mánudagur, október 23, 2006

Mamma mín löt að skrifa

Voðalega hefur hún mamma mín verið lítið dugleg að skrifa um mig upp á síðkastið. Það er sko allt gott að frétta af mér. Ég er agalega ánægður að vera kominn aftur í leikskólann minn og ekki síst að vera búinn að fá hann Leó vin aftur frá Íslandi. Mamma mín hreinlega býður ekki í hvernig þetta verður þegar hann flytur til Íslands í byrjun desember. En ég fer nú heim í jólafrí ekki miklu seinna sem betur fer. Á hverjum degi eftir leikskóla leikum við okkur saman og Leó er undantekningarlítið í Batman búningnum sínum og ég þá gjarnan í Spiderman. Það sem er svo yndislegt að mati mæðra okkar er að við trúum því mjög innilega að aðrir haldi að við séum ofurhetjurnar holdi klæddar.
********
Á laugardaginn fórum við í kirkjuskólann og svo niðrí bæ á kaffihús. Þar sem við sátum og gæddum okkur á grilluðum ostasamlokum spurði ég skyndilega alvörugefinn "mamma, er til fullt af fólki í Suður-Afríku sem á enga peninga til að kaupa sér hús og verður bara að byggja sér hús istället?" Mamma mín veit ekki alveg hvaðan ég fékk þessa flugu í höfuðið eða öllu heldur af hverju ég fór allt í einu að hugsa um þetta. En svaraði mér að sannleikurinn væri sá að líklega væru töluvert margir þar sem ekki gætu keypt hús en þeir gætu jafnvel ekki heldur byggt sér hús því það kostaði líka peninga að kaupa spýtur, nagla og allt það sem þyrfti í húsbyggingar. "En geta þeir ekki bara notað mold, sand, greinar og laufblöð" spurði ég þá. Stundum veit mamma mín ekki alveg hvað gengur á í þessum dásamlega haus á mér. En einhvern tíma á ég eftir að láta heldur betur til mín taka í þessum heimi, hún er alveg viss um það.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home