir mér og sagði 'JAAAAAAAÁ, frá afa Hjört, hringjum í hann, hann gefur mér alltaf allt sem ég vil því ég er litli strákurinn hans'.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Sunnudagsbíltúr og jólaljós

Þetta er sko búinn að vera langur og góður dagur hjá okkur mömmu. Við byrjuðum á því að vakna snemma og drífa okkur í bíltúr til Höganäs sem er lítill bær hérna fyrir norðan Lund. Bærinn (eins og kannski augljóst er) er framleiðslubær 'Höganäs' matar- og kaffistellsins sem mamma mín er soldið mikið hrifin af. Allavegna, þar var ég ótrúlega góður og fannst mikið sport að liggja á undirvagninum í innkaupakerrunni og þykjast vera að synda. Eftir að við komum aftur heim (með viðkomu á MacDonald's og í IKEA að 'beila' út innkaupin frá því í gær) fór mamma að þrífa og baka súkkulaðiköku. Við fórum svo í bæinn með Leó og mömmu hans að skoða jólaljósin og skreytingarnar á göngugötunni og á torgunum tveimur, en í dag var 'Skyltsöndag' eins og Lundverjar kalla fyrsta sunnudag í aðventu því þá afhjúpa allar búðirnar jólaskreytingarnar sínar. Þetta var voðalega gaman og við fengum að fara í tívolí og fengum poppkorn og allt. Síðan fórum við heim og borðuðum súkkulaðiköku og mjólk og hlýjuðum okkur - það var sko frekar svona kalt í bænum -
En einn gullmoli datt út þegar mamma var að ryksuga frammi á gangi í dag. Mér fannst vera frekar mikill hávaði í henni og þessari ryksugu og var að reyna að horfa á sjónvarpið frammi í stofu. Ég gekk að millihurðinni fram á gang og skellti henni með orðunum 'Mamma! ég ætla að loka þessari hurð, ég vil horfa á myndina mína í fró og riði!'

laugardagur, nóvember 26, 2005

Kirkjuskólinn

Annan hvern laugardag fer ég í kirkjuskólann hérna í Lundi. Þar syng ég og leik mér með öllum hinum íslensku krökkunum. Mamma mín hafði keyrt Tómas og Ísabellu út á flugvöll ásamt foreldrum þeirra svo ég fór með Vigdísi og Auði vinkonum mínum í kirkjuskólann. Þegar mamma mætti svo á svæðið þá var ég ofsalega stoltur að gefa öllum piparkökur sem ég og mamma höfðum bakað og mamma var hálfhissa hvað ég var glaður - alveg í essinu mínu með piparkökuboxið. Venjulega fer ég nefnilega alveg í baklás við svona mikla athygli en ekki í dag. Mamma var auðvitað voðalega montin að eiga svona duglegan strák.
Svo fórum við mamma með Leó og Katrínu mömmu hans í IKEA og við fengum að fara í boltalandið. Eftir að við komum heim fór ég til Leós og við fórum út að leika okkur í snjónum. Þegar ég kom heim fékk ég púkanammi sem amma Gróa hafði sent mér. Mér fannst stórmerkilegt að þetta íslenska nammi skyldi hafa dúkkað upp í fjarveru minni. 'Mamma!' sagði ég hissa 'fórstu til Íslands meðan ég var hjá Leó?'.
Á morgun er svo fyrsti sunnudagur í aðventu og þá er alltaf mikið um að vera í miðbæ Lundar þegar allar búðirnar afhjúpa jólaskreytingarnar sínar. Við mamma förum örugglega í bæinn og ætlum svo kannski að bjóða einhverju góðu fólki í kaffi.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Klipping

