sunnudagur, apríl 30, 2006

And the envelope please....

Einhvern tíma verð ég leikari. Mamma mín er alveg viss um það. Til dæmis í dag þegar ég kom heim svoleiðis gegnsósa, húfulaus og drullugur upp fyrir haus og reyndi mitt besta til að sannfæra móður mína um að
a) ég hefði ekki verið að leika mér í drullupolli
b) Anton (nýr sænskur vinur) hefði klippt húfuna mína í tvennt OG stór fugl hefði gripið hana og flogið í burtu
c) ég hefði ekkert gert til að gera hann svo reiðan að hann beit mig (Anton sko, ekki fuglinn)

laugardagur, apríl 29, 2006

Prakkarastrik dagsins

Garðurinn hérna í fimmunni hjá okkur mömmu er þannig að blokkirnar standa í tvö U-laga form sem standa á móti hvort öðru og langur göngustígur gengur svo í gegnum allt hverfið. Við búum sumsé í annarri íbúð frá göngustígnum og í dag var ég úti að leika mér við sænskan vin minn í garðinum. Þegar mamma mín kom út að tjékka á mér vorum við búnir að búa til reiðinnar býsn af drullukökum og grýta þeim í gaflinn á húsinu á blokkinni á móti - sem er einmitt íbúðin þeirra Kollu og Bjarka já og Matthildar sem passar mig stundum. Veggurinn var eins og eitt opið moldarflag og meira að segja smá svona pínu á glugganum hennar Guðnýjar. Mömmu minni var EKKI skemmt en ég skrúfaði á mig sakleysissvipinn og sagði "en mamma, við vorum bara að prófa". Oftar sem áður.

föstudagur, apríl 28, 2006

Sullupési

Ég hef yndi af alls kyns sulli og sóðaskap. (móður minni skilst nú að hún hafi verið eins og geti því ekki kvartað). Í gær uppgötvaði ég til dæmis að ef maður "festir" afturdekkið á hjólinu sínu í polli og heldur svo áfram að snúa pedulunum þá frussast vatnið alveg í fallegri bunu aftan frá manni og alla leið upp á bak. Þetta fannst mér nú ekki lítið sniðugt og þrátt fyrir varnaðarorð móður minnar gerði ég þetta aftur þegar hún sá ekki til og kom svo heim rennnnnandi blautur á bakinu en þrætandi fyrir gjörðir mínar.
Í dag fór ég svo í vikulega skógarferð með Nicke Nyfiken, deildinni minni á leikskólanum, og þar sem ég labbaði með henni Caizu og Tasnuvu komum við fram að stórum polli þar sem ég gerði mér lítið fyrir og stakk mér til sunds takk fyrir - ekkert minna.
Æi það er stundum svo gaman að vera 5 ára

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Þjófnaður

Það var sorgmæddur lítill skrákur sem labbaði á leikskólann í morgun. Ástæðan? Jú hjólinu mínu hafði verið stolið um nóttina þar sem það stóð ólæst fyrir utan húsið okkar. Mamma hélt fyrst að ég hefði skilið það eftir einhvers staðar á fimmunni í gærkvöldi þegar við Leó vorum úti að leika en þrátt fyrir mikla leit fannst það ekki. Æ æ æ æ og mér sem finnst svo gaman að hjóla.
******
EN
******
Um hádegið hringdi dyrabjallan hjá mömmu þar sem hún var að læra og hver stóð fyrir utan nema ég með Jenny fóstrunni minni og fullt af vinum mínum af leikskólanum. Við höfðum fundið hjólið í gönguferðinni okkar. Einhver hafði tekið það og greinilega hjólað á því því hjálpardekkin voru öll skökk og skæld og svo hent því lengst inn í runna þar sem það lá þegar við fundum það.
*****
JIBBÍ - það var því soldið stoltur strákur sem kom heim úr leikskólanum í dag og skellti sér í hjólatúr um hverfið. Núna ætla ég líka alltaf að muna eftir að læsa hjólinu mínu. ALLTAF

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Köttur nágrannans

Litlir strákar gera oft skrítna hluti. Köttur nágrannans hefur soldið fengið að kenna á því síðustu daga. Þegar Katrín, mamma hans Leós, kom að okkur Leó um daginn vorum við að reyna að troða kettinum ofan í dótakassann minn og loka svo fyrir. Hún benti okkur á að kettinum fyndist sennilega hvorki gott né gaman að láta hnoðast með sig ofan í dótakassa en við vorum nú ekkert endilega sannfærðir um það en slepptum honum samt vesalingnum. Í gær greip mamma mig svo við að reyna að loka kattargreyið undir lokinu af grilli eins nágrannans.
Það sem litlum strákum dettur í hug !

