Af vörum barnanna....
heyrir maður sannleikann. Hún amma mín fékk nú aldeilis að kenna á því þegar við komum úr ferðinni til Gautaborgar. Þá fórum við mamma aðeins yfir til Leós með forláta sápukúlur sem ég hafði keypt handa honum í Liseberg. Mamma mín var aðeins að segja Katrínu frá ferðinni þegar Reynir fer að skellihlæja og segir "Hvað ertu að segja drengur?" við mig. Mamma mín hváði og spurði Reyni að hverju hann væri að hlæja. Jú ég hafði nefnilega sagt við Leó Erni "Leó! viltu koma heim til mín að skoða ömmu mína? Hún er feit, hún er rosalega feit".
Já þakka þér fyrir ég er nú ekkert að sykurhúða það, ég segi það bara eins og það er!
**-**
Annars var ferðin okkar til Gautaborgar alveg meiriháttar skemmtileg. Mér leiddist nú ekki í Liseberg þrátt fyrir MIKLA MIKLA rigningu sem buldi á okkur allann daginn. Það var ekki þurr blettur á mér þegar við komum heim á hótel um kvöldið en mér var alveg sama. Ég var mest með ömmu Unni í barnatækjunum meðan mamma og Árni frændi (sem ég er nú hættur að kalla Obbna en segi í stað þess, og vanda mig mikið við framburðinn, Árrrrrbni) fóru í stóru stóru rússíbanana. Að lokum fórum við svo út að borða og ég fékk kjötbollur og ís frá þjónustustúlkunni sem ég heillaði upp úr skónum. Hótelið sem við vorum á var í eigu Liseberg þannig að í morgunmatnum daginn eftir hitti ég þessa sætu kanínu (sem er önnur táknfígúra garðsins). Ég var voða hrifinn af henni og klappaði henni, kitlaði og knúsaði í bak og fyrir.
**-**
Í dag voru svo bara fastir liðir eins og venjulega og ég fór í leikskólann. Þegar ég kom heim úr leikskólanum tók mamma mín eftir að bolurinn sem ég var í (sem ég kalla skyrtu af því hann er með kraga) var heldur betur rifinn á öxlinni. Ég setti upp sakleysissvipinn og þóttist ekkert vita hvernig þetta hefði átt sér stað. Mamma mín hefur grun um að um skemmdarverk sé að ræða af minni hálfu enda hef ég lengi haft ímugust á þessari flík og kvarta jafnan hástöfum ef ég er klæddur í hana.
**-**
Í kvöld kom svo Leó til mín í kveðjumat og hann kom með stóran stóran pakka í afmælisgjöf til mín. Það var rosalega flott 'kábboja'dót með alvöru handjárnum, hatti o.fl. og ég er búinn að eyða kvöldinu mestmegnis í að handjárna mig við ýmsa hluti og fólk. Þetta er ákaflega spennandi allt saman.
Á morgun rennur svo upp langþráður dagur og þá förum við mamma (og amma og Árbni frændi auðvitað líka) heim til ÍSLANDS og þar hitti ég pabba minn (sem á einmitt afmæli á morgun) og auðvitað Matta bróður sem bíður spenntur. Afi Hjörtur verður nú líka glaður að sjá mig og amma Gróa og afi Villi sömuleiðis. Já já það er nú bara eins og maður sé að snúa heim úr stríðinu þegar maður kemur í heimsókn frá svona útlöndum.
5 Comments:
ég er búin að reyna kommenta á síðunni þinni en það er barasta ekki hægt! Þið verðið að vera dugleg að blogga frá Borganesi ;o)
Bestu kveðjur af kjammanum þar sem er by the way BONGÓ BLÍÐA!!
-Katrín og co
Þá meina ég síðunni þinni Sigrún!!
-Katrín
Til hamingju með afmælið Egill;o)
Já þetta vorum víst við á kjammanum 3 ;o)
Hæ hæ,
Takk fyrir kveðjuna, eins og við er að búast er ENGIN sól og blíða hérna á the kleik. Vorum að koma í Borgarnes og ætlum að borða 'hátíðardinner' í tilefni dagsins. Sjáumst í sundinu hérna eftir öööörfáa daga!
kveðja
sigrún og egill orri
Skrifa ummæli
<< Home