laugardagur, desember 30, 2006

Hættuástand

Seint á jóladagskvöld fengu foreldrar mínir þá flugu í höfuðið að fara með okkur bræður í Borgarnes til afa og ömmu. Allt í góðu með það og við lögðum af stað úr Hábænum korter yfir seint. Þau héldu auðvitað að við myndum steinsofna á leiðinni, sem Marteinn gerði en ég var glaðvakandi og lét þau óspart vita af því. Þegar við vorum að nálgast Hafnarfjallið fannst mér eitthvað ríkja aðeins mikil þögn í bílnum og spurði mömmu "er pabbi sofnaður?"

Hmm við skulum nú vona ekki.... :D

föstudagur, desember 29, 2006

Nýtt ár alveg að bresta á...

... og mamma mín hefur ekki frá mér sagt í marga daga. Þvílíkur skandall. Það er svosem ekki mikið af mér að frétta heldur. Ég er að nálgast það ansi hratt að vera óalandi og óferjandi eins og við var kannski að búast eftir langverandi fjarveru frá öguðu umhverfi leikskólans. Nú styttist hins vegar í að ég byrji á Regnboganum og fer þar á Grænu deild. Því er ekki að neita að hún móðir mín hlakkar býsna til.
Nú loksins kom dótið okkar til Íslands og ég fékk að fara með mömmu upp á Skaga að sækja það. Þar hitti ég loksins Leó vin minn og þar urðu nú heldur betur fagnaðarfundir. Síðan þá er hann búinn að eignast lítinn bróður sem við ætlum að fara að skoða á morgun. Sá held ég nú að verði lítill og 'vitlaus' (þ.e. að segja bróðirinn, ekki Leó)
Svo komu náttúrulega jólin í allri sinni dýrð og ég "fékk" að opna alla pakkana í Hraunbænum hjá afa og ömmu (ég spurði reyndar ekkert mikið að því ég bara reif þá upp þar sem ég stóð á miðju gólfinu). Mömmu þótti nú reyndar orðið nóg um þegar ekki lengur mátti lesa á pakkana og umbúðapappírinn þyrlaðist svoleiðis í kringum mig að varla sást í mig. Flottasta jólagjöfin í ár var án efa fjórhjólið frá pabba og mömmu. Við Matti fengum það saman og höfum fengið að prófa það bæði í Borgarnesi og úti á kirkjuplani heima í Árbænum. Okkur leiðist þetta nú ekki mikið þessi græja og pössum okkur að vera afskaplega hlýðnir að fara ekki of hratt því þá slökknar á því segir pabbi (já já ef hann notar á það fjarstýringuna sem við vitum ekki að er til).
Annars erum við bræður búnir að vera mikið saman í desember og fyrir mestan part afar góðir. Upp á síðkastið ber þó á einhverri þreytu í sambandinu og við í auknum mæli farnir að kvelja hvorn annan, hrinda og klípa. Voðalega þreytandi finnst mömmu sem finnst húsið okkar aðeins of lítið fyrir eltinga- og hrinduleiki.
En þar sem litlar líkur eru til að meira verði skrifað á síðuna á þessu ári þá óska ég öllum sem þetta lesa hamingju- og gæfuríks árs með þökk fyrir liðið.
Stórt knús - Egill Orri

miðvikudagur, desember 20, 2006

flókin þessi orð

Í gær þegar við Matti vorum að spila tölvuleik þá var hann eitthvað farinn að heimta að komast að og ég, sem var á kafi í leiknum, sagði föðurlega við hann. "Matti reyndu nú bara að vera óþolinmóður, það kemur að þér eftir smástund".
Æi það er stundum erfitt að átta sig á þessum orðum sem fólk er að nota. Hvernig á maður að vita að eitt ómerkilegt 'ó' geti snúið merkingunni við? Maður er nú einu sinni bara fimm ára.

föstudagur, desember 15, 2006

Jólaball og fleira

Jæja þá er ég kominn úr sveitinni og það verður sko mikið brallað um helgina. Í dag fékk ég að fara með Matta bróður heim til hans og þar lékum við okkur allann dag. Bökuðum piparkökur og fleira skemmtilegt. Slettist að vísu aðeins upp á vinskapinn en það gerist nú á bestu bæjum.

