laugardagur, maí 20, 2006

Í dag er júróvisjón og við mamma bökuðum dýrindis pizzu í kvöldmatinn sem ég fékk að hjálpa til að setja áleggið á. Mamma mín ákvað svona einu sinni að ég mætti fá pínulítið (diet)kók með kvöldmatnum. Mamma var búin að borða þegar ég var ennþá að og þar sem hún situr í sófanum heyrir hún mig vera að þamba kókið (með tilheyrandi búkhljóðum) og segir í sakleysi sínu 'Egill minn, ekki þamba svona kókið, þú færð bara illt í bumbuna þína. Geymdu það frekar bara og drekktu það á eftir'. (Við þurftum sko nefnilega að fara í þvottahúsið).
Þá heyrist í mér litla mér -alveg ótrúlega hneyksluðum- 'Geyma svona lítið kók, og benti á glasið sem var rétt botnfullt, GLEYMDU ÞVÍ GÓÐA, GLEYMDU ÞVÍ'. Svo kom smáþögn og síðan mjög væskilslega 'Mamma! Má ég fá smá kók til að geyma?'
Akkúrat núna er ég að vesenast hérna í sófanum við hliðina á mömmu og er að leika með glasabakka sem hún hafði einu sinni keypt í París. Ég er að látast að þetta séu Svarta Pétursspil (en ég á nefnilega svoleiðis spil). Svo vatt ég mér að mömmu og sagði. 'Mamma! Dragðu þetta spil - og ef þetta er Svarti Pétur þá þýðir ekkert að fara að gráta sko. Þannig er bara spilið og ef þú dregur ekki þetta spil þá ertu að svindla því svona eru reglurnar í þessu spili. OKEI?'
Ég er nefnilega sjálfur soldið tapsár og fæ stundum svipaða ræðu frá mömmu áður en við byrjum að spila.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home