miðvikudagur, maí 31, 2006

Upptekinn

Mamma mín bara bókstaflega sér mig ekki þessa dagana. Eftir leikskóla fer ég beint út að leika mér og kem ekki aftur inn nema nauðugur viljugur dreginn inn í mat. Þetta er auðvitað stórgott mál bara, að það sé svona gott veður og ég svona glaður og eigi svona marga vini.
Svona í ljósi fréttaleysis dúllaði mamma mín sér við að skella inn nokkrum myndum frá því pabbi minn var í heimsókn og síðan við mamma fórum í Lególand með Leó og Katrínu. Hvort tveggja sem og eitt 'nýtt' myndband má finna á þessari slóð.
Njótið vel!

mánudagur, maí 29, 2006

Þolinmæðin brestur stundum

Æi æi hvað ég verð nú fegin núna þegar mamma mín er aaaaaaaaaalveg að verða komin í sumarfrí og getur farið að sinna mér, litla stráknum sínum aðeins betur. Það verður nú að segjast eins og er að ég er búinn að vera hreint ótrúlega duglegur þetta árið meðan mamma mín hefur varla haft neinn tíma fyrir mig (að henni og mér finnst) og þjökuð endalausu samviskubiti yfir því að annað hvort a) vera ekki góð móðir eða b) vera ekki að læra. En nú verður breyting á. Júní er á næsta leiti og þá skal ýmislegt skemmtilegt tekið sér fyrir hendur, tala nú ekki um ef sólin skyldi einhvern tíma láta sjá sig í Lundi aftur.

sunnudagur, maí 28, 2006

Fróðleiksfús

Í gær í dótabúðinni keypti mamma mín handa mér ofsalega flotta stafabók með Bubba Byggi. Þetta er svona bók sem hjálpar manni að læra stafina og er með alls konar æfingum og flottum límmiðum til að líma á rétta staði (of stafi) í bókinni. Mér finnst hún alveg rosalega flott og byrjaði kl. 8 í morgun að reyna að sannfæra móður mína um að nú væri góður tími til að fara að 'læra'. Hún var nú ekki alveg á því, enda bullandi kvefuð og geðvond eftir því, en núna er kl. hálfellefu og ég sit hérna á gólfinu og er að æfa mig að skrifa stafrófið. Ofsalega duglegur og ofsalega glaður. Ég held að vísu að allir stafir heiti G (nema minn stafur) en við mamma ætlum að vinna að því að læra stafsrófslagið og þá leiðréttist nú sá misskilningur.
Í dag er svokölluð grenjandi rigning í Lundi svo það er líklegt að það verði ekki mikið farið út. Við höfum það frekar bara kósí hérna heima mæðginin.

laugardagur, maí 27, 2006

Ekkert að frétta?

Jú jú jú jú það hefur verið nóg að gera hjá mér svosem. Af samtali Jennýjar, fóstrunnar minnar, við mömmu er það helst að frétta að ég er ofsalega góður og duglegur strákur. Vinsæll af öllum krökkunum á deildinni því ég er einn af þeim sem leik mér við alla og fer ekkert í manngreinaálit. Það kom nú svosem ekkert fram í þessu samtali sem kom móður minni neitt sérstaklega á óvart. Hún þekkir nú sinn mann. En í sem stystu máli þrífst ég ofsalega vel og er glaður og góður lítill strákur.
Nú á fimmtudaginn var Uppstigningadagur hér sem annars staðar á kristnu bóli. Þá var að sjálfsögðu frí og við mamma notuðum hann til að hjálpa mömmu og pabba hans Leó að flytja úr 9-unni niðrí 3-u. Leó er sem sagt fluttur miklu nær mér sem er nú aldeilis frábært eins og sá dagur og gærdagurinn sýndu glögglega. Við lékum okkur allann daginn báða dagana og finnst þetta mjög mikið sport. Getum vinkað hvor öðrum í gegnum stofugluggana hjá okkur.
Í dag er ég líka búinn að vera úti að leika í allann dag enda skein sólin skært. Fór aðeins með mömmu í "Kringluna" að kaupa afmælisgjöf handa honum Matta bróður mínum sem á afmæli í næstu viku. "Han fyller faktiskt fyra år" sagði ég afgreiðslumanninum í óspurðum fréttum. Mér leiðist ekkert sérstaklega að fara í dótabúðina.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Utvecklingssamtal

