föstudagur, október 31, 2008

Alþjóðlegi bangsadagurinn

Hann var reyndar á mánudaginn en er, vegna vetrarfrísins, haldinn hátíðlegur í Ártúnsskóla í dag. Ég tók hundinn góða með mér og þegar mamma kom niður í morgun var ég búinn að troða honum ofan í töskuna mína, samt þannig að hausinn stóð upp úr.
Mamma tók svo til nestið mitt og kom því töskuna. Ætlaði að því búnu að loka henni almennilega með því að troða bangsa greyinu alveg ofan í töskuna.
Þá leit ég við og sagði hneykslaður "Ertu frá þér kona, hann verður að geta andað!!" og bætti svo við "Já og honum má ekki verða kalt, honum verður kalt ef ég labba í skólann því hann er með hausinn upp úr. Þið pabbi verðið að keyra mig"

sunnudagur, október 19, 2008

Þegar mamma var lítil

Við mamma höfum verið í góðu yfirlæti á hótelinu hjá ömmu um helgina meðan pabbi og afi skruppu í jeppaferð inn í Jökulheima. Seinnipartinn í gær fórum við yfir í litla húsið hennar ömmu til að horfa á skrípó á cartoon network eða disney stöðinni (amma er sko með svona gervihnattasjónvarp).

Egill Orri: Mamma, fannst þér gaman að horfa á skrípó þegar þú varst lítil?
Mamma: Já já en það var samt ekkert voðalega mikið skrípó til þá. Bara nokkrar teiknimyndir og þær voru yfirleitt ekki á íslensku eins og núna.
Egill Orri: Var Ísland semsagt ekki til þegar þú varst lítil?

mánudagur, október 13, 2008

Hvað þarf maður að vera gamall til að vera gamall?

Egill Orri: Mamma, þegar ég eignast börn, verður þú þá gömul?
Mamma: Já, þá verð ég amman - en það er langt þangað til
Egill Orri: Hvað ertu núna gömu?
Mamma: 31 árs
Egill Orri: Þá er ekki langt þangað til þú verður gömul
Mamma: Nú? hvað er maður gamall til að vera gamall?
Egill Orri: (hugs) annað hvort 86 ára eða 100 ára eða 107 ára.

Þá vitum við það. There is hope for us yet.

þriðjudagur, október 07, 2008

Sjarmörinn ég

Ég er búinn að vera í viðtölum og prófum hjá sálfræðingi m.a. vegna rannsóknarverkefnis sem ég er að taka þátt í auk þess sem verið er að mæla hvort ég þjáist nokkuð af vott af athyglisbresti.
Nema hvað, sálfræðingurinn hringdi í mömmu í gær og spurðist fyrir um nokkra hluti og hafði þá orð á því við mömmu hvað ég væri hrikalega mikill sjarmör. Hún sagðist hafa fengið bros frá mér sem hefði bara yljað henni niðrí tær.
Iss Piss - eins og mamma mín hafi nú ekki vitað það :)

fimmtudagur, október 02, 2008

Maður fylgist nú með ...

Sagt við kvöldmatarborðið...

"Mamma, verður Glitnir bráðum Landsbankinn?" - (smá hugs) "En verður Landsbankinn Glitnir?"

Hvorugt hélt mamma mín.

"en það var sagt í fréttunum"

Mamma mín sagði mér að trúa fyrir alla muni ekki öllu sem sagt er í fréttunum ...