fimmtudagur, júlí 27, 2006

Eins og blóm í eggi

Mömmu minni hefur alltaf fundist þetta hálf-fyndinn frasi en þetta á svo sannarlega við um mig litla mig þessa dagana. Í gær var ég hjá ömmu í Hamravík meðan að mamma mín var að vinna uppi á hóteli. Þegar ég var ekki sofnaður kl. 22:30 hringdi ég í mömmuna mína að vita hvenær hún ætlaði eiginlega að koma heim. Hún hélt hún kæmi fljótlega og spurði mig hvort hún ætti að koma með eitthvað handa stráknum sínum þegar hún kæmi. "Frostpinna" var svarið sem hún fékk en eitthvað dróst nú að hún kæmi og ég var steinsofnaður í afa míns bóli þegar hún loks lét sjá sig. Mamma setti ísinn í frystinn og var stunginn af í vinnuna þegar ég vaknaði í morgun. Á sómasamlegum tíma (lesist 09:58) hringdi mamma svo í strákinn að heyra hvernig hann hefði það og ég tilkynnti henni að ég væri að bíða eftir afa til að koma og sækja fellihýsið sem taka skyldi með í ferðalagið. Mamma mín sagðist myndu skila því til afa að litli strákurinn hans vildi fara með í það ævintýri en ákvað jafnframt að vera soldið góð við strákinn:
Mamma: Egill Orri! það er frostpinni í frystinum hjá ömmu sem þú mátt fá
Egill Orri: Var hann gulur?
Mamma: Já ástin mín, gulur með súkkulaði
Egill Orri: Ég er búinn að borða hann. [smá þögn] Komstu ekki með neitt meira?
Já maður er góðu vanur, það er víst óhætt að segja.

mánudagur, júlí 24, 2006

Greiði á móti greiða

Í gærnótt gisti ég í Borgarnesi hjá ömmu Unni í fyrsta sinn í marga marga daga. Mamma svaf í gamla rúminu sínu en ég fékk að kúra hjá ömmu Unni. Það finnst mér nú gott og notalegt. Í morgun þegar amma var farin í vinnuna skreið ég upp í til mömmu minnar og vildi ólmur vekja hana. Mig langaði nefnilega svo á Shell. Ég þurfti svo mikið að vinna hjá honum afa mínum sjáiði til. Það voru margir margir Svalar komnir sem setja þurfti í hillur. Mamma mín, vitandi að ég myndi innbyrða ógrynnin öll af sælgæti og sykruðum djús ef ég fengi að fara, sagði nei því miður, ég gæti ekki fengið að fara á Shell í dag. Ég dó nú ekki ráðalaus og sagði að bragði "en ef ég kyssi þig níuhundruð kossa og segi þér eina músasögu?"

Kaup kaups eða hvað?

sunnudagur, júlí 23, 2006

The hereafter

Á föstudaginn fór ég með ömmu Gróu og afa Villa austur fyrir fjall, nánar tiltekið í Ölfusið eða hjólhýsaland eins og við bræðurnir köllum það gjarna. Þar finnst mér jafnan gaman að koma og vera að vesenast við að hjálpa afa við hin ýmsu verk og fá svo eitthvað gott með 'kaffinu' hjá ömmu. Á föstudaginn fékk ég að fara með afa út í Kotstrandakirkjugarð og hjálpa honum að mála leiðið hennar langömmu minnar sem þar hvílir. Ég tók ansi rösklega til hendinni ef dæma má af fötunum sem ég var í sem eru ansi vel slett málningu. Eins og venjulega hafði ég margar spurningar um lífið og tilveruna. Meðal annars var rætt um hvað gerist þegar maður deyr og svoleiðis. Mér fannst gaman að hjálpa afa að gera leiðið hennar langömmu huggulegt, svo gaman raunar að þegar við komum heim í hjólhýsi var það fyrsta sem ég sagði við ömmu Gróu "Amma! Þegar þú ert dauð ætla ég að hjálpa afa að mála leiðið þitt"
Amma gat nú ekki annað en hlegið að stráknum sínum - hún amma mín veit líka alvega að þrátt fyir heldur beinskeitt orðalag þá gekk mér gott eitt til með þessu boði.

föstudagur, júlí 21, 2006

Lögbrjótur?

