miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Avgångsfest

Nú eigum við mamma ekki eftir að eiga heima lengi í viðbót hérna í Lundi og á föstudaginn þá verður sko kveðjupartý fyrir mig og Leó á leikskólanum. Þemað er, nema hvað?, Batman & Spiderman. Ég og Leó ætlum sko að mæta í búningum í leikskólann. Sem betur fer fann pabbi Batman grímuna sem ég gleymdi heima á Íslandi svo að ég geti nú örugglega skartað öllu "tillbehörinu" á föstudaginn.
En það verður nú líka skrítið að vera ekki lengur á Sagostunden sem hefur reynst mér afskaplega vel og þar hef ég nú brallað margt skemmtilegt með vinum mínum eins og sjá má á þessum myndum.




mánudagur, nóvember 27, 2006

Amma Gróa í heimsókn

....er búin að vera í heimsókn hjá mér núna í 4 daga. Mér leiðist það nú ekki mikið enda fæ ég nú að komast upp með flest hjá henni ömmu minni. Þannig eru ömmur nefnilega.
Í gær var kveikt á öllum jólaljósunum hérna í Lundi og þá fórum við niðrí bæ. Það var tivolí á Mårtenstorginu og þar rákumst við á Leó vin. Mamma fór með okkur í tívolítæki sem voru agalega miklir svona snúningsbollar og við Leó hlógum eins og brjálæðingar en mamma var hálfgræn þegar hún steig upp úr þessu tæki. Hún er greinilega að verða of gömul fyrir svona vitleysu. Svo var ég voðalega duglegur meðan mamma og amma röltu um búðirnar svo ég fékk smá verðlaun frá mömmu í Jättekul. Flott draugaspil sem verður nú mikið spilað enda er ég bókstaflega spilasjúkur. Það var nú samt fegin strákur sem fór á leikskólann í morgun og hitti alla vinina sína.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

"Bibbi" á Brávallagötunni

Stundum notar mamma mín fyndin orð þegar hún er að tala við mig. Svona orðatiltæki og málvenjur sem ég kann ekki alveg að fara með. Til dæmis segir hún stundum að það sé ekki flóarfriður fyrir mér eða að ég sofi eins og steinn. Nú ég held áfram uppteknum hætti og skríð upp í til hennar á nóttinni og þó mömmu minni finnist ósköp notalegt að kúra hjá mér þá fær hún sannast sagna ekkert of mikinn svefn þegar ég er hjá henni. Ég brölti nefnilega svo ofboðslega mikið á nóttunni. Er bókstaflega á ferð og flugi í rúminu.
Í morgun þegar við mamma vöknuðum þá sagði ég "mamma, var ég ekki ofsalega duglegur að sofa þínu rúmi?" Mamma var ekki alveg viss hvað ég átt við og hváði því "Jú sko, ég var ekkert að brölta. Svaf bara alveg eins og stungin grís"

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Skammarkrókurinn

Ekki fannst mömmu minni nú gaman að sækja mig í leikskólann í dag og fá þær fréttir að ég hefði verið að reyna að sparka í hana Marie eina fóstruna mína. Ég var nú heldur lúpulegur þegar Tina fór að segja mömmu frá atvikinu og varð (eins og oft þegar ég er skammaður) öskureiður og svo leiður og grét sáran og iðraðist. Aðallega þó eftir að mamma tók af mér tölvuleikjaforréttindin í heila viku!

Annars komu skólamyndirnar úr framköllun í dag. Þær eru svakalega fínar, alveg eins og í fyrra og ég er skælbrosandi á þeim. Kannski að einhverjir fái sýnishorn þegar við komum heim.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Kúri litli

Enn á ný erum við mamma byrjuð á sofa-í-mínu-eigin-rúmi-þjálfuninni. Mér finnst það bara ekkert skemmtilegt. Fyrir utan þjófa, drauga og ýmis önnur konar illmenni sem virðast venja komu sína að glugganum mínum á nóttunni og gera mér lífið leitt þá er svo einmanalegt í herberginu mínu.
Í nótt þegar ég kom skríðandi upp í spurði mamma mín af hverju ég vildi frekar sofa í hennar rúmi "af því" hálfmalaði ég og skreið undir sængina hennar "þá fær maður að hitta mömmuna sína"
Æ æ æ hún mamma mín er ginkeypt fyrir svona gullhömrum.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Afmæli

Í dag á besta stelpan mín afmæli. Hún Maj-Britt. Ég er sko búinn að þekkja hana MajBritt frá því að ég var pínulítið fóstur og hef búið með henni í lengri tíma af mínu stutta lífi. Hún MajBritt mín er góð og falleg og ég er voða skotinn í henni. Hún hefur oft passað mig og finnur alltaf upp skemmtileg gæluyrði á mig. Einu sinni þegar MajBritt og ég vorum að spjalla um lífið og tilveruna kom upp sú staðreynd að -á þeim tímapunkti- ætti MajBritt engan mann. Mér sárnaði soldið og svaraði um hæl "en ég er maður".
Innilegar hamingjuóskir með daginn elsku MajBritt mín - hlakka til að sjá þig um jólin.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Að þegja yfir leyndarmáli

