laugardagur, október 29, 2005

Langþráður dagur

er runninn upp. Afi og amma eru LOKSINS að koma. Ég fæ meira að segja að vaka - as if að það væri eitthvað vandamál miðað við liðna viku - til að fara með mömmu í lestinni alla leið til Köben að sækja þau. JÚHÚÚÚÚ!
Fór annars með Tómasi vini mínum í kirkjuskólann í morgun svo mamma mín gæti lært. Fékk svo að fara heim til hans að leika mér í smástund eftir. Við fengum sko að kaupa okkur kökur á Mörtukaffi og fara með heim að borða. Þær voru í laginu eins og grasker og draugur af því nú er hrekkjarvakan að nálgast. Ofboðslega flottar - en ekki alveg jafn góðar samt.
Svo kom ég heim og var alveg hreint lygilega þægur í heila 3 klukkutíma á meðan mamma hélt áfram að læra. Truflaði hana nánast ekki neitt. Ótrúlegur drengur. Ég get nefnilega alveg dottið í dundið þegar ég vil. ELLLLSKA lego og byggði svoleiðis hallirnar og bílana handa móður minni. Æstist allur upp þegar mamma spurði hvort ég myndi vilja meira lego í jólagjöf. JÚHÚÚÚÚÚ var svarið (eins og við flestu góðu þessa dagana).
En þegar ég var niðursokkinn í lego-ið þá sagði :

Mamma: Egill Orri, má ég fá knús?
Egill: Nei, ekki núna, ég er upptekinn
Mamma: En ég elska þig svo mikið, má ég fá knús?
Egill: En þú elskar mig ekki nógu betur til að ég geti verið að knúsa þig.

föstudagur, október 28, 2005

Heldurðu að ég sé eitthvað þreyttur?


Þegar þetta er skrifað er kl. 23:27 að sænskum staðartíma og ég sýni engin merki þess að fara að sofa. Í staðinn sit ég í rúminu hennar mömmu og er að byggja lego hús handa mömmu minni. Búin að vera ofsalega þægur í kvöld þó ég vaki. Ekkert vesen á mér og mamma mín situr og lærir eins og sveitt svín. Á morgun koma líka amma og afi og við förum þá í stóru lestina yfir stóru brúna alla leið til Danmerkur að sækja þau.
Vá hvað ég hlakka til VÁ !
p.s. mamma mín er að söngla með útvarpinu sem hún er að hlusta á í eyrnatólunum af netinu en ég vil ekki sjá neinn söng "USS mamma! ég vil ekki heyra neitt lag" og hana nú!

fimmtudagur, október 27, 2005

Barnið sem þurfti engan svefn

Úff hvað mamma mín er löt að blogga þessa vikuna. Skandall! Kannski af því að ég er búin að vera óvenjulega slæmur af óþekktinni í vikunni. Gjörsamlega og algjörlega harðneita að fara að sofa á kvöldin og móðir mín sem er komin vel á veg í fyrsta magasárinu er búin að gefast upp á að reyna að svæfa mig. Svo ég fæ bara að vaka og það geri ég sko, meðalháttatími vikunnar hefur verið ca. 22:30 og samt sprett ég á fætur fyrir kl. 8 á morgnana og tilkynni grútþreyttri móður minni að það sé kominn dagur og ég mig langi í hafragraut í morgunmat.
Nú eru annars bara tveir dagar þar til amma Gróa og afi Villi koma í langþráða heimsókn til okkar. Ég er orðinn voðalega spenntur og vil helst hringja í þau daglega að yfirheyra þau um allt sem þau ætla að koma með handa mér og hvort afi ætli ekki örugglega að horfa með mér á Tomma&Jenna ásamt því að fara í bíló.
Í dag eftir leikskóla kom Tómas í heimsókn og við lékum okkur í Lego í ótrúlegri ró fram að kvöldmat. Hann Tómas fékk sko að borða hjá okkur og mamma hans og pabbi líka ásamt Ísabellu. Við fengum hakk & spaghetti og svo ótrúlegt magn af ís í eftirmat. Nammi namm, ég borðaði eins og venjulega á við þrjá. Þegar ísinn kikkaði inn vorum við svo á útopnu svo mamma hélt kannski að ég myndi sofna snemma í kvöld. En neeeeeeeeeeeeeeeeeei hún var slegin ellefu þegar ég sofnaði loksins og sef nú eins og steinn á dýnu fram í stofu.