þriðjudagur, apríl 25, 2006

Nýju fötin keisarans

Ég er lítill drulluhali. Mamma mín skilur eiginlega ekki alveg hvernig ég fer að því að geta gert mig svona skítugan á tiltölulega stuttum tíma. Við fórum í bæinn í dag og fórum í H&M þar sem mamma keypti voðalega flott föt á mig í tilefni komu sólarinnar til Lundar. Svo grenjaði ég út MacDonald's hádegisverð og svo settumst við á Stortorget, sleiktum sólina, borðuðum matinn okkar og ég prílaði soldið á einu listaverki sem er þarna á miðju torginu. Það 'skítti' mig ekki alveg nóg út svo ég bætti aldeilis um betur þegar við fórum með Leó í Stadsparken og náði að því er virðist að velta mér upp úr drullupolli, allt í nýja ljósgræna pólóbolinn minn sem móðir mín hefur enga von til að ná úr í þessum vonlausu þvottavélum hérna á Kjemmanum. En þetta er víst bara svona þegar maður er lítill strákur. Til of mikils ætlast að halda sér hreinum.

mánudagur, apríl 24, 2006

Draumórar

Í fyrradag fór ég í BR dótabúðina hérna í Lundi og sá þar heilan vegg af alls konar vopnum. Þegar mamma mín sá aðdáunarsvipinn sem kom á mig sagði hún mér að "hætta að dreyma um þetta strax". Ég var óvenju hlýðinn þegar ég svaraði "já mamma, hættur því"

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Týndur ....

Ég fékk að fara út eftir kvöldmat í 'smá' stund. Þegar mamma kom út að leita að mér fann hún mig hvergi. Hún hljóp um allan "Kemmann" að leita að mér, niðrí í 3-u og upp í 11-u, niðrá Delphi og út á kastalarólu. En hvergi fannst ég. Nú var mamma mín orðin verulega hrædd. Farin að halda að ég hefði leiðst á brott með einhverjum. Tók eina lokaleit út á "götu" þ.e. hjá bílastæðunum og hver var þar að leika sér með lítinn bolta? Egill Orri Elvarsson. Sem betur fer. Það urðu nú fagnaðarfundir þar þegar mamma útskýrði hvað hún hafði orðið hrædd. "En mamma, ég var bara að leika mér med en liten boll" sagði ég últrasaklaus og sorgmæddur yfir að hafa valdið móður minni svona miklum áhyggjum.
En annars var þetta prýðisdagur, ég fór í klippingu og er voðalega fínn um hárið. Svo fékk ég líka fallega sumargjöf frá mömmu minni - rosalega skemmtilegt spil.
-0- Glad sommar allihopa -0-

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Hvað er til ráða?

Það sér ekkert fyrir endann á strákapörunum hjá mér og ég er ekki bara ósigrandi og ódauðlegur heldur "ræð ég mér sjálfur". Í dag fann mamma mig þar sem ég hafði prílað upp á hjólaskúr (sem er 2 metra hár) og var að leika mér að hoppa niður. Nú eftir að ég og Leó höfðum komið inn að leika fórum við inn á bað þar sem við:
a) létum renna ÍSKALT vatn í baðkarið .... og
b) fylltum það af dóti .... og
b) tókum skartgripina hennar mömmu úr skríninu (again) ..... og
c) fórum úr öllum fötunum og hentum þeim ofan í ískalt baðvatnið .... og
d) náðum í hrein, samanbrotin föt inn í skáp og hentum þeim líka í vatnið.
Hvað á mamma mín eiginlega að gera við svona strák?

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Lærdómshestur












Mamma mín fékk nettan móral um daginn þegar hún uppgötvaði að hún hefur ekki verið dugleg að "örva lærdómshæfileika mína". Úr þessu var bætt hratt og örugglega og við mamma fórum og keyptum bók sem hjálpar manni að æfa sig að skrifa tölustafina. Hún er agalega flott með límmiðum og allt. Ég er ofsalega ánægður með hana og sat í allt gærkvöld og 'lærði'.
Mömmu líður aðeins betur núna :-)

mánudagur, apríl 17, 2006

Utangátta


stundum (lesist alltaf) þegar ég er að labba þá er ég ekki að horfa hvert ég er að fara. Þetta verður til þess að ég labba iðulega fyrir fólk eða á það. Í dag fórum við mamma niðrí bæ og vorum að labba í Jättekul þegar *BAMM* ég labbaði beint á svona rafmagnskassa með þeim afleiðingum að ég fékk risakúlu beint á milli augnanna. Ég lít þess vegna núna út eins og Neanderdalsmaðurinn (svona séð frá hlið) og er alveg hreint ótrúlega aumur.

