miðvikudagur, júní 28, 2006

Af vörum barnanna....

heyrir maður sannleikann. Hún amma mín fékk nú aldeilis að kenna á því þegar við komum úr ferðinni til Gautaborgar. Þá fórum við mamma aðeins yfir til Leós með forláta sápukúlur sem ég hafði keypt handa honum í Liseberg. Mamma mín var aðeins að segja Katrínu frá ferðinni þegar Reynir fer að skellihlæja og segir "Hvað ertu að segja drengur?" við mig. Mamma mín hváði og spurði Reyni að hverju hann væri að hlæja. Jú ég hafði nefnilega sagt við Leó Erni "Leó! viltu koma heim til mín að skoða ömmu mína? Hún er feit, hún er rosalega feit".
Já þakka þér fyrir ég er nú ekkert að sykurhúða það, ég segi það bara eins og það er!
**-**
Annars var ferðin okkar til Gautaborgar alveg meiriháttar skemmtileg. Mér leiddist nú ekki í Liseberg þrátt fyrir MIKLA MIKLA rigningu sem buldi á okkur allann daginn. Það var ekki þurr blettur á mér þegar við komum heim á hótel um kvöldið en mér var alveg sama. Ég var mest með ömmu Unni í barnatækjunum meðan mamma og Árni frændi (sem ég er nú hættur að kalla Obbna en segi í stað þess, og vanda mig mikið við framburðinn, Árrrrrbni) fóru í stóru stóru rússíbanana. Að lokum fórum við svo út að borða og ég fékk kjötbollur og ís frá þjónustustúlkunni sem ég heillaði upp úr skónum. Hótelið sem við vorum á var í eigu Liseberg þannig að í morgunmatnum daginn eftir hitti ég þessa sætu kanínu (sem er önnur táknfígúra garðsins). Ég var voða hrifinn af henni og klappaði henni, kitlaði og knúsaði í bak og fyrir.
**-**
Í dag voru svo bara fastir liðir eins og venjulega og ég fór í leikskólann. Þegar ég kom heim úr leikskólanum tók mamma mín eftir að bolurinn sem ég var í (sem ég kalla skyrtu af því hann er með kraga) var heldur betur rifinn á öxlinni. Ég setti upp sakleysissvipinn og þóttist ekkert vita hvernig þetta hefði átt sér stað. Mamma mín hefur grun um að um skemmdarverk sé að ræða af minni hálfu enda hef ég lengi haft ímugust á þessari flík og kvarta jafnan hástöfum ef ég er klæddur í hana.
**-**
Í kvöld kom svo Leó til mín í kveðjumat og hann kom með stóran stóran pakka í afmælisgjöf til mín. Það var rosalega flott 'kábboja'dót með alvöru handjárnum, hatti o.fl. og ég er búinn að eyða kvöldinu mestmegnis í að handjárna mig við ýmsa hluti og fólk. Þetta er ákaflega spennandi allt saman.
Á morgun rennur svo upp langþráður dagur og þá förum við mamma (og amma og Árbni frændi auðvitað líka) heim til ÍSLANDS og þar hitti ég pabba minn (sem á einmitt afmæli á morgun) og auðvitað Matta bróður sem bíður spenntur. Afi Hjörtur verður nú líka glaður að sjá mig og amma Gróa og afi Villi sömuleiðis. Já já það er nú bara eins og maður sé að snúa heim úr stríðinu þegar maður kemur í heimsókn frá svona útlöndum.

mánudagur, júní 26, 2006

Ströndin og amma!


Í gær var sko frábær dagur. Þá fórum við mamma með Leó Erni og foreldrum hans til Lomma á ströndina. Þetta fannst mér nú lífið sko, sem mamma mín var mjög ánægð að uppgötva þar sem síðast þegar ég var á strönd (Ítalíu 2003) fannst mér ströndin ekki par geðslegur staður, sat eins og lítil pempía á sólbekk og ef ég kom við sandinn gretti ég mig ógurlega og sagði "mamma, þuððka Eji Oðþa" (Mamma þurrka Egil Orra). Nema hvað í gær kútveltist ég bæði í sjó og sandi án þess að finnast það neitt óþægilegt eða ógeðslegt. Ég er m.ö.o. orðinn strandvænn ferðafélagi.
Um kvöldið var svo slegið upp dýrðargrilli á þrjúunni hjá Leó og ég gat leikið mér við alla vini mína (sem eftir eru á Kjemmanum!). Þetta var ágæt leið fyrir mig til að stytta biðina eftir langþráðri komu ömmu Unnar og 'Ábbna' frænda sem birtust svo hjá okkur um kl. 22 í gærkvöldi. Þvílíkir fagnaðarfundir, ég stökk upp um hálsið á þeim báðum og var ótrúlega glaður lítill strákur þegar ég lognaðist út af kl. 23 í gærkvöldi.
Í dag er svo stefnan tekin á Gautaborg og Liseberg þar sem ég fæ að gista á hóteli - jahá það leiðist mér nú ekki - litla flottræflinum. Segi ykkur betur frá því síðar.
Að lokum sendi ég stórt knús og koss til Ingu frænku minnar sem á afmæli í dag!

