þriðjudagur, janúar 31, 2006

Dótabúð

Í dag kom Leó að leika og borða heima hjá mér eftir leikskóla. Mamma hans kom líka og svo pabbi hans. Fyrst var ég nú með smá stæla og var eitthvað að kvelja vin minn sem grét nú pínu undan mér en svo vorum við voðalega góðir. Eiginlega grunsamlega góðir. Þegar mamma mín fór að athuga hvað við vorum að bralla vorum við búnir að bera meirihlutann af dótinu mínu úr herberginu mínu og inn í fataherbergið okkar mömmu. Þegar mamma kom og sá þetta var hún nú heldur súr á svipinn og gerði sig líklega til að fara að skamma okkur 'En mamma! þetta er dótabúð'

mánudagur, janúar 30, 2006

Matargat og mótþróaseggur

Ég hef tekið upp á þeim ósiði að borða ekkert voðalega mikið í matmálstímum (lesist kvöldmatartímanum) en svo vera orðin voðalega svangur og væla um mat um það leyti sem ég á að fara að hátta. Græt þá jafnvel og stappa niður fótum og þegar það gengur ekki þá skrúfa ég frá sjarmanum og segi 'eeellllllllllllllsku mamma mín, ég er svoooooo svangur' etc. Þetta finnst mömmu minni mjög fyndið en gefur sig ekki. Fær loksins tækifæri til að nota setninguna/arnar sem pabbi hennar (semsagt afi Hjörtur) notaði óspart þegar hún var lítil sem var 'ef þú vilt þetta ekki þá ertu ekki svöng' OG 'það var matartími áðan, þú hefðir betur borðað þá'. Mér líka ekki þessi svör en í kvöld örlaði þó fyrir uppgjöf af minni hálfu og málið dó hljóðlega út.
----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----
Annars var ég að leika mér rólega inni í herberginu mínu í kvöld, sumsé á milli matar- og háttatíma. Þegar mamma mín sagði mér að það væri kominn tími á tannburstun sagði ég henni að ég ætlaði bara aðeins að taka til. Það væri nefnilega lítið drasl inni hjá mér (þetta er sumsé dæmi um sænskuáhrif. Að eitthvað sé lítið skítugt þýðir að það sé svolítið skítugt). Hvað um það ég var að taka til Bamse spilið mitt þegar ég spurði 'Mamma, af hverju gafstu mér þetta Bamse spil?' og mamma sagði mér að Maj-Britt hefði gefið mér það. 'Maj-Britt!?' hváði ég og hugsaði mig um smástund og bætti svo við 'Jaaaaaaá - Maja skvísa, skvísa rísa og skutla putla' og hélt svo áfram að raða spilinu.
----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----- ----
Í gær fór ég til frænda minna í Danmörku, þeirra Olivers og Benjamíns. Fyrst var ég ofsalega feiminn og stóð úti á stétt í ca. 10 mín áður en ég fékkst til að koma inn í húsið. Eftir það tók líka góða stund að fá mig til að fara upp og leika við þá. En (eins og alltaf þegar ég tek mótþróann á hlutina) skemmti ég mér voðalega vel og við lékum okkur svo vel saman. Smá eltingarleikur við Benjamín en ekkert sem húsið þoldi ekki vel. Ég sagði mömmu að ég vildi fara fljótt aftur til þeirra í heimsókn. Kannski koma þeir líka einhvern tíma að heimsækja mig.