Það borgar sig að fara varlega!

sunnudagur, apríl 16, 2006

Páskaeggjaát

Vaknaði kl. 07:00 og horfði á mína ástkæru Bolibompa og þegar mamma kom fram kl. níu sást vart tangur né tetur af því sem hafði einu sinni verið páskaegg nr. 4, gott ef það var ekki búið að narta smá í málsháttinn, sjaldan lýgur almannarómur. Ég var nú ekkert alveg að skilja hvað hann þýddi þrátt fyrir útskýringar mömmu minnar. Kl. ca. 13 komu svo Valdís og Katrín að spyrja eftir mér og ég fór að leika við þær og við lékum okkur sko allann daginn. Svo fórum við mamma í mat til þeirra núna í kvöld og ég lék mér meira þar og er núna steinsofnaður inni í rúmi kl. 21:37. Ekki búinn að éta nema ca. kíló af sælgæti í dag. Ef kenningar vísindamanna stæðust þá ætti ég að vera hlaupandi upp um veggi núna en mamma mín er nú afar þakklát fyrir að svo er ekki.

laugardagur, apríl 15, 2006

Strákapör

Ég er heldur betur farinn að taka hann nágranna minn, Emil í Kattholti, aðeins of mikið til fyrirmyndar. Búinn að fremja þau nokkur strákapörin í vikunni og hérna á eftir fer listi yfir 'hælætin'.

1. Náði mér í verkfæri og "gerði við" rúmið hennar mömmu minnar (aka negldi skrúfu í rúmstokkinn)
2. Tæmdi skartgripaskrínið hennar mömmu minnar í leiknum 'leitum að gullinu'.
3. Klippti upp umbúðirnar á páskaegginu mínu frá ömmu Gróu - bara til að finna aðeins lyktina af því
4. Þvoði páskaskrautið sem ég bjó til á leikskólanum í baðvaskinum með þeim afleiðingum að það varð meira og minna allt rautt (baðherbergið sumsé)
5. Fór með Leó Erni að opnum skurði þar sem við sátum og böðuðum okkur í drullunni, þegar mamma kom að sækja okkur stakk ég mér ofan í skurðinn og stóð þar í leirdrullu upp að hnjám
6. Leitaði uppi og át 5 stk. páskaegg nr. 1 sem Gróa amma hafði sent okkur til að bjóða gestum & gangandi
7. Braut 'gullskálina' hennar mömmu

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Krakkaboð

Í dag var ég með krakkaboð fyrir vini mína hérna í Lundi. Mættir voru Leó, Freyja, Elvar, Katrín og Valdís. Þetta var ofsalega vel heppnað og við lékum fela hlut, horfðum á 'bíó', borðuðum snakk, vínber og súkkulaðiköku með nammi sem Leó kom með. Lékum okkur svo heillengi úti og fengum loks pizzu í kvöldmatinn. Ekkert smá gaman. Ég var afar sáttur við daginn og lét út úr mér falla í baðinu í kvöld - "Mamma, þetta var jätterolig dag, mig langar að eiga alla þessa krakka".
Frekar ambitious það.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Fyrir ári síðan...

... var ég aðeins minni og aðeins vitlausari. Mamma mín er agalega stolt af því að hafa núna kennt sjálfri sér á það hvernig maður hleður videoupptökunum úr myndbandsupptökuvélinni (já já eða bara videokamerunni) inn á tölvuna og ekki nóg með það heldur kann kellingin líka að klippa og snyrta til myndefnið. Hérna fyrir neðan má sjá mig vera að syngja 'Lilla Klifurmús' á Páskadag í fyrra. Þetta verður eflaust bara hið fyrsta myndbrot í röð margra ef ég þekki móður mína rétt.


þriðjudagur, apríl 11, 2006

Sól sól skín á mig....

Það var nú aldeilis yndislegur dagur í Lundi í dag. Ég var á leikskólanum til tæplega fjögur og eftir það var ég úti að leika mér til kl. 7 hvorki meira né minna. Ég er búinn að finna mér sænskan vin sem býr hérna á fimmunni, sem er kannski ágætt því ég tala orðið bara sænsku hvort sem er. Mömmu minni er alveg hætt að lítast á blikuna. Hún heldur að ég verði fertugur og ennþá byrjandi á öllum setningum með orðinu 'men' (ísl. en).

