miðvikudagur, október 19, 2005

Kuldaboli

Loksins er ég kominn aftur á leikskólann eftir langt pabbafrí. Mamma mín var að vona að ég myndi verða sáttari við að fara núna þegar pabbi var búinn að koma í heimsókn en því miður var það ekki raunin. Væl og grátur á morgnana þegar mamma fer en svo er ég nú alltaf orðinn glaður eftir 5 mín. svo þetta er nú ekki svona hræðilegt. Bara þreytandi finnst mömmu minni sem finnst ekki gaman að þurfa að fara svona frá mér.
Nú eru pabbi og Matti farnir, fóru í gær með stóru flugvélinni aftur til Íslands. Reyndar sagði Matti þegar hann kvaddi 'Bless Bless Egill og Sillún, ég er að fara heim til mömmu minnar, en ég kem aftur á morgun!'. Ekki vera að gera neitt vandamál úr hlutunum. Það var ofsalega gaman að hafa þá í heimsókn og við gerðum margt skemmtilegt. Á mánudaginn fórum við með pabba í stóru dótabúðina og fengum að velja okkur dót. Ég valdi mér Bangsímon búning og bók um Barbapabba en Matti valdi sér gítar og mótorhjól. Þegar mamma kom heim var ég sko kominn í búninginn minn og var rosalega sætur. Marteinn var nú ekki minna sætur með gítarinn sinn, gekk um allt og 'spilaði' fyrir okkur, að vísu alltaf sama lagið en hann var nú ósköp mikið krútt. Greinilega mikill tónlistarunnandi og dansari þar á ferð. Næst þegar ég sé pabba og Matta verður það á Íslandi um jólin og ég hlakka mikið til.
Annars er kuldaboli kominn til Svíþjóðar og mamma er farin að kappklæða mig á morganana þegar við förum út. Nærbolur, langermabolur, peysa og flíspeysa að lágmarki. Peysur eru að vísu flíkur sem mæður klæða syni sína í þegar þeim sjálfum er kalt. Þetta sannast á henni móður minni því henni er alltaf kalt. En núna er sko komið næturfrost hérna í Lundi og í morgun þegar við komum út var allt gras hvítt af hrími og það fannst mér nú heldur merkilegt. 'Mamma, kuldaboli er búinn að mála grasið!'

2 Comments:

Blogger Inga Lara said...

Matti er aedi: sjaumst a morgun!
Eins ad mala grasid, thad er lika god hugmynd... getum vid malad thad graent a veturna???

2:13 e.h.  
Blogger Sigrún said...

Wouldn´t that be nice, better yet, lets forego winter alltogether!!!

7:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home