mánudagur, október 24, 2005

Ferð á bókasafnið

Ég fór á bókasafnið með leikskólanum mínum í dag. Mér finnst ofsalega gaman á bókasöfnum og Cissi sagði mömmu að ég hefði verið MJÖG duglegur að koma með bækur sem mér fannst nauðsynlegt að við fengjum lánaðar. Ég sagði henni að vísu líka frá því sjálfur í kvöld þegar ég var kominn á koddann og var að segja henni frá deginum mínum. "Mamma! Ég fór á bókasafnið með leikskólanum og viti menn, ég tók Nickve Nyfiken þar sem hann er að þvo glugga." Hún er rosalega skemmtileg.
Fór annars svo í íþróttaskólann í dag og hljóp þar og hamaðist með vinum mínum. Harðneitaði að fara með mömmu minni í búðina og át þess vegna hrærð egg í kvöldmatinn. Ég fékk sjálfur að brjóta eggin í skálina og fannst ég nú nokkuð mikill kokkur.
Mamma mín er búin að gefast upp á skynsamlegu uppeldi og leyfir mér núna að sofa eiginlega á hverju kvöldi í hennar rúmi. Það finnst mér líka langbest!

sunnudagur, október 23, 2005

Sunnudagur til sælu


Ég fékk að leika við Leó vin minn í aaaaaaaaaaallan heila dag. Frá hádegi og fram yfir kl. 10 í kvöld. Mamma mín fór nefnilega með Maju sætu til Kaupmannahafnar og ég þurfti ekki að fara með. Heppinn!
Við fórum í hjólatúr, á róló, fengum að horfa á Lilo og Stitch og uppáhaldið mitt hann Scooby Doo. Mömmu minni finnst svo gaman að ræða málin við mig þegar ég er í svona góðu skapi eins og í dag. Það koma nú nokkrir yndislegir punktar frá mér í minni barnslegu einlægni.
Egill Orri: Mamma, ég fékk að horfa á Scooby Doo hjá Leó.
Mamma: Er það?
Egill Orri: Já, og veistu hvað? Það var múmía og hún elti Scooby Doo út um allt.
Mamma: Var Scooby Doo hræddur við múmíuna?
Egill Orri: Já, en hann hljóp svo hratt frá múmíunni, hann hljóp 5 metra en múmían hljóp 6 metra. 6 metrar eru miklu minna en 5 metrar.
Mamma: Nei er það? 5 metrar eru minna en 6 metrar.
Egill Orri: Já nei sko ég meinti, Scooby Doo hljóp sko 5 kíló, það er rosalangt.
Þegar pabbi var í heimsókn fékk ég flottan Bangsímon búning og ég fékk að fara í honum til Leós í dag. Þetta fannst mér ofsalega fyndið.
'Mamma, Leó heldur að Egill Orri sé að koma í heimsókn en svo er það bara Bangsímon' svo hló ég ógurlega. Leó finnst líka ofsalega gaman að fara í svona búninga og hérna erum við að horfa á videó inni í herbergi um daginn. Soldið sætt... ?

laugardagur, október 22, 2005

Laugardagur til lukku

Ég er nú meiri prinsinn. Fór með mömmu og Maju sætu minni í Center Syd í dag og fékk nú nánast allt sem ég vildi í skjóli þess að það var nú einu sinni laugardagur. McDonalds í hádeginu, nammi og ís. Fékk að láta keyra mig um í svona innkaupakerru sem er eiginlega leikfangabíll. Þegar ég kom heim fékk ég svo að fara á videoleiguna og taka spólu sem ég fékk að fara með til Leós að horfa á og lék mér þar fram að kvöldmat. Mömmu minni fannst ég líka vera heldur betur farinn að færa mig upp á skaftið í kvöld og fannst ég agalega óþekkur. Kannski allur sykurinn hafi leysts úr læðingi á einu bretti?
Annars er ég ofsalega hrifin af henni Maju minni og strýk henni í bak og fyrir. I morgun þegar mamma fór út í bakarí þá sat ég á dýnunni hjá henni og strauk henni um vangan þar sem hún svaf. Hugfanginn á svipinn. Það var nú eiginlega ekki hægt að standast mig þá.
Annars datt þessi út úr mér í dag
Egill Orri: Mamma, mér er kalt.
Mamma: Já ég veit það ástin mín, það er komið haust
Egill Orri: Af hverju er komið haust?
Mamma: Af því það er kominn miður október
Egill Orri: Það er ekki október, það er laugardagur!

