fimmtudagur, júní 21, 2007

dramadrottning

Ég er nú ekkert ef ekki smá dramadrottning. Á alveg ofsalega auðvelt með að skrúfa frá táraflóðinu þegar það hentar mér. Til dæmis í kvöld þegar mamma mín ætlaði að baða mig. Þá fór ég á undan inn á bað og ekki vildi betur til en svo að ég rann aðeins til og rak handlegginn á mér í baðið. Eftir það var ekki viðlit að koma mér í baðið þar sem ég stóð - með sundgleraugu á hausnum því ég ætlaði EKKI að fá sápu í augun - og öskraði eins og móðursjúk hæna.
Mamma mín gat nú eiginlega ekki annað en hlegið að mér ég var svo aulalegur eitthvað.

mánudagur, júní 18, 2007

Afmæli


Við bræðurnir náum því í ca. 2 vikur í viðbót að vera báðir 5 ára. Við létum þetta þó ekki aftra okkur frá því að halda dýrindisafmælisveislu á laugardaginn. Þar var öllum boðið upp á pizzur & gómsæta nammihlaðna súkkulaðiköku áður en allir fengu popp & kók og horfðu á Shrek 3. Afmælið tókst mjög vel og allir skemmtu sér vel, bæði börn og foreldrar.
***********
Metingur!
Við bræðurnir erum að ná nýjum hæðum í metingi að mati foreldra okkar. Á laugardagsmorguninn vöknuðum við ofursnemma af tilhlökkun yfir afmælunum okkar og byrjuðum á því að skríða upp í til foreldra okkar. Eftirfarandi samtal átti sér þá stað:
Marteinn: Egill, ég er hjá pabba
Egill Orri: Já en ég er hjá mömmu
Marteinn: En það er miklu betra að vera hjá pabba
Egill Orri: Ne-hei það er miklu betra að vera hjá mömmu
Marteinn: En það er svo hlýtt hérna hjá pabba
Egill Orri: Ég er nú bara alveg að kafna hérna hjá mömmu
Marteinn: Já en ég er nú bara næstum því að drepast hérna hjá pabba!
Já það er ekkert svo ómerkilegt að það taki því ekki að metast um það.

mánudagur, júní 11, 2007

Nokkrir molar

Á föstudaginn var mamma mín að sækja mig í leikskólann og tók eftir því að ég var með hræðilega skítugar hendur. Þegar mamma spurði mig hvað ég hefði eiginlega verið að gera var ég alveg viss
"ég var að jarða kartöflur"
***********
Við fórum norður um helgina litla fjölskyldan. Sóttum Matta bróður og fórum á Mývatn á laugardeginum. Við bræður höfðum um margt að spjalla og meðal annars kom til umræðu hvert við hefðum ferðast (enda um óvenjuferðavana drengi að ræða) og eins og venjulega var stutt í metinginn....
Egill Orri: ég hef farið til Bandaríkjanna og til Boston
Matti: ég hef farið til Afríku, það er alveg satt
Egill Orri: en þeir eru rosalega fátækir í Afríku. Þeir eiga bara einn pening og ef þeir selja hann þá eiga þeir enga penginga
***********
Á laugardaginn á svo að halda upp á afmælin okkar og í boði verða pizzur fyrir gestina. Mamma spurði okkur hvað við vildum á pizzurnar og ég svaraði að ég vildi skinku, ananas og ost
Marteinn vildi pepperoni og ananas. Þá vildi ég auðvitað líka pepperoni en mamma minnti mig þá á að mér fyndist pepperoni ekkert gott.
Matti: Já Egill, þér finnst ekki pepperoni gott
Egill Orri: Júúúúhú mér finnst það víst gott [2 sek. seinna eftir mjög stutta umhugsun] Hvað er pepperoni?