Í kvöld bauð mamma nokkrum öðrum mömmum í heimsókn til að borða súkkulaðiköku og horfa á síðasta þáttinn í Desperate Housewives. Ég var nú orðinn heldur fúll yfir þessum endalausu mömmuboðum og vildi fá að halda krakkaboð og úr varð að ég fæ að halda eitt svoleiðis á fimmtudaginn. Þá ætlum við að bjóða upp á bíó og popp og (kannski smá) nammi. Þetta verður gaman og ég ætla að bjóða Katrínu, Valdísi, Leó, Freyju og Elvari. Auður og Vigdís verða ennþá í 'Spanien' þannig að þær komast því miður ekki.
Annars fórum við mamma í mat til Katrínar og Reynis í kvöld (sem oft áður) og fengum þar dýrindis mexíkóskan kjúkling. Eitthvað vorum við Leó þó lítið hrifnir af þessari fæðu og neituðum báðir að borða kjúklinginn. Ég fékk að komast upp með að borða bara 3 bita (en samt meira af hrísgrjónum, grænmeti og hvítlauksbrauði). Leó þurfti að borða heila 7 bita og mér fannst þetta nú heldur mikið og tók það því upp hjá sjálfum mér að ganga í hlutvert sáttasemjara. Þegar mamma hans Leós sagði 7 bita þá sagði ég 'Það er soldið mikið, hvað með 4 bita?'

mánudagur, apríl 10, 2006

Hótanir

Mamma mín er nú ekki hrifin af þessu nýjasta uppátæki mínu sem er að hóta öllu illu ef ég fæ ekki vilja mínum framgengt. Þetta eru að vísu ekki hótanir sem ég er mjög líklegur til að fylgja eftir en engu að síður er þetta leiðinlegur siður sem mamma mín vildi heldur vera án. Í gær var mamma mín eitthvað þreytt eftir eróbikk og lá uppi í rúmi og slakaði á. Ég vildi spila og þegar mamma mín neitaði varð ég reiður
Egill Orri: Mamma, ef þú spilar ekki við mig þá er ég ekki lengur litli drengurinn þinn. Ég fer bara til annars fólks sem á engan lítinn strák og þá verður þú jättaledsen.
Mamma: Egill maður á ekki að hóta svona og nei mamma nennir ekki að spila við þig núna ástin mín.
Egill Orri: Jú víst, [þegar hér var komið skrúfaði ég á mig bljúga og ljúfa svipinn og sagði] Mamma, ef þú spilar við mig þá fer ég ekki frá þér.
[hugs hugs]
Egill Orri: Jæja! hvað segirðu svo?

laugardagur, apríl 08, 2006

Stundum ....

.... er soldið svona stuttur í mér þráðurinn (ótrúlegt í ljósi þess hver móðir mín er!!). Svona lít ég til dæmis út þegar mamma mín stendur fyrir sjónvarpinu þegar ég er að horfa á það.


fimmtudagur, apríl 06, 2006

Stjarna kvöldsins


Í kvöld var mamma mín með matarboð fyrir stelpurnar í bekknum sínum. Ég fékk að borða hjá Leó en kom svo heim um hálfníuleytið. Þær féllu nú alveg fyrir mér þessar skvísur, enda var ég enginn smá sjarmör, bauð upp á brjóstsykur og gaf þeim dót og leyfði þeim að velja handa mér videospólu að horfa á. Nú svo knúsaði ég þær svolítið svona þess á milli.
Myndin er af mér og Evelyn.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Reiður lítill strákur

Við mamma vorum soldið svona reið út í hvort annað í kvöld. Ég vildi fá að horfa á meiri barnatíma eftir að honum lauk og mamma mín varð pirruð yfir þessu rifrildi sem virðist ætla að eiga sér stað á hverju kvöldi eftir að Bolibompa lýkur (sem er hin sænska 'Stundin okkar'). Í kvöld var ég því sendur inn í herbergi og sagt að leika mér þar fram að bað- og háttatíma. Ég samþykkti með (miklum) semingi og þegar ég kom fram á gang þá hrópaði ég á mömmu mína "ég ætla bara að láta þig vita það að engum finnst þú neitt sérstaklega skemmtileg!". Mamma mín svaraði í sömu mynt "jæja góði, mömmu finnst þú nú ekkert sérstaklega skemmtilegur heldur þegar þú lætur svona". Það stóð ekki á svarinu "jú víst, ég er ógisslega skemmtilegur, það segja það allir".
Því næst varð smá þögn en svo heyrði mamma að ég tautaði við sjálfan mig:
"Hon säger att ingen tycker jag är jättekul men det sejer dom faktiskt. Dom sejer 'Heja Egil' - 'Heja Heja', det sejer dom faktiskt. Ingen tycker hon er rolig - Nej inte alls tycker dom det"

