Ég á afmæli í dag, ég á afmæli í dag, ég á afmæli í daaaaag, ég á afmæli í dag. Já það er rétt, ég er fimm ára í dag. Mömmu minni finnst ótrúlegt að ég skuli vera orðinn svona 'gamall' - ég fer nú bara að hætta að vera litli strákurinn hennar - uss uss uss.
En sumsé, ég er voðalega sáttur við að vera kominn til Íslands og við bræðurnir fögnuðum hvor öðrum alveg ofsalega og innilega. Við erum enda búnir að vera þvílíkt þægir um helgina, mamma mín hefur bara ekki vitað af okkur. Það má samt ekki skilja það svo að við séum ekki uppátektarsamir fyrir því. Í bílskúrnum hjá pabba eru til dæmis nokkrar skellinöðrur og fjórhjól sem pabbi er að geyma fyrir vini sína. Þetta finnst okkur ofsalega spennandi og viljum alltaf vera að fara í skúrinn. Í gær var mamma hins vegar löt og vildi frekar kúra en að hleypa okkur inn. Þegar svo við fórum í sund og mamma kom út sá hún að verkfæri (sem Matti bróðir hafði fengið
í afmælisgjöf) lágu á víð og dreif fyrir utan hurðina, við höfðum sumsé verið að reyna að 'brjótast' inn í bílskúrinn. Já stundum þarf maður bara að bjarga sér sjálfur.
Annars var ég frekar ósáttur við að fá ekki að halda afmælisveisluna mína í dag og lagði mikla áherslu á að ég ætti afmæli Í DAG! Ekki um næstu helgi, þegar veislan er áætluð. Mamma mín reyndi að útskýra fyrir mér að ástæðan væri sú að pabbi minn væri í útlöndum og auk þess hefði verið búið að bóka Ævintýralandið í Kringlunni fyrir aðra veislu í dag. Ég var því óskaplega brjóstumkennanlegur þegar afi minn spurði mig hvort ég væri orðinn 5 ára. "Nei, ég er ekki orðinn fimm ára, ég kann ekki verða það fyrr en um NÆSTU HELGI, það var einhver annar búinn að panta afmælisveislu í DAG". Já já það getur náttúrulega bara einn átt afmæli hvern dag. Annað væri bara kaótískt og ruglingslegt og ALLIR vita að maður verður ekki árinu eldri fyrr en í veislunni sjálfri - ég verð því 4 ára í viku í viðbót!