miðvikudagur, júní 06, 2007

Þingvallaferð

Á mánudaginn fór ég í útskriftarferð með leikskólanum. Förinni var heitið á Þingvelli, í grenjandi rigningu, og þar skoðuðum við m.a. Öxarárfoss, Almannagjá og Peningagjá þar sem allir fengu 10 kr. pening til að henda í gjánna og óska sér. Maður má ekki segja hvað maður óskar sér því þá rætist óskin ekki, útskýrði ég íbygginn fyrir mömmunni minni. Endað var í sumarbústað í Grímsnesinu þar sem við lékum okkur úti og grilluðum pylsur og fengum svala. Ferðin var mjög skemmtileg og Gunna deildarstjóri sagði að við hefðum öll verið til fyrirmyndar hvað varðar hegðun.
Nema hvað, í gær var mamma mín niðri í þvottahúsi að ganga frá þvotti og þvo meira. Ég var uppi og pabbi minn var eitthvað að stússast. Þegar mamma kemur upp finnur hún mig inni á baði með fullt baðkar af vatni, auk þess hafði ég náð mér í krukku sem pabbi geymir smápeninga í og var að búa mig undir að henda þeim í baðkarið. Þegar mamma mín spurði mig hvað ég væri að gera var svarið einfalt "Mér datt bara aðeins í hug að við gætum notað þetta fyrir svona peningagjá, þú veist til að óska okkur" - ég hef fengið margar verri hugmyndir að mati móður minnar.

mánudagur, júní 04, 2007

Syngjandi hér - syngjandi þar

.... syngjandi geng ég alls staðar! Ég er voðalegur söngfugl og finnst fátt skemmtilegra en að láta mömmu mína syngja fyrir mig á kvöldin. Þá gríp ég stundum til þess ráðs (eins og í kvöld) að 'þykjast' vera óskaplega hræddur við allt & alla (skemmst er að minnast þess þegar ég sagðist eftir miklar rökræður vera svo hræddur við sjálfan mig).
Uppáhaldslögin mín þessa dagana eru "Bíddu pabbi, bíddu mín" með Vilhjálmi Vilhjálms og "Betri tíð" með Stuðmönnum, ég syng þá með af einlægri innlifun og er meira að segja búinn að læra frasann 'uxahryggjarsúpa-nei-sveppahalasúpa-nei uxahryggjarhalanegrablómkálssveppasúpa sett á borðið'.
Geri aðrir betur!

laugardagur, júní 02, 2007

Leó í heimsókn

Í dag ætlar Leó besti vinur að gista hjá mér og við fengum að fara í Húsdýragarðinn og fara í fullt af tækjum og fá grillaðar pulsur og marga marga ísa. Svo komum við heim og fengum að fara í playstationleiki og fá laugardagsnammi og allt. Þvílíkt dásemdarlíf á tveimur piltum. Það er nú vart hægt að fara fram á meira.
Annar er ég ótrúlega sprækur þessa dagana og er farinn að tala mikið um það að byrja í skóla. Búinn að fara í nokkrar heimsóknir þangað og finnst þetta allt alveg ofsalega spennandi. Fékk þvílíka lofrullu í foreldraviðtalinu í leikskólanum að pabbi minn var eiginlega farinn að efast um að hún Gunna deildarstjóri væri að tala um rétt barn. Hún sagði að það væri hrein unun að hafa mig á deildinni, ég væri hvers manns hugljúfi og svo gáfaður & greindur að ég ætti nú heldur betur eftir að gera það gott í skólanum. Mamma & pabbi voru auðvitað ofsalega stolt af eiga svona duglegan strák en vildu samt óska þess að ég sýndi meira af þessum töktum heima fyrir þar sem ég er oftar en ekki eins og geðvondur unglingur!!
Í gær átti Matti bróðir minn afmæli & á morgun á amma Unnur afmæli. Ammsa of afi koma í heimsókn á morgun í tilefni dagsins og þá ætla ég nú aldeilis að knúsa hana ömmu mína bestu bestu.
Önnur afmælisbörn í mánuðnum eru Halldór frændi minn (19.6), Inga frænka (26.6) og pabbi minn (29.6).