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Kynleg löngun

Stundum, en bara stundum, hefur mamma mín smá áhyggur af pælingunum sem ég orða upphátt. Í gær lágum við mamma eins og letihaugar uppi í sófa og skyndilega segi ég:
Egill Orri: Mamma, ég vil svo mikið vera stelpa
Mamma: HA! af hverju viltu það?
Egill Orri: Það er svo gaman að vera stelpa, det vil jag ochså vara
Mamma: Nei nei ástin mín, mamma er svo glöð að eiga svona fallegan strák eins og þig
Egill Orri: En Birta er stelpa, mig langar að vera eins og hún.
- er þetta nú ekki að taka ástina á einni manneskju aðeins of langt?

mánudagur, apríl 03, 2006

1. apríl

Það er aðalsportið núna að 'gabba' mömmu mína. Til dæmis með því að segja "Mamma, sjáðu það er kónguló á veggnum" svo þegar mamma mín lítur upp hlæ ég ógurlega og segi "April, April din dumma sild, jag kan luras som jag vill" - þetta finnst mér óendanlega sniðugt og skellihlæ að sjálfum mér.
---- ---- ----
Það var annars síðasti dagurinn í íþróttaskólanum í dag. Nú er enginn meiri svoleiðis skóli fyrr en í haust. Ég spurði mömmu mína hvort að ég yrði þá hérna í Svíþjóð.
Mamma: Nei ástin mín, þá ætlar þú að vera hjá pabba og byrja í skóla á Íslandi
Egill Orri: já og þú ætlar að vera ennþá hérna að klára skólann og fara til Kína og svoleiðis.
Mamma: Já, ætlar þú þá ekki að sakna mömmu?
Egill Orri: Nei! - en ég skal alveg knúsa þig áður en ég fer

sunnudagur, apríl 02, 2006

(Sv)íslenska

Ég er að fara á kostum þessa dagana í sænskunni. Ég eiginlega tala bara sænsku, líka heima hjá mér. Núna til dæmis er sunnudagskvöld og ég er oooooooofurþreyttur eftir skemmtilegan dag að leik með Leó Erni. Við vorum eiginlega úti í allan dag því það var svo ofsalega gott of fallegt veður. Núna er ég þess vegna með einsdæmum viðskotaillur og fúll og það er ekki hægt að gera mér til geðs.
Mamma mín stakk upp á því að ég næði í sæng til að hafa hérna frammi í sófa og svo breiddi hún hana yfir mig. Ég var fljótur að stökkva undan henni
"Mamma, titta! jag sitter inte längre under den dumma sängen (mér finnst auðvitað lógískt að säng þýði sæng en ekki rúm) - vet du varför? För jag vill faktiskt inte ha det mysigt - det är bara för dumskallar!"
[Mamma, sjáðu! Ég sit ekki lengur undir þessari 'sæng', veistu af hverju? Því ég vil ekkert hafa það kósí - það er bara fyrir bjána]

laugardagur, apríl 01, 2006

Laugardagur til lukku

Þetta er nú búinn að vera frekar góður dagur. Byrjaði á kirkjuskólanum og þaðan fékk Katrín vinkona mín að koma með mér heim. Við lékum okkur voðalega vel og eina sem mamma heyrði var "älskling" þetta og "älskling" hitt. Obbosslega góðir vinir. Svo fórum við með mömmu niðrá videóleigu þar sem við fengum að velja okkur nammi og spólu. Næst fórum við svo í afmæli til hennar Valdísar, stóru systur hennar Katrínar. Hún var sko 7 ára hvorki meira né minna. Þetta var pizzupartý og Leó kom með mér í afmælið og heim úr því. Hann ætlar sko að sofa hjá mér í kvöld hann Leó.
Í dag var líka óskaplega gott veður og í fyrsta sinn sem ég fékk að fara út með derhúfu í stað vetrarhúfu - það fannst mömmu minni nú ekki leiðinleg tímamót.