laugardagur, janúar 28, 2006

Laaaaangur leikdagur

Í gærkvöldi vorum var ég í heimsókn hjá Leó laaaaaaaaaaaangt fram eftir kvöldi. Komum þangað kl 17 og ég ætlaði að fara að leika og mamma ætlaði bara að kíkja inn í 5 mín en einhvern veginn ílengdumst við þar til að verða hálftólf. Svona er þetta þegar mömmurnar okkar lenda á kjaftatörn. Við Leó vorum alsælir með þetta og lékum okkur eins og ljós. Margskiptum um búninga og vorum Batman og Spiderman og Bósi Ljósár og Ninja Turtles svona svo eitthvað sé upp talið. Á tímabili vorum við komnir með allmikið af dóti fram á stofugólf eða eiginlega svona í gangveginn inn í stofu og mamma hans Leós var nú ekki alveg nógu ánægð með það og vildi að við færum með þetta aftur inn í herbergi. Þetta fannst Leó mjög fúlt og vildi mótmæla en ég (sem er náttúrulega heilum 2 mán. eldri) tók að mér að tala hann til. 'Leó! þú verður alltaf að taka til eftir þig. Alltaf þegar mamma mín segir mér að "plocka undan" þá geri ég það ALLTAF'. Mömmu fannst þessi nú nokkuð góður þó hún hafi ekkert hankað mig á lyginni. Ég er nefnilega MJÖG latur að "plocka undan" heima hjá mér en þeim mun duglegri að því í leikskólanum og á annarra manna heimilum. Kl. 11 vorum við orðnir ringlaðir og rangeygðir af þreytu en samt þurfti mamma að berjast við að koma mér í fötin og fá mig heim. Voðalega þreytandi finnst mömmu minni en ég hélt því fram að ég væri EKKERT þreyttur. Þegar við komum heim fannst mér nú samt mjög notalegt að leggjast í rúmið mitt og var sofnaður á augabragði. Í dag er svo laugardagur og það þýðir bara eitt í mínum huga - NAMMIDAGUR - jaaahúúúú þá fæ ég að fara með mömmu í Willy's eða á videoleiguna og velja mér bland í poka og kannski ef ég er góður, taka mér spólu. Það er nú frekar áhyggjulaust líf að vera 4 ára!

föstudagur, janúar 27, 2006

Giftingarhugleiðingar

'Mamma!' heyrðist frá mér við morgunverðarborðið í morgun. 'Mamma, hverjum viltu giftast?' spurði ég sakleysislega um leið og ég mokaði upp í mig Cheeriosinu. Það stóð soldið í mömmu minni en henni tókst að svara fyrir rest að hún hefði nú bara ekkert hugleitt það neitt mikið. 'Ætlarðu aldrei að giftast?' spurði ég þá. 'Ég bara veit það ekki ástin mín' svaraði mamma 'Mér finnst nú bara voðalega kósi að hafa okkur bara svona tvö saman' bætti hún svo við. 'Já' samþykkti ég sannfærður 'þú skalt ekkert vera að giftast elskan mín - bjakk giftast er bara fyrir bjána' bætti ég svo við og hélt áfram að borða Cheeriosið mitt.
Annars var Leó í heimsókn í gær og mamma mín var svo góð að gefa okkur svona ávaxta'nammi' sem við höfðum keypt í Boston í sumar (innsk. hafið ekki áhyggjur, með rotvarnarefnunum sem í þessu voru var þetta mjúkt og 'ferskt' til amk 2010) Leó var alveg hissa, hafði aldrei fengið svona áður og spurði hvað þetta væri. 'Ávaxtanammi' svaraði mamma mín 'ávaxtaNAMMI' kallaði hann upp yfir sig himinglaður. 'Já' sagði ég þá 'Það er svo margt í tísku í dag'

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Úrilli strákurinn

Ég var hvorki alandi né ferjandi í gær - hvorki í leikskólanum né heima hjá mér eftir hann - mamma mín hallast að því að ég hafi bara verið svona óskaplega þreyttur. Amk sofnaði ég fyrir klukkan 8 í gærkvöldi og vaknaði í þessu líka fína skapi í morgun. Lyfti upp náttfatatreyjunni minni svo skein í beran magann lagðist ofan á andlitið á sofandi móður minni og spurði hátt og snjallt 'Mamma! hlustaðu hvað mallinn vill í morgunmat'. Móðir mín vissi ekki alveg hvaðan sig stóð á veðrið og var ekkert of hress með þessa vakningaraðferð en giskaði fyrir rest á hafragraut með rúsínum. Nei ekki var'ða það sem maginn var að segja. 'Giskaðu aftur' sagði ég og fannst þetta allt hið fyndnasta mál 'Hrærð egg með tómatsósu?' skaut mamma á og hafði rétt fyrir sér í þetta sinn. Svo linnti ég ekki látunum fyrr en ég fékk 'eftirrétt' eftir morgunmatinn sem var kaldur jarðaberjagrautur með mjólk. Ég hef ískyggilega matarlyst þessa dagana
Akkúrat núna er Leó vinur minni heimsókn og við erum að horfa á Ævintýri í Andabæ og erum búnir að innbyrða 2 appelsínum, 2 perum (á mann) einu epli og einum banana. Mamma hefur sko ekki undan þessa dagana að bera ávextina heim úr Willy's. Samt skárri kostur en væl um sælgæti ekki satt?
Annars skein sólin glatt hérna í Lundi í dag og snjórinn er hratt að breytast í slabb og drullu. Ég fór nú samt á snjóþotunni í leikskólann í morgun og heimtaði að láta draga mig eftir berum göngustígnum þrátt fyrir aðvaranir móður minnar um að þetta myndi skemma hana. Ég hef yfirleitt frekar ákveðnar skoðanir á hlutunum en það kemur fyrir að ég 'kaupi' röksemdarfærslur móður minnar - ekki oft en það kemur fyrir :)