Í fyrramálið er mamma mín að fara í utvecklingssamtal í leikskólanum. Þar ræðir hópstjórinn minn hún Jenny um það hvernig ég er að þrífast í leikskólanum og svona. Það verður nú eiginlega soldið fróðlegt að heyra hvað hún segir. Ég á það til að vera soldið svona uppátektarsamur í leikskólanum nefnilega. Eins og til dæmis þegar:
* Ég skreið undir borð með Calle og hvatti hann til að klippa á sér hárið (sem hann gerði!)
* Ég stakk mér til sunds í stóra drullupollinum í skógarferðinni
* Ég sagði Cissi blákalt að mamma mín segði að það væri allt í lagi að 'lura' (ljúga/plata)
En málið er, sem ég veit nefnilega, að hún Jenny er soldið veik fyrir mér. Því þegar ég vil þá er ég svo mikið sjarmatröll að það er ekki hægt að standast mig.

sunnudagur, maí 21, 2006

Harður sannleikurinn og skrúðganga

Í dag vorum við mamma að fara niðrí bæ að sjá Karneval-skrúðgönguna. Ég vildi fá að fara út að leika mér þar til við færum en þar sem mamma var búin að láta mig í 'skárri fötin' vildi hún síður að ég gerði það.
Egill Orri: GERRRRÐU það mamma má ég fara út, bara smááááástund meðan þú ert að gera þig fína
Mamma: En ég ætla ekkert að gera mig meira fína en þetta
Egill Orri [vonsvikinn]: Júúúúúú, annars verðurðu ekkert sæt. Þú ert svo sæt með svona bleikar varir og þú ert jú ekki með neinar bleikar varir svo þú verður að gera þær bleikar - förstår du?
*****
En í skrúðgöngunni sáum við nú margt skemmtilegt og skrítið. M.a. þennan kall sem greip mig og ætlaði með mig. Fyrst var ég nú pínuskelkaður, eins og sést á myndinni, en svo fannst mér þetta rosaskemmtilegt. Ég var ennfremur harðákveðinn í því að næst myndum við mamma kaupa okkur svona trukk sjálf, skreyta hann og vera með på riktigt.

laugardagur, maí 20, 2006

Í dag er júróvisjón og við mamma bökuðum dýrindis pizzu í kvöldmatinn sem ég fékk að hjálpa til að setja áleggið á. Mamma mín ákvað svona einu sinni að ég mætti fá pínulítið (diet)kók með kvöldmatnum. Mamma var búin að borða þegar ég var ennþá að og þar sem hún situr í sófanum heyrir hún mig vera að þamba kókið (með tilheyrandi búkhljóðum) og segir í sakleysi sínu 'Egill minn, ekki þamba svona kókið, þú færð bara illt í bumbuna þína. Geymdu það frekar bara og drekktu það á eftir'. (Við þurftum sko nefnilega að fara í þvottahúsið).
Þá heyrist í mér litla mér -alveg ótrúlega hneyksluðum- 'Geyma svona lítið kók, og benti á glasið sem var rétt botnfullt, GLEYMDU ÞVÍ GÓÐA, GLEYMDU ÞVÍ'. Svo kom smáþögn og síðan mjög væskilslega 'Mamma! Má ég fá smá kók til að geyma?'
Akkúrat núna er ég að vesenast hérna í sófanum við hliðina á mömmu og er að leika með glasabakka sem hún hafði einu sinni keypt í París. Ég er að látast að þetta séu Svarta Pétursspil (en ég á nefnilega svoleiðis spil). Svo vatt ég mér að mömmu og sagði. 'Mamma! Dragðu þetta spil - og ef þetta er Svarti Pétur þá þýðir ekkert að fara að gráta sko. Þannig er bara spilið og ef þú dregur ekki þetta spil þá ertu að svindla því svona eru reglurnar í þessu spili. OKEI?'
Ég er nefnilega sjálfur soldið tapsár og fæ stundum svipaða ræðu frá mömmu áður en við byrjum að spila.

föstudagur, maí 19, 2006

Tvö kvöld í röð

Ég er nú heldur betur lukkunnar pamfíll. Nú er hún Matthildur mín búin að passa mig í tvö kvöld í röð! Í kvöld fór mamma nefnilega í bíó og ég var ekkert smá hamingjusamur. Hoppaði upp yfir mig af kæti og hrópaði 'JESSS' þegar hún sagði mér að hún væri að fara út.
Á morgun er laugardagur, sem er nú uppáhaldsdagurinn minn í vikunni. Það er nefnilega nammidagurinn sko. Þá fæ ég yfirleitt að fara með mömmu og velja mér eitthvað nammi í poka - alveg sjálfur! Ég er enda ósköp góður og væli aldrei um nammi aðra daga. Það er nú eiginlega eins gott að afi Hjörtur og amma Unnur verði hætt með sjoppuna þegar ég flyt heim til Íslands. Það gengur nú lítið fyrir mömmu mína að banna nammiát á virkum þegar afi manns og amma eiga heila sjoppu!

