Sunnudagsbíltúr og jólaljós
Þetta er sko búinn að vera langur og góður dagur hjá okkur mömmu. Við byrjuðum á því að vakna snemma og drífa okkur í bíltúr til Höganäs sem er lítill bær hérna fyrir norðan Lund. Bærinn (eins og kannski augljóst er) er framleiðslubær 'Höganäs' matar- og kaffistellsins sem mamma mín er soldið mikið hrifin af. Allavegna, þar var ég ótrúlega góður og fannst mikið sport að liggja á undirvagninum í innkaupakerrunni og þykjast vera að synda. Eftir að við komum aftur heim (með viðkomu á MacDonald's og í IKEA að 'beila' út innkaupin frá því í gær) fór mamma að þrífa og baka súkkulaðiköku. Við fórum svo í bæinn með Leó og mömmu hans að skoða jólaljósin og skreytingarnar á göngugötunni og á torgunum tveimur, en í dag var 'Skyltsöndag' eins og Lundverjar kalla fyrsta sunnudag í aðventu því þá afhjúpa allar búðirnar jólaskreytingarnar sínar. Þetta var voðalega gaman og við fengum að fara í tívolí og fengum poppkorn og allt. Síðan fórum við heim og borðuðum súkkulaðiköku og mjólk og hlýjuðum okkur - það var sko frekar svona kalt í bænum -
En einn gullmoli datt út þegar mamma var að ryksuga frammi á gangi í dag. Mér fannst vera frekar mikill hávaði í henni og þessari ryksugu og var að reyna að horfa á sjónvarpið frammi í stofu. Ég gekk að millihurðinni fram á gang og skellti henni með orðunum 'Mamma! ég ætla að loka þessari hurð, ég vil horfa á myndina mína í fró og riði!'
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home