ég fór í klippingu í dag, nokkuð sem var löööööngu kominn tími á. Það er skemmst frá því að segja að ég var til fyrirmyndar á hárgreiðslustofunni og sat alveg kjurr allan tímann. Það kann að hljóma sjálfsagt í eyru sumra en það hefur nú bara alls ekki alltaf verið svoleiðis. Til dæmis man móðir mín mjög vel eftir að hafa þurft að fara með mig hálfklipptan og sótillan út af hárgreiðslustofunni í Borgarnesi þegar ég var nú ekki á því að standa í þessu rugli lengur.
En sumsé þá er ég orðinn ennþá sætari en vanalega, ef það er nú einu sinni hægt. Hárgreiðslukonan sprautaði líka svona grænt hjarta með sérstöku hárlitaspreyi á mig eftir á, þetta fannst mér ótrúlega mikið sport og harðneitaði að láta á mig húfuna. Nú í verðlaun fyrir þessa frammistöðu fékk ég svo að fara í Jättekul leikfangabúðina og velja mér einn lítinn bíl og svo fórum við mamma á kaffihús niðrí bæ og höfðum það 'mysigt'.
Ég er orðinn voðalega góður í sænskunni og bæti upp með íslenskum orðum það sem ég man ekki þá stundina á sænsku. Út kemur svo agalega flott íslenska með sænskum hreim. Í strætó á leiðinni heim hlýddi mamma mér yfir orðaforðann.
Núna rétt í þessu þá bað mamma mín mig að sækja fyrir sig snúru inn í herbergi sem hún þurfti að nota í myndavélina. 'nei, ég get það ekki, ég er að horfa á sjónvarpið' var svarið. 'JÚ Egill Orri' sagði mamma 'ég geri oft eitthvað fyrir þig'
'Æi já, ég var búinn að gleyma því' sagði ég þá.
Myndin er af mér að borða uppáhaldið mitt, 'köttbullar' - nýklipptur núna í kvöld

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

No news is good news

Hvað get ég sagt. Það er bara ekkert að frétta af mér í dag. Dagurinn leið eins og hver annar. Ég er alsæll á leikskólanum, hleyp inn á morgnana og get ekki beðið eftir að hitta alla vini mína og fara að leika mér. Mathias er besti vinur minn en líka Birta og Katrín.
Eftir leikskóla fékk ég að horfa á Hróa Hött í litlu tölvunni minni og svo fór ég í laaaaaaaaangt bað. Mér er aftur farið að finnast gaman í baði og er að verða kominn með ALLT dótið mitt með mér í baðið. Hef sérstakt yndi af því að byggja hin ýmsu vopn sem móðir mín á að nota til að verja sig gegnt öllum ljótum köllum á svæðinu.
Mest um vert er þó auðvitað að ég er í einstaklega góðu jafnvægi þessa dagana. Ég er ofsalega glaður og hamingjusamur lítill drengur og hvers manns hugljúfi. Svo er ég líka bara svo þægur og meðfærilegur. Mamma mín er satt best að segja orðin pínulítið stressuð yfir því að þurfa að raska þessu jafnvægi með því að fara heim um jólin. :-(

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Grímuball


Síðasta föstudag (18.11) var grímuball á deildinni minni í leikskólanum. Þar sem ég er nú orðinn frekar ríkur af búningum gat ég alveg valið um hvað ég vildi vera en ákvað á endanum að vera pardusdýr. Ástæðan var sú að Birta vinkona mín átti eins búning og okkur fannst ótrúlega gaman að geta verið í eins búningum. Við þóttumst vera hjón og hér sést mynd af okkur með afkvæmið okkar. Við Birta erum samt sko búin að ákveða að við ætlum að gifta okkur þegar við verðum stór. Æi það er nú agalega gott að vera búin bara að koma þessu frá, þá þarf ég ekkert að hafa áhyggjur af þessu seinna.
Annars finnst mömmu minni ég sýna þess merki að vera soldið svona óvenjulegt barn. Í morgun þegar ég vaknaði þá byrjaði ég strax að suða um að fá að fara til tannlæknisins. Mamma mín reyndi að útskýra fyrir mér að maður þyrfti bara að fara einu sinni á ári til tannlæknis þegar maður er svona lítill, þess vegna færi ég ekki aftur fyrr en ég væri orðinn 5 ára. Mér fannst þetta nú fáránleg níska af tannlækninum og sá ekkert því til fyrirstöðu að ég fengi að fara fljótlega aftur. Þannig að so far hafa þessar tvær setningar komið út úr mér hérna í haust
1. En mig langar svo að læra dönsku
2. En ég vil fara til tannlæknis
Hvað er næst? Ég krefst þess að fá að taka til í herberginu mínu???