Á morgun er svo jólaball í vinnunni hjá pabba mínum og þá koma kannski einhverjir rauðklæddir kallar í heimsókn sem kannski gefa manni eitthvað gott? Þegar við komum heim ætlum við svo að skreyta jólatréð sem búið er að standa úti í kuldanum síðan um síðustu helgi. Það verður gaman og nú er líka alveg rosalega stutt til jóla. Ég er búinn að vera ofsalega þægur og góður og hef fengið í skóinn á hverri nóttu. Í nótt kemur Skyrgámur og ég ætla að setja skyr út í glugga handa honum, þá verður hann svo glaður. Það held ég.

Á sunnudaginn er það svo sunnudagaskólinn og síðan ætlum við að fara í bíó á nýja mynd í "bíóinu hans pabba". Hún heitir Happy Feet og er um nokkrar sætar mörgæsir sem lenda í miklum ævintýrum.

Á mánudaginn fer ég svo í heimsókn á nýja leikskólann og ég hlakka mikið til. Mamma spurði mig að vísu í gær hvort það væri ekki gaman að vera að fara að byrja á leikskóla og þá var svarið afdráttarlaust "nei" (enda búinn að vera í dekri og spillingu hjá öfum og ömmum í viku núna). En í dag þegar netið kom loks í húsið þá vildi ég nú soldið skoða heimasíðuna hans og hafði margar spurningar sem ég þurfti svör við. Kannski kemur svo Leó á sama leikskóla - þá yrði nú gaman hjá okkur.

En hljóma þetta ekki bara eins og nokkuð spennandi dagar framundan?

fimmtudagur, desember 14, 2006

Nýi leikskólinn minn

Ég er búinn að fá pláss á nýjum leikskóla sem heitir Regnboginn www.regnbogi.is og mamma mín og pabbi eru alsæl með þetta. Já það er sko munur að eiga góða að sem hafa veitt ómetanlega hjálp í baráttunni við kerfið hjá henni Reykjavíkurborg. Þarna byrja ég sumsé á mánudaginn og aldrei að vita nema að Leó vinur bætist í hópinn þegar hann flytur í nýja húsið sitt, sem svo vill til að er bara rétt hinum megin við götuna.
Ég hlakka til að hitta alla nýju vinina á mánudaginn og læt örugglega í mér heyra og læt vita hvernig mér líst á þetta.

mánudagur, desember 11, 2006

Heima

Mamma mín heldur nú að ég sé ekki alveg að fatta hvað er yfir mig gengið með þessum flutningum heim. Sjálfum finnst mér þetta prýðisgott, alveg eins og að vera í fríi því ég er í eintómri pössun hjá ömmum mínum og ekkert leikskólapláss í sjónmáli. Núna er ég til dæmis með ömmu Unni og afa Hirti í sveitinni að kíkja í fjósið í Hrepphólum. Ekki leiddist mér það nú þegar mamma talaði við mig í dag. Hneykslaðist að vísu mikið á því að þar væri alltaf skítur og spurði af hverju þeir skúra ekki bara hjá sér þessir bændur. Mömmu minni finnst það óneitanlega mikið framfararskref ef ég er farinn að láta mig það varða hvað ég (já eða annað í minni návist) er skítugur. Ég er nefnilega iðulega eins og haugur og herbergið mitt líka og virðist bara líka það vel.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Síðasti dagurinn...

