þriðjudagur, desember 18, 2007

Pottaskefill gefur í skóinn


Á laugardaginn var Hjörtur Snær frændi minn í pössun hjá okkur. Hann fékk að gista og setti þarf af leiðandi auðvitað skóinn út í glugga eins og við bræðurnir. Pottaskefill gaf okkur bræðrum svo flotta bíla í skóinn en Hirti Snæ forláta King Kong górillu. Ég kem fram með stírurnar í augunum og bið mömmu að hjálpa mér að opna górilluna mína??! Mamma varð nú hálfhissa á þessu þar sem hún þóttist vita að Hjörtur Snær hafi fengið górilluna en ekki ég. Og nú voru góð ráð dýr, hvernig átti mamma nú að snúa sig út úr þessu. Hún vissi náttúrulega ekkert hvað Pottaskefill hafði gefið... eða hvað? Hún ákvað samt að reyna að fá mig til að játa glæpinn.


Mamma: "Egill Orri, ertu viss um að þú hafir fengið King Kong í skóinn?"

Egill Orri: (án þess að blikna) "já hann var í skónum mínum"

Mamma: "Mamma heldur að hann hafi verið handa Hirti Snæ"

Egill Orri: (og nú fór samviskubitið að gera vart við sig) "neeeeei nei hann var í mínum skó"

Mamma: (tók strákinn sinn í fangið, strauk vangann og sagði) "ertu aaaalveg viss, mamma kíkti í skóinn í nótt og sá górilluna í skónum hans Hjartar. Ég held að Pottaskefill hafi viljað að þú fengir bílana af því að hann veit að þér finnst svo gaman í bíló"

*** þegar hér var komið brotnaði 'glæpamaðurinn' niður og játaði brotið greiðlega, með grátstafinn í kverkunum þó***

Egill Orri: "En mig langaði bara svo mikið að eiga apann, hann er svo flottur og ég á engan svona apa. Fyrirgefðu mamma. (brast í grát)"


Æi æi æi mömmu minni fannst þetta nú pínkusætt og ef maður er Pollýanna þá ber þetta bara vott um sjálfsbjargarviðleitni. En hún var samt voða stolt af mér að hafa skilað gripnum í réttar hendur.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home