föstudagur, júní 23, 2006

Midsommar


Ekkert er sænskara en Midsommar. Alls staðar hérna á Kjemmanum má sjá fólk búið að koma fyrir langborðum undir partýtjöldum og greinilegt að mikið stendur til.
Við mamma fórum að sjálfsögðu niðrí bæ, nánar tiltekið í Kulturen þar sem var búið að reisa forláta Midsommarstång sem dansað var í kringu. Það var 'hljómsveit' sem stjórnaði dansinum og söngnum og Svíarnir eru svo bráðsnjallir að notast bara við (mörg) sömu lögin og sungin eru um jólin svo sem Räven raskar över isen (já eða ängen), Små grodorna og Göngum við í kringum einiberjarunn (eða midsommarstång í þessu tilfelli). Sólin skein og við rákumst bæði á Leó + fjölsk. og Freyju&Elvar + fjölsk. og allir fengu ís. Gat ekki verið betra - og ég sem ætlaði ekki að fást til að fara.... ég sá nú ekki eftir því skal ég ykkur segja, það var rosalega gaman.
Nú erum við komin heim og ég farinn út að leika - að sjálfsögðu enda sól (með skýjaívafi) og ég í fríi í leikskólanum alveg fram á miðvikudag því hún amma mín kemur í heimsókn á sunnudaginn ÓJÁ!

þriðjudagur, júní 20, 2006

Laga- hvað?

Um daginn vorum við mamma á labbinu niðrí bæ og þar sem við gengum frá bóksafninu niður Winstrupsgatan áleiðis niðrí bæ þá benti ég á hús og sagði:
"Mamma! hvað er þetta?"
"Þetta er lagadeildin" svaraði mamma
"Löggudeildin?" hváði ég?
"Nei lagadeildin" endurtók móðir mín
"Og hvar gerir maður þar" vildi ég ólmur vita
"Maður lærir hvað má og hvað má ekki og hverjir eiga að fara í fangelsi" sagði mamma mín í tilraun til að útskýra þetta með tungumáli sem ég væri líklegur til að skilja
"En það gera jú löggur svo þetta er löggudeildin" sagði ég og varð ekki haggað.
Já já það er líka rétt að vera ekkert að gera þessum lögfræðingum neitt hærra undir höfði en ástæða er til :)

mánudagur, júní 19, 2006

Svefnpurrki

Það er ýmist í ökkla eða eyra hérna á þessu heimili. Ég er hættur að rífa mig upp fyrir allar aldir eins og ég var vanur en einungis til þess núna að móður mín þarf að bókstaflega draga mig á lappir kl. 9 á morgnana. Mamma heldur reyndar að þetta sé vegna þess hitans. Ég hamast úti að leika mér allann daginn og sofna uppgefinn á kvöldin með hálfgerðan sólsting. Mamma mín stendur mig stundum að því að vera að fara að dingla hjá fólkinu með köttinn og í gær sagði ég við mömmu "Mamma! af hverju má aldrei kattarfólkið passa mig?".

sunnudagur, júní 18, 2006

Veikindi?

"Mamma, ég er veikur" sagði ég um leið og ég vakti hana í morgun
"Æ æ, þá geturðu ekkert farið út í sólina í dag" sagði mamma (sem grunaði að ég væri að plata)
"Já, ég er ofsalega veikur" sagði ég og hóstaði veiklulega.
"Það var nú leiðinlegt, en þú ert samt ekki heitur" sagði mamma og þreifaði á enninu mínu
"Já en ég er það samt, ég prófaði mælinn í morgun og ég sá að ég var 10 - 9 - 7 veikur" svaraði ég ákveðinn "ég get alls ekki farið í leikskólann í dag"
"En það er enginn leikskóli í dag ástin mín, það er sunnudagur" svaraði mamma þá
[þögn] ---- [síðan, eftir smástund]
"Mamma! ég er batnaður!"