fimmtudagur, október 20, 2005

Af greiðvikni og öðrum kostum

Ég fór ótrúlegt en satt sæll og glaður án gráts og gnísts á leikskólann í morgun. Mamma mín trúði þessu varla. Sérstaklega merkilegt í ljósi þess að mamma mín svaf til hálfníu sem þýddi að ég þurfi að vera í fljótari kantinum að klæða mig og borða morgunmatinn og ég gat ekki fengið að horfa á sjónvarpið. Ég reyndi samt.
Egill Orri: Mamma, ef ég á alltaf að gera allt fyrir þig þá verður þú að leyfa mér að horfa á Scooby Doo.
Mamma: Hvað varst þú að gera fyrir mig?
Egill Orri: Borða morgunmatinn minn!! (er hún alveg rugluð kellingin?)
Annars er MajBritt komin í heimsókn til okkar og ég er með ofsalega mikla sýndarstæla fyrir hana. Á morgun ætlar hún meira að segja að sækja mig í leikskólann minn svo hún geti séð hann. Mamma mín ætlar nefnilega að fara að sprikla í ræktinni í uppáhaldstímann sinn og MajBritt ætlar að passa mig á meðan.
Annars fékk ég að fara að leika við Leó eftir leikskóla í dag og við fórum í ofurhetjuleik. Ég fékk að nota Batman skikkjuna hans og við vorum rosalega flottir. Einhvern tíma þegar mamma setur inn myndirnar á síðuna okkar þá getið þið séð flotta mynd af okkur Leó í búningunum okkar. Okkur finnst obbosslega skemmtilegt að vera í svona búningaleik. Pabbi gaf mér sko Bangsímon búning þegar hann var í heimsókn og mamma er búin að lofa að gefa mér einhvern tíma fleiri búninga.

miðvikudagur, október 19, 2005

Kuldaboli

Loksins er ég kominn aftur á leikskólann eftir langt pabbafrí. Mamma mín var að vona að ég myndi verða sáttari við að fara núna þegar pabbi var búinn að koma í heimsókn en því miður var það ekki raunin. Væl og grátur á morgnana þegar mamma fer en svo er ég nú alltaf orðinn glaður eftir 5 mín. svo þetta er nú ekki svona hræðilegt. Bara þreytandi finnst mömmu minni sem finnst ekki gaman að þurfa að fara svona frá mér.
Nú eru pabbi og Matti farnir, fóru í gær með stóru flugvélinni aftur til Íslands. Reyndar sagði Matti þegar hann kvaddi 'Bless Bless Egill og Sillún, ég er að fara heim til mömmu minnar, en ég kem aftur á morgun!'. Ekki vera að gera neitt vandamál úr hlutunum. Það var ofsalega gaman að hafa þá í heimsókn og við gerðum margt skemmtilegt. Á mánudaginn fórum við með pabba í stóru dótabúðina og fengum að velja okkur dót. Ég valdi mér Bangsímon búning og bók um Barbapabba en Matti valdi sér gítar og mótorhjól. Þegar mamma kom heim var ég sko kominn í búninginn minn og var rosalega sætur. Marteinn var nú ekki minna sætur með gítarinn sinn, gekk um allt og 'spilaði' fyrir okkur, að vísu alltaf sama lagið en hann var nú ósköp mikið krútt. Greinilega mikill tónlistarunnandi og dansari þar á ferð. Næst þegar ég sé pabba og Matta verður það á Íslandi um jólin og ég hlakka mikið til.
Annars er kuldaboli kominn til Svíþjóðar og mamma er farin að kappklæða mig á morganana þegar við förum út. Nærbolur, langermabolur, peysa og flíspeysa að lágmarki. Peysur eru að vísu flíkur sem mæður klæða syni sína í þegar þeim sjálfum er kalt. Þetta sannast á henni móður minni því henni er alltaf kalt. En núna er sko komið næturfrost hérna í Lundi og í morgun þegar við komum út var allt gras hvítt af hrími og það fannst mér nú heldur merkilegt. 'Mamma, kuldaboli er búinn að mála grasið!'