Á miðvikudaginn var ég (auminginn) látinn þvælast með móður minni um allann bæ og þótti það nú ekkert sérstaklega skemmtilegt. Hvað heldurðu að maður nenni eitthvað að vera að vesenast á einhver kaffihús og í heimsóknir til fólks sem ég man varla eftir. Jæja nema hvað þar sem við erum að keyra upp Hverfisgötuna og beygja inn á Snorrabrautina þá heyrist úr aftursætinu "Mamma, það borgar sig nú ekki að keyra hratt hérna framhjá löggustöðinni. En síðan, á eftir þegar við erum komin lengst í burtu, þá geturðu keyrt hratt". Mamma mín vissi eiginlega ekki hvernig hún átti að taka þessu kommenti mínu. Það staðfestir hins vegar óneitanlega það ég hef lengi haldið fram að það er ekki glæpur ef það kemst ekki upp. Enda segi ég iðulega þegar ég geri eitthvað af mér þegar móðir mín sér ekki til "En mamma! Þú sást þetta ekki"

mánudagur, júlí 17, 2006

Ferðalangur

Jæja þá er ég nú heldur betur búinn að leggja land undir fót. Ekki bara er ég búinn að fara alla leiðina á Mývatn heldur gott betur en það og skellti mér alla leið á ... nema hvað... Egilsstaði. Gæti ekki passað betur. Mér fannst þetta nú alveg ofsalega merkilegt að heill staður skyldi heita eftir mér. Svo er líka til Egilshöll í Reykjavík - þetta er greinlega mjög merkilegt nafn sem mér var valið af foreldrum mínum.
Ég kom semsagt við á hótelinu hjá mömmu í gær og við fengum voða gott að borða þar áður en við héldum áfram ferðinni til Reykjavíkur. Ég var nú svosem ekkert endilega á því að fara með pabba enda farinn að sakna mömmu minnar soldið mikið. Svo fannst mér svo mikið sport að sitja frammi í lobbyi og tala við hana Sofie. Hún Sofie er nefnilega frá Svíþjóð og svo heppilega vill til að ég tala einmitt sænsku. Ég var mikið að segja henni frá því sem var að gerast í bókinni sem ég var að lesa og svona. Gott fyrir hana að fá svona nettan útdrátt úr 'Helgi skoðar heiminn' enda síklassískt verk þar á ferð.

föstudagur, júlí 14, 2006

Mývatnsraunir?

Það var heldur "lítill" drengur sem hringdi í mömmu sína frá Mývatni í morgun og saknaði hennar ógurlega. Ekki að henni hafi leiðst það í sjálfu sér að ég hafi saknað hennar en auðvitað finnst mömmunni erfitt að heyra litla strákinn sinn leiðan. Pabbi minn sagði reyndar að honum fyndust þetta nú hálfþurr þessi tár sem ég þóttist gráta en ég væri þó búinn að vera að væla um mömmu on/off alla ferðina. Þess á milli hafi ég verið að skemmta mér konunglega og hafi ekki yfir neinu að kvarta, þeir feðgar séu þarna eins og blóm í eggi hjá vinum hans pabba, Ásdísi & Ragga að ógleymdum 'besta' vini okkar bræðra honum Elvar Goða.
Annars byrjaði ferðin nú ekki sem best þegar honum Marteini bróður mínum tókst að gefa mér einn á'ann svo ég fékk fossandi blóðnasir. Ég fríkaði vitaskuld út þegar ég sá allt þetta blóð. Sannfærður um það að ég væri að deyja og ekkert minna. Betur fór þó en á horfðist og ég komst á Mývatn eins og fram kemur hér að framan. Nú ætlum við feðgar víst að taka púlsinn á veðrinu og jafnvel að elta það austur ef ske kynni að smá sól léti sjá sig. Það verður því eflaust smá bið á því að ég sjái hana ástkæra móður mína aftur. Það er nú samt bara allt í lagi - þetta herðir mig allt saman heldur hún.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Vinnuglaður

