Laaaaangur leikdagur
Í gærkvöldi vorum var ég í heimsókn hjá Leó laaaaaaaaaaaangt fram eftir kvöldi. Komum þangað kl 17 og ég ætlaði að fara að leika og mamma ætlaði bara að kíkja inn í 5 mín en einhvern veginn ílengdumst við þar til að verða hálftólf. Svona er þetta þegar mömmurnar okkar lenda á kjaftatörn. Við Leó vorum alsælir með þetta og lékum okkur eins og ljós. Margskiptum um búninga og vorum Batman og Spiderman og Bósi Ljósár og Ninja Turtles svona svo eitthvað sé upp talið. Á tímabili vorum við komnir með allmikið af dóti fram á stofugólf eða eiginlega svona í gangveginn inn í stofu og mamma hans Leós var nú ekki alveg nógu ánægð með það og vildi að við færum með þetta aftur inn í herbergi. Þetta fannst Leó mjög fúlt og vildi mótmæla en ég (sem er náttúrulega heilum 2 mán. eldri) tók að mér að tala hann til. 'Leó! þú verður alltaf að taka til eftir þig. Alltaf þegar mamma mín segir mér að "plocka undan" þá geri ég það ALLTAF'. Mömmu fannst þessi nú nokkuð góður þó hún hafi ekkert hankað mig á lyginni. Ég er nefnilega MJÖG latur að "plocka undan" heima hjá mér en þeim mun duglegri að því í leikskólanum og á annarra manna heimilum. Kl. 11 vorum við orðnir ringlaðir og rangeygðir af þreytu en samt þurfti mamma að berjast við að koma mér í fötin og fá mig heim. Voðalega þreytandi finnst mömmu minni en ég hélt því fram að ég væri EKKERT þreyttur. Þegar við komum heim fannst mér nú samt mjög notalegt að leggjast í rúmið mitt og var sofnaður á augabragði. Í dag er svo laugardagur og það þýðir bara eitt í mínum huga - NAMMIDAGUR - jaaahúúúú þá fæ ég að fara með mömmu í Willy's eða á videoleiguna og velja mér bland í poka og kannski ef ég er góður, taka mér spólu. Það er nú frekar áhyggjulaust líf að vera 4 ára!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home