mánudagur, desember 24, 2007
sunnudagur, desember 23, 2007
Ryksugan á fullu...
Í morgun voru okkur bræðrunum settir afarkostir tveir
1. hjálpa til við tiltektina
2. fara út að leika okkur
Marteinn var fljótur að velja sér seinni kostinn en ég þóttist vilja hjálpa til við þrifin. Mamma sagði mér að ég mætti ryksuga herbergið okkar. Ég gekk vasklega til verks og tók samviskusamlega upp alla legokubba og smádót sem á vegi mínum varð skv. tilmælum frá móður minni.
Eftir augnablik kom ég fram í eldhús með þær upplýsingar að 'ryksjúgan' hefði næstum því étið stóran appelsínubörk.
Áfram héldu stórræðin. Næst kom ég fram og var mikið niðri fyrir. "Mamma, ég var að ná einum sokk úr ryksjúgunni og hún var bara næstum búin að éta á mér hendina!!".
.... (hristi hausinn og dró djúpt andann) "Þetta geri ég aldrei aftur".
Já greinilegt að ófétis ryksjúgan varð mér næstum að bana :)
fimmtudagur, desember 20, 2007
Hó hó hó
Á mánudaginn fóru mamma & pabbi (og reyndar amma&afi líka) í skólann minn að sjá leikþáttinn sem við vorum búin að æfa af kappi. Það hafði átt að vera á föstudaginn síðasta en þá var bara svo brjálað veður að eiginlega engin börn mættu í skólann!
Mamma tók allt upp á video en hérna fyrir neðan má sjá 'jors trúlí'
þriðjudagur, desember 18, 2007
Pottaskefill gefur í skóinn
Á laugardaginn var Hjörtur Snær frændi minn í pössun hjá okkur. Hann fékk að gista og setti þarf af leiðandi auðvitað skóinn út í glugga eins og við bræðurnir. Pottaskefill gaf okkur bræðrum svo flotta bíla í skóinn en Hirti Snæ forláta King Kong górillu. Ég kem fram með stírurnar í augunum og bið mömmu að hjálpa mér að opna górilluna mína??! Mamma varð nú hálfhissa á þessu þar sem hún þóttist vita að Hjörtur Snær hafi fengið górilluna en ekki ég. Og nú voru góð ráð dýr, hvernig átti mamma nú að snúa sig út úr þessu. Hún vissi náttúrulega ekkert hvað Pottaskefill hafði gefið... eða hvað? Hún ákvað samt að reyna að fá mig til að játa glæpinn.
Mamma: "Egill Orri, ertu viss um að þú hafir fengið King Kong í skóinn?"
Egill Orri: (án þess að blikna) "já hann var í skónum mínum"
Mamma: "Mamma heldur að hann hafi verið handa Hirti Snæ"
Egill Orri: (og nú fór samviskubitið að gera vart við sig) "neeeeei nei hann var í mínum skó"
Mamma: (tók strákinn sinn í fangið, strauk vangann og sagði) "ertu aaaalveg viss, mamma kíkti í skóinn í nótt og sá górilluna í skónum hans Hjartar. Ég held að Pottaskefill hafi viljað að þú fengir bílana af því að hann veit að þér finnst svo gaman í bíló"
*** þegar hér var komið brotnaði 'glæpamaðurinn' niður og játaði brotið greiðlega, með grátstafinn í kverkunum þó***
Egill Orri: "En mig langaði bara svo mikið að eiga apann, hann er svo flottur og ég á engan svona apa. Fyrirgefðu mamma. (brast í grát)"
Æi æi æi mömmu minni fannst þetta nú pínkusætt og ef maður er Pollýanna þá ber þetta bara vott um sjálfsbjargarviðleitni. En hún var samt voða stolt af mér að hafa skilað gripnum í réttar hendur.
fimmtudagur, desember 13, 2007
Misheppnað uppeldi
Í gær vorum við mamma að skrifa jólakortin og ég var mjög duglegur að hjálpa henni að setja frímerkin á umslögin. Mamma skrifaði svo utan á þau. Þegar hún tók umslag sem ekki var neitt frímerki komið á hrópaði ég upp yfir mig
"Sjáðu mamma, það er engin Domino's pizza á þessu umslagi!"
Móður minni fannst henni þarna alveg hafa mistekist þjóðlegt uppeldi mitt.
mánudagur, desember 03, 2007
útstáelsi alltaf hreint á þessu fullorðna fólki
Um daginn fékk ég að sofa hjá ömmu langömmu eins og ég kalla hana iðulega. Hún amma langamma heitir sko Sigrún alveg eins og hún mamma mín (sem er enda skírð í höfuðið á henni) og er alveg frábær kelling. Ótrúlega hress og flott kona af 77 ára að vera. Hún og afi Halldór búa á Selfossi og þar var foreldrum mínum boðið að gista. Þannig að ég ég fékk að vera hjá ömmu á meðan. Þegar líða tók að háttatíma var ég nú eitthvað lítill í mér og vildi fara að hringja í mömmu mína. En amma tók það ekki í mál
Amma langamma: veistu það Egill Orri að hún mamma þín er að skemmta sér og hún má það bara alveg. Við skulum bara leyfa henni að vera í friði"
Egill Orri: En hún er ALLTAF að skemmta sér!
sunnudagur, desember 02, 2007
Jóla jóla...
Í gær fórum við í föndur í skólanum mínum. Við Matti fengum að skreyta piparkökur og búa til flotta jólamús. Svo fengum við líka að skreyta flott jólakerti. Mamma hafði hins vegar gerst mjög metnaðargjörn og keypt pakka af skrauti sem innihélt hvorki fleiri né færri en 12 lítil "jólabörn". Fyrr en varði var nú eiginlega bara öll fjölskyldan komin á kaf í þetta skraut og skemmti sér bara býsna vel.
Nokkrar myndir frá deginum...