þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sól og sumar

Sumarið er komið á Bifröst. Það er allavegna hægt að segja það með sæmilega góðri samvisku. Ég er búinn að vera ofboðslega duglegur að leika mér úti, bæði einn og með Jóhönnu Katrínu vinkonu minni. Í dag ætlar svo Fannar Óli vinur minn að koma með mér heim eftir leikskóla að leika meira.

Annars eru bara nokkrir dagar eftir þar til ég og mamma flytjum af Bifröst. Það verður nú soldið skrítið, ég er búinn að búa hérna síðan ég man eftir mér og hef aldrei búið í 'stórborginni' Reykjavík. En það verður samt örugglega gaman. Þá verð ég nær pabba og Matta bróður og get hitt þá mun oftar sem er mjög gott. Ég er nú einu sinni að flytja af landi brott eftir nokkra mánuði.

Í gær fór ég með mömmu í leikfimi (ég hef tekið upp á því að vera samviska hennar í þessum málum og hvet hana óspart til að mæta - sem er gott) ég fékk að fara í Manchester United búningnum mínum og nýju Adidas three stripe skónum mínum. Í búningsklefanum byrjuðum við mamma að tala um hverjir væru bestir og vorum að sjálfsögðu sammála um að það væri Man. Utd. Þá sagði ég "Mamma! það eru bara kjánar sem halda með Liverpool, þeir eru bara bjakk" Mamma mín samþykkti það og ég hélt áfram "hverja þekkjum við eiginlega fleiri kjána en pabba sem heldur með Liverpool? Ég verð bara að hringja í hann og segja SKAMM pabbi, Liverpool er ullabjakk" Segið svo að uppeldið sé ekki að skila sér hjá henni móður minni.
Þegar ég kom svo niður í lyftingasalinn þá var Siggi Ragg sem vinnur með mömmu minni þar og hann fór að spyrja mig hverjir væru bestir "Nætids" sagði ég stoltur og benti á bolinn minn. Þá spurði hann mig hver væri bestur í liðinu, þetta þarfnaðist töluverðrar umhugsunar af minni hálfu en svo kom svarið "Pabbi minn"
Samtal sem átti sér stað síðdegis
Egill Orri: Mamma má ég fara með Gísla Má í sund?
Mamma: Nei ekki núna, ég skal fara með þig í sund á eftir.
Egill Orri: En mamma ég vil fara með Gísla Má.
Mamma: Af hverju þarftu að fara með honum?
Egill Orri: Hann er aðalmaðurinn!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home