Í eigin rúmi
Þau undur og stórmerki áttu sér einmitt stað síðastliðna nótt að ég svaf í mínu eigin rúmi..... alla nóttina. Það er fáheyrður atburður og mamma mín getur svosem alveg sjálfri sér um kennt. Hún hefur alltaf verið tilbúin að taka við litla næturbröltaranum mér og sú var tíð í frumbernsku minni að hún nánast sótti mig til að kúra hjá. Þannig að hún getur nú ekkert sagt. En núna er ég orðinn 5 ára og við mamma (ó)sammála um það að ég ætti nú að fara að sofa sjálfur í mínu herbergi. Fallegt stjörnukort prýðir nú ísskápinn okkar þar sem ætlunin er að safna stjörnum fyrir hverja nótt sem ég stend við minn hlut samkomulagsins. Reyndar þegar mamma mín var að koma þessu upp og útskýra fyrir mér leikreglurnar (sem felast í einni stjörnu fyrir hverja nótt sem þetta gengur eftir en -(mínus) stjörnu fyrir hverja nótt sem ég skríð upp í) var ég nú ekki alveg á því að fallast á ágæti þeirra né áætlunarinnar í heild sinni (enda sé ég enga vankanta á því að sofa einfaldlega hjá mömmu allar nætur). Þegar mamma sagði mér sumsé að ég myndi missa eina stjörnu fyrir hvert "svindl" þá spurði ég "strikarðu þá yfir eina stjörnu?". "já, nákvæmlega" svaraði mamma, heldur ánægð með hvað strákurinn hennar er skýr. "Það verður bara fallegt" svaraði ég þá eftir stutta umhugsun.
Ég læt nú ekki plata mig svona auðveldlega í hvað sem er.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home