föstudagur, júlí 14, 2006

Mývatnsraunir?

Það var heldur "lítill" drengur sem hringdi í mömmu sína frá Mývatni í morgun og saknaði hennar ógurlega. Ekki að henni hafi leiðst það í sjálfu sér að ég hafi saknað hennar en auðvitað finnst mömmunni erfitt að heyra litla strákinn sinn leiðan. Pabbi minn sagði reyndar að honum fyndust þetta nú hálfþurr þessi tár sem ég þóttist gráta en ég væri þó búinn að vera að væla um mömmu on/off alla ferðina. Þess á milli hafi ég verið að skemmta mér konunglega og hafi ekki yfir neinu að kvarta, þeir feðgar séu þarna eins og blóm í eggi hjá vinum hans pabba, Ásdísi & Ragga að ógleymdum 'besta' vini okkar bræðra honum Elvar Goða.
Annars byrjaði ferðin nú ekki sem best þegar honum Marteini bróður mínum tókst að gefa mér einn á'ann svo ég fékk fossandi blóðnasir. Ég fríkaði vitaskuld út þegar ég sá allt þetta blóð. Sannfærður um það að ég væri að deyja og ekkert minna. Betur fór þó en á horfðist og ég komst á Mývatn eins og fram kemur hér að framan. Nú ætlum við feðgar víst að taka púlsinn á veðrinu og jafnvel að elta það austur ef ske kynni að smá sól léti sjá sig. Það verður því eflaust smá bið á því að ég sjái hana ástkæra móður mína aftur. Það er nú samt bara allt í lagi - þetta herðir mig allt saman heldur hún.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home