laugardagur, apríl 23, 2005

Long time no see

Voðalega hefur hún mamma mín verið eitthvað löt að skrifa upp á síðkastið. Svo mikið að gera hjá henni greinilega. Það hefur nú ýmislegt á daga mína drifið síðan síðast skal ég segja ykkur. Helgina 15-17 apríl var ég hjá pabba mínum sem var rosalega gaman eins og venjulega. Matti bróðir var samt með hlaupabóluna svo að það setti smá strik í reikninginn en við létum það ekki á okkur fá. Ég lofaði líka mömmu minni að ég yrði mjög góður við hann sem ég var.

Á mánudaginn (18. apríl) fékk ég að bjóða Guðrúnu Elfu vinkonu minni með mér í sund í Borgarnesi með mér og mömmu. Það var yndislegt veður og við fórum í útilaugina og í rennibrautirnar. Þegar kominn var tími til að fara upp úr þá vildi ég nú ekki fara svo mamma mín 'hótaði' að fara upp úr á undan mér þá kom þessi setning 'ertu snarbrjáluð kona'?

Á miðvikudaginn var svo listasýning á leikskólanum mínum og mér þótti nú heldur en ekki gaman að pabba minn lagði leið sína á Bifröst þennan dag til að koma og sjá hvað ég hafði verið að föndra og lita á leikskólanum. Hann vakti nú eiginlega frekar mikla athygli meðal vina minna sem sögðu hver á fætur öðrum 'Egill, ég hef ALDREI séð pabba þinn'. (mamma mín er nú ekki alveg viss um að honum hafi liðið vel með alla þessa athygli). Ég sýndi pabba allar myndirnar mínar og svo fékk ég að fara með honum til Reykjavíkur því mamma mín þurfti að vinna á sumardaginn fyrsta. Á leiðinni í bæinn komum við að vegaframkvæmdum sem eru í gangi frá Munaðarnesi og niður að Baulu. Pabbi ætlaði að útskýra á einfaldan hátt hvað væri í gangi og sagði mér að þarna væri búið að taka veginn í sundur. Mér fannst hann nú ekki alveg vera með á nótunum og útskýrði fyrir honum hið rétta í málinu 'Pabbi! það er ekkert búið að taka hann í sundur, þetta er bara bráðabirgðavegur'. Það varð að vísu ekki mikið úr dvölinni hjá pabba mínum þar sem hann fékk flensuna en ég fékk að lúlla hjá ömmu Gróu og fannst það nú örugglega ekki mjög leiðinlegt. Fékk að fara út að labba með afa Villa og svo fór ég að sjá kókbílinn og hoppukastala og sitthvað fleira í Hraunbænum. Að kvöldi dagsins skutlaði pabbi mér svo upp á Kjalarnes þar sem afi Hjörtur og amma Unnur voru og tóku við mér. Á leiðinni í Borgarnes með þeim fékk ég svo að tala við mömmuna mína sem var hálfslöpp heima (meira heilsuleysið á þessum foreldrum mínum). Ég fór aðeins yfir stöðuna fyrir mömmu mína og endaði svo á að segja 'mundu svo að fara ekki út mamma mín' mamma var ekki alveg viss af hverju hún átti að muna það og spurði mig því af hverju ekki 'ertu ekki lasinn?' var svarið.
Nú er komin helgi og ég er með þá svæsnustu streptókokkasýkingu sem mamma mín hefur séð, það er beinlínis eins og eitthvað sé að vaxa út úr hálsinum á mér, svo bólgnir eru eitlarnir mínir. Ég fór í Læknalindina með mömmu þar sem mjög svo fúll læknir tók á móti mér og skrifaði upp á sýklalyf fyrir mig. Nú ligg ég rotaður inni í rúmi eftir að hafa tekið fyrsta skammtinn, ekki þó án þess að segja fyrst við mömmu mína 'mamma, ég elska þig svo mikið að mig verkjar í hjartanu mínu'.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home