þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Heimsókn til tannlæknisins

Ég var nú ekki beinlínis glaður þegar mamma mín vakti mig óvenjusnemma í morgun til að fara til ...... TANNLÆKNIS. Bjakk mér leist nú mátulega vel á það get ég sagt ykkur og mótmælti. Mótmælti meðan ég pissaði, mótmælti meðan ég var klæddur, mótmælti í gegnum allann morgunmatinn, mótmælti meðan ég fékk að horfa á morgunbarnatímann og var enn mótmælandi meðan mamma mín klæddi mig í skóna og setti mig í kerruna. Þegar við komum á Fäladstorget þá ætlaði ég nú aldeilis ekki að fara inn á tannlæknastofuna og þess þá heldur að fara með henni Malínu inn að skoða stofuna hennar. Jafnvel þó að mamma kæmi með. (hmmm skil ekki hvaðan hann hefur þessa hræðslu við tannlækna humm haaaaa! ég meina ekki eins og móðir hans eigi hræðilegar minningar frá heimsóknum á nákvæmlega sömu tannlæknastofuna á sama aldri, heimsóknir sem síðar lögðu grunninn að tugþúsunda tannréttingum heima á Íslandi!!)
En hvað um það, á endanum fór ég með mömmu minni inn og hún fékk að sitja með mig í stólnum meðan ég fékk að skoða öll flottu tækin hjá tannlækninum. Ég fékk meira að segja að ýta á takkann sem lætur sprautast vatn í plastmálið og ég fékk líka að fara í 'flugferð' í stólnum og hann fór ógisslega hátt! Tannlæknirinn taldi svo tennurnar í mér með svona fyndinni klóru og litlum spegli og svo málaði hún tennurnar mínar með svona skrítnu kremi sem var með bananabragði. Mér fannst þetta allt saman jätteroligt og vildi ekki fara heim. Sagði bara við tannlækninn 'ses i morgon' og fékk rosaflottan jeppalímmiða í verðlaun. Á endanum tókst nú mömmu að fá mig í gallann og af stað fórum við. Ég ætlaði sko að segja öllum á leikskólanum hvað ég var að gera og hvað ég var duglegur. Ég var svo spenntur að mamma ákvað að spyrja mig hvort ég vildi kannski bara verða tannlæknir þegar ég yrði stór. 'nei mamma, ég ætla að vera polis' svaraði ég. 'En tannlæknar eiga svo flotta svona stóla' benti mamma mér á. 'OKEI, ég verð þá tannlæknir' var svarið. Ooooh að ég tæki nú röksemdarfærslum móður minnar alltaf svona vel!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home