laugardagur, september 30, 2006

Septembermyndir

Hér eru nokkrar vel valdar myndir teknar af mér í septemberÍþróttaálfurinn, alltaf duglegur að gera æfingarnar sínar hvenær sem tækifæri gefst


ArmbeygjurÍ Skånes DjurparkFlottur knapiEgill og Leó by day!!


Ofurhetjur by 'night'!

þriðjudagur, september 26, 2006

Galin mamma

Um daginn þar sem ég sat á klósettinu og var að gera stykkin mín kallaði ég skyndilega fram í stofu til mömmu minnar "Mamma! Hvern þekki ég annan sem er dauður?". Mömmu minni var hálfbrugðið við þetta umbúðalausa tal og spurði mig hvað ég ætti við. "Þú veist, eins og langamma?" Mamma mín sagði mér að ég hefði átt yndislega aðra langömmu og langafa sem hétu Árni og Sína en ég hefði nú ekki þekkt þau svosem. "Hvernig getur maður ekki þekkt ömmu sína og afa?" spurði ég hneykslaður. "Af því" sagði mamma þá "þau dóu áður en þú fæddist, áður en ég og pabbi kynntumst og bjuggum þig til" útskýrði mamma mín og gekk inn til að skeina á mér bossann. "Hvað meinarðu eiginlega, bjugguð mig til" sagði ég og horfði á móður mína augum sem gáfu með augljósum hætti til kynna að hún væri að mínu viti búin að missa sitt. "Ég og pabbi þinn, við bjuggum þig til" sagði mamma þá. "NEI!" sagði ég blákalt og hristi höfuðið. "Nú, hver þá?" spurði mamma
"Það var Guð" sagði ég alvarlegur
Þetta fullorðna fólk heldur greinilega að maður sé algjör asni bara af því maður er 5 ára.

mánudagur, september 25, 2006

Spiderman á ferli

Já ég var nú aldeilis heppinn um helgina þegar mamma mín dró upp forláta Spiderman-búning handa mér. Hún hafði ætlað að geyma hann til jóla en ákvað að láta mig fá hann núna svo ég geti nú leikið við hann Batman (aka Leó Erni) vin minn. Það var nú líka eins gott því búningurinn góði, þrátt fyrir að vera sagður á 5-7 ára, er svo lítill að mömmu minni þætti gaman að sjá hvaða sjö ára krakki myndi passa í hann. Henni finnst algjör hörmung að horfa á 'fjölskyldudjásnin' klessast út á hlið í plássleysinu og verður hugsað til blessaðra barnabarnanna sem hana langar einhvern tíma að eignast. Ég kippi mér nú samt ekkert upp við svoleiðis framtíðarvangaveltur og skarta gallanum góða alla daga. Batman & Spiderman eru nefnilega bestu vinir og það erum við Leó líka.

föstudagur, september 22, 2006

BIIIIIIIG TROUBLE

Á ísskápnum okkar hefur mamma hengt upp 'dagatal' sem ég krossa samviskusamlega yfir fyrir hvern dag sem færir okkur nær því að fara til Frakklands og hitta ömmu Unni & afa Hjört. Í morgun var mér mikið niðri fyrir að ná mér í penna. Penninn var einmitt uppi á hillu í eldhúsinu og þar sem ég gat ómögulega beðið í 3 sekúndur meðan mamma rétti mér heldur tók á það snilldarráð að hanga í hillunni í von um að geta híft mig upp og ná pennanum. Það er skemmst frá því að segja að hillan þoldi ekki alveg álagið og kom húrrandi niður af veggnum, ekki samt áður en öllu sem á henni var rigndi yfir mig og lenti á gólfinu með tilheyrandi braki, brestum, brotum og pasta, matarolíu og hrísgrjónum út um ALLT GÓLF!!
Mamma mín var EKKI sátt og það var óneitanlega sorry lítill strákur sem fór í skógarferð með leikskólanum í morgun!

miðvikudagur, september 20, 2006

Tölvukall

Ég er búinn að uppgötva tölvuleiki. Leó vinur kom mér á bragðið þegar hann kynnti mig fyrir Batman leik á netinu. Núna er ég alveg óður í tölvuna og mamma mín á fullt í fangi með að halda mig frá henni. Það voru strax lagðar línur varðandi notkunina sem svarar til hálftíma á dag. Í gær var fyrsti dagurinn og ég - suðmeistarinn - sem ég er vildi fá aðeins meiri tíma og lagði mikið á mig í að sannfæra mömmu mína:

"MAMMA! Má ég ekki vera pínku-oggu-ponsu-stund lengur? PLÍIIIIS Ég er búinn að vera ofsalega duglegur í dag. Ég var duglegur í baði, ég var duglegur að setja fötin mín í óhreinatauið, ég var duglegur að borða kvöldmatinn minn, ég var duglegur að fara í leikskólann, ég var duglegur að vakna og ég var duglegur að leika mér úti."
Þegar að var gáð var þetta raunar allt rétt hjá mér. Mamma var auk þess nokkuð hrifin af því hvað ég var duglegur að færa rök fyrir máli mínu svo ég fékk 10 mín aukatíma í tölvunni. Ekki slæmt!

mánudagur, september 18, 2006

Kannski....?

Í gær fórum við mamma með Leó og Katrínu mömmu hans í Skånes Djurpark. Þar sáum við stóran skógarbjörn sem lá og svaf rétt við girðinguna svo við gátum skoðað hann vel. Allt í einu segi ég
"Mamma, sjáðu hann er með stóran maga"
"" sagði mamma "hann er kannski nýbúinn að borða?"
"Kannski var hann að borða einhvern fullorðinn? Einhvern sem datt ofan í búrið og komst ekki upp því að veggirnir eru svo háir"
******
Ja þetta fullorðna fólk er svo skrítið, hver veit nema þetta sé satt?

sunnudagur, september 17, 2006

Æi að lífið væri nú svona auðvelt

"Mamma, kostar hús marga peninga?"
"já ástin mín, hús kostar mjög marga peninga"
"afi minn, ha! Hann keypti nýjan bíl OOOOG hjólhýsi"
"já ég veit það kallinn minn"
"hann er líka búinn að kaupa gula toyotajeppann**"
"er það, heldurðu að hann sé búinn að kaupa hann?"
"Já, og hann þurfti ekkert að selja bílinn eða hjólhýsið, hann fór bara í bankann og keypti fullt af peningum!!!"

-------------------
** þessi guli jeppi er bíll sem ég sá heima á Íslandi í sumar og ég tók ástfóstri við, hann kostar litlar 5.8 milljónir og ég ætla að safna dósum og flöskum til að kaupa hann!!

laugardagur, september 16, 2006

... er mér dröslað niðrí bæ

Það gerðist einmitt í gær þegar mamma sótti mig x-tra snemma á leikskólann til að fara með mig í klippingu! Tæplega það skemmtilegasta sem ég geri en ég lét mig hafa það. Ég var að vísu framúrskarandi duglegur í klippingunni og þetta tók ekki nema örstund svo í verðlaun fékk ég að fara á videoleiguna að taka hina langþráðu Scooby-doo frá því um síðustu helgi. Við tókum strætó heim ég og mamma og þar sem við sátum á móti hvort öðru í vagninum segi ég skyndilega "Vá, þessi er aldeilis brúnn". Mamma mín snéri sér við og þar sat þessi líka fíni svertingi. Mamma mín gat nú ekki varist brosi. "Af hverju er hann svona brúnn mamma?, var hann OF lengi í sólinni?" kom þá. "Nei" svaraði mamma, "hann er frá Afríku" (mömmu minni fannst ég aðeins of ungur til að taka pólítíska rétttrúnaðinn á þetta) "Er maður þá svona brúnn?" spurði ég þá huxi "Er Afríka brúnt land?".

föstudagur, september 15, 2006

Bleik brugðið

Á miðvikudaginn fórum við Leó besti vinur með mömmu minni út á Fäladstorg að versla smá í matinn. Þegar við komum að kassanum þá hlupum við Leó fram og skoðuðum alla tyggjókúlu-og-drasl-vélarnar sem komið er fyrir við útganginn. Mamma mín var ennþá í röðinni og beið eftir því að borga þegar hún heyrir mig skyndilega hrópa upp yfir mig. "Neeei, Leó ég ætla að ríða" með miklum áhersluþunga á síðasta orð setningarinnar. Aftur heyrðist svo í mér "Leó, komdu að ríða". Mamma mín, sem lætur sér nú fátt fyrir brjósti brenna svona vanalega var óneitanlega að velta því fyrir sér hvar ég hefði eiginlega heyrt þetta orð þegar hún sá að við Leó vorum búnir að príla upp á forláta rugguhest sem fyrir 5 kr SEK var tilbúin að láta "ríða"sér.
Mömmu var satt best að segja létt að geta enn um stund geymt samtalið um "the birds & the bees".

miðvikudagur, september 13, 2006

Áhugavert...