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Næturbrölt

Ég er nú orðinn nokkuð duglegur að sofna í mínu eigin rúmi en kem auðvitað alltaf upp í mömmu minnar þegar líða tekur á nóttina. Í nótt var ég nú samt í óvenjugóðu stuði þegar ég kom til mömmu minnar. Bylti mér og brölti en settist loks upp og sagði 'Mamma, eigum við ekki bara að spjalla soldið saman?'.
Ég fékk engar undirtektir við þessari uppástungu. Stundum er mamma mín svo sybbin svona á nóttunni.

mánudagur, janúar 23, 2006

Pjakkastand

Þá er helgin búin og grámyglulegur mánudagur tekin við. Reyndar finnst mér það ekkert verra því mér finnst svo óskaplega gaman á leikskólanum mínum. Í dag fengum við meira að segja að fara í labbitúr út í Humlebo-backen og renna okkur á þoturössum. Ekki leiddist mér það nú mikið. Við Leó fórum sko þangað líka í gær með mömmu hans og pabba meðan mamma mín fór í eróbikk. Þannig að ég var sumsé í hálfgerðri pössun hjá Leó á meðan. Nema hvað við vorum fyrst smá stund inni að leika okkur og svo þegar við vorum að fara út þá vorum við klæddir fyrst og okkur leyft að leika okkur úti á meðan foreldrar hans Leós voru að klæða sig.
Hmmm þegar þau komu svo út vorum við búnir að troðfylla póstkassa nágrannans af snjó og vorum að gera okkur reiðubúna að taka til við næsta kassa. Soldnir grallarar sko þegar okkur dettur í hug að vera það.
Núna er sumsé mánudagskvöld og ég er aaaaaaaaaaaaaaaaalsæll að borða bjúgu sem mamma mín flutti með okkur frá Íslandi. Mömmu minni finnst bjúgu ekkert sérstaklega góð - eiginlega finnst henni þau bara vera svakalega vond. Þannig að hún áttaði sig á því skyndilega að hún kunni bara ekkert að gera hvíta sósu og hringdi þess vegna í ömmu Gróu og fékk smá leiðbeiningar. Tilraun eitt mistókst vægast sagt en tilraun tvö er ég að slafra í mig með bestu lyst í þessum rituðum orðum en það er greinilegt að mér finnast kartöflur ekki góðar, ekki einu sinni dulbúnar í hvítri dísætri sósu.

laugardagur, janúar 21, 2006

Brekkufjör og fl.

