Avgångsfest
Ekki fannst mömmu minni nú gaman að sækja mig í leikskólann í dag og fá þær fréttir að ég hefði verið að reyna að sparka í hana Marie eina fóstruna mína. Ég var nú heldur lúpulegur þegar Tina fór að segja mömmu frá atvikinu og varð (eins og oft þegar ég er skammaður) öskureiður og svo leiður og grét sáran og iðraðist. Aðallega þó eftir að mamma tók af mér tölvuleikjaforréttindin í heila viku!
Mér finnst eiginlega hálffáránlegt að maður geti ekki tekið lest til Íslands já eða bara labbað. Ég held að mamma mín sé eitthvað að bulla þegar hún segir að þetta sé ekki hægt. Amk ranghvolfdi ég í mér augunum í morgun þegar hún var að reyna að útskýra þetta fyrir mér.
Í gær var mamma mín að setja myndir í albúm. Þetta voru mestmegnis myndir frá sumrinu okkar á Íslandi og meðal annarra myndir frá ættarmótinu sem við fórum á fyrir norðan í júlí. Þar sá ég mynd af leiðinu hans Jóns Emils langafa míns. "Hvað er þetta?" spurði ég þegar myndin var komin á sinn stað í albúminu. "Þetta er mynd af því þar sem hann langalangafi þinn er jarðaður" svaraði mamma. "Já" sagði ég leiður "nú hann er dáinn". Eftir smá hugleiðingu bætti ég svo við leiður á svip "ég sakna hans". [já já einmitt, hann dó sko 1947]