mánudagur, desember 04, 2006

Soldið fyndinn

Pabbi minn er kominn og farinn. Hann kom sko í heimsókn um helgina og það urðu að sjálfsögðu fagnaðarfundir. Mér var að vísu þvælt fullmikið í búðir og annan óþarfa að eigin mati en lét mig nú samt hafa það furðuvel. Ég var pínusvona rellinn og vælinn öðru hvoru og í eitt skipti varaði mamma mín mig við því að ég væri nú á hálum ís og svo gæti farið að ég fengi ekki að fara á MacDonalds eins og lofað hafði verið. Ég vissi nú bara ekkert hvað það þýddi að vera á hálum ís og krafði móður mína útskýringa á þessari vitleysu. Að geta ekki bara talað eins og almennilegt fólk - meira ruglið. Eftir að hafa fengið að vita að þetta þýddi að maður ætti á hættu að koma sér í vandræði þá hætti ég snarlega að væla.
*******
Á laugardaginn fórum við í Nova Lund að kaupa úlpu handa mömmu. Hún var ekki til og því var ákveðið að fara niðrí bæ að athuga hvort hún fengist þar. Ekki vildi betur til en akkúrat þegar við ákváðum að koma okkur af stað í strætó hafði orðið þriggja bíla aftanákeyrsla á Fjelievägen svo að hann var lokaður fyrir allri umferð (þ.á.m. strætóumferð) svo við máttum bíða í 45 mín eftir næsta vagni. Mömmu minni kuldaskræfunni var ekki skemmt og ekki bætti það ástandið að þegar í vagninn var loksins komið þá virkaði ekki strætókortið hennar og hún lenti í smá útistöðum við vagnstjórann. Það var því bálill mamma sem kom aftur í vagn til okkar pabba og þegar ég litli saklausi ég sem hafði ekkert til saka unnið yrti á hana þá fékk ég að vita það að hún væri pirruð og ekki í neinu skapi til að spjalla - af hverju ekki? - því að vagnstjórinn var kjáni og dóni að mati móður minnar. Ég þagði smástund og melti þessar nýfengnu upplýsingar og sagði svo "Mamma! Þessi strætóbílstjóri er á hálfum ís"
Já það mátti sko segja það :D :D :D

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home