miðvikudagur, apríl 30, 2008

Sumargjöfin

Við bræður fengum nýjan fótbolta og alvöru markmannshanska í sumargjöf. Voðalega ánægðir með það og ég fékk að fara með hvorttveggja í skólann á föstudaginn var.
Pabbi var búinn að segja mér að ég yrði að passa þetta vel og hann myndi alveg sturlast ef ég týndi þessu. Ég játti því.
Þegar ég var að fara út úr bílnum hjá mömmu um morguninn þá sagði mamma
"Þú manst hvað gerist ef þú týnir þessum nýja bolta og hönskunum?"
Egill Orri: Já já, þá þyrlast pabbi alveg....

þriðjudagur, apríl 29, 2008

Ísbúðin

Á föstudaginn vorum við mamma á leiðinni að kaupa tvennt. Málningu og afmælisgjafir fyrir Ásrúnu og Birtu. Sólin skein og það var eitthvað svo sumarlegt og gott veður svo mamma stakk upp á því að við færum og fengjum okkur ís.

Egill Orri: Já! gerum það
Mamma: (eftir smástund) við kannski byrjum bara á því, áður en við förum í dótabúðina og málningarbúðina?!
Egill Orri: (hneykslaður) GAUR! Ég var að segja það

***honestly mom, get with the programme***

mánudagur, apríl 28, 2008

Fjör í sveitinni

Matti bróðir fór í sveitina á sumardaginn fyrsta. Hann fór sko alla leið vestur á Gjögur til ömmu Oddnýjar. Það leiðist honum nú örugglega ekki, hefur sko engan tíma til að tala við okkur sem eftir sitjum heima. Mamma Helga hringdi í hann á föstudaginn og það var nú stutt samtal.

Matti: Mamma! Ertu ekki að verða búin að tala? Þú ert sko eiginlega að trufla mig, ég er að læra að prjóna!

Alltaf líf & fjör í sveitinni.

Stelpubrók

Á laugardaginn þá er ég að klæða mig í fötin þegar mamma tekur eftir því að ég er að vöðla saman nærbuxunum mínum að aftan og troða þeim milli rasskinnana á mér.
Mamma: Hvað ertu að gera Egill minn?
Egill Orri: Æi mig langaði bara að prófa hvernig væri að vera í svona stelpunærbuxum (innskot: as in g-streng)

miðvikudagur, apríl 23, 2008

Fyndin fortíð

Þegar mamma er svona langt í burtu frá mér þá hefur hún kannski lítið af mér að segja, svo henni datt í hug að fara að skoða gamlar færslur hérna á blogginu í gær. Þau eru nú ófá gullkornin og prakkarastrikin sem ég hef átt í gegnum tíðina. Í senn súrt og gott hvað mamma mín er með mikið gullfiskaminni. Hérna er eitt dæmi af hvoru:

skrifað 28.september 2005
En það var soldið fyndið í gær þegar við mamma vorum að fara heim og ég var að segja bless við hana Anniku sem vinnur líka á deildinni minni. Þá sagði ég 'bless og takk í dag' en mamma sem er alltaf að hvetja mig til að æfa sænskuna sagði mér að ég yrði að segja á sænsku takk í dag. Þá sagði ég 'á sænsku takk í dag'. Til hvers að vera að flækja málið?

skrifað 27. mars 2006
Í gær vorum við mamma að spila minni (e. memory). Í fyrsta sinn hafði ég sjálfur raðað öllum spjöldunum og var afar stoltur af sjálfum mér sem von var. Þegar spilið hófst fékk ég strax 5 samstæður í röð og fannst móður minni þetta nokkuð dularfullt.
Mamma: Voðalega ertu komin með margar samstæður Egill Orri - varstu nokkuð að svindla?
Egill Orri: (án allrar samvisku) Já!
**** Kjáni! Hvernig á maður annars að vinna? *****

þriðjudagur, apríl 22, 2008

Leikjafræði

Á leiðinni heim úr Laxakvísl eitt kvöldið....

Egill Orri: Pabbi, getum við farið þarna í leikinn sem þú kenndir okkur þegar við komum heim?
Pabbi: Hvaða leik kallinn minn?
Egill Orri: Æi þarna með boltann.... já nú man ég, meðferðarlausan - nei ég meina aðgerðalausan.
Pabbi: Viðstöðulausan?
Egill Orri: Já einmitt - ég sagði það!

mánudagur, apríl 21, 2008

Fjörugt ímyndunarafl

Matti: Hvenær förum við í Laxakvísl?
Sigrún: Bara núna, við erum á leiðinni þangað
Matti: Þá ætla ég að mála
Sigrún: Kanntu það?
Matti: JÁTS (hneykslaður) - ég var að kríta í leikskólanum í dag. Það var svo mikil sól á Akureyri
Sigrún: En æðislegt, og varstu bara á stuttbuxum ?
Matti: já það var sko níu sinnum heitt, á morgun verður sko 20 sinnum heitt
Sigrún: Er það? Það er nú aldeilis gott, Birna vinkona mín er nefnilega einmitt að fara til Akureyrar um helgina á skíði
Matti: Nei það er ekki hægt að fara á skíði lengur
Sigrún: Nú? Er allur snjórinn farinn?
Matti: Nei, það var snjóflóð.... það dóu margir...
Sigrún: Hvað segirðu, það er hræðilegt
Matti: Já en sumir sluppu, snjóflóðið fór afturábak OG framábak

Hann Matti bróðir minn er stundum með svo yndislega fjörugt ímyndunarafl. Já og svo gerist bara ansi margt á Akureyri sem við vitum ekki :)

mánudagur, apríl 14, 2008

Hver? Hvað? Hvor?

