mánudagur, janúar 26, 2009

Hvatning

Í morgun kom ég upp í rúm til mömmu og knúsaði hana svolítið og vildi fá hana framúr. Hún vildi kúra aðeins lengur og bar við þreytu sökum kúlustærðarinnar.

Ég hvíslaði þá inn um naflann á mömmu "Litla mín, komdu nú út á morgun, mamma er orðin svo þreytt"

fimmtudagur, janúar 22, 2009

Ömmu & afadagur

Á morgun, föstudag, er ömmu & afadagur í Ártúnsskóla. Þá eru sko amma manns og afi velkomin í skólann að kynnast því sem þar fer fram. Þiggja veitingar og gera eitthvað skemmtilegt. Ég bjó til falleg boðskort sem ég sendi báðum settunum af öfum & ömmum. Þau vöktu held ég lukku, amk virðast allir ætla að mæta og ég er frekar spenntur að sýna þeim allt sem ég er að bralla á daginn.
Annars er ég þvílíkt yndi þessa dagana. Alveg hreint ofsalega geðgóður og þægur og já bara dásamlegur í alla staði. Ég hlakka alveg ofboðslega til að fá litlu systur í heiminn og klappa og strýk bumbunni á mömmu. Ég er samt ekki alveg að fatta þetta concept með settan dag. Ég virðist ekki alveg fatta að afmælisdagurinn manns er dagurinn sem maður fæðist, óháð því hver settur dagur er. Þannig að þegar mamma sagði að það væri ekki endilega víst að litla systir kæmi 1.febrúar (sem er rækilega merktur á dagatalinu sem hinn stóri dagur) þá sagði ég "fæðist hún þá ekki á afmælisdaginn sinn?"
Æi þetta er nú pínu flókið.

sunnudagur, janúar 18, 2009

Jólin 2008




fimmtudagur, janúar 15, 2009

Hvernig komst barnið í bumbuna?

Ég er mikið búinn að vera að velta þessu fyrir mér síðustu daga og vikur. Loks sá mamma sæng sína útbreidda og útskýrði það nokkurn veginn fyrir mér með hjálp bókarinnar "svona varð ég til" sem við fengum á bókasafninu.,
Bókin var ágæt með hæfilega lítilli áherslu á "the actual deed" og ég var miklu nær. Ég velti þessu þó nokkuð fyrir mér og spurði svo "og GERÐUÐ þið þetta?"
Undarlega mikið á sig lagt fyrir eina litla systur fannst mér :)

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Kreppan

Mér er eitthvað tíðrætt um kreppuna þessa dagana og hana ber oft á góma. Mamma spurði mig í kvöld hverju þetta sætti, hvort við værum að ræða þetta mikið í skólanum.
Egill Orri: "Nei nei, mér finnst bara gaman að læra um hana" - "ég er svo mikill vísindamaður, ég get leyst kreppuna"
.... svo liðu nokkrar sekúndur áður en ég sagði "nei bara djók"
Þar fór nú í verr og miður!

sunnudagur, janúar 11, 2009

Mamma Mia

Ég kom út úr herberginu mínu í gær syngjandi hástöfum þetta lag nema textinn var í mínum meðförum orðinn "Mamma Mia, þú ert best í heimi! Mæ mæ bestust bestust bestust" svo knúsaði ég mömmu mína fast og kyssti á kúluna og sagði "elska þig þarna litla" við systur mína.
Að svo búnu labbaði ég aftur inn í herbergi og hélt áfram að leika mér.
Mömmu minni finnst ég stundum ómótstæðilegur sjarmör!

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Gleðilegt ár

Hæ og hó,

Gleðilegt ár allir saman. Mamma hefur verið einstaklega löt við skriftir frá því vel fyrir jól (eins og sjá má) en nú fer hún nú bara bráðum í fæðingarorlof og þá kannski hefur hún meiri tíma :)

Hún lofar amk myndum frá jólum og áramótum hingað inn bráðlega.