laugardagur, júní 17, 2006

Hæ hó jibbí jei og jibbí jei


Það er kominn 17. júní! Hér í Lundi skín sólin skært þó að eins og þrír rigningardropar hafi að vísu fallið um það bil sem hátíðarhöldin okkar byrjuðu hérna á Kjemmanum. Við fórum nefnilega öll upp í 7-u og fengum vöfflur með rjóma og rabbabarasultu - nammi namm og svo var farið í leiki og svoleiðis. Núna er ég að leika við Leó og Freyju og af umræðunum að dæma erum við að leika mamma, pabbi og börn.
Annars erum við mamma búin að búa til sérstakt niðurtalningarblað þar til að amma Unnur og Árni frændi koma í heimsókn en tilhlökkunin er mikil. Ég krossa samviskusamlega yfir hvern reit eftir því sem dagarnir líða og núna eru bara 8 dagar þar til þau koma. Þá ætlum við sko í ferðalag og skoða hvar mamma mín átti heima í Gautaborg þegar hún var lítil. Ég held það verði skemmtilegt og svo förum við líka í Liseberg sem er stórt tívolí. Ég sagði ömmu minni að við skyldum bara leyfa Árna og mömmu að fara í rússíbanana en ég og hún skyldum bara fara í hringekjurnar " og amma! svo treffumst við bara öll bakeftir" já já sænskan er nú ekki mikið að þvælast fyrir mér.

föstudagur, júní 16, 2006

Klipping

Mjér leiðist frekar mikið að fara í klippingu en ég er þó farinn að meðtaka að þetta sé nauðsynlegt svona endrum og einu sinni (það er með öðrum orðum ekki lengur þörf á að fara með mig heim hálfklipptan eins og kom fyrir í Borgarnesi einu sinni). Í dag var sumsé klippidagur og við mamma fórum niðrí bæ. Þegar ég byrjaði að láta ófriðlega brá mamma mín á gamla múturáðið - ís skyldi keyptur ef ég sæti kyrr. Það virkaði nánast alveg og ég sat svona nokkuð kyrr þar til yfir lauk. Svo röltum við mamma í Leklust og keyptum nýjan hjólahjálm og svo á videoleiguna þar sem ég fékk - nema hvað - Scooby Doo spólu. Meiri dekurrófan sem ég er.
Á morgun er svo enginn venjulegur laugardagur, neihei það er sko 17. júní!! Þá ætlum við að taka okkur saman nokkrar fjölskyldur og baka fjall af vöfflum og hafa leiki og ýmislegt skemmtilegt uppi í 7-u (þar sem mamma átti heima þegar hún var lítil). Vei vei þá verður nú gaman.

fimmtudagur, júní 15, 2006

Sommarfest

Í dag buðum við, börnin á Nicke Nyfiken, foreldrum okkar í sommarfest. Allir settust út í garð í blíðunni og við sungum nokkur lög og svo var öllum boðið upp á ofsalega góða jarðarberjatertu og saft/kaffi. Þetta var alveg rosalega gaman og ég söng öll lögin fullum hálsi. Mér finnst nefnilega svo gaman að syngja. Mamma mín var algjör kjáni og gleymdi myndavélinni svo engar eru myndirnar en hún hefði helst viljað hafa látið sér detta í hug að taka með videovélina því söngurinn var alveg óborganlegur og við svo sæt að mömmu langaði nú bara að éta okkur. Obbossleg rassgöt alveg hreint.
Annars styttist nú alveg hreint svakalega í að amma Unnur og Obbni hrændi (aka Árni frændi) komi í heimsókn til okkar og þegar það gerist eru bara örfáir dagar þar til við komum heim til Íslands í sumarfrí. Jibbí jei þá verður nú gaman að knúsa alla sem ég sakna þar.

þriðjudagur, júní 13, 2006

Sommarland

Í dag var nú lúxsusdagur. Ég fékk að eiga frí á leikskólanum og mamma fór með mig í Tosselilla sem er svona skemmtilegt leikland/vatnsgarður. Þar vorum við allan daginn og sleiktum sólina, busluðum í sundlaugunum og fórum í fullt af tívolítækjum. Mamma mín var soldið grimm við mig og reyndi allt hvað hún gat til að pína mig í vatnsrennibraut þar sem maður renndi sér niður á svona stórum slöngum eða kútum. Ég var nú ekki á því, var að vísu stórkallalegur í fyrstu en hugrekkið fékk skjótan enda þegar á hólminn var komið. Eftir þetta vorum við mamma pínu reið út í hvort annað en svo sættumst við nú fyrir rest og mamma baðst afsökunar á því að hafa verið að pína mig til að gera eitthvað sem ég vildi ekki. Við fundum líka aðra skemmtilega rennibraut sem okkur fannst báðum skemmtileg. Ég hafði á orði við mömmu mína "mamma, þú mátt alveg pína mig að fara í þessa rennibraut!". Svona er maður nú samvinnuþýður.
Mamma mín er nú ekki mikill ljósmyndari en svona var þetta nú fallegur dagur á Skáni í dag.