Ég fór með mömmu í Mál&Menningu á Laugaveginum um helgina og fékk fótboltamyndir. Þar sem ég sat í aftursætinu á bílnum og skoðaði myndirnar með athygli spurði ég mömmu:

"Mamma! Veistu hver er besti fótboltamaður í heimi í dag?"
"Hver er það ástin mín?"
"Ronaldino"
"Ertu að meina Ronaldinhio?"
"Já"
"Eða Ronaldo?"
"Já"
"Hvorn?"
"Já"

Þá vitiði það ...

fimmtudagur, apríl 10, 2008

Heimanámið


Í gær var ég að æfa mig í lestri með mömmu og þar sem ég hafði gleymt að skipta um lestrarbók í skólanum lét mamma mig lesa upp úr Kafteini Ofurbrók. Þetta er nú kannski frekar erfið bók fyrir 6 ára en ég staulaðist í gegnum þetta. Eitthvað varð ég samt pirraður á löngum og skringilegum orðunum og þar með var lestur (sem concept) bara alveg glataður.


Mamma: Egill minn, maður verður aldrei góður í neinu nema maður æfi sig.
Egill Orri: Já já ég veit alveg að æfingin skapar meistarann sko!

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Nýtt og endurbætt barn

Jemundur minn hvað hún móðir mín sannfærist hraðar með hverjum deginum að þetta 'múv' sé rétta 'múvið'.

Síðustu 3 daga hef ég:
Ekki í eitt skipti minnst á tölvuna eða að fá að fara í hana
Verið úti að leika mér í öllum veðrum
Ekkert suðað og vælt um að það sé 'ekkert að gera'
Vaaarla talað um að fá að fara til afa & ömmu (hey öllu má nú ofgera eins og þetta var orðið)

Síðustu 2 daga hef ég:
Labbað einn heim úr skólaselinu og beint 'heim' í Laxakvísl (þetta finnst mér GEÐVEIKT sport)
Klárað heimalærdóminn þegjandi og hljóðalaust
Farið að sofa og SOFNAÐ á mettíma án þess að það þurfi að halda í hendina á mér og/eða kvarta undan endalausri hræðslu við óskilgreindar ógnir alheimsins.

sunnudagur, apríl 06, 2008

Litaval

Á föstudaginn þegar mamma og pabbi voru að keyra mig í skólann fékk ég að vita það að ég mætti velja lit á einn vegg í nýja herberginu mínu.

Ég var fljótur að hugsa mig um, 'rauðan og gulan - til skiptis'

Ég er alveg viss um að það er til svona röndótt málning

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Geðvonska

Þegar ég er þreyttur, mjög þreyttur, þá verð ég úrillur, mjög úrillur. Þá hef ég beinlínis allt á hornum mér. Yfirleitt skeyti ég þá skapi mínu á móður minni (nú eða föður) sem þá gjarnan eru sökuð um allt sem úrskeiðis hefur farið í mínu stutta lífi. Þá tek ég líka einstaklega illa undir allt sem upp á er stungið.
Fyrir helgina lá ég uppi í rúmi og fékk undanþágu frá yfirvaldinu til að horfa á Latabæ fyrir svefninn (sem annars er venjulega bannað). Þegar mamma kíkti á mig um kl. 22 var ég sofnaður svo hún slökkti á sjónvarpinu mínu. Við það hrökk ég upp og sagðist ekki vera sofnaður og skipaði mömmu að kveikja strax aftur myndinni
Mamma: Nei Egill minn, nú er bara klukkan orðin svo margt og þú átt að fara að sofa
Egill Orri: Nei ég er ekkert þreyttur, ég VIL horfa á myndina
Mamma: Nei ástin mín, þú þarft að hvíla þig, það er skóli á morgun og svo förum við norður
Egill Orri: Ég ætla ekki í skólann, hann er asnalegur
Mamma: Nei nei þú veist þér finnst gaman í skólanum
Egill Orri: Nei mér finnst hann ógeð og ég vil ekki fara til Akureyrar
Mamma: Jæja ástin mín, við skulum bara ræða þetta þegar þú ert í betra skapi
Egill Orri: Nei ég ætla að vera í vondu skapi þar til ég verð gamall maður
Spennandi framtíðarsýn það

þriðjudagur, apríl 01, 2008

Enskukunnátta

Á leiðinni heim frá Akureyri í gær heyrði mamma mig vera að muldra eitthvað við sjálfan mig.
Mamma: "hvað ertu að segja Egill minn"
Egill Orri: "Æji ég er bara aðeins að tala ensku"
Mamma: "kanntu það?"
Egill Orri: "Já (hneykslaður), Joshua kenndi mér hana"
Mamma: "já er það, er hann soldið góður í ensku?"
Egill Orri: "Játs, hann er ótrúlega góður, hann kann meira að segja að segja hundraðogellefu!!!"
Innskot: Hundrað er nefnilega mælikvarði á allt sem er rosalega hratt, fljótt, flott og gott. Enskukunnáttan er greinilega mæld með sömu aðferðum :)