Afmælisveislan
Jæja þá er ég loksins orðinn 5 ára - formlega - því afmælisveislan var haldin í gær með pompi og prakt. Þar var að sjálfsögðu margt góðra gesta og gaman að hitta aftur gömlu vinina af Bifröst og brottflutta Lundarbúa eins og Birtu og Tómas Helga. Ég fékk alveg ótrúlega mikið af fínum gjöfum og er núna staddur í Reykjavík hjá pabba að leika með þetta allt saman. Kemst líklega ekki yfir nema helminginn þannig að afmælispeningarnir sem ég fékk verða ekki notaðir alveg strax.
Annars er ég bara ótrúlega hress og glaður, er mest hjá föðurfólkinu mínu þessa dagana meðan mamma mín er að vinna á hótelinu hans afa Hjartar. Mér finnst nú reyndar mikið sport að komast þangað og gera svolítinn svona óskunda (aldrei samt viljandi) en mömmu finnst nú best að ég sé geymdur hjá pabba sem mest meðan kallinn er í sumarfríi.
Á morgun kemur Leó og mamma hans til Íslands og þá fæ ég vonandi að hitta hann eins og einu sinni meðan hann er hérna. Veit að hann verður upptekinn við að hitta alla vini sína á Skaganum líka en kannski náum við einni sundferð, kannski kemur Freyja María líka með okkur - eins og ég myndi segja sjálfur - 'það er aldrei að vita'.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home