þriðjudagur, október 31, 2006

Fótboltapælingar

Ég verð nú seint sakaður um að vera mikil hópsál og er sjaldan mikið til í að vera að taka þátt í neinu þar sem mikill fjöldi fólks er samankominn. Þess vegna fannst mér oft betra að sitja bara á hliðarlínunni þegar var verið að spila hópíþróttir eins og fótbolta í íþróttaskólanum mínum í fyrrahaust. En það gerðist þó í gær þegar við mamma sátum við matarborðið að ég segi allt í einu upp úr þurru
"Mamma! þegar ég verð stór ætla ég að spila fótbolta"
"Er það?" sagði mamma frekar hissa ef satt best skal segja
"Já, það er ógisslega gaman í fótbolta, ég er svo mikið fyrir hann"
"Já þú segir nokkuð, þá er kannski bara betra að byrja að æfa strax þegar við komum heim til Íslands"
"Já, pabbi minn er fyrir fótbolta líka"
"já, kannski getið þið þá spilað saman fótbolta"
"Svo er líka gaman að horfa á fótbolta í sjónvarpinu"
"finnst þér það?" sagði mamma þá "og hverjir eru bestir?"
"Uniteds þegar ég er hjá þér - en Liverpool þegar ég er hjá pabba - maður getur vel haldið með tveimur liðum mamma, er það ekki?"
Mamma mín heldur að ég verði jafnvel stjórnmálamaður þegar ég verð stór!

mánudagur, október 30, 2006

Tölvuleysi

Þó ég hafi nú fengið að gera ýmislegt skemmtilegt um helgina þá voru tölvuleikir ekki eitt af því. Ég náði mér í 'straff' í þeim efnum með því að kalla móður mína hálfv*** á föstudaginn. Ekki veit kellingin hvar ég lærði þetta orð en hún var nú ekki par sátt að ég væri að taka mér það í munn. Þannig að tölvuforréttindin voru snarlega af mér tekinn þrátt fyrir að ég hafi með miklum grát og auðmýkt reynt að biðjast afsökunar. Henni varð ekki haggað.
Þrátt fyrir þetta fékk ég nú að fara í sögu- og leikstund á bókasafninu á N-Fäladen á laugardagsmorguninn. Það var ógurlega gaman og ég heyrði sögur, leikrit, fór í leikrit og föndraði frá kl. 10 til kl. að verða eitt. Eftir það fékk ég meira að segja að fara á MacDonald's - þannig að það er spurning hvort 'lexían' með tölvubannið hafi náð fram að ganga. Nú svo lék ég náttúrulega við Leó vin bæði laugardag og sunnudag. Á laugardaginn lékum við okkur inni í herbergi hjá Leó í næstum því 7 klukkutíma!! Já það verður nú heldur betur tómlegt hjá mér þegar hann Leó flytur heim til Íslands í byrjun desember.
Í gær fór mamma svo með okkur Leó í bíó að sjá mynd sem heitir á sænsku "Vilddjuren". Þar sem við sátum á MacDonald's á laugardaginn og lásum bíóauglýsingarnar þá heyrist í mér
"mamma, hvað heitir þessi mynd á Íslandi?"
"Ég bara veit það ekki ástin mín"
"geturðu ekki spurt mömmu þína og pabba?"
"Þau myndu nú alveg örugglega ekki vita það kallinn minn"
"Nei, bara pabbi minn veit það. Því hann á bíó. Við eigum ekkert bíó svo við getum ekki vitað það"
já já hann pabbi minn er sko stórkall í bíóbransanum heima greinilega, skyldi Árni Sam. vita af þessu?

fimmtudagur, október 26, 2006

Málningarvinna

Ég er ólmur í þetta málningarsett sem hann Leó vinur fékk sent frá frændsystkinum sínum fyrir skömmu. Í gær fór ég heim með Leó úr leikskólanum því mamma var að sprikla í leikfimi. Mamma hans Leó málaði okkur eins og beinagrindur og ég var ógurlega ánægður með mig. Tók ekki í mál að bleyta á mér andlitið í kvöldbaðinu og grét ógurlega yfir því að málningin hefði augljóslega klínst í koddann minn yfir nóttina. Ætlaði varla að fást til að leyfa mömmu að þrífa restarnar af mér og fannst "glatað maður" (sem er frasi sem sagður er með áhersluþunga oft á dag þessa dagana) að fara ómálaður í leikskólann.

þriðjudagur, október 24, 2006

Nornin og ljónið

Leó fékk rosaflott svona andlitsmálningarsett í afmælisgjöf. Mamma mín var nú soldið hissa þegar Nornin og Ljónið mættu heim til okkar í dag. Við nánari athugun kom í ljós að þetta voru bara ég og hún Freyja María vinkona okkar Leós. Okkur fannst nú frekar fyndið að hún mamma gamla skyldi 'ekki þekkja okkur'.