Í kvöld var ég, sem oft áður, að reyna að tefja fyrir því að þurfa að fara að sofa. Ég kom fram á náttfötunum þar sem mamma mín var að læra/horfa á America's Next Top Model. Þá sá ég var fjarstýringin lá í fanginu á henni svo ég ákvað að fikta soldið. "Mamma? hvað gerir þessi takki?" sagði ég og ýtti á einn takkann sem var grænn og merktur með + tákninu. Svo leit ég á sjónvarpið og sá hvar stelpuhópurinn tók á rás til að finna út hverjar þeirra kæmust í úrslit. "Jaaaá" sagði ég svo huxi "hann lætur stelpurnar hlaupa"
Æi er ég ekki yndislegur??

mánudagur, september 11, 2006

Mánudagur

Í dag er alveg svakalega gott veður hérna í Lundi. Sólin skín og það er hlýtt og notalegt. Þegar þessi orð eru skrifuð þá erum við Leó (afsakið Batman og Ninja Turtles) úti að leika okkur í einhverjum svakalegum ofurhetjuleik. Það er mjög mikið atriði að vera ofurhetja nefnilega. Í morgun var ég gráti næst þegar mamma ætlaði ekki að setja mig í ALLTOF stuttar Spidermanbuxurnar mínar við Spidermanbolinn. Ég mótmælti þessu harðlega og sagði með grátstafinn í kverkunum "En þá sjá ekki allir að ég er ofurhetja". Niðurstaðan varð sú að mamma myndi ekki gefa Spidermanbuxurnar (þær voru komnar ofan í 'Rauða Kross' gjafapokann inni í fataherbergi) en ég mætti bara vera í þeim þegar ég væri að leika mér heima gegnt því að ég færi í fötum sem passa á leikskólann. Málamiðlun er orð dagsins.

föstudagur, september 08, 2006

Mamma af hverju?

Svona byrja æði margar setningar hjá mér þessa dagana sem aðra. Í gær átti þetta samtal við móður mína sér stað

EO: Mamma, hvenær á ég afmæli?
M: Ekki næstum því strax ástin mín, ekki fyrr en næsta sumar
EO: Af hverju?
M: Því þú ert fæddur í júlí ástin mín
EO:Júlí! JÚLÍ!? Af hverju Júlí? Af hverju ekki á fimmtudaginn?
M: (mömmu minni fannst ég enn of ungur til að vera útskýra nákvæmlega ástæðu þess að ég fæddist 2. júlí og svaraði í staðinn) af því að þá varstu búinn að vera nógu lengi í bumbunni minni
EO: (eftir smá umhugsun) Mamma! þú hefðir frekar átt að fæða mig á fimmtudaginn.

Leó besti vinur á sko afmæli á morgun og ég veit sem er að þegar mar á afmæli þá fær maður fullt af pökkum. Það borgar sig þar með að eiga sem oftast afmæli ekki satt?
p.s. bestu afmælisóskir til Margrétar Írisar (3) og Vigdísar (5) sem báðar eiga afmæli í dag. Knús frá mér til ykkar! :)

miðvikudagur, september 06, 2006

Ekki baráttulaust

Það er nú smá þrjóska hlaupin í mig núna. Ég ætla nú ekki að gefa eftir plássið mitt í mömmu rúmi baráttulaust. Í nótt kom til nokkuð harða skoðanaskipta milli mín og móður minnar þegar ég vildi ekki fara aftur í mitt rúm. Þegar mamma var orðin soldið svona pirruð (let's remember folks að þetta var kl. 03 og mamma er voðalega lítið hrifin af því að láta vekja sig á þeim tíma) og bar mig með valdi aftur í mitt rúm þá skrúfaði ég nú bara frá tárunum og sagði með brostinni röddu "Mamma! Svona fer maður ekki með barnið sitt"
Æ þetta snerti nú soldið viðkvæman streng i brjósti mömmu sem lá hjá mér í mínu rúmi þar til ég var byrjaður að hrjóta aftur.
* * * * * *
p.s. Innilegar hamingjuóskir til Eiríks Tuma sem er 1 árs í dag.

mánudagur, september 04, 2006

This just in...