Ég fékk nýja snjóþotu, aðallega held ég vegna þess að mamma mín var rosalega þreytt og sveitt að drösla mér í kirkjuskólann í kerrunni í öllum snjónum. Við fórum með Leó og mömmu hans og fórum í heilar 3 búðir áður en við fundum snjóþotu í BR leksaker. Eftir það fengum við svo að fara út á Humlebo-backen að renna okkur á fullu. Fyrst vildi ég nú alls ekki renna mér einn og mamma mín þurfti að koma með mér. Það endaði náttúrulega með því að hún hentist á andlitið beint í snjóinn og við hlógum öll voða mikið. Svo fékkst ég nú til að fara einn (eiginlega meira mamma sem ýtti mér af stað) og þá fannst mér það auðvitað ofboðslega gaman og vildi ekki hætta. Ég og Leó ætlum sko að fara aftur á morgun að renna okkur.
Annars var kirkjuskóli í dag og mamma mín (gleymnasta kona í heimi) hélt endilega að hann byrjaði kl. hálftólf og sat hin rólegasta heima og horfði á gestina streyma í skírn litla danaprinsins í beinni á DR2. Þegar prinsinnn birtist loksins ásamt foreldrum sínum fór mamma að segja mér frá því þegar ég var skírður. Þá var ég líka svona lítill, (meira að segja minni) og var líka í svona kjól með húfu.
'Já!' sagði ég þá 'og ég var alveg brjálaður af því ég vildi ekki vera í svona kjól'
'Nei' sagði mamma þá. 'Þú varst nú bara voðalega góður, grést bara pínulítið'
'Já' sagði ég þá 'en voru ekki afi Villi og afi Hjörtur þá þarna uppi?' (við skírnarfontinn sumsé)
'Jú jú' sagði mamma 'það voru allir þar, afar þínir báðir og ömmurnar og mamma og pabbi'
'Ooooog' sagði ég svo
'Og hvað?' spurði mamm
'Nú hvað hét ég?' sagði ég hneykslaður
'Nú auðvitað Egill Orri' svaraði mamma
'En hvað hét Leó þegar hann var lítill í kjól?'
'Hann hét Leó Ernir' svaraði mamma og skildi hvað þetta var að fara
'Jaaaá' sagði ég íhugull 'alveg eins og hann heitir núna - áhugavert'.
Annars er mamma búin að setja inn myndir frá jólum og janúar inn á myndaalbúmið okkar!

föstudagur, janúar 20, 2006

Mannvonska


Mamma mín heldur áfram mannvonskunni að láta mig sofa (eða amk sofna) í mínu rúmi. Mér finnst þetta bara ekkert skemmtilegt. Ekki einu sinni heimsókn frá Leó og pizza í kvöldmat gátu leitt huga minn frá því að þegar kæmi að háttatíma þá væru mér þau örlög búin að þurfa að sofna í mínu rúmi.
En viti menn, svona var ég friðsæll þegar mamma mín kom til að segja mér að það væri kominn tími til að slökkva á Glanna Glæp & Latabæ. STEINSOFNAÐUR, mamma mín gat ekki stillt sig um að smella einni mynd af mér.
Annars sagði ég við mömmu mína í dag:
Egill Orri: 'Mamma, af hverju viltu alltaf gefa mér ávexti þegar ég kem heim úr leikskólanum'
Mamma: 'Af því að þú biður alltaf um þá og þeir eru líka svo hollir'
Egill Orri: 'En líka af því þú ert svo mikið krútt!?'
Mömmu minni fannst nú bara soldið gaman að vera kölluð krútt :-)

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Að sofa í eigin rúmi

Þvílík örlög!
Í gærkvöldi setti mamma mér fótinn fyrir dyrnar og neyddi mig til að sofa í mínu eigin rúmi, í mínu EIGIN herbergi. ÚFF. Sama hvað ég reyndi og reyndi að snúa mig út úr því með upplognum sögum um rottur og mýs sem klifruðu inn um póstlúguna, um drauga sem smeygðu sér inn um gluggana og ljóta kalla sem héngu fyrir utan dyrnar þá kom allt fyrir ekki, í eigin rúmi skyldi ég sofa. Ég grét og grét (alvöru tárum meira að segja) en harðbrjósta móðir mín gaf sig ekki en lagðist þó með mér til svefns og svæfði mig - þó það tæki nú tímann sinn.
nema hvað um kl. 22:00 var sigurinn unninn (hjá mömmu það er) og ég í fastasvefni. Mamma gerði eins og hún hafði lofað og kveikti á litla næturljósinu mínu þó að henni fyndist það (eins og sönnum svía sæmir) illa farið með rafmagnið.
Kl. 01:00 heyrði mamma, sem var komin inn í rúm líka, tipl í litlum fótum sem nálguðust svefnherbergið hennar. Ég var kominn á kreik og skriðinn upp í mömmuból, aaah þar var nú kósí að vera. Þegar mamma mín spurði mig hvað ég væri að gera þá svaraði ég:
'SKO mamma þegar litlir strákar eru látnir sofna í sínum rúmum þá, þegar þeir vakna um dimmanótt, koma þeir alltaf bara upp í mömmu sinnnar rúm - Svona er ástandið'
Og við það sat og ég fékk að sofa restina af nóttinni í mömmu minnar rúmi.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Hneykslaður

