þriðjudagur, apríl 05, 2005

Snjór snjór snjór

Það er allt hvítt hérna á Bifröst í dag. Eiginlega meira en það, það er bara allt á kafi í snjó móður minni til mikillar gremju.
Annars er allt gott að frétta. Ég fór til pabba míns um helgina og skemmti mér konunglega eins og venjulega. Hitti Martein bróður minn og við fórum í sund og gerðum ýmislegt annað skemmtilegt. Í gær var ég svo bara á leikskólanum og lék mér við vini mína. Aumingja Fannar Óli vinur minn sem lofað hafði verið að mætti koma heim að leika við mig var orðin veikur svo ekkert varð af því. Ég fékk að fara með mömmu í ræktina í staðinn, stóð mig gríðarlega vel í lyftingunum og greinilegt að ég verð kraftakarl. Svo fórum við mamma í sund á eftir. Rosalega næs og kósí eins og ég segi svo oft.
Annars átti ég frekar fyndið komment við matarborðið í gær. Mamma mín var að ganga frá eftir matinn og var meðal annars að reyna að koma plastloki á litla skál með salati í. Eitthvað gekk það illa og á endanum gafst hún upp og setti skálina bara í plastpoka. Mér var nú nokkuð misboðið við þetta vesen og hvessti mig við skálina og sagði "þetta gengur ekki skál, þetta bara gengur alls ekki" mamma og Maj-Britt hlógu ferlega mikið að mér.
Í morgun örkuðum við svo í gegnum snjó og byl hérna á Bifröst úti í skóla áður en við fórum í leikskólann. Ég suðaði út djús og kex uppi á kaffistofu áður en lengra var haldið. Eftir eitt djúsglas vildi ég annað og mamma mín sagði að það væri útrætt mál að ég fengi ekki nema þetta eina þá andvarpaði ég "skrýtin þessi kona". Það er skemmst frá því að segja að ég fékk annað djúsglas.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home