Ég verð nú seint sakaður um að vera mikil hópsál og er sjaldan mikið til í að vera að taka þátt í neinu þar sem mikill fjöldi fólks er samankominn. Þess vegna fannst mér oft betra að sitja bara á hliðarlínunni þegar var verið að spila hópíþróttir eins og fótbolta í íþróttaskólanum mínum í fyrrahaust. En það gerðist þó í gær þegar við mamma sátum við matarborðið að ég segi allt í einu upp úr þurru
"Mamma! þegar ég verð stór ætla ég að spila fótbolta"
"Er það?" sagði mamma frekar hissa ef satt best skal segja
"Já, það er ógisslega gaman í fótbolta, ég er svo mikið fyrir hann"
"Já þú segir nokkuð, þá er kannski bara betra að byrja að æfa strax þegar við komum heim til Íslands"
"Já, pabbi minn er fyrir fótbolta líka"
"já, kannski getið þið þá spilað saman fótbolta"
"Svo er líka gaman að horfa á fótbolta í sjónvarpinu"
"finnst þér það?" sagði mamma þá "og hverjir eru bestir?"
"Uniteds þegar ég er hjá þér - en Liverpool þegar ég er hjá pabba - maður getur vel haldið með tveimur liðum mamma, er það ekki?"
Mamma mín heldur að ég verði jafnvel stjórnmálamaður þegar ég verð stór!