Þá er ég kominn aftur til Svíþjóðar eftir skemmtilega Íslandsferð. Matti bróðir var hjá pabba um helgina og það voru sko miklir fagnaðarfundir hjá okkur bræðrum. Ekki leiddist mér heldur að sjá afa mína og ömmur, frændur og frænkur og meira að segja langamma kom og samfagnaði mömmu minni í brunchinum á sunnudaginn.
Mamma mín ákvað að nota ferðina til að flytja allar jólagjafirnar heim. Meðal þeirra voru auðvitað jólagjöfin mín sem að þessu sinni var skemmtilegt spil sem ég spila oft á leikskólanum. Þar sem við erum stödd á lestarstöðinni í Köben að kveðja hana Siggu Dóru þá var mamma að troða einhverju í töskuna og ekki vildi betur til að ég kom auga á spilið góða. "Hver á þetta krákuspil" spurði ég og var allur ólmur að rífa það upp. Oooh mamma klaufi! Hún reyndi hvað hún gat að eyða umtalinu og segja mér að hafa nú ekki áhyggjur af því. En í heila fjóra daga var ég ennþá að spyrja og lofa að ég myndi ekki 'segja neinum'. Já einmitt, alveg eins og ég lofaði að blaðra ekki í Leó um innihald afmælispakkans. Sagði svo um leið og ég rétti honum hann "Leó, þetta er Batman-bakpoki"
Way to keep a secret!

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

að sigla út til Íslands

Mér finnst eiginlega hálffáránlegt að maður geti ekki tekið lest til Íslands já eða bara labbað. Ég held að mamma mín sé eitthvað að bulla þegar hún segir að þetta sé ekki hægt. Amk ranghvolfdi ég í mér augunum í morgun þegar hún var að reyna að útskýra þetta fyrir mér.

En þrátt fyrir að neyðast til að fara í flugvél þá er ég sumsé farinn til Íslands og kem aftur á þriðjudaginn. Þangað til ...

góðar stundir

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Klipping

ég tók út þá ægilegu 'refsingu' að fara í klippingu í gær. Mamma mín ákvað í bríaríi þegar á hárgreiðslustofuna var komið að láta bara raka strákinn sinn. Þannig að nú lít ég nokkurn veginn út eins og ljóshært kíví.... en samt sætur. Alltaf sætur!

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Pælingar

Í gær var mamma mín að setja myndir í albúm. Þetta voru mestmegnis myndir frá sumrinu okkar á Íslandi og meðal annarra myndir frá ættarmótinu sem við fórum á fyrir norðan í júlí. Þar sá ég mynd af leiðinu hans Jóns Emils langafa míns. "Hvað er þetta?" spurði ég þegar myndin var komin á sinn stað í albúminu. "Þetta er mynd af því þar sem hann langalangafi þinn er jarðaður" svaraði mamma. "Já" sagði ég leiður "nú hann er dáinn". Eftir smá hugleiðingu bætti ég svo við leiður á svip "ég sakna hans". [já já einmitt, hann dó sko 1947]

**********
Í gær svaf Leó vinur hérna hjá mér og það var mikið brall á okkur félögunum. Þegar kom að því að sækja dýnuna niður í kjallara vildi ég ólmur koma með. "Nei nei" sagði mamma "þú bíður bara hérna hjá Katrínu og Leó á meðan. Það er svo dimmt og kalt úti". "oooooh en mamma" sagði ég svekktur "en mig langar svo að fara út í myrkrið eins og Batman"

föstudagur, nóvember 03, 2006

Sorry og svekktur

Ég á það til að vera mjög óþolinmóður, sérstaklega þegar eitthvað sem ég er að reyna að gera vill ekki láta að stjórn (HVAÐAN skyldi ég hafa þetta?). Í kvöld var ég í tölvunni og mamma mín að læra frammi í stofu. Skyndilega heyrist hróp og grátur og ég kom fram ofboðslega sár og sorry. "Mamma! ég reyni og reyni en tölvan leyfir mér ALDREI að vinna neinn leik" Mamma mín reyndi að útskýra að maður verður stundum að æfa sig mjög lengi til að vera góður í tölvuleikjum. Ég hélt nú að ég hefði þegar gert það en þar sem ég væri ekki búinn að fá að fara í tölvuna í heila tvo daga þá væri ég "aftur orðinn lélegastur og Leó orðinn bestur". Já ég lét hana mömmu mína nú bara heyra það. Hún vildi nefnilega ekki hjálpa mér og "allir vita jú að þegar maður á 5 ára gamalt barn á maður alltaf að hjálpa stráknum sínum ... eða stelpunni sinni".

miðvikudagur, nóvember 01, 2006

Sannfæring

Ég er frekar sannfærður um eigið ágæti. Þetta er að sjálfsögðu gott, betra en að vera alltaf í hnút með sjálfan sig. Þetta kemur samt fram í frekar fyndnum staðhæfingum öðru hvoru. Til dæmis í gær þegar ég fékk sendan pakka af einhverju dótinu sem mamma mín hafði þakkað já við í símann. Þegar pakkinn var kominn, hafði verið klipptur upp og ég virti fyrir mér dýrðina þá spurði ég "hvaðan kom þessi pakki?"
"ég keypti þetta fyrir þig" svaraði mamma þá
"Af hverju? af því ég er besti strákurinn þinn og geri alltaf allt sem þú biður mig um?" þetta var að mínu mati fremur augljós staðreynd.
eeeehhh riiiiiiiight!