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Heimsókn til tannlæknisins

Ég var nú ekki beinlínis glaður þegar mamma mín vakti mig óvenjusnemma í morgun til að fara til ...... TANNLÆKNIS. Bjakk mér leist nú mátulega vel á það get ég sagt ykkur og mótmælti. Mótmælti meðan ég pissaði, mótmælti meðan ég var klæddur, mótmælti í gegnum allann morgunmatinn, mótmælti meðan ég fékk að horfa á morgunbarnatímann og var enn mótmælandi meðan mamma mín klæddi mig í skóna og setti mig í kerruna. Þegar við komum á Fäladstorget þá ætlaði ég nú aldeilis ekki að fara inn á tannlæknastofuna og þess þá heldur að fara með henni Malínu inn að skoða stofuna hennar. Jafnvel þó að mamma kæmi með. (hmmm skil ekki hvaðan hann hefur þessa hræðslu við tannlækna humm haaaaa! ég meina ekki eins og móðir hans eigi hræðilegar minningar frá heimsóknum á nákvæmlega sömu tannlæknastofuna á sama aldri, heimsóknir sem síðar lögðu grunninn að tugþúsunda tannréttingum heima á Íslandi!!)
En hvað um það, á endanum fór ég með mömmu minni inn og hún fékk að sitja með mig í stólnum meðan ég fékk að skoða öll flottu tækin hjá tannlækninum. Ég fékk meira að segja að ýta á takkann sem lætur sprautast vatn í plastmálið og ég fékk líka að fara í 'flugferð' í stólnum og hann fór ógisslega hátt! Tannlæknirinn taldi svo tennurnar í mér með svona fyndinni klóru og litlum spegli og svo málaði hún tennurnar mínar með svona skrítnu kremi sem var með bananabragði. Mér fannst þetta allt saman jätteroligt og vildi ekki fara heim. Sagði bara við tannlækninn 'ses i morgon' og fékk rosaflottan jeppalímmiða í verðlaun. Á endanum tókst nú mömmu að fá mig í gallann og af stað fórum við. Ég ætlaði sko að segja öllum á leikskólanum hvað ég var að gera og hvað ég var duglegur. Ég var svo spenntur að mamma ákvað að spyrja mig hvort ég vildi kannski bara verða tannlæknir þegar ég yrði stór. 'nei mamma, ég ætla að vera polis' svaraði ég. 'En tannlæknar eiga svo flotta svona stóla' benti mamma mér á. 'OKEI, ég verð þá tannlæknir' var svarið. Ooooh að ég tæki nú röksemdarfærslum móður minnar alltaf svona vel!

