laugardagur, nóvember 26, 2005

Kirkjuskólinn

Annan hvern laugardag fer ég í kirkjuskólann hérna í Lundi. Þar syng ég og leik mér með öllum hinum íslensku krökkunum. Mamma mín hafði keyrt Tómas og Ísabellu út á flugvöll ásamt foreldrum þeirra svo ég fór með Vigdísi og Auði vinkonum mínum í kirkjuskólann. Þegar mamma mætti svo á svæðið þá var ég ofsalega stoltur að gefa öllum piparkökur sem ég og mamma höfðum bakað og mamma var hálfhissa hvað ég var glaður - alveg í essinu mínu með piparkökuboxið. Venjulega fer ég nefnilega alveg í baklás við svona mikla athygli en ekki í dag. Mamma var auðvitað voðalega montin að eiga svona duglegan strák.
Svo fórum við mamma með Leó og Katrínu mömmu hans í IKEA og við fengum að fara í boltalandið. Eftir að við komum heim fór ég til Leós og við fórum út að leika okkur í snjónum. Þegar ég kom heim fékk ég púkanammi sem amma Gróa hafði sent mér. Mér fannst stórmerkilegt að þetta íslenska nammi skyldi hafa dúkkað upp í fjarveru minni. 'Mamma!' sagði ég hissa 'fórstu til Íslands meðan ég var hjá Leó?'.
Á morgun er svo fyrsti sunnudagur í aðventu og þá er alltaf mikið um að vera í miðbæ Lundar þegar allar búðirnar afhjúpa jólaskreytingarnar sínar. Við mamma förum örugglega í bæinn og ætlum svo kannski að bjóða einhverju góðu fólki í kaffi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home