fimmtudagur, maí 18, 2006

Að vera í pössun

Að láta passa mig finnst mér um það bil eitt það skemmtilegasta sem ég veit. Í kvöld til dæmis ætlar hún Matthildur að passa mig og ég hlakka alveg hreint ótrúlega til. Síðan ég kom heim úr leikskólanum er ég búin að fara tvisvar yfir til hennar. Annars vegar til að spyrja hvort hún komi ekki ÖRUGGLEGA á eftir og hins vegar til að gefa henni helminginn af mandrínunni minni. Ég er nú algjör sjarmör.
Mamma mín er farin að hafa nettar áhyggjur af íslenskunni minni. Það verður nú að segjast. Þegar ég kom heim var hún nefnilega búin að skúra allt hátt og lágt. Ég horfði í kringum um mig, andaði svo djúpt að mér og sagði:


Egill Orri: 'Mamma! af hverju er svona fínt hjá okkur?'
Mamma: Bara af því að það var orðið svo skítugt að mamma varð bara að þrífa
Egill Orri: Já og þá gæti enginn barnavaktari kémið (lesist barnapía komið)

****

p.s. ég fór svo einu sinni enn yfir til Matthildar til að spyrja hana hvort henni fyndist ekki mandarínan örugglega góð. Svo segja menn að riddaramennskan sé dauð!

miðvikudagur, maí 17, 2006

Snjall strákur

Í dag sótti mamma mig á leikskólann (eins og hún gerir nú alltaf) og svo drifum við okkur aðeins í bæinn. Ég átti að fá að fara á videoleiguna og svo ætlaði mamma líka að fara að kaupa miða á karnevalen sem verður hérna í Lundi um helgina.
Nema hvað við fórum úr á torginu og löbbuðum svo útí miðasöluna sem var við lestarstöðina. Á leiðinni fór ég að kvarta yfir hungri og spurði mömmu hvort við gætum ekki farið á eitthvað kaffihús. Mamma sagði að við gætum það ef ég vildi en svo gætum við líka klárað að gera það sem við þyrftum að gera og farið svo á MacDonald's ef ég vildi. JAHÁ! það hélt ég nú. Eftir smástund spurði ég þó
Egill Orri: Mamma! Af hverju er ekki 'Katökkí' í Lundi (Katökkí = Kentucky as in KCF)
Mamma: Ég bara veit það ekki ástin mín
Egill Orri: En mömmur vita jú allt!!
Þar hafiði það ef þið voruð í einhverjum vafa :)

þriðjudagur, maí 16, 2006

Ljósmyndari

Ég er orðinn voðalegur áhugamaður um ljósmyndun. Mamma mín leyfir mér oft að taka myndir en einn morguninn þegar mamma mín var sofandi hef ég greinilega laumast í myndavélina alveg sjálfur. Hérna eru nokkur sýnishorn af því sem mamma mín fann þegar hún hlóð af vélinni inn á tölvuna.

Hérna má sjá barnatímann á Barnkanalen


"fallega" sófann okkar





Mömmu svefnpurrku







og myndirnar á veggnum


Já svo sannarlega upprennandi listamaður hér á ferð.









föstudagur, maí 12, 2006

Legoland


Jæja í dag var langþráður dagur loks upprunninn og við mamma fórum ásamt Leó og mömmu hans í L E G O L A N D. Vííííííí. Við fengum einstaklega fallegan dag, heiðskírt með nóg af sól og hita.
- hérna erum við Leó komnir á staðinn-
Ég var ofsalega hrifinn af þessum flotta garði. Ekki síst fannst mér allar flottu legobyggingarnar merkilegar. Þarna kenndi nú ýmissa grasa skal ég segja ykkur. Mest fannst mér varið í bílana sem keyrðu alveg sjálfir og lestarnar
-Eins og þessa hérna til dæmis-


Nú svo fórum við að sjálfsögðu í nokkur tæki meðal annars drekarússibana sem ég ætlaði nú ekki að vilja fást til að fara í (eftir að við höfðum staðið 25 mín. í röð). En mamma mín, grybban, gaf sig ekki og í tækið fór ég og skemmti mér konunglega - eins og hún vissi að ég myndi. Síðasta tækið sem við fórum í var lítil svona einreið sem veitti fínasta útsýni yfir garðinn. Þar sem við mamma og Leó sátum þarna og nutum okkur í sólskininu heyrist í Leó "Egill! Þetta er lífið!" - mömmu fannst nú nokkuð til í því. Frábær dagur í frábæru veðri með frábærum vinum. Gerist vart betra en það!

fimmtudagur, maí 11, 2006

Fótboltaskrákur?