mánudagur, nóvember 21, 2005

Mamma lata

Humm ekki hefur hún móðir mín nú verið nógu dugleg að blogga síðustu daga. Það hefur nú svosem verið ósköp hversdagslegt lífið hjá okkur líka. Leikskóli, skóli, sjónvarp, bað, borða, sofa o.s.frv. Ég fékk reyndar að gista hjá Leó vini mínum á laugardagskvöldið, sem var auðvitað mjög mikið sport. Steinsofnaði strax og ég kom upp í rúm sagði mamma hans Leós mömmu minni - það væri nú notalegt ef ég gerði það sama heima hjá mér.
Svo kom Tómas í heimsókn til mín í gær og við fengum að fara með mömmu niðrá videoleigu í strætó og taka spólu(r) og horfðum svo á þær til við vorum orðnir rangeygðir. Æi þetta var nú bara svona þannig dagur, ógisslega kalt og svo kósí að liggja í mömmu rúmi með mandarínur og rúsínur og horfa á Hróa Hött. Hérna á myndinni má sjá hvað ég var orðinn sybbinn á öllu glápinu :)
Svo í gærkvöldi var ég inni í mömmu herbergi að skoða bækur en mamma mín var frammi að læra og horfa með öðru auganu á einhverja hálflélega ammríska bíómynd. Allt í einu heyrðust miklir byssuhvellir úr sjónvarpinu og ég kom hlaupandi fram. 'Hvað var þetta mamma?' sagði ég æstur. 'þetta var bara byssuhvellur í sjónvarpinu' sagði mamma mér
'en mamma, ég var búinn að byggja fyrir þig byssu úr legókubbum inni í herbergi, ef það koma aftur ljótir kallar og ætla að skjóta þig þá skaltu ná í hana og svo ýtirðu á takkann og PJANG og þá kemur eldur úr henni og fer í ljótu kallana og Ööööðððjjj þá detta þeir svona niður' sagði ég við mömmu mína. 'en mamma mamma' bætti ég við 'ekki nota byssuna nema í neyð'.

Haldiði að sé munur að hafa svona verndarengil?

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Bröltari

Loksins ætlar mamma mín að sækja mig á leikskólann í dag. Í gær fékk ég að fara með Auði og Vigdísi af því mamma var í skólanum til kl. næstum því hálfsjö og á mánudaginn fékk ég að fara með Tómasi í íþróttaskólann því mamma hafði farið með henni Hildi í Ullared. En sumsé núna kemur mamma mín að sækja mig og við gerum eitthvað kósí saman.
Annars er ég farin að fá að sofa í mömmu rúmi allar nætur núna og er búinn að yfirtaka það í grófum dráttum. Ég brölti og bylti mér svoleiðis að það er varla pláss fyrir mömmu mína sem hangir á rúmstokknum og reynir að halda í það litla af sænginni sem ég leyfi henni að hafa.
Svo tala ég óskaplega mikið upp úr svefni, mömmu minnst það að vísu frekar fyndið og sætt og það er greinilegt að ég skemmti mér konunglega en er ekki með martraðir og það skiptir nú mestu.

mánudagur, nóvember 14, 2005

Knúsilíus


Stundum er ég svo mikill knúsilíus að mamma mín veit varla hvað hún hefur gert til að eiga skilið svona mikil knús og ástarjátningar. Í dag sá ég reyndar mömmu mína ekkert svo mikið, sem gæti verið hluti af hinu mikla knúsi dagsins. Svo átti mamma mín reyndar líka afmæli sem kallaði á nokkra aukakossa og knús. Ég er svo mikill snúlli.
Nú er ég steinsofnaður í mömmu bóli eftir að hafa streist mikið á móti því að fara að sofa. Gerði smá prakkarastrik, mamma mín hafði farið að versla í dag og keypti m.a. jólapappír og borða. Anyway án þess að hún sæi náði ég í risaborðarúlluna og ákvað aðeins að klippa hana niður móður minni til mikillar gleði. Stundum er ég OF hjálpsamur.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Leikir

Enn ein helgin runnin sitt skeið. Eins og venjulega eyddi ég dágóðum tíma af henni í að leika mér við Leó vin minn. Þegar mamma kom að sækja mig í dag var ég Batman og hann Spiderman.... nema hvað. Ofsalega gaman. Leó fékk svo að koma heim til mín og við lékum okkur þar áfram í hetjuleik. Margbjörguðum mömmu minni frá ótal 'ljótum köllum' sem ellegar hefðu ráðist á hana með hörmulegum afleiðingum. Ég var nefnilega með 'skippjuna mína' (eða það sem í daglegu tali er kallð skikkja).
Annars tók ég þvílíku ástfóstri við þær Hrund og Eyrúnu vinkonur hennar mömmu meðan þær voru í heimsókn. Kjaftaði svoleiðis á mér hver tuska og mamma mín var ekki frá því að ég hefði sjarmað þær soldið með orðfiminni. Þær máttu sko alveg horfa með mér á allar myndirnar mínar og helst áttu þær að svæfa mig og fæða mig og leika við mig líka - allt hlutir sem mér finnast vera þvílík forréttindi fyrir aðra að njóta.

