Ekkert að frétta?
Jú jú jú jú það hefur verið nóg að gera hjá mér svosem. Af samtali Jennýjar, fóstrunnar minnar, við mömmu er það helst að frétta að ég er ofsalega góður og duglegur strákur. Vinsæll af öllum krökkunum á deildinni því ég er einn af þeim sem leik mér við alla og fer ekkert í manngreinaálit. Það kom nú svosem ekkert fram í þessu samtali sem kom móður minni neitt sérstaklega á óvart. Hún þekkir nú sinn mann. En í sem stystu máli þrífst ég ofsalega vel og er glaður og góður lítill strákur.
Nú á fimmtudaginn var Uppstigningadagur hér sem annars staðar á kristnu bóli. Þá var að sjálfsögðu frí og við mamma notuðum hann til að hjálpa mömmu og pabba hans Leó að flytja úr 9-unni niðrí 3-u. Leó er sem sagt fluttur miklu nær mér sem er nú aldeilis frábært eins og sá dagur og gærdagurinn sýndu glögglega. Við lékum okkur allann daginn báða dagana og finnst þetta mjög mikið sport. Getum vinkað hvor öðrum í gegnum stofugluggana hjá okkur.
Í dag er ég líka búinn að vera úti að leika í allann dag enda skein sólin skært. Fór aðeins með mömmu í "Kringluna" að kaupa afmælisgjöf handa honum Matta bróður mínum sem á afmæli í næstu viku. "Han fyller faktiskt fyra år" sagði ég afgreiðslumanninum í óspurðum fréttum. Mér leiðist ekkert sérstaklega að fara í dótabúðina.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home