Tjékkið á nýjasta myndbandinu starring Egill Orri hérna

- góðar stundir!

Í pössun

Hún Matthildur mín sótti mig á leikskólann í dag og það leiddist mér nú ekki. Enda búin að spyrja mömmu nær daglega síðan við komum hvort hún þyrfti ekki að skreppa í partý. Mér finnst nefnilega fátt betra en að láta passa mig. Þegar mamma mín kom svo heim kl. rúmlega 21 var ég ennþá ekki kominn í náttfötin og var búin að fá pizzu í kvöldmatinn og var að horfa á Latabæ. Nokkuð ljúft líf. Nú er ég steinsofnaður í mínu eigin rúmi, hvar ég hef sofið alla nóttina 3 af síðustu 4 nóttum. Mamma mín er vel sofin þessa dagana.

laugardagur, september 02, 2006

Í eigin rúmi

Þau undur og stórmerki áttu sér einmitt stað síðastliðna nótt að ég svaf í mínu eigin rúmi..... alla nóttina. Það er fáheyrður atburður og mamma mín getur svosem alveg sjálfri sér um kennt. Hún hefur alltaf verið tilbúin að taka við litla næturbröltaranum mér og sú var tíð í frumbernsku minni að hún nánast sótti mig til að kúra hjá. Þannig að hún getur nú ekkert sagt. En núna er ég orðinn 5 ára og við mamma (ó)sammála um það að ég ætti nú að fara að sofa sjálfur í mínu herbergi. Fallegt stjörnukort prýðir nú ísskápinn okkar þar sem ætlunin er að safna stjörnum fyrir hverja nótt sem ég stend við minn hlut samkomulagsins. Reyndar þegar mamma mín var að koma þessu upp og útskýra fyrir mér leikreglurnar (sem felast í einni stjörnu fyrir hverja nótt sem þetta gengur eftir en -(mínus) stjörnu fyrir hverja nótt sem ég skríð upp í) var ég nú ekki alveg á því að fallast á ágæti þeirra né áætlunarinnar í heild sinni (enda sé ég enga vankanta á því að sofa einfaldlega hjá mömmu allar nætur). Þegar mamma sagði mér sumsé að ég myndi missa eina stjörnu fyrir hvert "svindl" þá spurði ég "strikarðu þá yfir eina stjörnu?". "já, nákvæmlega" svaraði mamma, heldur ánægð með hvað strákurinn hennar er skýr. "Það verður bara fallegt" svaraði ég þá eftir stutta umhugsun.
Ég læt nú ekki plata mig svona auðveldlega í hvað sem er.

föstudagur, september 01, 2006

Up to the same old tricks

Ég er búinn að vera tæpa tvo sólarhringa í Svíþjóð og ég er strax byrjaður á gömlu trixunum. Eins og til dæmis þeim að fara úr skónum mínum og skilja þá eftir á víðavangi. Þegar mamma sótti mig til Leós í kvöld þá veitti hún því athygli að ég var á tásunum (sem er eiginlega samt framför frá sokkunum, ófá pörin farin forgörðum á svoleiðis brölti). Nema hvað mamma spurði mig hvar stígvélin væru og ótrúlegt en satt þá mundi ég hvar ég hafði skilið þau eftir, í sandkassanum á fimmunni.
Mamma: Egill, farðu og sæktu stígvélin þín
Egill Orri: En ég er svo hræddur við allt þetta myrkur
Mamma: Þá hefðirðu ekki átt að skilja stígvélin þín eftir
Egill Orri: Viltu ekki koma með mér? Plís! Plííííííís!
Mamma: Jæja þá, ég skal koma með
Egill Orri [þegar hann var búinn að sækja stígvélin og var að hreinsa á sér fæturna] Mamma! Ertu að fara á undan mér? Ætlarðu bara að skilja litla strákinn þinn eftir hérna í myrkrinu? Ha! Bara aleinan, litla strákinn þinn?!
Já - ég kann alveg að höfða til samviskunnar í henni móður minni.