föstudagur, nóvember 11, 2005

Ammæli

Ég var svo heppinn að ég fékk að fara í afmæli til hennar Ísabellu í dag. Hún verður sko eins árs á morgun en afmælið var í dag. Nammi namm mér fannst nú ekki súkkulaðikakan með namminu neitt vond sko. En svo þegar Ísabella átti að blása á kertið þá ÚPPS gerði ég það nú bara alveg óvart. Tómas (stóri bróðir afmælisbarnsins) átti sko að fá að gera það og varð heldur betur sár. Ég leysti mögulegar skammir sem ég hefði getað fengið með því að vera fljótur að snúa mér að honum og segja 'Nú átt ÞÚ að blása Tómas!' Góður! Ekkert að láta slá mig út af laginu.
Nú er ég kominn heim og er að horfa á Hercules sem er mynd mánaðarins á Kämnärsvägen 5D.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

ástarjátningar

Þegar mamma mín vekur mig um kl. 11 á kvöldin til að láta mig pissa þá er ég oft obbosslega syfjaður og ringlaður. Mömmu minni finnst sérstaklega gaman að mér þá því það koma oft ansi skemmtilegar yfirlýsingar út úr mér á þessum tíma. Oftar en ekki eru þetta ástarjátningar á mömmu minni (sem henni finnast auðvitað sérstaklega skemmtilegar). Eins og t.d. í gærkvöldi þegar við komum fram á bað þá sagði ég:
'mamma! Ég elska þig'
'ég elska þig líka Egill Orri'
'ég elska þig ofsalega mikið, ég elska þig, ég elska þig hmmm ég elska þig 5 kíló!'
það er nú bara alveg heilmikið finnst mömmu minni.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Kröfuharður

Ég er svolítill harðstjóri það verður nú að segjast eins og er, svo á ég það til að vera frekar latur, neita að hjálpa mömmu minni þegar hún biður mig og svona. Í kvöld var frekar mikið að gera hjá okkur mömmu, samt aðallega mömmu minni. Hún var að elda, tala við Addý á MSN og skræla fyrir mig kiwi ávöxt. Þegar ég vildi svo að hún kæmi fram í stofu með ávaxtaskálina mína þá sagði hún mér að hún væri að elda og að hún gæti ekki gert allt í einu.

'En mamma, þú ert með tvær hendur!'

þannig að hvað er vandamálið?

Hræðsla við 'ljóta kalla'

Ég er alveg hreint ofboðslega hræddur við 'ljóta kalla' því verður ekki neitað. Ég harðneita að sofa í mínu herbergi (aleinn það er) og í gær þegar mamma mín ætlaði að taka á þessari 'óþekkt' þá bókstaflega trylltist ég úr hræðslu. Ég sat í fanginu á mömmu minni með ekka í amk. 20 mínútur á meðan ég var að jafna mig. Sofnaði svo í mömmu rúmi á innan við 5 mín.
Því verður ekki logið að mamma mín hefur nokkrar áhyggjur af þessari hræðslu. Hún skilur ekki alveg hvaðan hún er uppsprottin. Hún er búin að ræða við mig oft og mörgum sinnum og í nokkrum smáatriðum um þessa 'ljótu kalla' og reyna að fullvissa mig um að þeir komist alls ekki inn í íbúðina okkar en allt kemur fyrir ekki.
Þessi hræðsla lýsir sér líka í því að ég get helst ekki verið inni í öðru herbergi en mamma mín. Jafnvel um hábjartan dag en þó sérstaklega á kvöldin. Þá kalla ég fram á ca. 3 mín. fresti "mamma, hvar ertu?" eða "mamma, hvað ertu að gera?". Það eru engar ýkjur þegar mamma mín segir á 3 mín. fresti. Svo þegar mamma mín svarar mér "ég er frammi í stofu, eða ég er inni í eldhúsi" þá segi ég alltaf það sama "allt í lagi, ég elska þig mamma". Svo líða 3 mínútur og ég spyr aftur "mamma, hvar ertu?". Þetta er soldið lýjandi finnst mömmu minni en þó á sig leggjandi auðvitað ef mér líður betur. Samt væri eiginlega betra að fá við þessari hegðun einhverjar útskýringar eða ráð.
Sendið okkur línu ef þið hafið einhverja lausn.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Næturgestir