sunnudagur, október 16, 2005

Dýragarðurinn

Loksins kom hinn langþráði nammidagur í gær og við fórum yfir stóru brúna alla leið til Kaupmannahafnar og fengum að fara í dýragarðinn eins og áður sagði. Ótrúlega gaman alveg hreint. Fengum að fara á hestbak á svona litlum pony-hestum og sáum helling af dýrum. M.a. Sebrahesta, ljón, blettatígur, gíraffa, skógarbirni, fíla, antilópur, lamadýr, úlfalda, kengúrur, nashyrning, tígrisdýr, mörgæsir, seli, hreindýr, jakuxa, hesta, kanínur, grísi og fl. Svo var risastór róluvöllur og margt fleira skemmtilegt. Mamma ætlar að setja myndir inn á síðuna okkar fljótt fljótt.
Þegar við komum að ljónagryfjunni voru nú flest ljónin flatmagandi í sólinni en þegar nær kom sá maður að þau voru að éta það sem var augljóslega hræið af sebrahesti. Nema hvað, Matta bróður mínum leist nú ekkert á þetta og kallaði "Egill, sjáðu þeir eru að éta Martein sebrahest!" [þeir sem hafa séð Madagascar fatta hvað við er átt]. Mömmu fannst þetta nú líka soldið stór skammtur af 'raunveruleika' að sýna okkur hvað ljónin éta í beinni.
Eftir að við vorum búnir í dýragarðinum vorum við orðnir svangir og þreyttir svo við komum við og fengum okkur að borða. Veitingastaðurinn var í risastóru molli þar sem meðal annars var bíó. Við byrjuðum auðvitað strax að suða um að fara þangað
Egill Orri: Ég VIL fara í bíó
Mamma: Egill minn, það er engin mynd að byrja nema Madagascar
Egill Orri: En ég vil sjá hana
Pabbi: Nei, þú ert búin að sjá hana 4 sinnum
Egill Orri: En mér finnst hún svo skemmtileg, ég vil sjá hana aftur
Pabbi: Egill minn, hún er á dönsku
Egill Orri: En mig langar svo að læra dönsku.
Mamma mín heldur að ég sé mögulega fyrsta barn í heiminum til að nota þessa setningu.

laugardagur, október 15, 2005

Soldið sætt ...

þetta er frasi dagsins hjá okkur bræðrunum. Sagt um og við allt og alla í dag. "mamma! soldið sætt" þegar ég dró Matta í kerrunni sem við fengum lánaða í dýragarðinum í dag. "pabbi! soldið sætt" þegar við sáum mánaðargamla tígrisdýrsungana sleikja sólina í búrinu sínu.
Annars er sko margt búið drífa á daga mína síðast ég skrifaði síðast. Hæst ber auðvitað að pabbi minn og Matti bróðir komu loksins loksins til mín á fimmtudaginn. Ég fékk frí í leikskólanum til að fara með mömmu að taka á móti þeim. Við bræðurnir fögnuðum hvor öðrum ákaft og féllumst í faðma eins og gamlir kallar þegar við sáumst á Kastrup. Þegar við komum heim með lestinni fór mamma svo í skólann og ég var hjá pabba labba á meðan. Leiddist það ekki mikið. Föstudagurinn var rólegur, fórum í bæinn að sækja bílaleigubílinn og svo fengum við að fara á McDonald's. Nammi namm, mamma fór aftur í skólann og ég sýndi pabba og Matta hverfið á meðan.

miðvikudagur, október 12, 2005

Ég VIL ekki fara að sofa

Þegar þetta er skrifað er kl. orðin 22:31 að sænskum staðartíma og ég er ekki ennþá farinn að sofa. Móðir mín reitir hár sitt og hefur reynt allt, mútur, öskur, skammir, knús, söng, lestur og allt annað en ekkert bítur á mig. Ég ÆTLA ekki að fara að sofa. Spennan er að gera út af við mig. Á morgun kemur nefnilega pabbi minn að heimsækja mig og það sem meira er, Matti bróðir minn kemur líka. VÁ hvað það verður gaman hjá okkur VÁ.
Annars brá móður minni frekar mikið í dag þegar ég sagði skyndilega upp úr þurru,
"Mamma! Kannski vill pabbi giftast þér þegar hann kemur til Svíþjóðar"
Hún hló nú nokkuð að þessari athugasemd minni og var að fara að útskýra fyrir mér að mamma og pabbi væru ekki að fara að giftast þegar ég bætti við:
"Ég ætla kannski að giftast Matta" þá áttaði hún sig á því að ég vissi ekki alveg hvað giftast þýddi og ákvað að leyfa mér bara að halda í mína saklausu skilgreiningu á hjónabandinu í nokkra stund enn.

þriðjudagur, október 11, 2005

Bara tveir dagar...

