sunnudagur, mars 12, 2006

Fugl eða fiskur?

Í gær þar sem ég var brölta inn í eldhúsi, sem oft áður, sá ég á borðinu tvær pakkningar af kjöti sem mamma mín hafði tekið úr frysti. "Mamma! Hvað er þetta?" spurði ég og fékk svarið að þetta væri lambakjöt sem ætti að vera í matinn á morgun [sunnudag]. Jaaá það var nefnilega það. "Er þetta þá lamb?" kom næsta spurning eftir smá vangaveltur. "Já" svaraði mamma. "Lítið lamb? Agalega lítið og sætt lamb?" "Já" sagði mamma mín aftur og var farið að finnast hún agalega vond manneskja að ætla að leggja sér þetta litla sæta lamb til munns.
Í matinn þetta kvöld var svo kjúklingur. Þegar ég kom úr baði beið eftir mér niðurbrytjað kjöt og kartöflumús á diski. "Ónei!" hrópaði ég upp yfir mig. "Lambið er allt komið í bita?" sagði ég órólegur. "Þetta er ekki lamb" sagði mamma "þetta er kjúlli" og sá strax eftir orðum sínum.
"ELDAÐIRÐU KJÚLLA LITLA" öskraði ég í mikilli örvæntingu. Mamma reyndi að sverja það af sér og sagði að þetta væri alls ekki kjúlli litli heldur sjálfdauður ættingi hans í sjöunda lið.
Ég hrærði aðeins í matnum og sagði svo "En ég vil ekki fisk!". "Þetta er ekki fiskur, þetta er kjúklingur" endurtók mamma. "Já en fiskur er búinn til úr lambi" sagði ég alvörugefinn og skóflaði svo í mig matnum.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Fyrr eða síðar lærir þú Egill minn að allt er þetta jafn dautt og gott á bragðið ;-)

Bið að heilsa pæjunni henni mömmu þinni.
Ása Björk

10:11 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home