mánudagur, júní 12, 2006

Dugnaðarforkur

Í gær þurftum við mamma mín að fara niðrí bæ að skila videóspólum. Við rétt misstum af strætó (sem gengur bara á hálftímafresti á sunnudögum) svo við gerðum okkur lítið fyrir og hjóluðum niður í bæ og tilbaka. Mamma er náttúrulega alvön þessu en ég hef aldrei áður hjólað svona langt á mínu hjóli. Ég hjólaði alla leið, án hjálpardekkja að sjálfsögðu, og heim aftur án þess að væla (neitt mikið). Þetta gekk stóráfallalaust fyrir sig. Ég klessti að vísu aðeins á skiltastaur en það var bara af því ég var að dást svo mikið að skugganum mínum. Ég var pínureiður út í staurinn og sparkaði soldið í hann enda var þetta mjög heimskur staur. En ég jafnaði mig fljótt og við komumst heim áfallalaust eftir það. Mamma mín var voðalega stolt af stráknum sínum sem ekki einungis hjólaði sjálfur heldur suðaði ekkert á videoleigunni. Ég get nú verið algjört ljós þegar ég vil vera það sko.
Hérna er ég svo í gærkvöldi, steinsofnaður í sófanum, þrátt fyrir yfirlýsingar þess efnis að vera ekkert þreyttur.

sunnudagur, júní 11, 2006

Gengið hreint til verks

Í dag vorum við mamma komin snemma á fætur og út í sólina sem skein skært. Ég lék mér fram að hádegi. Bæði einn og með Oscari og svo Leó sem gaf mér flottar gjafir sem amma hans hafði komið með handa okkur báðum. Ekkert smá góð. Eftir hádegi var mömmu minni orðið svo heitt að hún ákvað við skyldum skella okkur út á Bygglek. Það er svona tómstundaheimili hérna rétt hjá og þar er þessi fínasta buslulaug sem gott er að kæla sig í í hitanum. Þegar við vorum búin að vera þar í ca. tvo tíma fannst okkur komið gott og við fórum og keyptum okkur smá ís á Fäladstorginu. Áður en við lögðum í hann sagði mamma að við þyrftum að vera fljót því henni væri svo mál á klósettið. Nema hvað við fórum í búðina og keyptum ísinn. Ég vildi vera að hangsa við gosbrunninn á torginu þar sem ég sagðist ómögulega geta hjólað með ís í hendinni. Mamma bað mig að vera soldið fljótan að borða ísinn, hann myndi hvort sem er bráðna fljótt í sólinni og ítrekaði klósettþörf sína. "Mamma!" sagði ég og snéri mér eldsnöggt við "ertu búin að kúka á þig?"

laugardagur, júní 10, 2006

Folkets Park

Í dag fórum ég, mamma og Leó til Malmö og sleiktum sólina í Folkets Park. Það var ekkert smá gaman. Fyrst busluðum við í stóra gosbrunninum/buslulauginni en fengum svo að fara í hringekju og hoppukastala, róluvöll og bíla. Það var ekkert smá gaman. Á leiðinni út úr garðinum fór mamma og keypti ís handa okkur og meðan hún var í röðinni þá fengum við að fara aðeins aftur niður að buslulauginni. Nema hvað þar sem mamma stóð þarna og beið stukkum við skyndilega aftan að henni - gjörsamlega berrassaðir og rennandi blautir - Við höfðum sumsé ákveðið að fá okkur smá sundsprett og máttum ekkert vera að því að bíða eftir mömmu - hvað þá að fá leyfi. (mamma var sko búin að segja að við mættum ekki fara aftur ofaní). Ekki nóg með það heldur þegar hún kom með ísinn þá var nú auðvelt fyrir hana að finna okkur, hún fylgdi bara slóðinni af fötunum okkar en við höfðum bara hent þeim af okkur á leiðinni niður göngustíginn. Já já ansi hressir strákar þar á ferð og ekki vitund spéhræddir.
Á myndinni má sjá okkur í fyrri sundferðinni (þegar við vorum ennþá í fötum).