Jæja þá eru amma og afi farin aftur til Íslands. Ég var nú soldið leiður á flugvellinum í gær þegar ég þurfti að kveðja þau en ég sé þau nú fljótt aftur um jólin heima á Íslandi. Svo var líka komið að því að Leó kæmi í heimsókn. JÚHÚ! Ég var lengi búinn að bíða eftir þeim degi. En fyrst hittum við Halldór og Huldu úti á Kastrup þar sem við tókum við Hirti Snæ sem ætlaði líka að vera í pössun hjá okkur. Hann er nú algjört krútt hann Hjörtur Snær, obbosslegt rassgat eins og mamma mín myndi segja. Nema hvað mamma hafði gleymt gemsanum sínum heima í Lundi (of course) þannig að við gátum ekki náð í H&H í síma. Loksins fékk mamma það þjóðráð að hringja í tíkallasíma. "áttu bara tíkall mamma?" spurði ég hissa. Aumingja ég sem er fæddur á gemsaöldinni og hef aldrei heyrt minnst á svona gamaldagsmyntsíma. Með því að hringja fyrst í 118 og fá gemsanúmerin uppgefin náðum við loks í H&H sem voru komin út á Kastrup. Leituðum lengi að þeim úti á bílastæði en fundum ekki en þá sagði ég "mamma, ég sé bílinn þeirra"
"er það?'" sagði mamma "ekki ég". "Nei mamma en ég sé nú líka svo miklu betur en þú" svaraði ég um hæl.

föstudagur, nóvember 04, 2005

Amma og afi

Þá líður senn undir lok heimsóknin frá ömmu og afa. Það er náttúrulega búið að fordekra mig og spilla á allan mögulegan hátt en það er, heldur mamma mín, skilgreint hlutverk ömmu og afa svo að hún hefur reynt að stilla sig um að gera athugasemdir.
Auðvitað er búið að vera mikið fjör, búið að fara í marga feluleikina, bíló, kubbaleik og fleira. Auk þess sem farið var með mig í bíó á Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna. Þar sat ég nú skelfingu lostin í fangi ömmu minnar allann tímann en kom svo voðalega stórkallalegur heim til mömmu og sagðist hafa skemmt mér vel.
Á morgun fara svo amma og afi en þá kemur líka Hjörtur Snær frændi minn í heimsókn í pössun og líka Leó Ernir vinur minn sem ætlar að gista hjá mér. JÚHÚ eins og ég segi gjarnan þegar ég er glaður.

Akkúrat núna er ég á Sagostunden í söngstund með ÖLLUM heila leikskólanum og þá koma Leó og Tómas yfir á mína deild sem mér finnst mikið sport. Svo finnst mér líka svo gaman að syngja og er að læra fullt af nýjum sænskum lögum.
Annars er sænskan að koma alveg á fullu núna og frasarnir detta út úr mér alveg hægri vinstri.
"Nu kommer jag"
"Mamma! jag vil ochså inte ha bröd"
"Förlåt mig"
"Varsågoda, tack för maten"
Að auki finnst mér mamma nú ekki alveg vera með framburðinn á hreinu og leiðrétti hana í tíma og ótíma ef hún er að segja hlutina vitlaust. Það er nú soldið fyndið finnst mömmu minni.