Í dag þegar ég kom heim úr leikskólanum með mömmu þá var sá ég / heyrði að það var kveikt á sjónvarpinu frammi í stofu. Ég var nú aldeilis hissa og spurði mömmu hverju þetta sætti. Mamma sagðist hafa verið svo mikið að flýta sér að koma að sækja mig að hún hefði ekki munað eftir að slökkva á sjónvarpinu. Svo hefði hún meira segja þurft að snúa við á miðri leið til að ná í ruslapokann sem lá frammi í forstofu og var byrjaður að leka og átti á hættu að fara að lykta illa.
'Gleymdirðu pokanum mamma!?' sagði ég þá hissa.
'Já' sagði mamma.
'Mamma, af hverju ertu svona vitlaus?' sagði ég þá yfir mig hneykslaður.

þriðjudagur, janúar 17, 2006

Fagnaðarfundir

Það urðu nu heldur betur fagnaðarfundir í leikskólanum í gær þegar bæði Mathias (sem hafði verið lasinn i viku) OG Leó Ernir komu aftur á leikskólann. Mamma mín mætti pabba hans Leós fyrir utan leikskólann og hann sagði mér að ég hefði nú bara sleppt öllu sem ég var að leika með og hlaupið þvert yfir garðinn þegar ég sá Leó koma. Gaf honum stórt knús, stórt stórt knús. Eftir leikskóla var svo íþróttaskóli og það var nú aldeilis gott fyrir svona orkubolta eins og mig að komast til að hlaupa og hamast. Leó var líka þar og allir hinir íslensku vinir mínir. Svo fékk Leó auðvitað að koma í heimsókn til mín og ég sýndi honum allt fína nýja Legoið mitt og við lékum okkur eins og englar inni í herbergi. Það var svo gaman að Leó var nú aldeilis ekki tilbúinn að fara heim þegar pabbi hans kom að sækja hann.
Æi ég er nú ósköp glaður að vera kominn heim til mín aftur.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Helgin á enda

og ég fæ að fara á leikskólann OG íþróttaskólann á morgun. Jibbí! Ég er búinn að suða um að fá að fara á leikskólann alla helgina sko. Sem er náttúrulega dásamlegt finnst mömmu minni, að mér finnist svona gaman að vera kominn aftur heim.
Það er nú samt búið að vera voðalegt brölt á mér í dag. Fór með mömmu og Siggu Dóru í Nova Lund í dag, nokkuð sem mér finnst nú ekki beint skemmtilegt og mamma mín VEIT það alveg. Byrjaði að suða um að fara heim mínútuna sem við stigum inn úr kuldanum. Þegar það gekk ekki byrjaði ég að suða um að fá að fara á McDonald's. Sigga Dóra sá aumur á mér eftir búð nr. 3 og bauð mér upp á Nuggets og franskar. Ég var frekar sáttur. Ekki spillti nú fyrir að mamma mín lék sér í Lego við mig í heila 3 klukkutíma þegar við komum heim og fékk nú heldur betur knús og ástarorð fyrir. Mér finnst nefnilega svo gaman í Lego. Mamma sagði mér meira að segja að hún vilji fara með mig í Legoland einhvern tíma þegar fer að hlýna og vora. Mamma mín fór sko þangað fyrir heilum 25 árum og fannst það alveg ofsalega gaman. Ég er nú soldið heppinn strákur að fá að gera svona margt skemmtilegt. :-)