Ég sýndi áður óþekkta takta í fótbolta í dag. Hún Matthildur nágranni minn og barnapía er sko rosalega góð í fótbolta og var til í að kenna mér í dag. Ég dreif mig inn og fór í fótboltagallann minn - Manchester United - og út að spila. Mamma mín heldur að ég sé jafnvel soldið skotinn í henni Matthildi sem er alltaf svo góð við mig. Ég hef amk ALDREI sýnt minnstu tilhneigingu til fótboltaáhuga áður.

Á morgun er svo stefnan tekin á Lególand með Leó vini mínum og mæðrum okkar beggja. Ég er ekkert smá spenntur og hef jafnvel fært í tal að fara snemma að sofa í kvöld. Þetta er þó samningsatriði sem ekki er útkljáð enn.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Voffalæti

Þegar ég er ánægður með eitthvað, oftast mömmu mína þegar hún leyfir mér að gera eitthvað skemmtilegt eða fá eitthvað gott, þá rek ég út úr mér tunguna, læt hana lafa og anda ótt og títt eins og lítill hvolpur. Síðan gelti ég oft sem tákn um ánægju mína og samþykki. Móður minni finnst þetta í senn sniðugt og sætt en því er ekki að neita örlítið undarleg hegðun.
Í dag er annars búin að vera sama einmunablíðan hérna í Lundi og ég er ennþá úti að leika mér núna þegar kl. er að verða 8. Ég náði nú að fá ofnæmi fyrir fokdýru apóteksþróuðu sólarvörninni sem mamma keypti fyrir mig og fór því mun verr varinn á leikskólann í morgun. En þetta bjargaðist nú fyrir horn og ég er óbrunninn, sæll og glaður.

mánudagur, maí 08, 2006

Stór strákur

Mömmu finnst nú stundum nóg um hvað ég er orðinn stór strákur. Áðan lágum við úti á bletti í sólbaði/skólabókarlestri þegar ég kom skyndilega út með niðurskorna peru handa mömmu minni. "Hvar fékkstu þetta?" spurði mamma mín hissa. "Ég skerði þetta sjálfur handa þér mamma". "En þú veist að þú mátt aldrei vera með hnífa þegar mamma er ekki nálægt" sagði mamma þá "En þú varst nálægt, þú varst bara hérna úti í garði" svaraði ég.
*
How do you argue with that?
*
Mamma mín reyndi nú samt að útskýra rólega að þó hún væri rosa þakklát fyrir að fá svona góða peru þá væri hún hrædd um að strákurinn hennar gæti skorið sig illa ef hann væri að leika sér með svona beitta hnífa. "En ég var ekkert að leika mér, ég var að skera peru handa þér mamma". Mamma mín reyndi aftur og sagði "já og mamma er voða þakklát" - "það var ekkert mamma" stakk ég inní samtalið. "En maður má aldrei nota svona hnífa nema þegar mamma manns sér til, stendur við hliðina á manni á ég við" sagði mamma þá. "Já en núna ertu ekkert arg þó ég hafði komið með päron handa þér sem var uppskorin?"
*
Rétt í þessu sit ég á klósettinu og er að gera 'nr. 2' - "Mamma! það er múrsteinn í kúknum og hann kemst ekki út" - "já þú verður að drekka meira vatn ástin mín"
" já og vatnið ýtir niður kúknum" ...... [smá umhugsun] "Mamma má ég fá vatn?"

sunnudagur, maí 07, 2006

Sólríkur sumardagur ... enn og aftur

Í dag fórum við til Freyju vinkonu minnar að leika og sleikja sólina í logninu þar. Það var rosalega gaman. Fyrst lék ég mér við Elvar, stórabróður hennar, sem mér finnst rosaskemmtilegur og svo kom Freyja heim og við fórum að bussla í lauginni hennar. Ógisslega mikið stuð en okkur fannst vatnið nú samt soldið mikið kalt og mönuðum hvort annað upp í að henda okkur í vatnið. Síðan kom föngulegur stelpuhópur úr ellefunni líka og við fórum á róló að leika eftir það. Nú er ég kominn heim, soldið úrillur af þreytu og sól en mamma mín heldur bara að ég sofni líka snemma sem væri nú aldeilis fínt.