Það er sko nóg að gera hjá mér og okkur bræðrum þessa dagana. Á mánudaginn vorum við heldur en ekki komnir í feitt þegar við hittum nokkra vinnuskólakrakka fyrir aftan bakgarðinn hjá pabba labba. Við fengum lánaðar hrífur og sýndum góða takta í grasrakstri, pabbi okkar var farinn að huga að því að setjast bara í helgan stein og láta okkur sjá fyrir sér. Áhuginn entist alveg fram eftir kvöldi og reglulega komum við inn og létum vita að við værum að fara í 'vinnuna okkar'.
Í gær, þriðjudag, fórum við svo með pabba á Mývatn þar sem Elvar Goði vinur okkar á heima. Þar verður nú eitthvað sprellað ef mamma þekkir okkur rétt. Á leiðinni komum við við á hótelinu hans afa, þar sem mamma mín var að vinna, og fengum smá bita. Lögðum okkur svo alla fram við að leggja hótelið í rúst. Tókst alls ekki svo illa upp. Húsgögnin voru á víð og dreif (og öll út í kökumylsnu), skór og annar óþarfafatnaður lágu eins og hráviði og við hlupum um veitingasalinn eins og galnir menn. ÚFF það var ekki laust við að hún móðir mín væri hálffeginn þegar við fórum - hún hefði litla orku í að tjónka við svona gríslinga þessa dagana.

sunnudagur, júlí 09, 2006

Afmælisveislan

Jæja þá er ég loksins orðinn 5 ára - formlega - því afmælisveislan var haldin í gær með pompi og prakt. Þar var að sjálfsögðu margt góðra gesta og gaman að hitta aftur gömlu vinina af Bifröst og brottflutta Lundarbúa eins og Birtu og Tómas Helga. Ég fékk alveg ótrúlega mikið af fínum gjöfum og er núna staddur í Reykjavík hjá pabba að leika með þetta allt saman. Kemst líklega ekki yfir nema helminginn þannig að afmælispeningarnir sem ég fékk verða ekki notaðir alveg strax.
Annars er ég bara ótrúlega hress og glaður, er mest hjá föðurfólkinu mínu þessa dagana meðan mamma mín er að vinna á hótelinu hans afa Hjartar. Mér finnst nú reyndar mikið sport að komast þangað og gera svolítinn svona óskunda (aldrei samt viljandi) en mömmu finnst nú best að ég sé geymdur hjá pabba sem mest meðan kallinn er í sumarfríi.
Á morgun kemur Leó og mamma hans til Íslands og þá fæ ég vonandi að hitta hann eins og einu sinni meðan hann er hérna. Veit að hann verður upptekinn við að hitta alla vini sína á Skaganum líka en kannski náum við einni sundferð, kannski kemur Freyja María líka með okkur - eins og ég myndi segja sjálfur - 'það er aldrei að vita'.

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Hjá ömmu er best að vera

Mér var dröslað með til Reykjavíkur í gær en fékk óvænt að verða eftir hjá ömmu Gróu. Ekki leiddist mér það nú mikið. Þar er nú best að vera. Amma er ekki bara ótrúlega dugleg að leika við mig heldur var Marteinn bróðir minn líka í pössun þar og við bræðurnir erum lygilega duglegir að leika okkur. Það er ekki vesenið á okkur bræðrum. Ofurhetjuleikir, bílaleikir, kattaleikir og boltaleikir - alls konar leikir og allavegna leikir. Ég er svona soldið að leggja Marteini lífsreglurnar þar sem ég er nú heilu árinu eldri og veraldarvanur heimsborgari. Bý í útlöndum og svona. Hristi gjarnan hausinn ef Marteinn spyr að einhverju sem mér finnst kjánalegt og muldra 'oooh hann er svo vitlaus' en útskýri af kostgæfni það sem spurt er að. Já það er nú munur að vera svona klár eins og ég!
Á laugardaginn rennur svo langþráð afmæli upp, þ.e.a.s. veislan sjálf. Þá get ég (að eigin sögn) loksins orðið 5 ára og haldið áfram með lífið. Það er nefnilega búin ríkja þvílík kyrrstaða og óvissa í þessum málum síðan mér var sagt að veislan yrði haldin viku eftir sjálfan afmælisdaginn. Nú er bara að vona að sem flestir vinir mínir sjái sér fært að mæta.