... í Lundi. Soldið svona skrítið. Ekki að ég hafi fundið mikið fyrir því kannski, þetta var öðrum dögum líkt í sjálfu sér. Ég fékk að vísu að bjóða krökkunum á deildinni minni upp á ís í eftirrétt eftir matinn í dag. Það er víst ekki á hverjum degi. Annars var ég pínuleiður að kveðja alla vinina mína og sérstaklega fóstrurnar þær Anniku og Caizu sem hafa nú reynst mér afskaplega vel.
Við mamma höfum haft það agalega gott hérna og ég tók loforð af mömmu að við myndum nú koma hingað aftur "på besök". Mamma hélt það nú enda mátti vart á milli sjá hvort okkar tók þetta nær sér í dag - mamma var bara hálfskælandi þarna að kveðja alla á leikskólanum.
Á morgun er það svo Ísland sem bíður og það verður að sjálfsögðu líka gaman, nú svo styttist í jólin og ekki leiðist mér það nú litla manninum. Hvað skyldi ég nú fá í skóinn?

Síðasti dagurinn...

... í Lundi. Soldið svona skrítið. Ekki að ég hafi fundið mikið fyrir því kannski, þetta var öðrum dögum líkt í sjálfu sér. Ég fékk að vísu að bjóða krökkunum á deildinni minni upp á ís í eftirrétt eftir matinn í dag. Það er víst ekki á hverjum degi. Annars var ég pínuleiður að kveðja alla vinina mína og sérstaklega fóstrurnar þær Anniku og Caizu sem hafa nú reynst mér afskaplega vel.
Við mamma höfum haft það agalega gott hérna og ég tók loforð af mömmu að við myndum nú koma hingað aftur "på besök". Mamma hélt það nú enda mátti vart á milli sjá hvort okkar tók þetta nær sér í dag - mamma var bara hálfskælandi þarna að kveðja alla á leikskólanum.
Á morgun er það svo Ísland sem bíður og það verður að sjálfsögðu líka gaman, nú svo styttist í jólin og ekki leiðist mér það nú litla manninum. Hvað skyldi ég nú fá í skóinn?

mánudagur, desember 04, 2006

Soldið fyndinn

Pabbi minn er kominn og farinn. Hann kom sko í heimsókn um helgina og það urðu að sjálfsögðu fagnaðarfundir. Mér var að vísu þvælt fullmikið í búðir og annan óþarfa að eigin mati en lét mig nú samt hafa það furðuvel. Ég var pínusvona rellinn og vælinn öðru hvoru og í eitt skipti varaði mamma mín mig við því að ég væri nú á hálum ís og svo gæti farið að ég fengi ekki að fara á MacDonalds eins og lofað hafði verið. Ég vissi nú bara ekkert hvað það þýddi að vera á hálum ís og krafði móður mína útskýringa á þessari vitleysu. Að geta ekki bara talað eins og almennilegt fólk - meira ruglið. Eftir að hafa fengið að vita að þetta þýddi að maður ætti á hættu að koma sér í vandræði þá hætti ég snarlega að væla.
*******
Á laugardaginn fórum við í Nova Lund að kaupa úlpu handa mömmu. Hún var ekki til og því var ákveðið að fara niðrí bæ að athuga hvort hún fengist þar. Ekki vildi betur til en akkúrat þegar við ákváðum að koma okkur af stað í strætó hafði orðið þriggja bíla aftanákeyrsla á Fjelievägen svo að hann var lokaður fyrir allri umferð (þ.á.m. strætóumferð) svo við máttum bíða í 45 mín eftir næsta vagni. Mömmu minni kuldaskræfunni var ekki skemmt og ekki bætti það ástandið að þegar í vagninn var loksins komið þá virkaði ekki strætókortið hennar og hún lenti í smá útistöðum við vagnstjórann. Það var því bálill mamma sem kom aftur í vagn til okkar pabba og þegar ég litli saklausi ég sem hafði ekkert til saka unnið yrti á hana þá fékk ég að vita það að hún væri pirruð og ekki í neinu skapi til að spjalla - af hverju ekki? - því að vagnstjórinn var kjáni og dóni að mati móður minnar. Ég þagði smástund og melti þessar nýfengnu upplýsingar og sagði svo "Mamma! Þessi strætóbílstjóri er á hálfum ís"
Já það mátti sko segja það :D :D :D