...þangað til pabbi minn kemur loksins í heimsókn til mín. Ég er alveg ofsalega spenntur og er búin að vera að spyrja um hann í margar vikur. Matti bróðir fær líka að koma með sem er ekki síður spennandi. Ég er búinn að ákveða að Matti eigi að sofa með mér í mínu rúmi en pabbi eigi að sofa einn á dýnunni. Sé samt enga þörf til að taka til í herberginu mínu til að koma dýnunni fyrir. Skrítið.
Fór með bros á vör í leikskólann í dag, en ég hef farið grenjandi þangað síðustu 5 dagana eða svo. Ástæðan aðallega held ég sú að við fórum beint út að leika í sólinni í dag og ég sá Tómas vera kominn út að bíða eftir mér. Þetta var mikill léttir fyrir mömmu mína sem gat farið frá mér glöðum í bragði. Mamma mín er annars í mismiklu uppáhaldi hjá mér. Ég sagði henni nú í gær að hún væri uppáhalds mamma mín, besta mamma í heimi jafnvel en tók það jafnframt fram að þetta væri skilyrt við það að hún leyfði mér að gera það sem ég vildi, þegar hún bannaði mér að gera hluti þá væri hún ekki best. Did anyone say emotional blackmail?

sunnudagur, október 09, 2005

Leikdagur

Ég er búinn að leika við Leó vin minn í allann heila dag. Ég fékk að spyrja eftir honum kl. 11 í morgun og ég kom heim kl. 20:30. Okkur mömmu var sko boðið í mat af Katrínu og Reyni og fengum dýrindis innbakað svínafilé. Ofsalega góður matur og mamma mín sem hafði ætlað að bjóða mér upp á eitthvað pastadrasl. Alvöru matur og ekkert bull. Ég borðaði sko fullt fullt. Takk fyrir okkur.
Í gær var ofsalega gott veður hérna í Lundi svo mamma og ég fórum niður í bæ að spóka okkur í sólinni (innsk. mamma; við vorum sko á pilsi og stuttbuxum). Ég fékk lördagsgodis og LÍKA að fara á McDonalds. Nammi namm, ekkert smá heppinn lítill gutti. Svo kíktum við í dótabúðina og keyptum græjur í nýja leikfangaleirinn sem mamma mín BJÓ til, algjör hetja hún mamma mín sko..... :-) En þegar ég kom heim í gær voru allir vinir mínir farnir eitthvað út með foreldrum sínum svo ég var nú ekki sáttur. Þvílík örlög að þurfa að hanga heima með móður sinni. Talaði þó við bæði ömmu Unni og pabba minn (sem er loksins að koma að heimsækja mig í næstu viku) svo það var nú soldið gaman.
En ég var nú ekki sáttur þegar mamma mín vildi ekki leyfa mér að horfa á Scooby Doo í milljónasta skipti og sagðist sjálf vilja horfa á sjónvarpið. Ég hélt nú ekki, sagði henni nú bara til syndanna. "Mamma; þetta er bara eins og þú segir sjálf, þegar einhver biður mann um eitthvað þá á maður bara að gera eins og maður er beðinn um, er það skilið? Og kveiktu nú á Scooby Doo fyrir mig!"

föstudagur, október 07, 2005

Skógarferð

Á föstudögum er alltaf farið í skógarferð í leikskólanum mínum. Þá kemur risastór svona 'harmonikkustrætó' og sækir okkur öll og fer með okkur í skóginn þar sem við leikum okkur, lærum um náttúruna og fáum okkur nesti. Þetta er auðvitað mjög spennandi (eins og stórir bílar eru gjarnan) og ekki þótti mér nú minna spennandi þegar afi Hjörtur sagði mér um daginn að þegar hann hefði átt heima í Lundi, þegar mamma mín var lítil, þá hefði hann verið að vinna við að keyra svona strætó.
' Vaaaaaaaaaá afi, rosalega varstu heppinn' varð mér að orði. Nú segi ég öllum sem það vilja heyra að afi minn hefði verið að keyra harmonikkustrætó þegar hann var lítill!
:) :) :) :) :)