mánudagur, júlí 03, 2006

Erill

Ég er mikill hjálparkokkur og fékk að fara með afa á Shell í morgun. Fór með þær skipanir móður minnar þangað að í dag væri ekki nammidagur og sömu reglur giltu hérna og í Svíþjóð, nammi skyldi bara borðað á laugardögum. Líka þó að afi manns eigi sjoppu. Þegar mamma mín kom svo niður á Shell í hádeginu að fá sér 'mömmumat' þá mætti ég henni með hvorki meira né minna en 1 stk (sykur)Svala, einn stóran ópalpakka (ekki þann fyrsta skv. upplýsingum ömmu minnar), eina dós af kartöflustráum og auk þess stórt glas (hálftómt) af ískrapi. Þetta fór ég með eins og fjársjóð og stakk undan upp á háaloft þegar mamma mín gerði við þessa neyslu athugasemdir. "En mamma! pakkinn er jú opinn og þá get ég jú ekki lokið honum aftur svo ég verð jú að äta þetta färdigt. Maður á alltaf að klára" útskýrði ég sannfærandi og gaf mömmu minni einn ópal til að reyna að blíðka hana. "Mamma! sagði ég svo, förum í golf og ég get tekið allt góðgætið mitt með!" Ekki varð nú af því þar sem mamma mín var pínu slöpp í bakinu því var stefnan tekin á sund í staðinn. Þar emjaði ég eins og kettlingur í hvert sinn sem mamma mín stakk upp á því að ég færi í rennibrautirnar - einn þ.e.a.s. Mér þótti vissara að hafa mömmu mína með, annars gæti ég sem best drukknað. Mér fannst ég líka hafa unnið heldur betur fyrir svoleiðis þjónustu. Eins og ég benti á hafði ég verið ofsalega duglegur. Sótt símann fyrir mömmu, farið að sofa, hlustað á músasögur (sem eru í sérlegu uppáhaldi) og sótt húfuna mína.
Hvað er hægt að fara fram á meira?

sunnudagur, júlí 02, 2006

Afmælispilturinn

Ég á afmæli í dag, ég á afmæli í dag, ég á afmæli í daaaaag, ég á afmæli í dag. Já það er rétt, ég er fimm ára í dag. Mömmu minni finnst ótrúlegt að ég skuli vera orðinn svona 'gamall' - ég fer nú bara að hætta að vera litli strákurinn hennar - uss uss uss.
En sumsé, ég er voðalega sáttur við að vera kominn til Íslands og við bræðurnir fögnuðum hvor öðrum alveg ofsalega og innilega. Við erum enda búnir að vera þvílíkt þægir um helgina, mamma mín hefur bara ekki vitað af okkur. Það má samt ekki skilja það svo að við séum ekki uppátektarsamir fyrir því. Í bílskúrnum hjá pabba eru til dæmis nokkrar skellinöðrur og fjórhjól sem pabbi er að geyma fyrir vini sína. Þetta finnst okkur ofsalega spennandi og viljum alltaf vera að fara í skúrinn. Í gær var mamma hins vegar löt og vildi frekar kúra en að hleypa okkur inn. Þegar svo við fórum í sund og mamma kom út sá hún að verkfæri (sem Matti bróðir hafði fengið
í afmælisgjöf) lágu á víð og dreif fyrir utan hurðina, við höfðum sumsé verið að reyna að 'brjótast' inn í bílskúrinn. Já stundum þarf maður bara að bjarga sér sjálfur.
Annars var ég frekar ósáttur við að fá ekki að halda afmælisveisluna mína í dag og lagði mikla áherslu á að ég ætti afmæli Í DAG! Ekki um næstu helgi, þegar veislan er áætluð. Mamma mín reyndi að útskýra fyrir mér að ástæðan væri sú að pabbi minn væri í útlöndum og auk þess hefði verið búið að bóka Ævintýralandið í Kringlunni fyrir aðra veislu í dag. Ég var því óskaplega brjóstumkennanlegur þegar afi minn spurði mig hvort ég væri orðinn 5 ára. "Nei, ég er ekki orðinn fimm ára, ég kann ekki verða það fyrr en um NÆSTU HELGI, það var einhver annar búinn að panta afmælisveislu í DAG". Já já það getur náttúrulega bara einn átt afmæli hvern dag. Annað væri bara kaótískt og ruglingslegt og ALLIR vita að maður verður ekki árinu eldri fyrr en í veislunni sjálfri - ég verð því 4 ára í viku í viðbót!