föstudagur, júní 09, 2006

Þetta fullorðna fólk er svo skrítið

Í gær á leiðinni heim úr leikskólanum tilkynnti ég mömmu að ég vildi fara að spyrja eftir Leó. Mamma mín sagði að það væri í lagi en það gæti verið að hann væri ekki heima þar sem pabbi hans var að fara til Íslands og kannski væri Leó með mömmu sinni að skutla honum niðrá lestarstöð.
"Af hverju fór Reynir (pabbi Leós) til Íslands?" spurði ég þá.
"Því hann er að fara í brúðkaup" svaraði mamma mín
"Hvað er það" hélt ég áfram
"Það er þegar maður giftir sig" útskýrði hún þá.
"Hverjum þá" - forvitni minni var ekki svalað
"Bara einhverjum sem maður elskar" var svarið.
"Vildi hann ekki lengur eiga Katrín?" spurði ég gáttaður.
Ég meina hvað veit maður? - Þetta fullorðna fólk er svo skrítið. :-)

fimmtudagur, júní 08, 2006

Hamsturinn

Sjálfsbjargarviðleitnin er í hámarki þessa dagana. Í gær þar sem mamma mín lá uppi í sófa að lesa kom inn í íbúðina ungur (segjum 24-5) maður. Mamma mín hváði og spurði hann hvort hann væri nokkuð að villast. Nei hann hélt nú ekki, sagðist vera að koma með hamsturinn. Hamsturinn? Mamma mín var eitt spurningamerki og sagðist ekki kannast við neinn hamstur. "Nú?" sagði strákurinn "sonur þinn sagði að þú hefðir leyft honum að fá hamstur, við félagarnir eigum einn og vorum að spá í að losa okkur við hann, þú gætir fengið búrið og allt með honum".
Mamma mín útskýrði að um einhvern misskilning væri að ræða því við værum að fara til Íslands í sumar í 2 mánuði og gætum alls ekki tekið við neinum hamstri. Maðurinn sagðist skilja það ósköp vel og þakkaði pent fyrir sig. Ég var nú ekki sáttur við þessi málalok, síður en svo og fannst nú rétt að reyna að suða í mömmunni minni í ca. 15 mín í viðbót. Án árangurs. En það er sjálfsagt að reyna, ekki satt?

þriðjudagur, júní 06, 2006

Sjálfbjarga

Ekki einungis er ég farinn að geta hjólað hjálpardekkjalaust heldur er ég farinn að verða mér úti um þjónustu hennar Matthildar barnapíunnar minnar alveg upp á eigin spýtur. Þetta er mjög einfalt í rauninni. Ég bara rölti mér yfir göngustíginn og dingla bjöllunni og segi við hana "Matthildur, þú átt að passa mig í kvöld" og ef hún hváir (af því til dæmis að mamma mín hefur ekki minnst orði á það við hana) þá segi ég svellkaldur "Já, af því að mamma mín er að fara í partý / bíó / saumaklúbb". Þetta er nú ekkert svo flókið. Segiði svo að maður sé ekki sjálfbjarga!
Annað sem ég geri líka - sem mamma mín er nýbúin að uppgötva - er að ég banka stundum hjá bláókunnugu fólki sem býr skáhalt á móti okkur í þeim tilgangi einum að fá að klappa kettinum þeirra. Mamma mín hefur oft séð hjólið mitt þarna fyrir utan síðustu daga og haldið að einhver sænskur leikfélagi minn byggi þarna en NEI NEI þarna býr ungur stúdent og kærastan hans og kötturinn þeirra. Mér finnst bara svona tilvalið - fyrst að mamma mín þessi skömm vill ekki gefa mér kött - að banka bara upp á hjá þessu ágæta fólki og fá að knúsa soldið köttinn þeirra.
Mamma mín heldur að ég muni ná langt í lífinu!

laugardagur, júní 03, 2006

Áfangi

Í dag á hún amma mín Unnur afmæli. Í tilefni af því fannst mér kjörið að nota daginn til að byrja að hjóla án hjálpardekkja. Já þið heyrðuð rétt. Enginn þörf fyrir svoleiðis lengur ég er stór strákur!
Innilega til hamingju með daginn amma mín elsku besta. Hlakka ótrúlega til að sjá þig eftir bara 3 stuttar vikur!!
knús og kossar frá ömmustráknum þínum

fimmtudagur, júní 01, 2006

Til hamingju

Hann Matti bróðir minn á afmæli í dag og verður 4 ára.

Innilega til hamingju Matti - nú er ekki langt þangað til við sjáumst :)