laugardagur, janúar 21, 2006

Brekkufjör og fl.

Ég fékk nýja snjóþotu, aðallega held ég vegna þess að mamma mín var rosalega þreytt og sveitt að drösla mér í kirkjuskólann í kerrunni í öllum snjónum. Við fórum með Leó og mömmu hans og fórum í heilar 3 búðir áður en við fundum snjóþotu í BR leksaker. Eftir það fengum við svo að fara út á Humlebo-backen að renna okkur á fullu. Fyrst vildi ég nú alls ekki renna mér einn og mamma mín þurfti að koma með mér. Það endaði náttúrulega með því að hún hentist á andlitið beint í snjóinn og við hlógum öll voða mikið. Svo fékkst ég nú til að fara einn (eiginlega meira mamma sem ýtti mér af stað) og þá fannst mér það auðvitað ofboðslega gaman og vildi ekki hætta. Ég og Leó ætlum sko að fara aftur á morgun að renna okkur.
Annars var kirkjuskóli í dag og mamma mín (gleymnasta kona í heimi) hélt endilega að hann byrjaði kl. hálftólf og sat hin rólegasta heima og horfði á gestina streyma í skírn litla danaprinsins í beinni á DR2. Þegar prinsinnn birtist loksins ásamt foreldrum sínum fór mamma að segja mér frá því þegar ég var skírður. Þá var ég líka svona lítill, (meira að segja minni) og var líka í svona kjól með húfu.
'Já!' sagði ég þá 'og ég var alveg brjálaður af því ég vildi ekki vera í svona kjól'
'Nei' sagði mamma þá. 'Þú varst nú bara voðalega góður, grést bara pínulítið'
'Já' sagði ég þá 'en voru ekki afi Villi og afi Hjörtur þá þarna uppi?' (við skírnarfontinn sumsé)
'Jú jú' sagði mamma 'það voru allir þar, afar þínir báðir og ömmurnar og mamma og pabbi'
'Ooooog' sagði ég svo
'Og hvað?' spurði mamm
'Nú hvað hét ég?' sagði ég hneykslaður
'Nú auðvitað Egill Orri' svaraði mamma
'En hvað hét Leó þegar hann var lítill í kjól?'
'Hann hét Leó Ernir' svaraði mamma og skildi hvað þetta var að fara
'Jaaaá' sagði ég íhugull 'alveg eins og hann heitir núna - áhugavert'.
Annars er mamma búin að setja inn myndir frá jólum og janúar inn á myndaalbúmið okkar!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home