laugardagur, maí 06, 2006

Sáttur

Mamma! Af hverju ertu ekki að læra? spurði ég mömmu mína í dag þegar hún lá í sólbaði án þess að vera með bækur eða tölvu við höndina. Af því ég er komin í frí ástin mín, svaraði mamma mín glöð. Ég var frekar sáttur að heyra þetta og gaf mömmu minni risastórt knús. Æi það er nú von að litlir strákar verði leiðir á tímaleysi mömmu sinnar svona dögum saman þegar sem mest gengur á. Enda er ég nú búin að haga mér eins og engill síðustu tvo dagana síðan mamma skilaði af sér. Í dag lék ég mér úti nánast allann daginn og var ekki með neitt tuð, væl, suð eða prakkarastrik. Mömmu minni var nú létt að sjá að ég er ekki búinn að gleyma því hvernig á að haga sér vel því í næstu viku er áætluð ferð í sjálft Legoland. Það getur nú ekki farið annað en vel í mig - litla legosjúklinginn. Mamma mín fór þarna sjálf fyrir tæpum 25 árum þegar hún var 5 ára og man hvað henni fannst gaman og hún hlakkar mikið til að upplifa þetta með mér litla mér.

föstudagur, maí 05, 2006

No news is good news

Það er nú bara mest lítið að frétta af mér þessa dagana. Ég er úti að leika mér alla daga og fram á kvöld. Svo drulluskítugur þegar ég kem inn í bað að vatnið er grátt þegar ég stíg upp úr því yfirleitt. Á morgun er vorhátíð kirkjuskólans og þá verður grillað og farið í leiki. Sólin á að skína á okkur svo þetta verður örugglega ekki mjög leiðinlegt. Í gær átti afi minn Hjörtur afmæli svo ég talaði við hann í símann og var mikið niðri fyrir að segja honum sögur af því sem ég var að horfa á í litla DVD spilaranum mínum. Ég er gjörsamlega orðinn hálfsænskur, skipti á milli þessara tungumála án þess að taka einu sinni eftir því, heldur mamma mín.
bless í bili

miðvikudagur, maí 03, 2006

sól sól skín á mig...

Það var nú aldeilis heppilegt að ís-straffinu sem ég er búin að hafa hangandi yfir mér í viku var aflétt í dag því það var svoooo yndislegt veður. Ekta svona frostpinnaveður og ég fékk meira að segja tvo.
Náði nú samt að kreista tvenn strákapör út úr deginum
a) bjó til drullumall í póstkassa nágrannans
b) kom mér í sjálfheldu uppi á leikhúsinu hérna í fimmunni og þurfti þrjá fullorðna til að koma mér niður
Hvað er góður dagur án smá "vjésens"?

þriðjudagur, maí 02, 2006

Kisinn í næsta húsi


Ég er afskaplega hrifinn af ferfætta nágrannanum mínum. Þetta er nú alveg einstaklega gæf skepna og með ólíkindum hvað hún lætur hnoðast með sig án þess að svo mikið sem hvæsa, hvað þá klóra. Svona rogast ég gjarnan með hana og hún gerir engar athugasemdir.

mánudagur, maí 01, 2006

Týndur

Við Freyja María vinkona mín ákváðum að leggja aðeins land undir fót í dag og gerðum okkur lítið fyrir og 'týndumst' í svona klukkustund eða svo. Foreldrum okkar til verulega lítillar ánægju. Opinberlega skýringin á ferðalaginu var sú að við hefðum verið að leita að Elvari, bróður hennar Freyju, en sú skýring mætti ansi litlum tiltrúnaði foreldranna af einhverjum ástæðum. Kannski af því að við vissum alveg að hann hafði farið heim og að Freyja María ratar alveg þangað. Hvað sem því líður eftir að leitarflokkur hafði verið við leit í ríflega um 40 mín. fann Katrín okkur ansi framlág og hálfvolandi uppi á grasbala langt fyrir ofan 'Kjemmann' (fyrir þá sem þekkja til þá vorum við sumsé komin upp að Klosterängsvägen) og virtumst gera okkur grein fyrir að gjörðir okkar voru gegnt tilskipunum foreldra okkar. Ég var amk ansi lúpulegur þegar mér var skilað, blautum og vansælum, í fang móður minnar og gerði litlar athugasemdir við að vera settur í hjólastraff í viku. Það þýðir sumsé að ég fæ ekki að fara neitt á hjólinu mínu nema mamma mín sé með.
Kannski maður læri eitthvað á þessu? Mamma mín heldur í vonina.