mánudagur, nóvember 28, 2005

Sjálfsöryggi

Mamma mín er nú almennt séð frekar dugleg að segja mér að ég sé (þegar ég er það) duglegur og ég fæ yfirleitt að heyra frekar oft hvað ég sé sætur og góður og svoleiðis. Það eru nú samt farnar að renna tvær grímur á mömmu mína þessa dagana þegar ég er augljóslega farinn að taka þessu hrósi sem heilögum sannleik. Eftir klippinguna á föstudaginn hafa greinilega margir hrósað mér fyrir að vera orðinn sætur og því kom þessi setning á laugardaginn í kirkjuskólanum
Katrín: Nei, vaaaá Egill Orri, varstu í klippingu?
Egill Orri; JÁ ég VEIT ég VEIT, ég er rosaflottur!
Svo í íþróttaskólanum áðan þá var mamma mín að segja mér (ekki svosem í fyrsta sinn) að ég væri sætur og gerði það eins og oft áður með spurningunni...
Mamma: hver er sæti strákurinn minn?
Egill Orri: Ég, ég er rosalega sætur, ég veit það!
Hógværð? Er það ekki örugglega dyggð?
Áðan var svo auglýsing frá Finnair í sjónvarpinu, í henni er lítill hreindýrakálfur viðskila frá mömmu sinnni (teiknimynd sumsé) og auglýsingin gengur út að hann sjái 'stjörnu' á himni sem hann fylgir og ratar þannig til mömmu sinnar. 'stjarnan' reynist svo vera flugvél frá Finnair. Altjént, þetta finnst mér vera skemmtilegasta 'myndin' mín og ég hleyp til þegar ég heyri hana koma á skjáinn. Meira að segja í kvöld þegar ég var í baði dröslaðist ég upp úr því til að koma og sjá hana. Svo snéri ég mér að mömmu og sagði 'Mamma! svona flugvél förum við í heim til Íslands um jólin' 'Já' sagði mamma svo hljóp ég aftur inn á bað en snéri mér við í dyrunum og sagði 'Mamma, TAKK fyrir að muna að við ætlum heim til Íslands um jólin'
Annars fékk ég að fara heim til Birtu að leika mér eftir íþróttaskólann í dag og þegar ég var kominn heim var ég ósköp niðurlútur og sagðist ekkert eiga eins skemmtilegt dót og Birta, mitt dót væri svo leiðinlegt. Mamma mín benti mér á að jólin væru nú á næsta leiti og kannski fengi ég eitthvað skemmtilegt dót í jólagjöf ef ég væri þægur. Þá glaðnaði nú heldur betur yfir mér og sagði 'JAAAAAAAÁ, frá afa Hjört, hringjum í hann, hann gefur mér alltaf allt sem ég vil því ég er litli strákurinn hans'.

1 Comments:

Blogger Inga Lara said...

Hvad, hann kippir bara i Arnason kynid: Their braedur eru nu ekki hogvaerir thegar ad talad er um hvad their eru myndarlegir..... afhverju aetti Egill ad vera eh odruvisi....xx

12:04 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home