fimmtudagur, janúar 19, 2006

Að sofa í eigin rúmi

Þvílík örlög!
Í gærkvöldi setti mamma mér fótinn fyrir dyrnar og neyddi mig til að sofa í mínu eigin rúmi, í mínu EIGIN herbergi. ÚFF. Sama hvað ég reyndi og reyndi að snúa mig út úr því með upplognum sögum um rottur og mýs sem klifruðu inn um póstlúguna, um drauga sem smeygðu sér inn um gluggana og ljóta kalla sem héngu fyrir utan dyrnar þá kom allt fyrir ekki, í eigin rúmi skyldi ég sofa. Ég grét og grét (alvöru tárum meira að segja) en harðbrjósta móðir mín gaf sig ekki en lagðist þó með mér til svefns og svæfði mig - þó það tæki nú tímann sinn.
nema hvað um kl. 22:00 var sigurinn unninn (hjá mömmu það er) og ég í fastasvefni. Mamma gerði eins og hún hafði lofað og kveikti á litla næturljósinu mínu þó að henni fyndist það (eins og sönnum svía sæmir) illa farið með rafmagnið.
Kl. 01:00 heyrði mamma, sem var komin inn í rúm líka, tipl í litlum fótum sem nálguðust svefnherbergið hennar. Ég var kominn á kreik og skriðinn upp í mömmuból, aaah þar var nú kósí að vera. Þegar mamma mín spurði mig hvað ég væri að gera þá svaraði ég:
'SKO mamma þegar litlir strákar eru látnir sofna í sínum rúmum þá, þegar þeir vakna um dimmanótt, koma þeir alltaf bara upp í mömmu sinnnar rúm - Svona er ástandið'
Og við það sat og ég fékk að sofa restina af nóttinni í mömmu minnar rúmi.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Mikið er gaman að lesa síðuna þína Egill minn,það er augljóst að þó þú eldist þá ert þú ennþá hinn eini sanni Egill Orri :):)
Hjartans kveðjur Jóa (geiturnar biðja kærlega að heilsa)

4:53 e.h.  
Blogger Sigrún said...

Elsku Jóa,

Mikið var gaman að heyra frá þér, þegar ég kem heim til Íslands næsta sumar þá ætla ég sko að koma í heimsókn til geitanna. Mér finnst svo voða gaman að fara í sveitina.
kær kveðja Egill Orri

8:15 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home