Soldið svona alvörugefin fyrst
Orðin aðeins líkari "sjálfum" okkur

mánudagur, október 23, 2006

Mamma mín löt að skrifa

Voðalega hefur hún mamma mín verið lítið dugleg að skrifa um mig upp á síðkastið. Það er sko allt gott að frétta af mér. Ég er agalega ánægður að vera kominn aftur í leikskólann minn og ekki síst að vera búinn að fá hann Leó vin aftur frá Íslandi. Mamma mín hreinlega býður ekki í hvernig þetta verður þegar hann flytur til Íslands í byrjun desember. En ég fer nú heim í jólafrí ekki miklu seinna sem betur fer. Á hverjum degi eftir leikskóla leikum við okkur saman og Leó er undantekningarlítið í Batman búningnum sínum og ég þá gjarnan í Spiderman. Það sem er svo yndislegt að mati mæðra okkar er að við trúum því mjög innilega að aðrir haldi að við séum ofurhetjurnar holdi klæddar.
********
Á laugardaginn fórum við í kirkjuskólann og svo niðrí bæ á kaffihús. Þar sem við sátum og gæddum okkur á grilluðum ostasamlokum spurði ég skyndilega alvörugefinn "mamma, er til fullt af fólki í Suður-Afríku sem á enga peninga til að kaupa sér hús og verður bara að byggja sér hús istället?" Mamma mín veit ekki alveg hvaðan ég fékk þessa flugu í höfuðið eða öllu heldur af hverju ég fór allt í einu að hugsa um þetta. En svaraði mér að sannleikurinn væri sá að líklega væru töluvert margir þar sem ekki gætu keypt hús en þeir gætu jafnvel ekki heldur byggt sér hús því það kostaði líka peninga að kaupa spýtur, nagla og allt það sem þyrfti í húsbyggingar. "En geta þeir ekki bara notað mold, sand, greinar og laufblöð" spurði ég þá. Stundum veit mamma mín ekki alveg hvað gengur á í þessum dásamlega haus á mér. En einhvern tíma á ég eftir að láta heldur betur til mín taka í þessum heimi, hún er alveg viss um það.

fimmtudagur, október 19, 2006

Nýyrðasmíði

Mamma mín virðist kominn á byrjunarreit í að venja mig af þeim (ó)sið að skríða alltaf upp í til hennar á nóttunnni. Í gærkvöldi þegar ég var búinn að vera sofandi í ca. 2 klukkutíma kom ég fram, hálfringlaður og rangeygur spurði mamma mín hvort hún ætti að koma að breiða yfir mig. "En mamma, ég var breiddur yfir!"

laugardagur, október 14, 2006

Einföld lausn

Í dag fórum við mamma á Stadsbiblioteket niðrí bæ. Þar sátum við góða stund og höfðum það mysigt, lásum fullt af bókum, fengum nokkrar lánaðar og spilum og drifum okkur svo að kaupa hið langþráða laugardagsnammi. Fyrir utan bókasafnið stóð ung stúlka sem safnaði peningum fyrir fátæk og sveltandi börn í þriðja heiminum. Mamma gaf mér peninga til að setja í baukinn hjá henni og svo héldum við áfram leiðinni. Þegar við vorum komin aðeins áleiðis sagði ég "Mamma, af hverju var hún að safna peningum í svona bauk?" "af því að hún er að safna þeim fyrir fátæk börn sem eiga engan mat og engan pabba og enga mömmu"
Ég melti þetta í örfáar sekúndur og sagði svo "JÁ! svo þau geti keypt sér pabba og mömmu"

fimmtudagur, október 12, 2006

Hann frændi minn



Ég á lítinn frænda sem heitir Hjörtur Snær. Honum finnst ég vera alveg obbosslega flottur og vill gera allt eins og ég. Þegar við vorum í Frakklandi um daginn með ömmu og afa þá elti hann mig út um allt. Ef ég fékk eitthvað að borða vildi hann alveg eins, ef ég fór í kollhnís þá vildi hann gera það líka. Mér fannst þetta soldið sniðugt.

þriðjudagur, október 10, 2006

Langt frá mömmu minni

Þessa vikuna er ég heima á Íslandi. Langt í burtu frá mömmunni minni. Henni finnst það óneitanlega dálítið skrítið að vera hérna í Lundi án þess að fara að sækja mig á leikskólann. En hún veit nú samt að ég hef það óskaplega gott hjá honum pabba. Um helgina var líka Marteinn bróðir minn í Reykjavík sem var náttúrulega bara risabónus. Við fórum til ömmu Gróu og létum spilla okkur og dekra og svo fórum við í bíó og ég veit ekki hvað.
Á föstudaginn kem ég svo aftur til mömmu minnar og þá held ég nú að það verði líka fagnaðarfundir hjá okkur Leó besta vini sem er orðinn soldið langeygður eftir smá félagsskap. En þangað til verður lítið við að vera hérna á blogginu mínu.