miðvikudagur, október 12, 2005

Ég VIL ekki fara að sofa

Þegar þetta er skrifað er kl. orðin 22:31 að sænskum staðartíma og ég er ekki ennþá farinn að sofa. Móðir mín reitir hár sitt og hefur reynt allt, mútur, öskur, skammir, knús, söng, lestur og allt annað en ekkert bítur á mig. Ég ÆTLA ekki að fara að sofa. Spennan er að gera út af við mig. Á morgun kemur nefnilega pabbi minn að heimsækja mig og það sem meira er, Matti bróðir minn kemur líka. VÁ hvað það verður gaman hjá okkur VÁ.
Annars brá móður minni frekar mikið í dag þegar ég sagði skyndilega upp úr þurru,
"Mamma! Kannski vill pabbi giftast þér þegar hann kemur til Svíþjóðar"
Hún hló nú nokkuð að þessari athugasemd minni og var að fara að útskýra fyrir mér að mamma og pabbi væru ekki að fara að giftast þegar ég bætti við:
"Ég ætla kannski að giftast Matta" þá áttaði hún sig á því að ég vissi ekki alveg hvað giftast þýddi og ákvað að leyfa mér bara að halda í mína saklausu skilgreiningu á hjónabandinu í nokkra stund enn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home