fimmtudagur, október 06, 2005

Gleðin tekin á ný .... eða svona hér um bil

Ég var aðeins minna leiður þegar mamma mín fór í morgun en það voru nú samt nokkur tár sem féllu. En ég var fljótur að taka gleði mína þegar Kaiza sagði mér að hún ætlaði að búa til nýjan leikfangaleir í dag og að ég fengi að hjálpa. Mér finnst nefnilega ofsalega gaman að leira.
Núna er ég í heimsókn hjá Leó Erni vini mínum sem mér finnst rosalega skemmtilegur. Við ætluðum að horfa á Skytturnar þrjár sem er 'ógisslega skemmtileg'
Annars er ég nú bara býsna vinsæll leikfélagi, þegar mamma fór á kóræfingu fékk ég að vera í heimsókn hjá Auði og Vigdísi og mér fannst það líka mjög gaman. Langaði ekkert að koma heim og spurði mömmu mína hvort ég þyrfti ekki að fara mjög fljótlega á aðra svona æfingu. Þannig að eins og sést þá er ég nú ekkert aðframkomin þó ég hafi verið leiður í gær. Nú styttist líka í að pabbi minn komi fljótt að heimsækja mig, jafnvel bara í næstu viku. Þá verður nú gaman að vera til eins og ég sagði hérna um árið.

miðvikudagur, október 05, 2005

Leiður lítill strákur

Ég er búinn að taka þessum flutningum og umróti alveg ótrúlega vel en það hlaut að koma að því að smá bakslag kæmi í seglin. Ég var ofsalega leiður í morgun og vildi ekki fara í leikskólann, sat bara í fanginu á mömmu minni og grét og grét. Hún varð að skilja við mig grátandi og fannst hún vera versta mamman í heiminum. Ég sakna pabba míns mjög mikið og tala stöðugt um hann og tel dagana þar til hann kemur að heimsækja mig. Þá ætla ég að sýna honum allt sem er skemmtilegt að gera hérna í Svíþjóð.

mánudagur, október 03, 2005

Daglegt líf

Ég á að vera sofnaður inni í rúmi en mamma mín hefur lúmskan grun um að ég sé það nú ekki. Á von á því að heyra í litlum fótum koma tiplandi inn í stofu á hverri stundu. Ég nefnilega er kominn á eitthvað mótþróaskeið og harðneita að sofa í mínu rúmi. Finn upp alls konar afsakanir, drauga, ljóta kalla, skrímsli undir rúminu og svo framvegis. Það er nefnilega svo kósí að sofa í mömmu rúmi. Þegar þessar aðferðir duga ekki reyni ég að skjalla hana með yfirlýsingum um að hún sé 'beeeesta mamman í heiminum' nú eða þá lýsi yfir mikilli ást minni á henni. Þetta dugar nú stundum svo mér finnst auðvitað sjálfsagt að halda áfram að reyna.
Sænskan er nú að byrja aðeins að ryðja sér til rúms hjá mér og mamma mín hefur grun um að ég skilji nú bara orðið alveg slatta. Tilkynnti mömmu minni stoltur í dag að 'bajs' þýði sko kúkur á sænsku. Gagnlegar upplýsingar það.
Annars var mamma mín eitthvað að reyna að útskýra eitthvað fyrir mér áðan, (minnislausa konan man ekkert hvað það var) og spurði mig svo hvort ég skyldi hvað hún væri að tala um.
'Nei mamma ég skil það ekki, því ég er orðinn svo lítill'

sunnudagur, október 02, 2005

Góð helgi

Ég er búinn að eiga alveg hreint frábæra helgi. Þá fyrstu sem við mamma vorum bara heima hjá okkur í langan tíma. Þetta var Leó-helgin mikla en við lékum okkur saman svo að segja alla helgina. Mamma mín trúir varla hvað við erum góðir saman, það bara heyrist ekki í okkur og við rífumst ekki einu sinni. Rosalega er ég heppinn að hafa eignast svona góðan vin.
Annars var mamma mín að klæða sig í kvöld eftir baðið og ég horfði á hana smástund og spurði svo:
"mamma, af hverju ertu með brjóst?"
"svo þú gætir fengið mjólk að drekka þegar þú varst lítill"
"en nú er ég orðinn stór!"
"en mamma eignast nú kannski einhvern tíma annað barn og þá þarf það líka að fá að borða, kannski litla systur eins og Tómas á"
"nei nei nei sko mamma, ég vil eignast leikbróður og hann á að heita (nema hvað) ... Leó"
Á morgun er svo leikskóli og íþróttaskóli seinni partinn. Þar get ég hamast og leikið mér með fullt af krökkum. Mamma mín er að reyna að vinna í því að vera duglegri að taka myndir af hversdagslífinu og því er um að gera að fylgjast með myndabankanum okkar.