laugardagur, janúar 14, 2006

Legoleikur

Ég fékk rosalega mikið af flottu lego-i í jólagjöf. Meðal annars var þar stór slökkvistöð með stórum brunaturni, brunabíl og bílskúr frá Ingu frænku í London. Mamma mín lét mig bíða með að opna þetta þangað til hérna í Lundi og í dag sátum við og mamma setti þetta saman fyrir mig - LOKSINS. Ég er búinn að vera ótrúlega duglegur að leika mér með þetta í allan dag. Hef setið inni í herberginu mínu (sem í sjálfu sér er ótrúlegt afrek) og leikið mér nánast í allan heila dag. Mömmu minni finnst verst að hafa gleymt videoupptökuvélinni heima á Íslandi því það hefði nú heldur en ekki verið gaman að ná af mér myndum í dag þar sem ég sat og talaði við sjálfan mig í leiknum
'Óneeeeeei, ég er að detta af þessum turni'
'Nei ekki hafa áhyggjur, ég bjarga þér, bíddu ég kem á stóra bílnum og keyri upp turninn og bjarga þér'
'Ó takk þú ert besti vinur minn' og svo framvegis.
Inn á milli datt ég meira að segja í smá söng, hjartfólgin innlifun á minni útgáfu af 'Daginn í dag, daginn í dag gerði Drottinn Guð'.
Þegar mamma kom svo til mín um kl. 4 og ætlaði að klæða mig til að fara niðrí bæ að sækja Siggu Dóru sem var að koma í heimsókn þá leist mér nú ekkert á að ætla að skilja dýrðina eftir á gólfinu í herberginu mínu (en þetta dót er mjög viðkvæmt fyrir tilfærslum og mamma hefur þurft að endurbyggja þetta nokkrum sinnum í dag) .
Egill Orri: En mamma, þetta má ekki vera eftir á gólfinu
Mamma: En ástin mín, þú vilt leika með þetta þegar þú kemur heim svo það er betra að færa þetta ekki
Egill Orri: En það geta þjófar náð þessu ef þetta er á gólfinu
Mamma: Hvaða þjófar ástin mín
Egill Orri: Bara einhverjir svona litlir þjófar sem geta náð þessu ef þetta er á gólfinu
Mamma: Hvaða litlu þjófar eru það kallinn minn
Egill Orri: Litlir þjófar sem stóru ljótu kallarnir eru búnir að fæða
Þá veit maður hvernig þjófar verða til!

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Sagostunden ..... loksins

Það var nú ósköp glaður lítill snáði sem fékk LOKSINS að fara á leikskólann sinn í gærmorgun. Ég var svo spenntur að ég vaknaði fyrir kl. 7 og tilkynnti mömmu minni að ég væri að fara í leikskólann. Reyndar voru það pínulítil vonbrigði að Mathias, besti sænski vinur minn, var veikur svo hann var ekki á staðnum. En það kom ekki að sök, ég skemmti mér ofsalega vel með öllum hinum vinum mínum og ekki leiddist mér að sjá hana Jenny mína heldur.
Eftir leikskóla kom ég heim og fékk að horfa á Dýrin í Hálsaskógi meðan mamma mín eldaði matinn - mér finnast þau alveg hreint svaðalega skemmtileg og er að verða búinn að læra alla söngtextana utan að. Mömmu minni fannst fyndið að heyra mig öðru hverju reka upp innilega hláturroku og stóðst ekki mátið að taka sér pínu frí frá lestrinum og skríða upp í til mín og horfa með mér smá stund. 'Mamma!' sagði ég þá 'Við erum að hafa það mysigt' (ísl: notalegt)

þriðjudagur, janúar 10, 2006

Heja Sverige

Jæja þá erum við mamma loksins komin aftur til Lundar eftir rúmlega þriggja vikna dvöl á Íslandi. Mér hefur verið rækilega og algjörlega spillt af ... tjaa öllum sem ég þekki nánast og háttatími og sælgætisbann er eitthvað sem mamma mín man óljóst eftir að hafa framfylgt í Svíþjóð fyrir jólin. Nú taka við harðari tímar enda heldur mamma mín að ég þrái nú soldið að komast í rútínuna mína aftur. Ég bað amk afar fallega um það í dag að fá að fara á Sagostunden og lagði mig allan fram við að rökstyðja mál mitt. Þegar það hvorki gekk né rak þá sagði ég í örvæntingafullri lokatilraun 'Mamma! viltu að ég biðji þig fallega?' - 'Er það það sem þú vilt?'
Það er ekkert verið að splæsa því sem ekki er þörf á!
Annars vil ég líka nota tækifærið og óska öllum sem kunna að fylgjast með mér hérna á netinu árs og friðar
Kær kveðja
Egill Orri