laugardagur, janúar 14, 2006

Legoleikur

Ég fékk rosalega mikið af flottu lego-i í jólagjöf. Meðal annars var þar stór slökkvistöð með stórum brunaturni, brunabíl og bílskúr frá Ingu frænku í London. Mamma mín lét mig bíða með að opna þetta þangað til hérna í Lundi og í dag sátum við og mamma setti þetta saman fyrir mig - LOKSINS. Ég er búinn að vera ótrúlega duglegur að leika mér með þetta í allan dag. Hef setið inni í herberginu mínu (sem í sjálfu sér er ótrúlegt afrek) og leikið mér nánast í allan heila dag. Mömmu minni finnst verst að hafa gleymt videoupptökuvélinni heima á Íslandi því það hefði nú heldur en ekki verið gaman að ná af mér myndum í dag þar sem ég sat og talaði við sjálfan mig í leiknum
'Óneeeeeei, ég er að detta af þessum turni'
'Nei ekki hafa áhyggjur, ég bjarga þér, bíddu ég kem á stóra bílnum og keyri upp turninn og bjarga þér'
'Ó takk þú ert besti vinur minn' og svo framvegis.
Inn á milli datt ég meira að segja í smá söng, hjartfólgin innlifun á minni útgáfu af 'Daginn í dag, daginn í dag gerði Drottinn Guð'.
Þegar mamma kom svo til mín um kl. 4 og ætlaði að klæða mig til að fara niðrí bæ að sækja Siggu Dóru sem var að koma í heimsókn þá leist mér nú ekkert á að ætla að skilja dýrðina eftir á gólfinu í herberginu mínu (en þetta dót er mjög viðkvæmt fyrir tilfærslum og mamma hefur þurft að endurbyggja þetta nokkrum sinnum í dag) .
Egill Orri: En mamma, þetta má ekki vera eftir á gólfinu
Mamma: En ástin mín, þú vilt leika með þetta þegar þú kemur heim svo það er betra að færa þetta ekki
Egill Orri: En það geta þjófar náð þessu ef þetta er á gólfinu
Mamma: Hvaða þjófar ástin mín
Egill Orri: Bara einhverjir svona litlir þjófar sem geta náð þessu ef þetta er á gólfinu
Mamma: Hvaða litlu þjófar eru það kallinn minn
Egill Orri: Litlir þjófar sem stóru ljótu kallarnir eru búnir að fæða
Þá veit maður hvernig þjófar verða til!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home